Jurassic World: Fallen Kingdom

Framhaldsmyndirnar í seríunni um Júragarðinn eiga það allar sameiginlegt að hverfa langt í skugga þeirrar upprunalegu. Þar tókst glæsilega að tvinna saman poppkornsbíói við sögu af brjáluðum vísindamönnum að leika Guð. Í kjölfarið hafa aðstandendur verið svolítið týndir þegar kemur að þemum og skilaboðum framhaldsmyndanna og er Fallen Kingdom engin undantekning þar.

Það sést hins vegar strax frá upphafi myndar að sé aðeins meira kjöt á beinum heldur en í forveranum, Jurassic World, og er bersýnilega himinn og haf á milli leikstjórans J.A. Bayona og Colin Trevorrow. Bayona er a.m.k. kvikmyndagerðarmaður á meðan Trevorrow ætti að halda sig frekar við þjónustuver í síma. Á meðan síðasti Júraheimur var geldur og óspennandi er að minnsta kosti að finna haug af geggjuðum römmum og senum í Fallen Kingdom. Í sjálfu sér myndi ég kunna bara helvíti vel að meta þessa mynd ef hún hefði ekki neyðst til þess að erfa aðalpersónurnar úr síðustu mynd, og sérstaklega leyft sér að gera meira við Jeff Goldblum en að henda honum í uppsprengt gestahlutverk.

Persónusköpuninni er ábótavant en á móti sameinast hér tveir gerólíkir helmingar í fína afþreyingarmynd sem sýnir að manneskjan er yfirleitt skepnum verst. Fyrri hlutinn er brandaralega yfirdrifinn (en hey, eldfjall!) og svo þróast sagan hægt og rólega í minniháttar en eftirminnilega „barnahrollvekju“ sem gerist að mestu í einni höll. Þegar sá hluti byrjaði var áhugi minn kominn á annað level, enda finnur þessi Júramynd ýmislegt til þess að skera sig úr hjörðinni og finna nýja vinkla í stað þess að endugera annaðhvort The Lost World eða hina ógeðfelldu Jurassic World III.

Eitt annað sem dregur úr meðmælum eru líka skilaboðin/boðskapurinn, eins og áður kom að. Það er svolítið erfitt að gera mynd um misþyrmingu dýra og pjúra skrísmlamynd á sama tíma. Leikstjórinn mjólkar áherslurnar í báðar áttir og þegar að (furðulega hugrakka) endinum kemur er afstaða myndarinnar til risaeðlanna alveg úti á túni. En að því sögðu er þessi nýi „Indoraptor“ alveg hreint klikkaður!

Fallen Kingdom er með ólíkindum vitfirrt, en uppfull af flottum senum og prýðisfínum risaeðluhasar. Trúlega er þetta besta (og grimmasta) Júraframhaldið til þessa, þó það segi í raun og veru lítið.

 

Besta senan:
Ted Levine mætir nýjum félaga.

Sammála/ósammála?