Yesterday

Hvernig væri heimur án Bítlanna? 

Enn betra… Hvað ef einn maður vaknaði skyndilega í þeim heimi og tekur síðan þá ákvörðun að “semja” lögin fyrir eigin frama?

Óneitanlega er þarna komin skemmtileg hugmynd að “lyftu-pitch’i”. Það má allavega vinna ýmislegt með þetta og ekki síður þegar fínir fagmenn eins og Danny Boyle og Richard Curtis koma að verkinu. Sameining þeirra er sérstaklega merkileg í ljósi þess hvað þeir eru báðir ákaflega ólíkir; annar hrárri, hinn aðgengilegri í augum pöpulsins. Boyle er vissulega best þekktur fyrir ryþmískar, stílískar, (oft) tenntar sögur sem fljúga á góðum púlsi og góðum leikurum. Curtis er annars vegar mjúkur, væminn en geysilega heillandi rómantíkus þegar vel tekst til. Sameining þessara krafta ætti í það minnsta að vera áhugaverð, svo framarlega sem eitthvað er gert við hráefnið, eða áðurnefnt pitch – frekar en að skauta á gimmick’inu einu.

Þá skýrist að Yesterday dregur út fátt annað en verstu einkenni beggja kvikmyndagerðarmanna – og satt að segja þykir mér frekar furðulegt hvernig Boyle náði ekkert að lyfta þessu upp á neitt bitastæðara stig. Það sem hefði í besta falli getað orðið að frumlegri, hálf-súrrealískri tónlistarmynd með góða rómantík í mixinu, verður fljótt og sígandi að sjarmalausri, lafþunnri og óspennandi klisjusúpu; mynd sem skortir allt flæði, allan ágreining, almennilegan púls og líður fyrir það að bjóða áhorfendum upp á ómerkilegan pappír í formi aðalpersónunnar. 

Boyle virðist alveg kominn á sjálfsstýringu og nær litlu afli með tónlistarsenunum og kemur rómantíski kjarnaþráðurinn út eins og aðferð til að redda lokaþriðjungnum frekar en eitthvað sem var lagt út frá grunni. Curtis skrifar myndina eins og blöndu af tónlistar-biopic með klassíska vanillubragðinu og í senn fjandi hallærislega skilaboðasögu (“Bannað að ljúga, krakkar!”).

Yesterday hefði getað dansað við svo margt spennandi, og það er frústrerandi hvað hún kemur inn á marga spennandi vinkla án þess að gera nokkuð af viti við þá. Til dæmis hvernig súrrealismi Bítlanna og ýmsar tónlistarákvarðanir fúnkera í nútímanum þegar tónlist er svo víða átótjúnuð, dæld út af færibandi og undir stjórn framleiðenda sem einbeita sér meira að almenningsaðgengi og markaðsrannsóknum frekar en tilfinningum og list. Líka koma reglulega upp spurningar eins og: “Ef Bítlarnir eru ekki til, hvað fleira ætli sé fjarverandi einnig?“ Eru meðlimir Bítlanna einu sinni til í þessum heimi? Eru fleiri sem muna eftir hljómsveitinni eða er það bara aðalpersónan? Nær sá karakter einu sinni að muna orðrétt eftir hverjum og einum texta? 

Allt ofantalið tilheyrir tékklista af hugmyndum og pælingum sem framvindan hefur sáralítinn áhuga á að grandskoða, en þá tekur í staðinn við þessi spurning: Hvernig ætli það sé að horfa á Ed Sheeran með bullandi minnimáttarkennd? 

Sheeran er fjarri því að vera lekandi af skjá-karisma – og er satt að segja best geymdur í smáskömmtum (a la Bridget Jones’s Baby). Himesh Patel er fínasti leikari en vinnur úr óskaplega óspennandi karakter, sem erfitt er að veita samúð eða stuðning – þó svo að hann fái leiðinlega foreldra sem eru beint teknir af nýskipaða lager Bohemian Rhapsody. Stórfínu fólki í aukahlutverkum er annars vegar sóað alveg til tunglsins. Meira að segja Lily James, sem venjulega springur af útgeislun og talenti, er frekar vannýtt, persónuleikalaus og gegnir meira hlutverki plottpunkts frekar en manneskju. 

Myndin kemur líka með ákveðið “tvist” undir lokin sem trúlega á að vera upplífgandi og fallegt, en sjálfur fékk ég bara mígreni yfir ranghvolfuðum augum. Það eru ágætis brandarar pipraðir inn hér og þar, en þegar svona pitch-saga er til umræðu væri annað argasta sóun. 

Yesterday stenst ákveðnar lágmarkskröfur í tengslum við áhorfanleikagildi – hún lúkkar vel, hljómar vel og fær nokkur aukastig fyrir fína klippingu, en tæknivinnsla og samsetning gagnast holóttri heild afskaplega lítið. Það er umdeilanlegt hvort Boyle hafi átt verri daga, en þessi mynd undirstrikar það ennfremur að það fari honum ekki að vera svona sykraður. Alveg eins og Curtis þarf sjálfur að herða á eigin getu og hætta að endurtaka sig. 

Fyrir hinn kröfulitla áhorfanda er örugglega fína einnota afþreyingu að finna í þessu – og saklausa sem slíka. En undirritaður sér bara þreytulega og gildislausa ástar-konsept-kómedíu sem tekur góðar pælingar og snýtir sér með þeim.

Besta senan:
Oasis-djókurinn.

Sammála/ósammála?