Þekktir réttir úr kvikmyndum

Kvikmyndakóngurinn Quentin Tarantino hefur oft upplýst áhorfendur um mátt máltíða og matargerðar á hvíta tjaldinu. Hugmyndafræði leikstjórans gagnvart girnilegum mat (plús drykkjum, ef til vill) er sú að skyldir þú sjá til dæmis pítsusneið í bíómynd, er það ábyrgð kvikmyndagerðarmannsins að sjá til þess að þig langi í umrædda pítsusneið.

Í stuttu máli, ef Christoph Waltz sést þamba jökulkalda mjólk – eða jafnvel Uma Thurman með mjólkurhristing – er markmiðið að tryggja að fólkið í salnum þyrsti með eindæmum í það sama. Að vísu hefur hinn sami kvikmyndagerðarmaður reynt eftir bestu getu að gera berfættar tásur álíka girnilegar, en áhrifamáttur þeirrar útkomur veltur reyndar á blæti hvers og eins – en prinsippið er hið sama!

Kíkjum nú á nokkra eftirminnilega rétti eða frægar senur þar sem það sem á boðstólum er skipar sér í áhrifaríkt aukahlutverk – og hvers vegna. Lesendur eru að sjálfsögðu hvattir til þess að prófa sambærilega upplifun heima í eldhúsinu, þótt gæði afrakstrarins séu á ábyrgð hvers og eins.

Hægeldað svín … sem drepur – Once Upon a Time In Mexico (2003)

Hefur þú einhvern tímann smakkað rétt sem er svo góður að þig langar samstundis til þess að myrða kokkinn? Það er einmitt það sem Johnny Depp tók upp á að gera í spennumyndinni Once Upon a Time in Mexico. Persónan sem Depp leikur þar bragðar mexíkóskan rétt sem kallast einfaldlega „Puerco pibil,“ en þar er á ferðinni hægeldaður svínahryggur sem býður upp á ýmsa upplifun fyrir bragðlauka í meðlæti og útfærslu. Rétturinn er í senn nógu einfaldur til þess að ná tökum á gerð hans nógu flókinn til þess að gera matarboðið fyrir kvöldverðargestina aðeins fínna en venjulega.

Aðferðin er svolítið snúin, en þennan rétt gerir hvern og einn á eigin ábyrgð. Fyrirmælin sjást að neðan frá leikstjóra myndarinnar.


Pítsutvenna að hætti Travolta – Saturday Night Fever (1977)

Það er ekki sama hvernig þú borðar pítsu. Spurðu hvaða Ítala sem er og hann mun að öllum líkindum hafa sterka skoðun á málinu. Í tilfelli dansperlunnar Saturday Night Fever snýst umræðan minna um hvaða pítsu skal fá en meira um hvernigskuli gæða sér á henni. Ungur og reffilegur John Travolta sýnir aldeilis hvað í honum býr í þessari mynd, en hinn seigi Tony Manero er takt- og vanafastur maður, harðákveðinn í því að besta leiðin að flatbökuáti sé að klessa saman tveimur sneiðum í góða pítsusamloku. Aðferðafræði Tonys víkur í engu að því hvernig bökurnar snúa, það er tvöfalda ánægjan sem gildir. Vert er að taka það fram að brellan virkar betur með þunnbotna sneiðum.

Spagettí með kjötbollum – Lady and the Tramp (1955)

Stundum er óþarfi að flækja hlutina. Þegar þú ferð út að borða með stóru ástinni getur einfaldur pastaréttur séð um alla töfrana. Passaðu bara að einoka ekki síðustu kjötbolluna. Afgangur kvöldsins – og framtíð ástarinnar – getur oltið á því.

Munnvatnsaukandi ostasamloka – Chef (2014)

Kvikmyndin Chef frá Jon Favreau (sem oft er kenndur við nafnið Pete úr Friends-þáttunum) er krúttleg lítil saga af manni sem ákveður að stofna matarvagn, sérhæfðan í að bjóða upp á dýrindis grillaða ostasamloku. Eins og má ímynda sér slær matarvagninn gjörsamlega í gegn og hafa ófáir áhorfendur sóst í þá sáraeinföldu en gómsætu uppskrift sem kitlar bragðlauka samlokuunnenda og ekki síður ostafíkla. Joey Tribbiani væri helsáttur. En til að spara gúglið má sjá uppskriftina hér að neðan.

Það sem þarf:

Súrdeigsbrauð
Ein teskeið af ólífuolíu
Þrjár teskeiðar af smjöri
Tvær þunnar sneiðar af cheddar-osti
Tvær þunnar sneiðar af gruyère-osti (gangi ykkur vel að finna hann)
Tvær þunnar sneiðar af parmesan-osti

Brauðsneiðarnar eru steiktar á pönnu með ólífuolíunni. Smyrjið svo brauðsneiðarnar og steikið þær í um þrjár til fimm mínútur.

Þá veist þú hvernig Chef smakkast.

Kartöflumús með táknrænum gljáa – Close Encounters of the Third Kind (1977)

Er dulrænn fyrirboði í uppsiglingu? Eru geimverur kannski á leið í kvöldverð? Þá er best að hlaða í eina gómsæta kartöflumús með aðalréttinum. Hér er um að ræða kvikmynd sem sýnir hvað það getur verið mikið sport að leika sér að matnum – jafnvel bráðnauðsynlegt!

Pastrami í rúgbrauði með gervifullnægingu – When Harry Met Sally (1989)

Margir hverjir kannast við setninguna „Ég ætla að fá það sama og hún.“ Í þessari sígildu rómantísku gamanmynd þarf meira til þess að vekja stunur hjá Meg Ryan en bara eggjandi samræður við einstakling af gagnstæðu kyni. Við skulum ekki hafna því að kvöldverðurinn (sem sé sterkkryddaður nautabógur í rúgbrauði) gæti átt einhvern þátt í orkunni sem heltók leikkonuna á bestu stund. Pastrami-samlokan hjá Sally gefur orðinu „matarklám“ uppfærða merkingu.
Prófið endilega, en gætið þess að veggirnir heima séu ekki of þunnir.

Kældur apaheili – Indiana Jones and the Temple of Doom (1984)

Framandi staðir eru nauðsynlegir fyrir Indiana Jones-myndirnar. Það skapar vissulega svigrúm fyrir framandi matargerð. Í kvikmyndinni Temple of Doom fær titilhetjan og fylgdarlið hans heldur betur að kynnast nýjungum sem eru ekki allra. Í hinni svonefndu Pankot-höll á Indlandi eru stökkar bjöllur og álar á meðal þess sem er á boðstólum. Skemmtikonunni Willie Scott (sem leikin er af Kate Capshaw) er alls ekki skemmt, enda ekki furða; súpu dagsins fylgja fljótandi augu og ekki skánar það þegar eftirrétturinn er borinn fram, en það er kældur apaheili. Ekki spyrja, en hinir innfæddu í myndinni gúffuðu þessu í sig með bestu lyst.

Til allrar lukku féll frúin ekki í yfirlið á tökustað í raun, því innihald „apaheilans“ samanstóð af búðingi og rifsberjasultu.
Þessir bíótöfrar …

Ratatouille með æskuljóma – Ratatouille (2007)

Í myndinni Ratatouille er titilrétturinn meira en bara soðið grænmeti með sósu. Máltíðin er lykill að ljúfum æskuminningum matargagnrýnanda sem hefur alveg gleymt listinni að brosa. Við fyrstu smökkun verður umræddur gagnrýnandi meira en heltekinn og maður veltir fyrir sér hvort þarna leynist einhver leyniuppskrift sem lesendur geta gert sér leik úr að finna út. Kannski þurfi bara bráðsnjallt nagdýr á tveimur fótum til þess að setja aukinn sjarma í máltíðina, hver veit?

„Rándýr“ mjólkurhristingur/Hinn konunglegi ostborgari – Pulp Fiction (1994)

Enn og aftur bregður John Travolta fyrir, en hann er ekki maður sem lætur hvað sem er ofan í sig á filmu. Árið 1994 þótti hugmyndin um „fimm dollara mjólkurhristing“ vera bæði okur og absúrd. En eins og við Íslendingar þekkjum er stundum fátt sjálfsagðara en að henda tæpum þúsundkalli í góðan ísdrykk í almennilegri stærð. Í kvikmyndinni Pulp Fiction bölvar Travolta engu að síður ungri og íðilfagurri Umu Thurman fyrir að panta sér fimm dollara sjeikinn, þar til í ljós kemur að hann hittir beina leið í mark. Þarna reynir Tarantino sjálfur að koma þeirri tilfinningu yfir á áhorfandann að mjólkurhristingur sé kannski ekki svo galin hugmynd. En því má heldur ekki gleyma að fyrr í kvikmyndinni eru stórmikilvægar samræður sem snúast um heiti McDonald’s-borgara í Amsterdam.

Soðinn humar, matreiddur með rómantík – Annie Hall (1977)

Þegar hugsað er um minningar ástarinnar – bæði þær sætu og súru – skipta litlu hlutirnir oft miklu máli. Eins og Óskarsverðlaunamyndin Annie Hall sýnir fram á geta ómótstæðilegar minningar komið smáatriðum við og í samböndum eru oft kvöldverðarminningar sem standa upp úr. Woody Allen og Diane Keaton gera heiðarlega tilraun til þess að sjóða lifandi humra, en karlpungurinn er skræfa og ekki gengur allt átakalaust. Umrædd sena er víða talin ein sú eftirminnilegasta í myndinni og verða margir áhorfendur sólgnir í góðan humar og hressan hlátur með betri helmingnum. Þarna er humar ekki bara humar, heldur undirstaða ákveðinna töfra í sambandi lykilparsins. Woody reynir meira að segja að leika þetta eftir þegar hann slær sér upp með annarri konu, en með mislukkuðum árangri.

Eins og sagt er í Friends: finndu þinn humar.

Talandi um …

(Heiðursmáltíðin)

Trufluð smalabaka í breskum trifflisstíl

Hefur þú einhvern tímann bragðað á fótum? Samkvæmt Ross Geller er frægasti misheppnaði triffliréttur (sjónvarps)sögunnar ekki frá því að bragðast eins og „tær“ viðbjóður. Í þættinum The One with the Trifle reynir Jennifer Aniston að fylgja uppskrift að breskum triffli en notast óvart við tvær gerólíkar uppskriftir. Við það sem átti að verða sambland af búðingi, sultu og ávöxtum bætast við hráefni úr smalaböku sem samanstendur af nautakjöti, baunum og lauk.

Skemmst er frá því að segja að eftirrétturinn reyndist ekki vera að skapi allra, en oft má segja að eitthvað sé rétt gert ef tekst að þóknast einum einstaklingi. Sá einstaklingur reynist vera hinn ofureinfaldi Joey Tribbiani, en hann er að vísu matgæðingur á fordæmalausu stigi. En ef út í það er farið, er nokkuð svo slæmt að bræða saman ólíkum bragðtegundum ef þær eru allar góðar hver í sínu lagi?

Aðrar tillögur:

„Strudel“ með rjóma (Inglourious Basterds) – Passið bara að rjóminn fylgi með. Hans Landa segir það.

Allt saman (Chocolat) – horfið á þessa kvikmynd á tóman maga. Ég mana ykkur!

Hið mikla Timpano (Big Night) – Erfitt, en þess virði.

Allt sem Meryl Streep snertir (Julie & Julia) – sjá Chocolat

Þakkargjörðarskórinn (The Gold Rush) – Charlie Chaplin kann þetta:

Vantar einhvern mat að þínu mati?
Segðu frá í kommentunum hvaða rétt þér finnst vanta á listann.

Sammála/ósammála?