IT: Chapter Two

Þá er komið að seinni hluta trúða- og óttaepík Stephens King, þar sem síendurtekin óttamótíf, uppgjör, minningar og fortíðardraugar eða andsettir skrípalingar ráða ríkjum. Því er ekki hæpið að segja að þessi skítþykka bók sé samansafn af öllum helstu King-formúlunum (Maine, útskúfun, vinátta, óþekkt illskuöfl, sálarhreinsun í gegnum fortíðaruppgjör, hinir hrottalegustu hrottar, rithöfundur í krísu o.fl.). Persónurnar hafa allar sinn djöful að mæta, sem tengist yfirleitt einhverju fráskildu skepnunni – t.d. samviskubit yfir fráfall persónu, martraðir úr æsku, andlegt ofbeldi o.fl.

Síðast fylgdumst við með krökkunum, nú er komið að fullorðna hópnum (þó búið sé að strá allnokkrar senur með krökkunum þar sem búið er að yngja þá aðeins með truflandi effektum). Sagan í grunninn pikkar ekki bara upp þráðinn 27 árum seinna, heldur hafa flestar persónur gleymt því sem gerðist – sem er í rauninni hin fullkomna afsökun til að gera nákvæmlega sömu mynd aftur.

Þessi sena er hilaríus! – var það… ætlunin?

Tæknilega og táknrænt séð setur Chapter risastórt stækkunargler á helstu vankanta fyrri kaflans – nánast eins og hún hafi verið stundum unnin af allt öðru aðstandendateymi. Hún er stærri, dýrari, ruglaðri, lengri, langdregnari, kjánalegri, meira þreytandi og ó-drungalegri á allan veg. Það er ágætis karaktervinna hér og þar en að sama skapi nær þessi samanlagða 5+ tíma heild ekki að gera öllum hópnum góð skil. Hún nær aðeins fínni lendingu á síðustu 40 mínútunum (sem er skondið í ljósi þess hversu oft King skýtur á það í þessum hluta hvað “rithöfundurinn” í sögunni er ömurlegur í því að skrifa enda), en tveggja tíma biðin fram að því er voðalega rykkjótt og óspennandi.

Fyrri myndin hafði sína spretti í hryllingi og múdi, á meðan þessi kemur oftar en ekki út eins og hálfbökuð Sam Raimi eftirherma í subbulega óhugnaði sínum, með slöppum brellum, klúðurslegum senubyggingum sem eru allan daginn hallærislegri frekar en skerí, illa tímasettum bröndurum og haug af litlum uppfyllingum og karakter-mómentum sem fyrri kaflinn var löngu búinn að dekka.

Bill Skarsgård er enn þrumugóður og hressandi sem Pennywise, þó gjarnan hefði mátt vera meira af honum í stað… allra þeirra skepna sem poppa upp í hans stað. Almennt er einhvern sjarma að finna í fullorðinshópnum, enda annað erfitt með svona fínt sett. Jessica Chastain og James McAvoy eru frábær þó þau séu á sjálfstýringu, talent sem fylgir víst leikurum sem eru *með’edda*. Bestur er sjálfsagt hinn ávallt hressandi Bill Hader, að gera það sem hann gerir best – að djóka yfir sig í aðstæðum og koma með sannfærandi taugaveiklun. Isaiah Mustafa (úr eldri Old Spice-auglýsingunum) er líka með góða nærveru en alveg eins og gerðist með fyrri hlutann fær persóna hans minni athygli heldur en ætti að vera sjálfsögð. Aukaplottið með svívirðilega hrottann kemur á annan veg út eins og pirrandi uppfylling, ef út í heildarhópinn er farið. Það liggur allavega strax fyrir að eldri hópurinn hefur ekki alveg tilgerðarlausu kemistríuna sem þessi yngri hafði.

Á stílísku leveli gerir Andy Muschietti ýmislegt fínt úr atmói sem minnir á hreint martaðar-karnival – í bland við grafalvarlega Beetlejuice á milli. Litapallettur- og lýsingarföndur nýtur sín á öllum þeim sviðum sem klipping, brellur eða hljóðvinnsla klikkar á. En IT: Chapter Two er góðum hálftíma allt of löng og hefði trúlega betur mátt nýta tímann sem hér er í boði. Af klippingunni að dæma er oft eins og hlunka vanti úr klippi sem hefði greinilega átt að vera lengra. Með því að brjóta upp bókastrúktúr Kings eins og þessar bíóaðlaganir (sjónvarpsmyndin þar meðtalin) hafa gert er úrvinnslan alltof mikið í endurtekningum og táknmyndum sem margbúið er að tyggja.

Að erfa galla bókarinnar er eitt, en fyrir aðstandendur að takast því furðulega verki að gera býsna leiðinlega og áhrifalausa hryllingsmynd um SNARKLIKKAÐAN TRÚÐADJÖFUL er eitthvað allt, allt annað skammarstig.Besta senan:

McAvoy í karnivali.

Sammála/ósammála?