Star Wars: Episode VIII – The Last Jedi

Star Wars vörumerkið hefur svo sannarlega átt sínar gæðasveiflur og er fátt sem reitir hin almenna aðdáanda jafn fljótt til reiðis og útkoma sem brýtur hefðir. En þá kemur upp spurningin hvort að viðkomandi unnandi vilji helst halda hlutunum óbreyttum og endalaust í takt við hið klassíska eða sjá þetta sjá þetta víkkað út á allt annað og e.t.v. nútímalegra level.

Þegar allt kemur til alls er Star Wars á góðum degi eitt mest pjúra dæmi skemmtiform bíósins og möguleika þess; þessi gullna sameining veraldarbyggingar, óperatíska tóna, viðtengjanlegra persóna og klassískra ströggla milli góðs og ills, pakkað inn með jákvæðum gildum. Stundum er farið öruggu leiðina með efnið en stöku sinnum er prófað eitthvað öðruvísi. George Lucas var alltaf með hjartað á réttum stað en masteraði aldrei handritsskrifin nægilega til að úfæra forsöguþríleiknum með stæl, þrátt fyrir haug af nýjungum.

Eftir að Disney lagði undir sig merkið reyndu aðstandendur fullhart með The Force Awakens að endurvinna gamlar formúlur og halda öllu innan þægindarammans, þó ýmislegt hafi virkað. Ekki ósvipað kom fyrir hina sjálfstæðu og hlandvolgu Rogue One, sem var nýjungagjörn í grunninn en hallaði sér fullmikið að hinu kunnuglega. Þá kemur áttundi kaflinn, The Last Jedi, og með honum fylgir meira svigrúm til þess að bjóða upp á fleiri nýjar hugmyndir, plánetur, hannanir og jafnvel taka sénsa með mýþólógíuna og ögra hugmyndafræðinni. Episode VIII brýtur nánast allar reglur Star Wars mynda á marga vegu, býr til sínar eigin, en sýnir heiminum mikla virðingu og umhyggju auk þess að fikta óspart við hann.

Leikstjórinn Rian Johnson tekur hér við keflinu af J.J. Abrams. Báðir tveir eru miklir bíónördar, en gerólíkir. Abrams er meiri skemmtikraftur; flinkur í listinni að fanga stílbrögð annarra, skapa hraða, sameina góða hópa og eltast við grand móment á meðan Johnson (maðurinn á bakvið Brick, The Brothers Bloom og Looper) er óhræddur við smáatriði og mátt þeirra, sömuleiðis það að gera meira við persónurnar – og Star Wars snýst fyrst og fremst um flóru og dýnamík líflegra karaktera, en stærri mómentin auðvitað líka.

Með þessu eintaki hefur persónusköpun hefur allan forgang yfir bratt rennsli, geimhasar eða skylmingar, og mikil áhersla lögð á fortíðaruppgjör, stóra feila, næstu kynslóðina og gráu svæði manneðlis. Það er hressandi tilbreyting hvernig handritið nær að snúa út úr erkitýpum, klisjum og sýnir flóknari tilfinningum áhuga en lengi hefur tíðkast í seríu þar sem hugmyndafræðin er yfirleitt frekar svarthvít. Alltof lengi.

The Last Jedi er alls ekki fullkomin, en bestu SW myndirnar eru það heldur ekki. En… sökum þess að myndin neitar að vera jafn uppskriftarbundin og forveri sinn er annað ómögulegt en að hún geri marga aðdáendur brjálaða. Sem er gott! Persónulega kann ég mikið að meta hvað hún leyfir sér að vera löng, prakkaraleg, fyndin, fullorðinsleg og… öðruvísi. Og öðruvísi er ekki alltaf allra.

Sagan eyðir hæfilega miklum tíma í að gera upp lausa þræði úr síðustu mynd en að sama skapi er heildin rammpökkuð og hvergi er óþörfu púðri eytt í uppstillingum fyrir næsta kafla – hvernig sem hann nú verður. Þetta heildarskipulag á þríleiknum virðist vera í hálfgerðu tjóni, en það dregur ekkert frá því að þessi kafli, á eigin spýtum, býður upp á allt sem mögulega má biðja um af framúrskarandi Star Wars mynd; gott karakterdrama, skemmtilegan hasar og virkt ímyndunarafl.

Nýi þríleikurinn hefur verið óeðlilega heppinn með leikaranna sem hann situr fastur með, og ef það er eitthvað sem Abrams á alltaf skilið props fyrir, þá er það leikaraval. Daisy Ridley gæðir meiri persónuleika í Rey, sem er ekki jafn einföld og ósigrandi fígúra líkt og síðast, heldur nú í glímu við bæði sinn stað í lífinu, stríðinu í kringum hana og eigin getu. Oscar Isaac og John Boyega eru enn hörkugóðir sem Poe Dameron og Finn, og mér finnst varla hægt að undirstrika nóg hvað Adam Driver er æðislegur sem Ren; marglaga, reiði „strákurinn“ sem þráir að vera vondi kallinn en getur ekki hamið sig frá ljósinu í sér. Hann finnur fyrir því að kominn sé tími á það að slútta eftirhermunni á afa sínum og taka sínar eigin ákvarðanir, hvert sem það leiðir hann. Á móti honum er Domhnail Gleeson meiriháttar skondinn í því hvernig hann lifir sig inn í lúða-týrantinn Hux, og gaman að sjá hann fá meira til að bíta á en síðast.

Þær Laura Dern og Kelly Marie Tran eru líka velkomnar í hópinn, þó sú síðarnefnda geri miður lítið í sögunni. Benicio Del Toro er hvorki góður né slæmur og Carrie Fisher prýðir sínar senur með einbeittri og ljúfri nærveru en er hins vegar oft frekar stíf í línuflutningum, og því miður fær hún að tileinka sér eitt allra umdeildasta múv sem þessi mynd púllar með hennar persónu, eða réttar sagt með úrvinnslunni á því.

Enginn skarar að vísu meira fram úr en Mark Hamill og er ánægjulegt að sjá hann rúlla upp lúnum og brotnum Luke Skywalker, eitursvölum líka og óútreiknanlegum. Hamill hefur opinberlega sagt að hann var ekki sammála Johnson með þessa þróun sem Luke gengur gegnum, og margir aðdáendur eiga eftir að kippa í sama streng um ókominn tíma, en leikarinn er sjálfsagt tilþrifaríkari og meira sannfærandi í þessari einu mynd heldur en gamla þríleiknum í heild sinni. Örkin hans er, frá mínu hjarta, fullnægjandi, komplex og samkvæm persónunni. Gleyma má því ekki að Luke var alltaf soddann vælinn og hvatvís sveitadrengur áður en hann lærði af sínum feilsporum og varð að hetju. Ég fílaði líka áttirnar sem sagan fór í varðandi Snoke, sem er reyndar ekkert nema hundflatur diet-Palpatine.

Atburðarásin er brotin upp í þrjá þræði. A-sagan snýst öll um Rey, Luke og Kylo, B-plottið leikur nokkrum sinnum á væntingar áhorfenda með Leiu, Poe og fáeinum öðrum. Svo höfum við Finn og Rose (Tran), sem eru pínu týnd hálfa myndina og lenda í teygðum og áhrifalausum kafla sem tengist hliðarverkefni þeirra og píndum skilaboðum um misnotkun dýra. Þræðirnir hnýtast saman þokkalega eftir því sem á líður, og það er sérstaklega í seinni helmingnum þar sem hlutirnir rjúka í gang og valta yfir okkur með klikkuðum orrustum og spennandi ágreiningum, sem í sameiningu sigla klímaxinn beint í höfn.

Finna má fyrir því að þetta sé lengsta eintakið í röðinni. Flæðið heldur sér prýðilega þó þrátt fyrir uppfyllingarnar, og færa mætti jafnvel rök fyrir því að hún mætti (eða ætti!) að vera lengri miðað við alla boltana sem eru á lofti. Það hefði mátt betur laga lokasenurnar tvær. Dregur líka aðeins úr kraftinum þegar sama stefið er spilað tvisvar sinnum með stuttu millibili.

Sjónrænt séð er engin mynd í seríunni sem toppar þessa, frá kvikmyndatöku og tilheyrandi litabeitingu (þar sem hvítt, svart og rautt fær að garga með gordjöss hætti) til þessara Kurosawa-áhrifa sem Lucas sóttist upphaflega í að hluta til. Brellurnar virðast í örfáum tilfellum vera pínu órenderaðar, en heildartónninn smellur og skarar fram úr. Tónlistin frá Williams skilar vissulega sínu með látum, þræðandi dásamlega saman hið gamla í bland við nýtt. Reyndar eru nýju stefin hans ekkert geysilega eftirminnileg á eigin spýtum, en tónar þessa snillings eiga stóran þátt í því hvernig ræman spilar á tilfinningar manns. Ég hef heldur ekkert út á þessa krúttlegu, kjúllalegu Porga að setja. Það fer of lítið fyrir þeim til þess að megi kalla þetta yfirdrifið leikfangaplögg. Flott líka að sjá Chewbacca finna sér eitthvað til að fylla upp í Han-lausu holuna í hjartanu.

Johnson virðist skilja 100% hvað gerir góða Star Wars mynd en á sama tíma gæti honum ekki verið meira skítsama um aðdáendakenningar eða spurningarnar sem Abrams stillti upp (sem ég tek fagnandi, þetta mystery box dæmi var meira hans mynd að falli en þessari). Ekki bara er þetta helskemmtileg bíóveisla, heldur traust kvikmynd fyrst og fremst, falleg og töff ofan á það.

Ef The Force Awakens gekk út á það að fagna nostalgíunni og tilbiðja hana þá snýst The Last Jedi um að læra af mistökum og segja skilið við fortíðina. Þessi kafli markar nýtt upphaf og býður upp á alls konar möguleika, en að því sögðu, þá mun eitthvað eitthvað mikið þurfa til þess að Abrams hysji sig upp og lendi þessu sjálfur með næsta kafla.

 

sterk átta

Besta senan:
Laura Dern á þann heiður.

Sammála/ósammála?