Aladdin (2019)

Foreldrar úr öllum áttum flykkjast með börnunum til að styrkja nýjasta framlag Disney þar sem gróft er spilað á nostalgíu áhorfenda í enn einni tilrauninni til þess að endurgera klassík og setja hana í nýjan búning. Pólitísks rétttrúnaðar er að sjálfsögðu gætt í aðlögunarferlinu en stærsta spurningin snýr eflaust að því hvort ferski prinsinn Will Smith nái að fanga rétta andann sem Robin Williams gerði svo ódauðlegan.

Bolurinn spyr:

Af hverju leikin Aladdín mynd?

Freistandi væri að svara „Af hverju ekki?“ En sennilega væri betra að velta fyrir sér hvers vegna þessi tiltekna Aladdín-mynd skuli vera svona stíft módeluð eftir hina víðfrægu teiknimynd frá 1992. Ástæðuna má að hluta til rekja til ársins 2017 þegar Beauty and the Beast sló í gegn með sambærilegri nálgun. Útkoman hitti misvel í mark hjá fólki en nostalgían flutti vöruna beinustu leið yfir rúman milljarð í Bandaríkjadölum á heimsvísu. Strax í kjölfarið fóru risarnir hjá Disney að henda af stað leiknum útgáfum af titlum sígilda sarpsins. Á þessu ári einu og sér eru þrjár ólíkar myndir gefnar út í þessum endurminningastíl; Dumbo, The Lion King og Aladdín.

Ekki er enn vitað hvort standi til að gera „leikna“ útgáfu af Pöddulíf, börnum til mikillar ánægju.

Á þessi nýja mynd eitthvað breik í þá gömlu?

Já og nei.

Ef þú lætur minningarnar um eldri myndina vera þá stendur samt eftir hin prýðilegasta ævintýramynd af gamla skólanum. Og með svona skemmtilegan efnivið á boðstólnum (þar sem lauslega eru samantíndar þrjár sögur úr 1001 nótt) er bókað að sjónarspilið njóti sín og tilheyrandi stemning.

Auk þess er ekki beinlínis slæmur hlutur að flestir leikararnir séu af réttu þjóðerni. En burtséð frá því þyrfti viðkomandi að glíma við einhvers konar hreyfihömlun eða króníska fýlu til þess að dilla sér við söngatriðin eða saklausa sjarma myndarinnar sem oft má líkja við afsláttar-Bollywood.

Hvernig eru leikararnir?
Misgóðir, en fínir almennt. Mena Massoud er ofboðslega traustur í titilhlutverkinu og þræðir þá línu að vera viðkunnanlegur, hetjulegur, heillandi og svalur í ræsisrottutöktunum til skiptis. Skærasta stjarna myndarinnar er trúlega Naomi Scott sem Jasmín, sem hefur fengið aðeins meiri dýpt í sögunni heldur en að vera týpíska Disney-prinsessan sem breytist annað hvort í mótiveringu fyrir hetjuna eða ambáttina hans Jafars. Scott er heillandi, góð söngkona og lítur betur út heldur en allt sem fæst úr pixladeildinni fyrir þennan mikla framleiðslupening.

En talandi um Jafar… Marwan Kenzari er ekki alveg að gera sig sem skúrkurinn frægi (hvar er rödd Arnars Jónssonar þegar maður þarf á henni að halda?). Hann er hvorki ógnandi né sérlega eftirminnilegur en fær þó aðeins meira kjöt á persónuprófílinn, sem var fjarverandi í fyrri útgáfu. Það er þó varla jákvætt þegar tölvugerður páfagaukur stelur frá þér öllum senum.

Hversu óþolandi er Will Smith?
Heyrðu, Will hefur ekki átt sjö dagana sæla í háa herrans tíð – en hver sem ákvað að hann gæti neglt hlutverk andans úr Aladdín á einhvers konar kauphækkun skilið. Hér er Smith kominn í gamla góða eiturhressa sjarmörinn sinn. Hann syngur ekki alltaf fullkomlega og þarf að glíma við „autotune“-veikina af og til, en húmorinn og nærveran hittir í mark… þó það sé óneitanlega ljótt að horfa á hann þegar hann er blár.

Ég elska „Friend Like Me“ – eru öll lögin úr teiknimyndinni í þessari?
Öll nema eitt. Auk þess fær Jasmín frumsamin lög til að ýta henni meira í sviðsljósið, en það er barasta besta mál.

Vissulega hefur teiknimyndin ALLTAF ákveðna forhönd á sköpunarstigi þegar hún frumsamdi lögin á sínum tíma, á meðan nýja kvikmyndin lekur kannski ekki af sama metnaði. En fjörug tónlist er fjörug tónlist.

Er myndin góð fyrir sex ára?
Hundrað prósent. Og 96 ára, svo lengi sem viðkomandi einkennist ekki af léttum kynþáttafordómum.

Ef ég fæ kjánahroll yfir stiklunni, ætti ég að halda mér frá myndinni?
Kynningarefnið gerir heildarsvip myndarinnar ekki alveg réttlæti. Jú, tölvubrellurnar eru forljótar sums staðar og það verður að segjast að „A Whole New World“ senan fræga er argasta stórslys í þessari útgáfu (vindvél og bluescreen hefur ekki aaaalveg sama effekt og teikningarnar). En fyrir utan það finnur myndin alveg sinn takt og tekur teiknimyndarótum sínum fagnandi. Sagan er einlæg á stöðum sem skipta máli og sviðsmyndirnar eru litríkar og áferðarmiklar.

Svertir þessi mynd upprunalegu myndina á einhvern hátt?
Endurgerð getur aldrei eyðilagt upprunalegu myndina, hvort sem hún er vond eða góð. Ef endurgerðin er slæm þá lítur gamla myndin alltaf betur út í samanburði, en ef hún virkar, þá hefurðu tvær útgáfur af sömu sögu í ágætisstandi. Hvað Aladdín varðar er þetta meira spurning um hvort þú sért í stuði fyrir yfirdrifna teiknimynd eða yfirdrifið búningapartí. Satt best að segja er þessi Aladdín mynd betri heldur en hún ætti einhvern rétt á því að vera.

Og í kaupbæti kemur hún frá Guy Ritchie, leikstjóra Snatch og Sherlock Holmes-myndanna. Það tryggir ekki endilega sterka vöru en fyrrverandi hennar Madonnu er sjaldnast þekktur fyrir að sofa í vinnunni sinni og kemur yfirleitt með einhverja dýnamík eða ryþma sem styrkir heildarflæðið.

Eitthvað fleira sem ég þarf að vita?
Já. Myndin gerir makalaust grín að „Svíum“.

Niðurstaða: Sex ferskir prinsar af tíu.

Besta senan:
„Bollywood“ dansinn í veislunni.

Sammála/ósammála?