Undir halastjörnu

Þann 4. febrúar árið 2004 fór kafari í höfnina í Neskaupstað til að kanna skemmdir á bryggjumannvirkjum en fann í staðinn lík sem hafði verið kastað í sjóinn, þyngt með keðjum og umvafið teppi.

Fórnarlambið hafði dáið vegna amfetamínspakka sem það hafði smyglað innvortis. Kvikmyndin Undir halastjörnu rekur baksöguna að þessu máli og helstu aðilum sem að því komu. Nöfnum hefur þó verið breytt til að hlífa þeim sem áttu hlut í málinu. Hvers vegna það er gert þegar búið er að margfjalla um málið í fjölmiðlum, auk þeirra tíma sem við lifum á þar sem Google er okkar besti vinur, er stór ráðgáta.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Ari Egill Ergis Magnússon hefur áður uppljóstrað því að upphaflega hafi staðið til að gera heimildarmynd um líkfundarmálið frekar en leikna bíómynd. Sú nálgun hefði örugglega orðið farsælli á einn hátt eða annan (ekki síður í ljósi þess að Ari á að baki stórfínar heimildarmyndir eins og Syndir feðranna og Gargandi snilld).

Það er efnilegur kvikmyndaleikstjóri í honum Ara, óneitanlega. Af þessu verki að dæma er hann taktfastur á þeim harmleik sem hann veður í. Klárt er að hann vill segja mannlega sögu af undirheimum með tilheyrandi sál, en sálin brotnar í sundur ef það gengur ekki að snara tilfinningunni með því. Það skilur sömuleiðis eftir vont eftirbragð þegar umrædd sál er dregin í gegnum úldnar klisjur og hleðst upp tilgerð í staðinn.

„Er eitthvað að gerast?“

Eymdin er vissulega allsráðandi og gegnumgangandi, enda ekki annað í boði, en þá fer það að sýna sig hvað tónameðhöndlun skiptir gríðarlega miklu. Í Undir halastjörnu eiga leikarar til að fara með háfleygar setningar í öskurkeppnum sem verða aldrei nægilega trúverðugar.

Af frásögn að vera er ýmislegt sem lofar góðu í þessum pakka en bragðleysi lokaniðurstöðunnar skrifast einfaldlega á tæknivinnslu sem er ábótavant og handrit sem hefði mátt fara í gegnum þrjú eða fjögur uppköst í viðbót. Þú veist líka að þú ert í vondum málum þegar besta dramað í myndinni þarf að skýra út með textabrotum í lokin.

Áhorfandinn finnur fullmikið fyrir handritsvinnunni frekar en að sogast inn í kaldan rauðveruleika aðstæðna, sem verður vissulega ekkert skárra þegar hljóðvinnsla jaðrar við amatör-takta á köflum. Það kemur líka annað slagið fyrir að myndin reyni að slá á léttari strengi sem yfirleitt kemur á slæmum tíma, til dæmis með kómískt vandræðalegu pönnukökuboði í Neskaupstað eða þegar ein aðalpersónanna reynir að hylja hrylling fyrir móður sinni – sem er eins og beint tekið úr kolsvartri gamanmynd. Til að bæta salti í sárið er ákveðin tenging við „halastjörnu“ sem á að gefa myndinni táknrænt gildi en endar á því að vera vænn skammtur af frussugubbi.

„En núna?“

Á meðan þemu myndarinnar eru alveg úti á túni og persónusköpunin þetta innihaldsrýr kemur allt niður á því hvort og hversu spennandi eða athyglisverð framvindan er. En hvorugt er hún og kemur með litla innsýn inn í undirheimana eða kollinn á einstalingum sem ætla sér ekki að enda með lík á milli handanna, en raðir atburða leiða þá þangað. Þetta er eðalefni í flugbeitta karakterstúdíu á óprúttnum mönnum sem bæði tóku ranga áhættu og urðu jafnframt kvikindislega óheppnir.

Tilraunir til persónusköpunar eru hverri annarri þynnri en í forgrunni eru hinir eistlensku Mihkel (Paaru Oja) og Igor (Kaspar Velberg). Innskot með þeim tveimur á bernskuárum eru gjarnan sóðalega klippt inn í framvinduna og hægja á atburðarásinni frekar en að styrkja hana. Við komumst heldur aldrei almennilega í hausinn á Íslendingunum, leiknum af Atla Rafn Sigurðssyni og Tómasi Lemarquis, nema það að vera fullmeðvitaðir um stress þeirra fyrir Eistlendingnum sem enn hefur ekki gert þarfir sínar.

Ari ætlast til þess að áhorfendur finni fyrir einhverjum tilfinningaþræði í tengslum þeirra Mihkels og Igors, en myndin fer sparlega með þeirra samskipti og samband og reynir að bæta upp fyrir það með því að sýna þá leika sér í Eistlandi á yngri árum. Reglan er yfirleitt sú að betra sé fyrir kvikmyndamiðil að sýna okkur hlutina frekar en að segja þá beint út, nema myndin segir ískyggilega lítið með þessum endurlitum annað en að þeir voru vinir á pjakksaldri. Þarna hefði hún getað farið víðar í gegnum tímalínu þeirra beggja og einblínt meira á þá frekar en ástandið sem þeir flækjast í.

„Fer þetta að verða búið?“

Leikararnir eru fjarri því að vera slæmir í sínum hlutverkum en vegnar betur hjá þeim erlendu leikurum sem þurfa ekki að tauta klén samtöl á íslensku tungunni. Þeir Oja og Velberg eru þrusugóðir, þó stjarna myndarinnar sé Greete-Elena Priisalu í hlutverki kærustu Mihkels. En fyrir utan sterk efnasambönd í kynningarsenum beggja reynir handritið eftir allra bestu getu að ýta henni frá eða skella á hana við hvert tækifæri – bókstaflega. Með tímanum þróast sannfærandi persóna, með meiri vott af mannúð en flestir aðrir, í hina týpísku áhyggjufullu kærustu í símanum. Þarna hefði meira verið hægt að vinna úr tengslum Mihkels og hennar á meðan allt versnar hjá honum.

Fyrir utan þá staðreynd að vera fórnarlamb glataðrar nafnbótar er Undir halastjörnu fyrst og fremst fórnarlamb slæmrar tímasetningar.
Það skrifast á hina skotheldu Vargur, leikstjórafrumraun Barkar Sigþórssonar, sem er næstum því betri „aðlögun“ á atburðarás líkfundarmálsins heldur en reynist vera í tilfelli þessarar myndar. Vargur verður svo sem aldrei talin til neinna stórverka á þessum klaka en hún er almennt hnitmiðaðri, með ögn ítarlegri áherslu á persónur og nær betur að trekkja áhorfandann inn í óprúttinn heim vafasamra manna sem éta neglurnar úr stressi yfir manneskju sem hefur enn ekki getað sest á dolluna.

„Hvernig er staðan? Er eitthvað að gerast?“ spyrja persónur Undir halastjörnu reglulega, en stutta svar áhorfandans má einfaldlega súmma upp með neitandi svip og ypptum öxlum. Það gerist einmitt merkilega lítið á meðan þessar 100 mínútur rúlla í gegn. Þegar allt kemur til alls er trúlega fínasta mynd á blaði falin hér einhvers staðar inni. Með meira fjármagni, meiri tíma, breyttar áherslur, fínslípaðri samtöl, markvissari tón og minna magn af taumlausum landslagsskotum, hefði myndinni trúlega betur gengið að fljóta en að sökkva.

Besta senan:
Frussugubbið… hilaríus.

Sammála/ósammála?