Íslenska í Hollywood:„Farðu til andskotans!“ – „English, hálfviti“

Það er mikið sport að hlæja að því þegar erlendir leikarar spreyta sig á íslensku tungunni. Íslenskan er einmitt sögð vera eitt erfiðasta tungumál í heiminum fyrir utanaðkomandi fólk til að læra.

Í hinum ýmsum þáttum og kvikmyndum hafa leikarar oft valið „styttri“ leiðina og kallað það gott á meðan  fólk reynir einstaka sinnum að leggja meiri metnað í málið svo hið litla hlutfall Íslendinga í áhorfendahópnum reki ekki upp prakkaralegt glott.

En hvenær hefur íslenskan verið töluð í sögu poppkúltúrsins?
Rennum yfir skrautleg dæmi og gefum tilrauninni einkunn fyrir drengilega tilraun.

Allir í óvinaliðinu – D2: The Mighty Ducks (1994) „Farðu til andskotans!“

Íþrótta- og fjölskyldumyndin D2: The Mighty Ducks er löngu orðin sígild á Íslandi fyrir það eitt að bandarísku lítilmagnarnir gerast erkióvinir óhuggulegu Íslendinganna sem þeim mæta. Það ríkir mikil spenna út alla myndina á milli beggja liða og vantar að sjálfsögðu ekki fjandskapinn í fleygðum orðum. „Hverjir eru bestir?“ hrópar til dæmis íslenski þjálfarinn til að peppa lið sitt, en þjálfarinn ber heitið Wolf Stansson og sá er leikinn af danska leikaranum Carsten Norgaard. Hápunktinum er hins vegar náð þegar einn Íslendingurinn reynir að segja einum Kanadrengnum að hann muni komast að því hvað það þýðir að fara til andskotans. Hótunin er pínu ryðguð en fyrir sómasamlega tilraun gefum við henni einkunnina 6 af 10.

Jonah Hill – Maniac (2018) „En ég drap hann“

Leikarinn Jonah Hill talar ansi bjagaða íslensku í einum þáttanna Maniac, en þar kemur sérkennileg Íslandstenging fram. Atriðið sem sjá má hér fyrir ofan komst heldur betur í umræðuna hér á landi og hefur meira að segja leikstjóri þáttarins gefið upp að upphaflega hafi staðið til að talsetja Hill. Þess vegna hafi leikararnir nánast bullað línurnar sínar á íslensku, því ekki átti að notast við þær. Þegar þeir heyrðu síðan útkomuna þótti liggja beinast við að nota upprunalegu tökuna, en landsmönnum þykir hún alls ekki vera upp á marga fiska (4/10).

Eins og annar karakterinn segir best sjálfur: Þetta var slys.

jonah hill hefur greinilega lært að tala íslensku með því að hlusta á lið á skallanum í taxaröðinni eftir lokun í bænum pic.twitter.com/kbMVOVqfI5 — p☆lmi (@pa1mi) September 24, 2018

En talandi um fiska…

Jason Momoa – Justice League (2015) „Nokkuð viss um að hann láti mig hafa þá hvort sem er“

Stórmyndin Justice League var tekin upp hér á landi og í einni senu glittir í Ágústu Evu og ekki síður Ingvar E. Sigurðsson, sem leikur bæjarstjóra sem spjallar örlítið við sjálfan Leðurblökumanninn. Einnig bregður fyrir hinum eina sanna Jason Momoa, sem leikur Aquaman í myndinni, en sagt er að hann hafi lært örlitla íslensku hjá Ingvari og hleður Momoa í setninguna „Nokkuð viss um að hann láti mig hafa þá hvort sem er.“ Þetta segir hann þegar honum bjóðast 25 þúsund dalir fyrir að finna Aquaman. Hreimurinn er auðvitað bjagaður en við höfum heyrt miklu verra. Segjum 5/10.

Karl Urban og fleiri – Pathfinder (2007) „Þá talar þá eins og manneskju!“

Í kvikmyndinni Pathfinder er íslenskan allsráðandi hjá illkvittum víkingum sem gegna hlutverk skúrka myndarinnar. Leikarinn Clancy Brown er þar fremstur og fær að leika sér að nokkrum yndislega hallærislegum frösum sem varla er hægt að kalla ryðgaða, heldur nærri því óskiljanlega. Hinn góðkunni Karl Urban slæst síðan í för með íslenskumælandi villimönnunum og stendur hann sig satt að segja ekkert betur. Aftur á móti er töluvert skemmtanagildi að finna í myndinni og hvernig hún matreiðir þessa íslensku frasa, sérstaklega þegar líður á seinni hlutann. Tilraunin er góð, en var í alvörunni svona erfitt að læra fáeinar setningar? (5/10)

Tuppence Middleton – Sense8

Karakterinn Riley úr Sense8 sem Netflix gerði var íslensk. Tuppence Middleton, lék plötusnúðinn sem þurfti að flýja vandræðafortíð sína frá Íslandi þar sem hún hafði átt eiginmann og barn sem létust í bílslysi. Tuppence fær ákveðinn frípassa þar sem hún talar mestmegnis ensku en þó laumast íslenskan í gegn annað slagið. Hún Riley heimsótti föður sinn Gunnar hér á landi en komst þá að því að hún átti ekkert að koma aftur. Ekki er leiðinlegt heldur þegar tónlistarmaðurinn KK dúkkar upp í hlutverki föður hennar.

David Patrick Kelly – Twin Peaks „Tökum saman höndum“

Íslenskir viðskiptamenn slógu í gegn í þáttaröðinni Twin Peaks. Þeir héldu karakternum Cooper vakandi með því að syngja Öxar við ána og Frost á fróni í sjötta þætti, sauðdrukknir að sjálfsögðu. David Patrick Kelly, sem lék Jerry Horne, meira að segja prófar að tala íslensku og segir„Við erum öll íslendingar“. Skemmst er að segja frá því að söngurinn fær fullt hús stiga, en síðarnefndi frasinn haltrar ansi langt á eftir (4/10).

Homer Simpson/Dan Castellaneta – The Simpsons (2013) „Ég er með frábæra hugmynd“

Ísland er mikill örlagavaldur í lokaþætti 24. þáttaraðarinnar í The Simpsons. Þátturinn ber heitið The Saga of Carl Carlsson og kemur þar í ljós að samstarfsfélagi Homers á sér rætur að rekja til Íslands. Í lokaþættinum umrædda detta Carl, Lenny, Homer og bareigandinn Moe í lukkupottinn þegar þeir hreppa stóra vinninginn í happdrætti Springfield. Carl ákveður hins vegar að stinga af með allan peninginn til Íslands. Hinir þrír, með Homer í broddi fylkingar, ætla ekki að láta Carl komast upp með svikin og leggja af stað í norrænt ferðalag. Homer telur þetta vera frábæra hugmynd og það er erfitt fyrir okkur að vera ósammála þeirri fullyrðingu (7/10).

Samuel L. Jackson sendir Íslendingum kveðju (2016) „Heimili Fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn“

Í kynningarbroti fyrir ævintýramyndina Miss Peregrine’s Home for Peculiar Children var reynt eftir bestu getu að fá ofurtöffarann Samuel L. Jackson til að segja heiti myndarinnar á íslensku. Niðurstaðan, eins og sjá má að ofan, var ekki alveg áreynslulaus en ákaflega hressileg engu að síður. Þá er bara að deila um það hvort hann eða yngri mótleikarar hans hafi staðið sig betur eða hvort allir svífi í kringum meðallagið.

(??/10)

Týndi víkingaformálinn – Atlantis: The Lost Empire „Heigull!“

Disney-teiknimyndin Atlantis fór framhjá óvenju mörgum á sínum tíma, enda fjarri því að vera með vinsælli teiknimyndum samsteypunnar. Það má að vísu hafa gaman af því hvernig litla Ísland tengist stærri dulúð sögunnar um hina týndu Atlantisborg, en það sem ekki allir vita er að upphafssena myndarinnar átti alfarið að vera á íslensku. Þar sjáum við ýmsa víkinga í háska og gefur senan tóninn fyrir ævintýrið sem bíður áhorfenda. Eitthvað þótti senan þó ekki alveg falla í kramið og var hún skilin eftir á klippigólfinu. Þetta er mikil synd í ljósi þess að flutningur íslensku tungunnar er hreint gallalaus. (10/10)

Leifur Sigurðarson – Mortal Engines (2018) „English, hálfviti!“

Hera Hilmarsdóttir er ekki eini Íslendingurinn sem fær að spreyta sig í stórmyndinni Mortal Engines. Vissulega er hún í langstærsta hlutverkinu, en því má ekki gleyma að Leifur Sigurðarson fer með eftirminnilegt aukahlutverk þar sem hann lætur vel um sig fara. Þegar ein persóna myndarinnar útskýrir gangverk söguþráðarins og markmið hetjanna grípur þó Leifur fram í með dásamlegum frasa þar sem hann biður um sömu útskýringu á mannamáli.

Jay Hernandez – Hostel (2006) „Sneepur patrol“


Ófáir muna eflaust eftir graðhestinum honum Óla úr hrollvekjunni Hostel. Hann var hressilega leikinn af Eyþóri Guðjónssyni og fékk persónan aldeilis að leika sér með Íslandsrætur sínar. Þessar rætur náðu vel að smitast yfir á aðra karaktera myndarinnar og ekki síst þegar kom að því að kenna Könunum á hvað orðið „snípur“ þýðir. Leikarar eins og Jay Hernandez og Derek Richardson tóku Óla sér til fyrirmyndar í ýmsum efnum en ein furðulegasta arfleið hans í myndinni er að koma bolum í tísku sem voru merktir „Sneepur patrol.“

Jú, þetta telst með… en erfitt er að gefa heimamanninum annað en hæstu einkunn fyrir að koma tungunni í amerískan viðbjóð sem talaði til margra. Eitt af uppáhalds mómentum Íslendinga er trúlega þegar vel pirraður Óli gargar af fullum hálsi „Djöfulsins!“

Víkingar ganga berserksgang – Baywatch Nights „Grrrrrr“

Íslenskir víkingar vöknuðu eftirminnilega til lífs í þáttunum Baywatch Nights. Þýski höfðinginn David Hasselhoff kemst þar í krappan dans við villimenn úr fortíðinni sem þarf að sjálfsögðu að stöðva. Því miður eru víkingarnir alltof pirraðir til að koma úr sér almennilegum frösum, en segja má að þeir urri að minnsta kosti með miklum stæl.

Þetta kallar maður gott sjónvarp.

Brendan Fraser og Josh Hutcherson – Journey to the Center of the Earth

Ævintýramyndin sem heitir á okkar máli Leyndardómar Snæfellsjökuls býður áhorfendum upp á tvo þekkta leikara, þá Brendan Fraser og Josh Hutcherson, að reyna eftir bestu getu að bera fram íslensk heiti – til að mynda orðið Snæfellsjökull. Það hjálpar að hafa eina efnilega Anítu Briem á svæðinu til að leiðbeina þeim en þegar herrarnir skiptast á heitum verður vissulega til úr því mikil kómík – sem nánast ein og sér gerir myndina þess virði að smella í gang. Gefum mönnunum gjafmilda einkunn fyrir að prófa að minnsta kosti (6/10).

Ótalmargir – Vikings

Manst þú eftir fleiri dæmum um bjagaða (eða flekklausa) íslensku í poppkúltúr? Lát þá heyra að neðan.

Sammála/ósammála?