Disappearance

Það getur oft verið erfitt að vera ungur, vitlaus og ástfanginn, sérstaklega innan samfélagsreglna í Íran, eins og þau Sara og Hamed fá að kynnast. Disappearance gerist á örlagaríkri nóttu þar sem þau flakka milli sjúkrahúsa í Teheran í von um að fá aðstoð eftir óhapp sem hvorugt þeirra þorir mikið að hafa hátt um. Nóttin framundan verður þó löng og sér parið að afleiðingar kæruleysis þeirra munu hafa hafa gríðarleg áhrif á framtíð þeirra beggja.

Disappearance er ekki það fyrsta sem neinn ætti að leita til í leit að skemmtun eða afþreyingu. Myndin endurtekur sig, sérstaklega í því hvernig parið flakkar á milli eins­leitra spítala og upplifir svipuð vonbrigði aftur og aftur. En það er meira eða minna tilgangurinn. Þau eru föst í slæmri hringekju sem kemur frá erfiðum aðstæðum og kröfum samfélagsins sem eru á góðri leið með að drepa ástina, eða í það minnsta draga úr hvatvísi hennar. Leikstýran Ali Asgari einblínir á rýrnun sakleysisins með hægum en grípandi hætti. Við kynnumst aðalpersónunum ekkert gríðarlega en myndin snýst meira um ástand þeirra heldur en tengsl. Fjarlægðin sem myndast hjá þeim með hverri senu er sömuleiðis í einu burðarhlutverkinu og áhorfandinn finnur stöðugt fyrir henni.

Asgari vinnur óaðfinnanlega með leikurum sínum og kreistir út trúverðugan leik frá skjáparinu og rífur pent í hjartaræturnar með litlu augnablikunum í sögunni. Myndin er stutt, brött og hefði ekki mátt vera svo mikið sem senu lengri, en raunsæið sker sig úr og hljóðlátur en firnasterkur endir innsiglar skilaboðin vel og tryggir litla perlu sem er þess virði að ræða.

 

 

Besta senan:
Seinasta stoppið.

Sammála/ósammála?