Soldiers: Story from Ferentari

Mannfræðingurinn Adi flytur í fátækasta hverfi Búkarest til að skrifa um manele-tónlist eftir að kærasta hans yfirgefur hann. Í hverfinu kynnist hann fyrrverandi fanga, Alberto, og eftir að óvænt tengsl myndast þeirra á milli eru mennirnir komnir í ástarsamband, og sambúð seinna meir. Adi er sannfærður um að þetta verði bara fínasta tilbreyting en Alberto er óskaplega krefjandi, ókurteis og ósjálfstæður einstaklingur. Adi gæti hafa gert stór mistök og finnur fyrir því á ný hvað ástin er erfið, og enn erfiðari þegar ómögulegt er að hafa nokkurn hemil á elskhuganum.

Soldiers er í fyrsta lagi ljúfsár og mynd, full af hreinskilni, þar sem gallalaus frammistaða aðalleikaranna mótar mjög náttúrulegt andrúmsloft, jafnvel þótt persónurnar séu ekkert sérstaklega eftirminnilegar (Adi þá aðallega). Áhorfandinn gerist fluga á vegg og tengir sig við stefnu sambandsins hjá mönnunum. Ef tengslin hefðu ekki gengið upp væri myndin fljót að gliðna í sundur, en trúverðugleikinn heldur öllu saman. Alberto er athyglisverður á sinn hátt á meðan Adi er töluvert flatari, en hann er líka hljóðlátari týpan sem lætur margt yfir sig ganga.

Myndin veitir örlitla innsýn í tónlistarsenu Rómafólks (sem er tengt sérstaklega við manele-poppið) en hefur litlu við að bæta í þeim málum nema fyrir þá sem þekkja menn­ingar­heiminn betur fyrir. Myndin á það til að dragast á langinn með skotum af bæjarsamfélaginu og löngum tökum sem koma á tíðum út eins og myndin sé að leggjast í einhvern dvala. Á tæknilegu stigi er lítið til að hrópa húrra fyrir en Soldiers flæðir pollrólega með sannfæringarkraftinn að vopni. Fínasta mynd yfir heildina sem hefði þó getað orðið frábær ef svona tuttugu mínútur hefðu verið klipptar af heildarlengdinni.

 


Létt sjöa

Besta senan:
Matarboðið.

Sammála/ósammála?