X-Men: Dark Phoenix

Endalaust ætlar þessi blessaða X-sería að vera til vandræða, svona rétt þegar hlutirnir voru farnir að ganga svo fínt aftur – hvort sem maður telur þá Logan eða Deadpool með eða ekki.

Segja má auðvitað heilan helling um Bryan Singer, en það verður ekki tekið af honum að hann hafði oft visjúalt auga fyrir bíói og áhugaverðum senubyggingum af og til – sem hvort tveggja er fjandsamlega fjarverandi í X-Men: Dark Phoenix.

Myndin er leikstjórafrumraun Simon Kinberg, handritshöfundarins og framleiðandans sem hefur verið með lausa yfirsýn yfir X-heiminum í rúman áratug núna. Þetta er önnur tilraun hans til að koma aðlögun á Dark Phoenix sögunni frægu en skilar af sér einhverju sem bæði fetar oft í sambærileg spor og X-Men: The Last Stand – og low-fi og púðurslausu á sama tíma. Myndin er bombastísk í tón undir músík Hans Zimmer en Kinberg er alveg úti á þekju með að flytja tilfinningakraftinum af blaðinu. Hann er líka alveg týndur í samsetningu á öðru en einföldum díalogssenum.

Samtölin eru ekkert sérstök yfir heildina – og halla að verri tendans myndabálksins til að predika. Frásögnin er slitrótt, persónusköpun þunn (og sérstaklega bjánalegt hvernig unnið er úr Magneto í þessari lotu) og vantar alla sjónræna dýnamík í stílinn. Myndin hefur þá væntanlega ætlað sér að vera nær því að vera mínimalískari svanasöngur í anda Logan – en aldrei hefur það betur sést í seríunni hvað Logan var mikið kraftaverk; vel skrifuð, kröftug, skemmtileg, brútal – X-Men: Dark Phoenix er að vísu hressilega grimm á köflum en linnulaust lin, illa klippt og feilar alveg á tækifærinu til að leyfa frábæra cast’inu að skína til fulls.

Sophie Turner kemur því vel til skila hvernig Jean Grey tekst á við nýfundna krafta sína og hvað hún vill að úr sér verði. Síðan höfum við Jessicu Chastain og Jennifer Lawrence (sem er endanlega sofnuð í hlutverkinu núna) sem eru þarna að mestu til skrauts og útskýringa. Verst er þó auðvitað Alexandra Shipp sem Storm. Hún er þarna eingöngu til þess að pósa í nærmyndum á klukkutíma fresti og vera ekki of mikið fyrir.

Þau sem koma best út, að frátaldri Turner, eru Nicholas Hoult, Kodi Smit-McPhee og James McAvoy. Kinberg klúðrar því hins vegar hart á handritsleveli að gera breytingu og þróun Xavier að þungamiðju sögunnar. Sagan leggur meira upp úr því að snúast um hvernig hann getur fundið endurlausn á því að hafa eyðilagt og bælt niður Jean, í stað þess þá að gefa okkur meira af Jean. Aftur, eins sannfærandi og Turner getur verið í lykilsenum sínum, þá er persónan gerð að alltof þunnum pappír til að þemunin og krafturinn skili sér.

Það er grautfúlt að sjá X-seríuna (eða réttar sagt, þessa „kynslóð“ sem tilheyrir henni) ljúka sig af með svona aumu freti. Aðdáendur voru svosem í heildina ekki sáttir við Apocalypse (annað en ég á sínum tíma) en því er samt erfitt að neita að hún lokaði sínum hóp bara prýðilega. Ég skil ekki einu sinni hvers vegna leggja í annan “svanasöng” eftir jafn glæsilegan ópus og Logan. Núna eru þessir fínu leikarar – þar sérstaklega Fassbender, Lawrence og McAvoy – orðnir að bröndurum í sífellt endurteknu samspili (hlutskipti Magneto í sögunni eru með eindæmum frústrerandi og hvað hann tekur skjóta breytingu).

Jákvæðu elementin við þessa mynd tengjast að vísu bombastíkinni hjá Zimmer, vannýttu Turner-greyinu, Hoult, stökum ágætissenum og þessum hellaða klímax þar sem Kinberg breytir myndinni í Under Siege 2 án þess að nokkur hafi beðið um það. Og ef horft er á enn jákvæðari hliðar þá er þessi mynd alveg þremur bjórum skárri en X-Men Origins: Wolverine. En vissulega á rangri hillu fyrst að Brett Ratner myndin er skyndilega farin að líta betur út í samanburði við nýja svanasönginn.

Besta senan:
Dýrið grætur.

Sammála/ósammála?