Spider-Man: Far From Home

Er það eðlilegt að almenningur hafi á sautján árum fengið ellefu bíómyndir þar sem Köngulóarmaðurinn skýtur upp kollinum? Tæknilega séð tólf ef við teljum hina Spider-Man-lausu Venom með…

Er þetta of mikið af hinu góða á þegar pökkuðum markaði? Eða…

Má færa rök fyrir því að Spider-Man sé einfaldlega ein skemmtilegasta ofurhetja í heimi?

Stutta svarið ætti í raun og veru að vera já við öllu þrennu, en eins og ég sé það virðist bara hafa komið aukning á því hvernig best er að útfæra Spider-Man myndir með árunum – með því að embrace’a unglinga/gaggó-dramað og setja alvöru þematík í mixið. Bara á síðasta ári fengum við LANGflottustu og bestu Lóamyndina, Into the Spider-Verse, sem sýndi 150% með poppuðum teiknistíl og frábæru handriti hvað hægt er að gera við þessa hetju á hvíta tjaldinu.

Eftir þá mynd hélt ég að væri í raun ekki aftur snúið með þessa hetju, að lítið þýddi einu sinni að reyna aftur með leikna formið.

Heppilega er Tom Holland algjör fengur, eins og hann er löngu búinn að sýna fram á. Hann er allt það sem Tobey Maguire vildi vera (og enn lítur sá maður út eins og hann sé 15 ára) og með “lúðafaktorinn” sem Andrew Garield náði ekki alveg tökum á. Það skrifast massamikið á Holland hvað hann nær að gera mikið fyrir karakterinn og myndirnar. Ofar öllu er hann líka viðtengjanlegur.

Far From Home er einn ragmagnaður gleðipakki ef ofurhetjan gefur þér eitthvað (Peter-)kitl; hún virkar sem góð gamanmynd á eigin veg, frábær Spider-Man mynd og bragðmikill eftirréttur (/eftirmáli?) í kjölfar þungu, drollandi og flötu máltíðarinnar sem Avengers: Endgame var. Stundum var eins og vantaði alla keyrslu og flug í þá mynd – og ekki síður Captain Marvel sem á undan kom – en þessi ræma er með þeim allra betri frá Marvel stúdóinu til þessa. Kannski ekki sú súrasta, hugmyndaríkasta eða mest heillandi, en absolút dúndurfjörug, frá upphafsatriðunum til tveggja ansi góðra endasena. Eitthvað gerist það ógurlega sjaldan að mið-kreditsenur bæti einhverju við, en þær gera það hér.

Í Homecoming var þróunin hjá Peter Parker sú að finna sjálfan sig og hetjuna í sér, en núna er komið að honum að sýna hort hann geti miklu meira en hann trúir; ekki bara þarf hann að finna Hefnandann í sér, heldur eigin leiðtoga í sjálfum sér, átta sig á því hvaða leyndarmálum er þess virði að halda – og hvaða fleiri aulamistök gerir maður á svona ungum aldri. Og annað en síðast er komið að því að efla hösslarann í sér.

Á meðan Homecoming var svolítið sjónvarpsleg í lúkki og ekki alveg nógu tilþrifarík, þá er dramatískt meira í húfi í Far From Home, þó henni takist allan tímann að vera eiturhress og brandarlega skemmtileg ferðakómedía, með ágætum og stundum æðislega trippuðum hasar bökuðum inn. 

Auk þess er Jake Gyllenhaal hreint frábær viðbót í þennan heim, og neglir það kalt að vera sjarmerandi, mystískur og vafasamur. Stuðningsfólkið fær margt til að vinna með; Samuel L. Jackson, Jacob „Ned“ Batalon, Jon Favreau, Marisa Tomei og Martin Starr eiga marga frábæra spretti. Meira að segja Zendaya hefur þroskast og þróast helling úr one-liner hipsterboltanum sem hún lék síðast og hefur núna miklu við að bæta. Hollendingarnir stela líka senunni á góðum tímapunkti. Allir sem einn.

Það eru fáein bremsuför í handritinu og má deila um það hvort myndin erfi fullmikið af lausum þráðum sem Endgame náði ekki að dekka. Þar að auki, þar sem þetta er Marvel Studios-mynd má aldrei líða of langur tími til að díla við tilfinningar án þess að brandari komi og „skemmi“ (það og klippingin er svolítið sérkennileg/off á tíðum). Slíkt eru samt svo miklir prump-hnökrar þegar myndin á móti nær að faðma að sér alla vitleysuna sem henni fylgir. Þó heilalaus sé þá er hún fjarri því að vera laus við stórt, sláandi hjarta.

Spider-Man: Far From Home nær á hinn besta máta að vera akkúrat það sem hún þarf að vera, og vill vera. Pjúra popp-afþreying, ídeal sumarskemmtun og jafnvel næstbesta Lóamyndin. Hún lokar fyrir margt af því sem hefur á undan komið í 20+ mynda fösum hjá stúdíóinu og leggur ýmsa teina fyrir spennandi áframhald, bæði fyrir titilkarakterinn og tilheyrandi heim.

Besta senan:
„Mændfökk-ferðalagið“

Sammála/ósammála?