Power Rangers

Í rauninni ætti það ekki að vera erfitt að búa til eitthvað heimskulega töff og fjörugt úr eins bjánalegu vörumerki og Power Rangers. Auðvelt er svosem að skilja aðdragandann hjá yngri krökkum, en fyrir flesta með aktífan púls yfir 9 ára aldur er þetta – og hefur í áraraðir verið – einstaklega hallærislegt fyrirbæri. Varla getur maður búist við öðru þegar þú hefur hræódýrt framleiðslugildi, lítinn metnað og styðst við „archive“-efni frá japönsku þáttunum Super Sentai frá áttunda áratugnum.

En með þessa grunnhugmynd, þessa búninga, endalausa möguleika um föndur við hópadýnamíkina, svo eitthvað sé nefnt, er alveg hægt að stuða brjálaðri orku í þetta með rétta handritið og sérstaklega réttan leikstjóra við stjórnvölinn. Lykilatriðið er hins vegar að betra er að leyfa sér að taka á móti kjánaleikanum með opnum örmum í stað þess að rembast við það að taka alvarlegu leiðina. Þú ert alveg búinn að skjóta þig í fótinn ef þú gerir mynd um unglinga með ofurkrafta – sem slást við geimverur og stýra risavöxnum risaeðlu-róbotum – og það gleymist að gera myndina skemmtilega!

Sumt gerir þessi mynd rétt. Krakkarnir standa sig prýðilega og eiga sannfærandi og býsna gott samspil. En myndin hrynur í sundur vegna þess að tónninn er kolvitlaus, framvindan er hlægilega viðburðarlítil (ég á raunverulega bágt með því að trúa að einhverjir krakkar eigi ekki eftir að steinsofna úr leiðindum…) og svo loksins þegar eitthvað fjör fer af stað og blessaða liðið er komið í búningana er svo lítill tími eftir af lengdinni að það er eiginlega orðið of seint að bjarga þessu. Á marga vegu er þetta eins og það sem plagaði Fantastic Four myndina frá 2015, nema þessi hefur aðeins meiri áhuga á persónum sínum.

Það virðist heldur ekki vera sérlega mikill áhugi fyrir húmor, nema fáeinum one-linerum hér og þar. Það fyndnasta og furðulegasta í kjölfar alvarleikans er einstaklega þvingað plögg fyrir Krispy Kreame troðið inn, því, grínlaust, kleinuhringjastaðurinn gegnir mjög stóru hlutverki í söguþræðinum. Þegar hasarinn kikkar líka inn á lokametrunum – seinustu tíu mínútunum nánar til tekið – breytir ræman líka um stíl og ákveður allt í einu að breytast formlega í mega-ýktu og kjánalegu ofurhetjumyndina sem hún á að vera, en það passar bara ekki við afganginn sem byggði upp allt fram að því. Meira að segja gamla þemalagið virðist ekkert eiga heima í þessum tón þegar allt í einu er ákveðið að henda því inn… af því bara.

Það er smá „camp“ faktor í myndinni, í formi illmennis með aulalega nafnið Rita Repulsa. Elizabeth Banks lifir sig reyndar skemmtilega inn í hlutverkið en fær óskaplega lítið til að gera eða vinna með og í hvert sinn sem hún dúkkar upp er eins og hún komi úr allt annarri bíómynd. Viðvera Bryans Cranston bragðbætir reyndar hlutina talsvert og setur aðeins meiri klassa í þetta, þó það gæti hafa verið stór mistök að gefa hans karakter einhverja örk.

Bill Hader sér svo um að börnunum leiðist ekki of mikið með hressilega skrípalegum Alpha Five. Hann er eiginlega full teiknimyndalegur og enn eitt dæmið um hvernig mismunandi tónum myndarinnar fer ekki saman. Leikstjóri myndarinnar virðist hafa miklu meiri áhuga á því að viðhalda „jarðbundnari“ tón og karakterdrifinni stefnu frekar en að pæla í sjónarspili eða yfirdrifna dótinu sem aldrei er hægt að komast hjá í mynd byggðri á þessu vörumerki.

Aftur, krakkarnir eru frekar góðir, og ég kann vel við það að myndin vilji eyða sínum tíma til þess að kynna alla vel og kafa aðeins út í líf, ströggl og persónuleika þeirra. Hún hefði hins vegar alveg getað einbeitt sér að slíku með framvindu sem færi ekki 100% eftir origin-formúlunni margnotuðu.

Það er eins og útkoman skammist sín fyrir að vera Power Rangers-mynd (og þrælfínu búningarnir njóta sín lítið sem ekkert þegar hjálmarnir eru nánast alltaf opnir). Svosem skiljanlegt, en hún ætti þá að leyfa sér að nota hugmyndaflugið betur. Hún spilast í staðinn út eins og langur pilot-þáttur um krakka sem ræða meira um líf og krafta sína frekar en að sýna okkur þá. Það er ekki eðlilegt heldur hvað miðjuhlutinn í þessari mynd er teygður.

Næstum því má segja að hafi verið meira afþreyingargildi í ’95 bíómyndinni. Hún var vissulega rusl en það allavega gerðist eitthvað í henni!

Besta senan:
Gengið bondar við varðeld. Einfalt, en einlægt.

Sammála/ósammála?