Joker

Hver um sig getur leyft sér að sjá ýmislegt við sitt hæfi úr Joker; upphafssögu og nýjan vinkil á Batman-fígúru, stúderingu á misskildu fórnarlambi sem finnur sinn sess í skemmdum heimi sem óvænt byltingarhetja, eða stóru incel-íkveikjumyndina miklu og allt þar á milli.

Sjálfur sé ég mynd sem stelur ýmsum lykilhráefnum úr góðkunnum Scorsese-myndum og spilast út eins og Fight Club fyrir orkudrykkjakynslóðina, ef hún væri gerð af einstaklingi sem fattaði ekki að sú mynd væri um eitraða karlmennsku og neysluhyggju en ekki einhver ’90s-töffaramynd. Af sjálfstæðri, brútal Jókermynd að vera er myndin óvenju áhættulaus, stíf og ekki alveg nógu prakkaraleg, nema það teljist með að gera lag frá dæmdum barnaperra að upprisumúsík titilmannsins.

Í besta falli má segja að þetta sé fínasta forvitnisgláp sem sýnir hvað hægt er að gera utan ofurhetjugeirans. Í versta falli góð áminning til fólks um hvað Joaquin Phoenix er sturlað sterkur leikari.

Phoenix leikur sér að yfirborðskenndu klisjuhandriti og mjólkar úr því allt sem hann getur með smáatriðaríkri maníu, trúverðugu geðtapi og sannfærandi innri sársauka. Karakterinn sem hann leikur, aftur á móti, hann Arthur Fleck, er skrifaður eins og Óskarsbeitufígúra, þar sem eymdin er hlaðin á pari við vesældarstúlkuna Precious; hann er ítrekað beittur ofbeldi, átti ömurlega æsku, óheppnari en allt, treggáfaður, býr hjá móður sinni, hefur ekkert fyrir stafni, fær hverjar hörmungafréttirnar á eftir öðrum og ofan á það með fráhrindandi sjúkdóm sem veldur stjórnlausum hlátri þegar hann stressast upp. Það eina sem vantar upp á er myrt gæludýr til að sigla myndinni alla leið í harðkjarna tilfinningarúnk.

Arthur kemur út eins og honum finnist heimurinn skulda sér athygli; draumur hans er að verða uppistandari, þó hann hafi varla getu til að muna einn brandara. Arthur tekst með undraverðum hætti á einum tímapunkti að sá fræjum fyrir upprisu í glæpum huldufólks sem kennir ríka fólkinu um núverandi infrastrúktúr. Handritið virðist heldur ekki hafa neitt almennilegt að segja með innliti sínu. Sagan skoðar til dæmis ekki samfélagslega sögusviðið með dýpri skoðun en „ríkir eru vondir, við hin erum góð“. Hvað það varðar keypti undirritaður það aldrei að Arthur gæti óvart komið byltingu af stað með þeim litla hætti sem hann gerir þegar borgin er í niðurrifum fyrir.

Jókerinn hefur í gegnum áratugaraðir verið teiknaður upp í margs konar stærðum, gerðum og gervum og það verður að segjast að Arthur Fleck ber ýmis merki um athyglisverða nálgun. Það sem rænir honum samt þeim prófíl að vera athyglisverð persóna er hversu lítið jákvætt er dregið upp úr honum; hann hefur enga sýnilega hæfileika, ekkert karisma, enga snilligáfu eða neitt sem sver hann í sambærilega ætt við þekktasta glæpatrúð í sögu dægurmenningar.

Þegar þú rammar Arthur inn í þennan Batman-heim, þá veistu nákvæmlega hvert framvindan stefnir með aðalkarakterinn og skilur þetta lítið pláss eftir fyrir tilraunastarfsemi. Þar af leiðandi skiptir í rauninni engu hvort maður trúi því að hann komist frá B til C, svo lengi sem C er endastöðin þar sem hann öðlast status sem einhver glæpafyrirmynd. Myndin vill tilheyra Gotham-heiminum en vill samt ekki vera með neinu móti bendluð við nein hasarblöð. Þess vegna kemur umrædd tenging frekar pínlega út, enn fremur í ljósi listræna frelsisins sem handritið tekur á upprunalegu fígúruna, og hefði myndin verið trúlega betri sem sjálfstæð, óháð saga – þótt tengingin sé 90% ástæða fyrir aðdraganda vinsældanna, sama hvaða sögu þú dressar þarna undir.

Til að efla genin við Taxi Driver og The King of Comedy er Robert De Niro mættur á svæðið í Joker til að gera örlítið meira en að hirða launin sín. Þótt nærvera De Niros bæti vissum, auknum glæsibrag á heildarverkið er maðurinn ekki alveg réttur maður í hlutverk spjallþáttastjórnandans sem Arthur lítur upp til. Hin efnilega Zazie Beetz (úr Deadpool 2) er fínn viðauki í hópinn en henni er algjörlega sóað með rullu sem er í sjálfu sér tilhlaup að ódýrri handritsreddingu – sem verður fyrirsjáanleg frá þriðju mínútu. Frances Conroy er annars vegar frábær sem móðir Arthurs og hefði mátt fá meira til að vinna úr.

Á jákvæðu nótunum má alveg skrifa það á Hildi Guðnadóttur að hún eigi annað aðalhlutverk myndarinnar. Þrúgandi sellóið hennar gerir sumar skelflatar senur að litlu kraftaverki í mómentinu og skapar tónlistin almennt drunga sem gefur gráan skugga á jafnvel þær senur sem koma einhverri skammlífri gleði til skila. Hildur hefur átt magnað ár í ár með meiri háttar stefjum úr Chernobyl og opnar fjöldann allan af dyrum og tækifærum með framlagi sínu hér. Það eru að lágmarki þrjár til fjórar senur sem eru stórkostlegar í gegnum magnaðan samruna aðalleikarans og tónlistar Hildar.

Merkasti brandari Jókersins frá upphafi umtalsins var að sannfæra heiminn um að myndin byði upp á djúpar umræður og grandskoðun til að byrja með. Ýmsir fjölmiðlar og hópar veltu lengi fyrir sér hvort myndin væri í raun stórhættuleg, að hún gæti sérstaklega hvatt kynsvelta karlmenn til vafasamra aðgerða vegna versnandi samfélags um heim allan. Þetta finnst mér umræðuverður punktur og er skiljanlegt að það vakni spurningar.

Persónulega trúi ég ekki að nein kvikmynd ætti að teljast ábyrg fyrir vandamálum sem finnast víða fyrir, en allt er svosem líklegt í raunheimi þar sem margir veikir tóku A Clockwork Orange til abstrakt fyrirmyndar á sínum tíma, fólk stofnaði alvöru slagsmálaklúbba og manneskja hefur bókstaflega kafnað úr hlátri í miðju áhorfi á A Fish Called Wanda. Svo skulum við ekki gleyma hópnum sem horfði á Avatar og var langt kominn í sjálfsvígshættu þegar í ljós kom að Pandora væri ekki raunverulegur staður.

Joker espir trúlega einhvern minnihlutahóp með bjagaðri en eldfimri hugmyndafræði en þegar öllu er á botninn hvolft er myndin ekkert hættulegri neinum frekar en Paddington eigi sök á að valda köfnun á marmelaðisamlokum.

Sennilega, ef myndin væri hlaðin meiri súbtextum og handritshöfundar vissu sjálfir hver skilaboð og þemu sín væru, yrði lokaverkið meira tilbeðið með skaðlegri hætti. En eins og stendur er um að ræða býsna innantóma mynd sem lúkkar vel og gargar hátt. Djókurinn er of alvarlegur til að virka og alvara myndarinnar of mikill djókur.


Besta senan:
Dýr ráð hjá dverg.

Sammála/ósammála?