Despicable Me 3

Best er að taka það fram strax í byrjun að viðbjóðslega háar líkur eru á því að bæði markhópur þessarar myndar og allir sem hafa áður elskað þær fyrri verða líklegast ekki fyrir miklum vonbrigðum með nýja eintakið.

Að því sögðu, þá er þriðja Despicable Me myndin klárlega sú sísta í röðinni (Minions er þar meðtalin), en þó ekkert langt á eftir hinum heldur, enda engin þeirra í líkingu við það vera einhver perla. Það var eitthvað samt svo þægilega einfalt við þær en sú þriðja spilast út eins og langur sitcom-þáttur; troðin upp fyrir haus af tvístruðum, misstefnulausum plottþráðum.

Sem algjör sápukúluafþreying gengur hún alveg upp en ef gæði eru til umræðu er myndin frekar flöt og óvenjulega ofhlaðin í senn, eins og hún sé að kasta öllu út sem hún mögulega getur til að reyna að halda seríunni gangandi – þó „heildarsagan“ sem slík hafði í rauninni ekkert marga staði til þess að fara á eftir mynd númer tvö.

A-söguþráðurinn segir frá kynnum fyrrum skúrksins Gru við nýfundinn tvíburabróður sinn, Dru. Hittingurinn er vingjarnlegur en mennirnir díla við ólíka metnaði; Gru hefur sagt skilið við vondu hlið sína í þágu fjölskyldunnar, þó mikill prakkari leynist enn í honum sem berst við það að halda blíðu hlið sinni ríkjandi. Dru er hins vegar ákaflega góðhjartaður og ljúfur en þráir ekkert meira en að gerast óþokki. Erfið tilvera.

B-söguþráðurinn fókusar á Balthazar Bratt, sprellfjörugt 80s-dýrkandi varmenni; gæddur epískum axlapúðum, píanógítar, með sítt að aftan og mottu í takt, Bratt er fyrrum barnastjarna sem tók fréttunum illa þegar þættinum hans var aflýst, svo hann hefur tileinkað sér afgang ævi sinnar með því að lifa óþokkalífinu sem fígúra sín gerði. Stóra planið hjá þessum dúdda er ekki flóknara en að hefna sín á Hollywood (nei, bókstaflega – með því að eyða því frá yfirborði jarðar) fyrir að kremja drauma sína. Trey Parker úr South Park talsetur Balthazar af mikilli dásemd og gæðir þessum karakter auka persónuleika sem íslenska þýðingin kemst ekki alveg í tæru við. Illmennin í Despicable Me-seríunni hafa flest verið nokkuð hugmyndarík og skemmtilega hönnuð, og Bratt nær að skáka sjálfan El Macho úr sessi sem sá eftirminnilegasti til þessa.

En… vandinn er að síðan koma hinir söguþræðirnir. C-söguþráðurinn snýst t.d. um Skósveinanna að… tja… „skósveinast“ á fullu (hver metur við sig hvort það sé frábær hlutur eða þreytandi), í fangelsi þar að auki. D plottið fjallar svo um Lucy að finna sig í stjúpmæðrahlutverkinu, E plottið fókusar á leit yngstu stúlkunnar Agnes að alvöru einhyrningi, F þráðurinn fer létt út í elstu systrina að díla við austur-evrópskan, ágengan „ostadreng“ (??)… Mest af þessu er eins og ein, akfeit uppfylling og tapast þar af leiðandi kjarnaþráðurinn og hvaða hjartastrengi hann reynir að púlla í.

Persónurnar eru enn flestar kætandi á einhvern hátt; Gru, Lucy og stúlkurnar eru huggulegt og flippað fjölskyldukombó, skósveinarnir gera það sem þeir gera best (sem eru lítt góðar fréttir fyrir fólk sem er orðið þreytt á þeim) og illmennið er barasta snilld. Dru er hins vegar meira pirrandi heldur en heillandi, þó örk bræðrana eigi sér viðeigandi og lúmskt fullnægjandi endastöð.

Despicable Me 3 mun ekki enda á neinum topplistum yfir frambærilegar teiknimyndir ársins (og ef valið stæði á milli t.d. þessarar og Cars 3, veljið þá bílana). Samt er myndin bara svo aulalega fjörug og í þokkabót nógu hröð til þess að teiknistíllinn, hæper-ýkti skrípafílingurinn og ærslagangurinn komi skítsæmilega út – en í upprunalegu talsetningunni á Parker mjög stóran þátt í þessu líka. Án Balthazars og persónuleika hans hefði þessi mynd trúlega lamast við fæðingu.

Einkunnin slefar í gjafmilda sexu.

Mjög gjafmilda.

Besta senan:
Upphafsránið. Sami kafli og heill tíser sýndi frá.
Bögg.

Sammála/ósammála?