Avengers: Endgame

(Það eru engir gífurlegir spillar í neðangreindum dómi, en betra er að lesa ef þú hefur séð myndina, hefur engan brjálaðan áhuga eða sért slétt sama um að vita hvernig framvindan spilast út í grunndráttum

… en stutta útgáfan: Hún er alltílæ)

Hér höfum við mynd lætur sér það ekki nægja að vera einfaldlega stórmynd. Nei, hennar hlutverk var alltaf að marka ákveðin kaflaskil í þeim geira sem hefur tröllriðið bíótrendum síðustu ára, frá einmitt stúdíóinu sem dafnað hefur með ofurmannlegum öflum síðan fyrsta Iron Man myndin kom út. Númeruð framhöld og standard þríleikir eru fyrir aumingja, stórir lokahnykkir á seríu sem spanna cirka þrjú eintök á ári eru víst alveg málið í dag.

Avengers: Endgame skrúfar fyrir ákveðna kjarnaörk sem hefur verið lauslega gegnumgangandi í rúman áratug hjá Marvel Studios bíómyndum. Þessi stjörnuprýdda lokaskriða er til þess unnin að fagna því sem hefur komið af færibandinu, nýjum sem gömlum hetjum og ofar öllu græta og kæta hörðustu aðdáendur. Þessu markmiði ætlar myndin sko að ná, sama hversu mörgum holum þarf að sigrast á.

Endgame er stapphlaðin frábærum atriðum (t.a.m. fyndnum línum, hressandi páskaeggjum, einlægum persónumómentum o.fl.), sem þó hanga öll utan um óþarflega þvælda framvindu, sem límd er saman úr ójöfnu handriti. Þetta er meira samansafn gullkorna og eftirmála frekar en heilsteypt og sterk saga út af fyrir sig.

Með Endgame kemur reyndar á óvart að aðstandendur hafi minnkað umfangið töluvert frá síðustu lotu og hægja á hlutunum í stað þess að drekkja skjánum í ofhleðslu og óteljandi karakterum (með fullri virðingu fyrir Infinity War). Vissulega er nóg pláss fyrir slíkt en hlutfallslega, miðað við lengd myndarinnar, er hún merkilega sparsöm þegar kemur að hasarnum – og eitthvað furðulega bragðlaus, grámyglulegur og daufur í litatónum – þó brellurnar lúkki auðvitað fyrir allan peninginn.

„Er ekki James Gunn örugglega kominn aftur?“

Myndin er í eðalaðstöðu til þess að fjalla um missi, fórnir, samstöðu, úrræði og taktíkina að horfa fram á við. Það er svo sem gott og kærkomið að fá þriggja tíma graut sem samanstendur af hnútahnýtingum og lauslega tengdum þemapunktum um sorgina. En önnur lögmál gilda um endasprett af þessum toga þar sem hefði mátt fara villtari leiðir með framvinduna, tefja minna, laga díaloginn sum staðar og setja aðeins meiri klímax í þetta. Meira að segja lokabardaginn, þó flottur sé á (hasar)blaði og hamrar út nokkrum gullkornum, er í heildina linur, úti um allt og furðu hugmyndasnauður.

Þess vegna virkar Endgame hvað mest í fyrsta þriðjungnum, þegar myndin er nær því að vera eins konar eymdardrama og sýnir þar nýjan tón með fókus á afleiðingarnar. Myndin hefði mín vegna mátt öll snúast um það sem fyrsti hlutinn gerir: eftirlifandi Hefnendur að syrgja fallna vini, takast á við feilana og gera það besta úr því sem þau geta í ömurlegri stöðu. En auðvitað viljum við öll hlassastóran endabardaga sem leyfir öllum og ömmum þeirra að skína í hasarnum, þó ekki nema í einhverjar sekúndur. Það munar líka um svo miklu hvað stjörnusúpan er endalaust hlaðin góðu samspili karaktera.

„Merkilegt að litapallettan sé ekki fallegri…“

Það eru leikararnir sem hafa hvað mest náð að koma í veg fyrir að þessar myndir eru eintómir flugeldar. Eðlilega eru allir löngu komnir á lag með þessi hlutverk sín og gætu rúllað þeim upp í svefni. En svo einhver séu nefnd fara þau Robert Downey Jr., Scarlett Johansson, Mark Ruffalo, Jeremy Renner og Chris’arnir, Hemsworth og Evans, létt með æðislega dýnamík og hafa ómetanlega orku að gefa í framvinduna. Annars vegar fær Paul Rudd heiðurinn á því að stela þessari mynd ef ekki Evans með sína stórhættulega bræðandi persónutöfra. Þau Gwyneth Paltrow og Jon Favreau koma líka ansi sterk inn.

Aukaleikarar eru allir í fyrirsjáanlega góðum fíling – flest gestahlutverkin lífleg – en er úr merkilega litlu að moða hjá rest, eða flestum svosem. Þetta þýðir samt ekki að nærvera þeirra sé óvelkomin þrátt fyrir það, þvert á móti, en handritshöfundar virtust vera alveg týndir með hvað ætti að gera við suma karaktera.

„Þú sérð það, er það ekki? Litatónninn er eitthvað off“

Einn af forvitnilegri vinklum sögunnar felst í því hvernig hún þræðir tímaflakki inn í miðkaflann, á þannig máta sem býður upp á ógrynni af skemmtilegum tækifærum til að leika sér. Það gerir hún með að rugla hressilega í fortíðinni og mjaka sér upp úr leiftrum liðins tíma hjá þessari seríu. Hugmyndin lofar góðu en í framkvæmd kemur verður þetta að einhvers konar æfingu í sjálfsklappi og kemur meira út sem uppfylling í stað þess að vera ómissandi hluti sögunnar.

Lógíkin og tímalínuruglið er síðan eðlilegur hausverkur í sjálfu sér, einn sem sérstaklega steikir heilann þegar einhver hugsun er lögð í hlutina – en orðafjöldans vegna ætla ég að láta eins og það skipti engu máli. Myndin reynir sitt besta til að útskýra reglurnar; afsaka og blæða ekki þversögnum til að sannfæra áhorfandann um að leggja ekki hugsun í stefnurnar. En á frásagnarstigi virðist þó handritið bara spila eftir eyranu með eigin hentugleika í sigtinu þegar kemur að sögulausnum. Sumar hverjar eru með eindæmum ódýrar og einfaldar.

„Pottþétt eitthvað off“

Aukning og áfylling af rjómalagaðri melódramatík hjálpar heldur ekki þessari lotu, en hinir annars ágætu Russo-bræður hafa náð að forðast allt slíkt fram að þessu. Einnig er fúlt hvað Thanos er orðinn steríll; skyndilega breyttur í formúlubundinn og geðillan skúrk, strípaður svolítið frá stóíska þokkanum og mannlega þættinum sem seinasta mynd eyddi miklum kröftum í að stilla upp.

Ef báðar síðustu tvær Avengers-myndir eru bornir saman finnst mér blasa við að Infinity War bjóði upp á stærri og safaríkari bitann – umhugsunarlaust; skemmtilegri, pakkaðri, þéttari, flottari, kraftmeiri, fyndnari, allt saman, og sóaði hún hvergi mínútu í keyrslunni.

Einn stærsti kosturinn við Endgame er hvernig sagan hallast meira að þemu, persónusköpun og upprifjunum á því gamla og góða heldur en lógík og látum. En þess vegna hefði verið stórfínt ef niðurstaðan hefði skilið eftir færri bremsuför og siglt þessum lokahluta alla leið í höfn, frekar en að stranda þarna rétt við og halda partíið þar.


(létt sexa)

Besta senan:
Samtal um ostborgara. Eða Hamarinn.

Sammála/ósammála?