The Lion King (2019)

Sjaldan eða aldrei hefur eins mikill peningur farið í jafn litla efnislega hugmyndavinnu. Stórrisarnir hjá Disney hafa svo sannarlega borið af síðustu árin þegar kemur að markmiðinu að þrýsta fast á nostalgíuhnappa fólks, en hingað til hefur ekki verið skýrara, ógeðfelldara dæmi um Copy-Paste endurpökkun á þessum skala.

Beauty and the Beast endurgerðin frá 2017 kom býsna nálægt slíkri nálgun en bætti þó smávegis (drasli) við. Meira að segja nýi Aladdin fann nokkra nýja vinkla og Dumbo líka. The Lion King endurgerðin er í orðsins fyllstu merkingu pjúra uppfærsla – og tilfærsla á teikniformi. Hún er meira æfing í vörumerkjagræðgi og fótó-realisma í tölvubrellum. Stórglæsilegur afrakstur sem slíkur og ekki alvond kópering, en hreinræktuð kópering engu að síður. Sköpunarvinna og listrænt frelsi er í algeru núlli og til að bæta gráu ofan á svart hafa lögin ekki sama kraft og í teiknimyndinni.

Myndin kemst engan veginn hjá samanburði við uppruna sinn vegna þess að hún stólar alltof mikið á hann – og tengingu fólks við hann – án þess að betrumbæta, dýpka eða gera nokkuð framandi með aðlögunina.

Það þýðir ekki bara að klessa gömlu senurnar á skjáinn með sömu músík, og nýrri grafík, og ætlast svo til þess að þau gefi frá sér nákvæmlega sömu tilfinningahögg. Það sem glatast þarna í endurfæðingunni er til dæmis ýkta, tjáningarríka og hádramatíska levelið sem þessi sama saga hamraði svo fínt í eldra teikniforminu.

Konungur ljónanna án litadýrðarinnar og ríku svipbrigði karaktera er bara geldur, óaðlaðandi skjávari. Hans Zimmer-tónlistin og lögin almennt í myndinni eru sennilega stærsta ástæða þess að teiknimyndin er talin svona… sígild. Sjálfsafgt hafa ófáir fengið gæsahúð þegar fyrsti ramminn rís með sólinni og Hringrás lífsins hefst með góðu gargi. 

Á nokkrum stöðum bregða fyrir kaflar í nýju myndinni sem framkalla með naumindum þessa sömu tilfinningu og uppruninn gerði, en svo tekur “uncanny-valley” truflunin við eða þessi stórundarlegi metnaður fyrir því að taka “skot-fyrir-skot” afrit af römmunum. Það hættir aldrei að vera undarleg tilfinning að sitja yfir mynd þar sem aulahrollur og gæsahúð sync’ast saman í eitt á sama tíma.

Það er lítið út á nýju raddleikarana að setja í sjálfu sér, þó aldrei verður hægt að eiga séns í línuflutning manns eins og Jeremy Irons. Fyrst að James Earl Jones var fenginn aftur í hlutverk Mufasa hefði allt eins bara mátt fá Irons á ný sem skúrkinn bitra, ef ekki nota gömlu upptökurnar. Fáránlegri hlutir hafa nú gerst hjá höfuðstöðvum Disney. 

Þegar Seth Rogen reynir ekki að syngja kemur hann stórvel út sem Púmba, þó útlitslega útkoman á geltinum sé ekkert skárri hugmynd en það að gera Pöddulíf að live-action endurgerð. Billy Eichner er ekki slæmur Tímón heldur. Hann fær víst nýjan brandara sem markar eitt af betri mómentum myndarinnar. Svo má ekki gleyma hressilegri viðbót þar sem við fylgjum hárklumpi úr Simba og sjáum hann ferðast langar leiðir, gegnum lægðir og hægðir. Og það er nákvæmlega eins og þarna stendur.

Það má næstum því kalla það stór vandamál að handritshöfundurinn Jeff Nathanson fái í alvörunni kredit fyrir þetta handrit sem hann er titlaður fyrir, þegar réttast væri að nota upprunalegu höfundana með. Ef út í það er farið gátu framleiðendur alveg eins viðurkennt að efniviðurinn er oft kenndur við japanska seríu að nafni Kimba The White Lion. En það skiptir svo sem litlu máli hér. Sá „stuldur“ (sem er þó fullhæpaður) skrifast á upprunalegu teiknimyndina – sem þó lagði helling í sköpunarferlið, frá sögu til söngs, en nýja myndin á ekki að eigna sér frásagnartakta og allt klabbið úr originalnum og kalla það sitt eigið. Það skondna er hins vegar að þessi nálgun býður einnig upp á það að myndin erfir alla galla upprunalegu myndarinnar líka…

Rómantíski þráðurinn slær ekki á neina hjartastrengi því hún fær mjög flýttan fókus og tilvistarkreppa aðalpersónunnar hittir ekki nægilega í mark. Reyndar finnst mér Simba og Nala (ennþá) vera afskaplega þunnar persónur, sérstaklega miðað við það að flestallir aðrir eru mjög eftirminnilegir og sterkir í sínum prófíl.

Sem kvikmyndagerðarmaður hefur Jon Favreau aldrei verið beinlínis masterklassa sögumaður eða leikstjóri með brodd. Þó er ljóst að hann hafi greinilega öðlast fullmikið blæti fyrir tölvugerðum dýrum og skógarumhverfumum í (stórfína) Jungle Book rímeikinu til að telja sig trú um annað en að þetta gigg snúist eingöngu um að telja Disney-seðlana. Uppfærsla á The Lion King var greinilega eina leiðin fyrir Favreau til að finna auðfengnara fé en að gera framhald af Elf.

Myndin er nógu fínslípuð í grafík og hlaðin kostum uppruna síns til að vera ekki viðbjóðurinn sem tilvist hennar ætti að sýna fram á. Sem sjónarspil er augljóslega ýmislegt til að dást að og stafrænar kameruhreyfingar hafa aldeilis tekið stökk. Á þeim enda er nýja myndin alveg að smella, sama hvað dýrin urra hátt í tómri tunnu. Þá verður að spyrja sig hvort eina gagn The Lion King endurgerðarinnar sé að höfða til fólks sem hefur aldrei séð teiknimyndina, sem eru samt ómeðvitað að gera sér eilítinn ógreiða með því.

Besta senan:
Ferðalag hárklumpsins.

Sammála/ósammála?