Godzilla: King of the Monsters

Stundum langar manni bara til þess að sjá gígantískar skepnur lemja allt vit úr hverri annarri – og þar af leiðandi áhorfendum líka. Á nákvæmlega þeim velli má með glöðu geði segja að þetta tiltekna Godzilla eintak sé massaskala veisla af háværustu gerðinni. Og það er dásamlegt sjónarspil sem býður upp á margt helling…

…þangað til að endalaust streymi af vanillufólki kemur og truflar sjóið, eða verra – flækist þarna endalaust fyrir.

Sambærilegt vandamál kom upp í fyrri Godzilla-myndinni frá Gareth Edwards. Skrímslahasarinn var stór og mikill en um leið og Bryan Cranston hvarf fór allur áhugi fólks á mennsku persónunum að dvína hratt. Heppilega er þessi mynd breiðari og trylltari á allan veg – með miklu fleiri skepnur, þannig að meira rými er fyrir Michael Dougherty (sem leikstýrði m.a. hrekkjavökuperlunni Trick r Treat) til að leika sér í sandkassanum.

Í 2014-myndinni var Edwards greinilega að sækjast eftir aðeins jarðbundnari túlkun, hvað stærðarlógík og ákveðinn dökkan realisma varðar. King of the Monsters (og þ.a.l. Dougherty) er aftur á móti meira en til í að vera skrípalega (nánast tölvuleikjalega) yfirdrifin og heilaheft þegar kemur að aðstæðum þar sem ekki fræðilegur séns væri á öðru en lífláti mannfólksins – þau flækjast bókstaflega inn í allar aðstæður, með drama sem er hvorki sérlega vel skrifað né áhugavert, og endalaust lendir höfuðið á þeim leik þar sem sig má spyrja: “Af. Hverju. Eru. Þau. Ekki. Löngu. Dauð!?”

Eða… Af hverju má ég ekki bara fá meira af mikilfenglegum skrímslaskotum og samskiptum?

Það er sitt og hvað af fínum leikurum hérna (og nærvera Ken Watanabe er alltaf stór plús) en ágreiningur lykilpersónanna er alltof bitlaus og fyrirsjáanlegur til að rífa í réttu strengina. Myndin hefur vissulega einhver skilaboð og lausar þematengingar í kringum þessa óvenjulegu fjölskyldu sem hún snýst um, en öll þeirra aðkoma kemur samt á tíðum út eins og uppfylling. Það hefði heldur ekki sakað að einblína þá líka meira á skelfinguna sem skrímslauslinn væri að skapa. Fyrst að myndin hefur svona mikinn áhuga á mannlega þættinum er víðan völl að dekka, en lendingin hjá Dougherty með sál myndarinnar er eitthvað döpur. Tilfinningakjarninn er eins og beint tekinn úr Roland Emmerich-mynd… frá þessari öld.

Afþreyingargildið heldur svosem sínu út í gegn og myndin verður MJÖG skemmtilega bombastísk þegar brellugrauturinn nær hámarki, músíkin og myndmálið í fíling líka. Án þess að þurfi með nokkru móti að minnast á það – þó það verði gert – að Godzilla er einfaldlega grjóthart kvikindi, punktur.

Ég er opinn fyrir því að sjá Kong reyna að eiga séns í þursinn.

Besta senan:
Sá stóri vaknar úr dvala – steraður í hel.

Sammála/ósammála?