Þorsti

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá þurfum við Íslendingar á Þorsta að halda núna, burtséð frá notagildi eða meintu ágæti lokavörunnar.

Formúla þeirra kvikmynda sem Ísland framleiðir í bílförmum er orðin skopstælingu líkust (aftur, burtséð frá gæðum) en á undanförnum þremur mánuðum höfum við til dæmis fengið þrjár íslenskar kvikmyndir sem í grunninn snúast um miðaldra hversdagsfólk utan höfuðborgarsvæðisins sem upplifir stöðnun, vonleysi og brotna fjölskyldu. Samtímasögurnar eru yfirleitt vandaðar en húðaðar svo mikilli grámyglu að áhorfendur fer þá eðlilega að þyrsta í nýtt bragð í þá flóru sem við höfum. Þar kemur Þorsti eins og kölluð, þótt lendingin sé allt önnur saga.

Þorsti er hinn undarlegasti bræðingur; „gay vampíru-geiramynd með sprautukláms- og trúarlegu ívafi“ hljómar eins og meiri brandari en lokaafraksturinn býður upp á, en með svona lýsingu er eins gott að myndin standi undir væntingum.

Útkoma Þorsta er í eðli sínu eins og risastór mótsögn; hún er ódýr en aðstandendur bera ódýra yfirbragðið með stolti. Hún er illa leikin en nógu yfirdrifin til þess að það skipti litlu máli. Hún er subbuleg en gengur sjaldan nógu langt með eigin viðbjóð til að seðja viðbjóðshungur þeirra sem sjá hana (ekki nema viðkomandi finnist það sprenghlægilegt að sjá alltaf sama afskorna gerviliminn aftur og aftur). Efnislega er allt tekið af ákveðnum klisjulager en þó hefur tekist að salta inn ýmsum bröndurum sem bragðbæta steikina.

Myndinni er leikstýrt af þeim Steinda Jr. og Gauki Úlfarssyni (sem gerði meðal annars heimildamyndina Gnarr) og má bæði sjá hana sem sjálfstætt flipp og sem lokaþátt seríunnar Góðir landsmenn, sem félagarnir unnu saman að ásamt áhugaleikhópnum X. Þættirnir eru í rauninni eins og óvenjulega bitastætt baksviðsefni (í gerviheimildarstíl) fyrir gerð Þorsta – og þar af leiðandi hluti af stóra gríninu. Skemmst er frá því að segja að viðkomandi fær eflaust meira út úr Þorsta ef hann eða hún hefur fylgst með sjónvarpsþáttunum þótt það sé ekki beinlínis skilyrði. En áhorfandi sá er þó líklegri til að fyrirgefa vankanta Þorsta öðrum fremur.

Leikhópurinn X er í besta falli misgóður, en þegar B- eða-C mynd er til umræðu er það eins og fylgihlutur ákveðins sjarma – og sennilega viljandi gert í þessu tilfelli. Það er líka eitthvað svívirðilega fyndið við það að setja reynda statista og áhugaleikhóp í burðarhlutverk og á móti leyfa reyndara fagfólki (á borð við Ingvar E. Sigurðsson, Halldóru Geirharðsdóttur og makalaust meinfyndinn Jón Jónsson) að hverfa í bakgrunninn. Þvert á það sem þó kannski mátti við búast er Hjörtur Steinason, lykilmaðurinn sjálfur, afskaplega hentugur í hlutverk samkynhneigðu vampírunnar með hjarta úr gulli og sundurslitna belli í vasanum. Hulda Lind Kristinsdóttir er líka furðu efnileg á móti honum og sýnir mestu tilþrifin á skjánum – fyrir utan Unnstein Manúel í hlutverki pylsusala, vissulega.

Ég er smá – eins og sagt er – „on the fence“ með hann Jens gamla Jensson og hina meðlimi áhugaleikhópsins. Þetta er tilfinning sem er gegnumgangandi út alla myndina. Á einum tímapunkti er stutt í leiftrandi kjánahroll en svo kemur augnablik sem fer hringinn og verður að gulli. Frasarnir hjá Jens eru sumir svo slæmir að þeir verða nánast frábærir. Ef markmið Þorsta var að vera drasl og snilld til skiptist, þá tókst henni það með látum.

Það verður þó seint rifið af Þorsta, þrátt fyrir takmarkað framleiðslufjármagn, hvað myndin er stílhrein á flestum sviðum. Hljóðvinnsla, myndataka og ekki síður tónlistin er dýnamísk og rammar inn gómsætan „grindhouse“-fíling. Hápunktur myndarinnar er þó undarlegur teiknimyndakafli – sem hefur nákvæmlega ekkert með afgang framvindunnar að gera – en það skrifast á þau Jón Gnarr og Andreu Björk Andrésdóttur grafíker að taka gegnsósa sýru alla leið. Í rauninni hefði myndin alveg mátt stíga oftar út fyrir „innihaldið“ og bæta ofan á ringulreiðina, því verkið sem eftir stendur er oftar en ekki örlítið þunnt og mætti vera betur tennt, ef til vill blóðugra.

En eins og áður segir bætir Þorsti við nýjum lit í bíóflóru landans. Myndin treður sér eins og óboðinn gestur í dannað sveitapartí íslenskrar kvikmyndagerðar og krefst þess að gamla fólkið á svæðinu spili konga allsbert í svartmyrkri. Það að hægt sé að skemmta sér yfir henni annað slagið er í rauninni bónus, en bókað er að myndin skapi sér eins konar „költ“-sess þegar fram í sækir hjá hópum sem sameinast í bjór- eða jónupartí til þess eins að hlæja að myndinni jafnt og með. Ekki er ólíklegt að meðlimir Leikhópsins X verði á meðal þeirra.

Besta senan:
Sögustund í Gnarrenburg.

Sammála/ósammála?