Captain Marvel

Marvel Studios-maskínan hefur oftar en ekki verið á hörkugóðu róli, en leiðinlegast er þegar þeir klessa á veg og punga út mynd sem pikkföst í miðjunni; og þar er Captain Marvel.

Myndin er ágætis poppafþreying og með áreiðanlega fína spretti en dýpt sögunnar ristir grunnt, stíllinn er bragðlaus (nánast eins og budgetið hafi verið fyrir meðalstóran sjónvarpsþátt) og klisjurnar alveg eftir færibandinu. Allt þetta væri svosem í hinu fínasta ef titilhetjan lýsti upp skjáinn með harðri og heillandi nærveru, en Brie Larson er ekki alveg sú rétta í þetta hlutverk. Og nei, það hefur lítið með það að gera hversu lítið hún brosir í myndinni.

Þetta er meira í líkingu við það þegar Edward Norton reyndi sitt besta með Bruce Banner; eitthvað var bara… off.

Larson er hæfileikarík leikkona alla daga vikunnar (Short Term 12, halló!), en hún smellur ekki alveg í Captain Marvel hlutverkið af tveimur ástæðum; með persónuna eins og hún er skrifuð nær leikkonan voða litlu karisma, eins og henni er leikstýrt þarna allavega (en lítið batnar þetta í Endgame svosem) – og einnig er karakterinn bara alltof kröftugur og hálfbakaður á blaði. Því kemur út eins og myndin sé að hraðspóla í gegnum allt sem er gildishlaðið í sögunni til að ljúka því af að kynna karakterinn sem fyrst á milli Infinity War og Endgame. Það er ömurlegt að fyrsta MCU-myndin með naglharðri kvenhetju í forgrunni sé svona mikið bla.

Í samanburði er Wonder Woman myndin farin að líta út eins og ólgandi gimsteinn; þar fengum við að minnsta kosti meiri tíma til að anda og tilþrifaríkari áherslu á tilfinningar og prófíl aðalpersónunnar, sem var heldur ekki jafn skilyrðislaust ósigrandi og hún Mar-Vel þegar sú kemst í gírinn. Og á meðan við erum á þeim samanburði var dúndrandi hjartsláttur í gegnum alla Wonder Woman á meðan Captain Marvel nær sínum hæstu hæðum á 90s-mynda banter’i og poppkúltúrsbröndurum.

Annette Bening er flott og kærkomin (ásamt fjörugum Ben Mendelsohn) í geimþvæluna, þar sem segjast verður að drepfyndið kattardýr stelur senunni ofar öllum.

En alltílæ mynd; þunn og hefði alveg getað djúsað meira upp á tilfinningaskalann og persónusköpunina. Það hefði líka alveg mátt víkka umfangið talsvert, þar sem fantasíukennda sögusviðið kemur meira út eins og punt frekar en lykilatriði. Hasarinn er líka undarlega flatur og þó Guardians of the Galaxy eða Thor Ragnarök komist upp með gömlu popplagablætið sitt, þá fær „I’m Just a Girl“ kaflinn hér alveg sex ranghvolfuð augu af tíu, með fullri virðingu fyrir No Doubt.

Getum við núna vinsamlegast fengið Black Widow myndina okkar fyrir 5 árum?

Besta senan:
Flerken að flippa.

Sammála/ósammála?