Miracle

Miracle gerist í litlum bæ í Litháen í kringum upphaf tíunda áratugarins. Bærinn var áður undir kommúnistastjórn og ríkir mikil eymd meðal íbúa. Aðalpersóna myndarinnar, Irena (frábærlega leikin af Eglé Mikul­ionyté), er sjálf á barmi gjaldþrots og er eigandi svínabús sem ekki ber sig. Lífið virðist vera á hraðri leið niður á við þegar skyndilega mætir auðugur, amerískur herramaður (Vyto Ruginis) í bæinn og lætur ekki lítið fyrir sér fara.

Ameríkaninn vill kaupa svínabúið, finna nýjan flöt á rekstrinum og hefur kannski eða kannski ekki lausnina á öllum vandamálum Irenu. Er draumurinn þá að rætast eða er eitthvert smátt letur sem enn hefur ekki komið í ljós? Og er nokkuð hægt að velta sér upp úr smáu letri þegar möguleikarnir eru takmarkaðir fyrir?

Sagan fjallar með ferskum hætti um tengingu okkar við fortíðina, heimaslóðir, erfiðleikana við að horfa fram á við og hvernig lítið, hrörnandi bæjarsamfélag tekur umsvifalaust nýjan lit þegar áhrif og peningamáttur Kanans kemur og umbreytir öllu á örlagastundu. Í leikstjórasætinu sér Egle Vertelyte til þess að enginn rammi fari til spillis og heldur líflegum takti með óútreiknanlegri framvindu sem aldrei missir flugið eða yfirsýn yfir farsann eða þemun. Stíllinn minnir heilmikið á verk eftir Aki Kaurismaki en andrúmsloftið er léttgeggjað og skemmtilega þurr húmor yfirgnæfir smábæjarsöguna sem hefur ýmislegt að segja. Kaldhæðni leikur einnig mjög stórt hlutverk.

Myndin er beinskeytt og skemmtileg, lágstemmd, fyndin á köflum, ýkt í uppsetningu og framvindu en jarðbundin og trúverðug í persónusamskiptunum. Gott í þessu.

 

 

Besta senan:
Breytingar-montage’ið talaði allan sannleika.

Sammála/ósammála?