Cats

Kvikmyndina Cats þarf nánast að sjá til þess að trúa, þótt sennilega sé vænlegast að sleppa því að sjá hana. Hér er um að ræða mynd sem leggur allt undir, með ómælda einlægni að vopni og vilja til að setja nýstárlegan svip á eitthvað gamalt. Útkoman er einstaklega mislukkuð, makalaust súr, löðrandi í blætiskenndum yfirtónum, einhæfum dansnúmerum, predikunum og áferð sem snýr hvorki upp né niður. Myndin er þar af leiðandi allt sem umtalið hefur lofað og meira til, sem og miklu minna.

Það segir sig reyndar sjálft að notagildi kvikmyndar sem samanstendur aðallega af söng stendur og fellur svolítið með þeim fjölda laga sem falla í kramið hjá aðdáendum. Cats, eins og margir vita, kemur úr smiðju hins virta söngleikjahöfundar Andrews Lloyds Webber (sem hefur einnig getið af sér Superstar, Evítu og Óperudrauginn, svo dæmi séu nefnd) og er því nokkuð gefið að ágætis púður hafi verið lagt í stærsta aðdráttarafl þessarar kvikmyndar. Þar að auki er um að ræða langlífasta Broadway-söngleik allra tíma og ljóst að verkið á sér dygga aðdáendur.

Með umræddri bíóaðlögun hafa aðstandendur þó krukkað í upprunalega verkið með alls konar skáldaleyfi, bæði í sögu- og dansuppsetningu, og tekst myndinni þá bæði að útiloka sinn stærsta kjarnahóp og megnið af nýgræðingum – fyrir utan það að vera einfaldlega útlitslega eintómt martraðarfóður, efnislega úti á þekju og sjarmalaus fyrir allan peninginn. Og aldeilis hefur peningum verið dælt í þessa „kattarstrófu.“ Þó er óneitanlega jákvæðan punkt að finna í sviðsmyndum og hönnun þeirra, en það hrós gæti stafað af því hversu mikil pína er að fylgjast með útliti og förðun leikaranna sem eigna sér forgrunninn.

Oft er sagt að það þurfi mikla hæfileika til að framleiða almennilega bitastætt sorp og hér sinnir enginn sínu verki af hálfum hug; frá leikstjóra myndarinnar (og það er sami maður og ber ábyrgð á því að leyfa Russell Crowe að góla tímum saman í Vesalingunum) til framleiðsluteymis og að sjálfsögðu þeirra skemmtikrafta sem tjaldið prýða í hinum ljótustu kattargervum. Þess vegna má spyrja sig hvort betri nálgun hefði ekki verið að fara alla leið með stílinn og dressa verkið upp sem tölvuteiknimynd, fyrst hún er þegar með hálfan fótinn þar inni hvort sem er, föst á einhverjum undarlegum millivegi eins og enn eigi eftir að klára alla fínslípun. Á þeim nótum er orðið víðfrægt núna að aðstandendur reyndu sitt besta til að lagfæra heildarsvipinn eftir eitruð viðbrögð við fyrstu stiklu myndarinnar, en þú getur endalaust skreytt hvaða úrgang sem er með punti og kallað það gjörning án þess að hægt sé að fela þá staðreynd hvað um ræðir – burtséð frá því að þú losnar aldrei við lyktina.

Gífurlegt fagfólk á borð við Jennifer Hudson, Idris Elba, Ian McKellen og Judi Dench kemur án efa skást út úr þessari háfleygu djöflasýru, að því gefnu að hægt sé að komast yfir truflandi og gervilegt útlit, sem er blanda af vandaðri búningavinnu og ferlegum tölvubrellum. Hudson á heiðurinn á því að tileinka sér lagið Memory, þekktasta einsöng verksins, sem hún skilar af sér með prýði, en sögunni tekst aldrei að vinna sér inn þann hápunkt sem lagið táknar. Framvindan er geysilega þunn og samanstendur mestmegnis af trúarrausi, misskýrum allegóríum og fígúrum sem koma og fara með þeim eina tilgangi að kynna sig og hverfa síðan á brott. Hver fígúra er mikill karakter en annað hvert númer er meira eins og uppfylling. Sagan reynir að segja það beint út undir lokin að kattardýr og mannfólk eigi meira sameiginlegt í sínu eðli en mætti ætla, en út frá táknfræðilegu gildi er lítið í innihaldinu sem styðst við það.

Að mynda samantekt á klúðri eins og Cats býður ekki upp á neitt annað en aragrúa af kattartengdu orðagríni. Þó liggur við að um meira slíkt sé að ræða í sjálfri myndinni en í samanlagðri slæmri gagnrýni. Þetta gefur þá lúmskt í skyn að aðstandendur hafi ekki aðeins verið meðvitaðir um eigin fáránleika, heldur búnir undir skítkastið. Það er gott að þeir undirbjuggu sig vel, þótt gjarnan hefði mátt nota sambærilega undirbúningsvinnu í afganginn af innihaldinu. Metnaðinn vantar svo sannarlega ekki í verkið frekar en sálina, en hvort tveggja týnist gjörsamlega innan um taktlausu fíflalætin og framsetningu sem er lapþunnum farsa líkust. Þó væri hægt að afsaka helstu brotin ef myndin væri ekki fyrst og fremst hundleiðinleg. Þetta kemur frá einstaklingi sem er bæði mikill aðdáandi söngleikja og kattardýra, en að áhorfi loknu þarf undirritaður mögulega að endurskoða ást sína á hvoru tveggja.

Besta senan:
McKellen á sviðinu.

Sammála/ósammála?