50 „bestu“ myndir áratugarins

Nýtt ár, nýr áratugur. Tímabilið 2010-2019 var gífurlega sterkt fyrir listgreinar, eins og þau flest, en kvikmyndaframboð hefur aldrei verið meira og eru yfirleitt flest bíóár sterk á marga vegu, þó ekki sé kannski alltaf að finna pjúra meistaraverk (þó sitt sýnist hverjum og allt það). En öldin er orðin önnur með tilkomu fleiri streymisveita og þeirrar staðreyndar að línan á milli „sjónvarpsefnis“ og „kvikmynda“ sé endalaust farin að blörrast. Margar bíómyndir núorðið eru eins og stórir sjónvarpsþættir, og haugur af sjónvarpsþáttum spilast út eins og langar, vandaðar bíómyndir.

Topplistar eru alltaf snúið fyrirbæri og þykir mér orðið leiðinlegra með tímanum að nota orðið „best,“ heldur í stað „uppáhalds“. Ef ég myndi reyna að setja á mig hlutlausu húfuna og meta allt eins blákalt og hægt væri, myndi súmmering á undanförnum bíóáratug samanstanda af ansi þurru efni og flötum lýsingum. Kvikmynd getur fyrir mér virkað eins og hún sé „objectively“ stórkostleg en samt ekki snert mig neitt persónulega. Margar af mínum uppáhalds kvikmyndum eru yfirleitt meingallaðar á einhvern hátt, en lifa hjá mér fyrir það eitt að skilja einhvern kraft eftir sig – og betla eftir fleiri glápum.

Ég gæti ómögulega gert þessum liðna bíóáratug almennilegt réttlæti án þess að telja upp 100+ kvikmyndir og eyða minnst sjö hundruð orðum í hverja einingu. En nei takk. Topplistar, rétt eins og stjörnugjafir, skipta í rauninni ekki neinu máli, nema fyrir undirritaðan til að þykjast gorta sig eða í betra falli vonast að einhverjir þarna úti rekist á einhvern gimstein sem vonandi gefur þeim eitthvað í lífinu seinna meir, hvort sem það væri vandað en lágstemmt drama frá Japan eða súrrealísk amerísk unglingamynd um slagsmál, andlegan farangur og indírokk. En aftur, topplistar skipta engu máli og fólk skal alltaf taka smámunasemi í uppsetningu slíkra með fyrirvara.

…Að því sögðu, þá möndlaði ég þennan lista yfir fimmtíu bestu uppáhalds myndir mínar frá árunum 2010-2019. Ég setti efstu fjörtíu í stafrófsröð og tel gagnslaust að númera þær. Þær eru ALLAR æðislegar í mínum huga, hver á sinn hátt. Ég númera þó efstu tíu.

Dembum okkur í þetta.

A Seperation (2011)

Umhugsunarvert réttardrama og frábærlega ofin lítil mystería. Bruninn er hægur en spennandi og stingur út í eitt. Ef Asghar Farhadi er ekki löngu kominn á þinn radar er gráupplagt að breyta því…

Birdman (2014)

Þetta eru „tilgerðarlegheit“ að mínu skapi. Stíllinn er frábær. Keaton hefur aldrei verið magnaðri (nema í The Other Guys), Norton leikur óborganlegan rasshaus, liðsaukinn er æðislegur og „stress-/svefngalsakeyrslan“sem leikstjórin fangar gerir myndina bæði þrususkemmtilega og áhrifaríka, en hún er glæsilega unnin fyrir.

Blade Runner 2049 (2017)

Það er því miður allt húrrandi glæsilegt við þessa (semí-sjálfstæðu) framhaldsmynd sem enginn vildi. Þetta sýnir einungis það að við nördarnir vitum ekkert hvað við viljum. Blade Runner 2049 er allt og meira af því sem existensíalíska, cyberpunk-elskandi hjarta þráir. Hún er ekki jafn „íkonísk“ eða byltingarkennd og fyrri myndin, en stærri, lengri, hnitmiðaðri, dekkri, hlýrri og öflugri fyrir minn smekk.

Blue is the Warmest Color (2013)

Ást. Uppgötvun. Þroski. Mistök. Sundrun. Minningar.
Það er fjári margt sem Blue is the Warmest Color tekst á við úr hinum súrsæta hversdagsleika og þó hundlöng sé (þrír tímar eða svo…) breytir hún áhorfandanum í flugu á vegg í lífi þeirra Adéle og Emmu. Firnasterk frammistaða skjáparsins, persónuleikar þeirra og viðtengjanlegar tilfinningar beggja halda öllu gangandi.

Boyhood (2014)

Boyhood er ekki í neinni merkingu „afþreyingarmynd“ en hún er klárt mál algjör meistaragjörningur og svo grátlega mannleg, óglamúruð, fullkomlega „þurr“ og viðtengjanleg kvikmynd að heildarverkið rífur í réttar rætur.

Django Unchained (2012)

Ef einhver segir: „Nefndu eina brjálæðsilega kúl kvikmynd, strax!“ myndi heilinn ekki vera lengi að stökkva á Django!
Það er bara allt svo svalt, yfirdrifið, blætiskennt og þræl(?)skemmtilegt við þessa mynd. Þessi sjöunda mynd Tarantinos er háklassa bíógláp með tennur, ýkt fræðslugildi, gallalausa umgjörð og leik margra meistara.
Ef við gætum aðeins mínusað gestahlutverk leikstjórans og ástralska hreiminn hans…

Enemy (2013)

Frumleg, óhugnanleg, abstrakt, forvitnileg, hnyttin, skerandi, tóbaksgulari en allt og Gyllenhaal, eina ferðina enn, er gífurlegur pró í burðarhlutverkinu – báðum.

Faces Places (2017)

Andlát hinnar einstöku listakonu Agnès Varda gæti haft eitthvað með þetta val að gera, en það breytir því samt ekki að Faces Places er á sinn hátt einfaldlega hress, hlý, manneskjuleg og ánægjuleg heimildamynd. Gífurlega gefandi meðal fyrir sálina. Og jú… Agnès ervissulega ómótstæðileg þarna.

Force Majeure (2014)

Það eru fáir þessa dagana sem matreiða stúderingu á brotinni karlmennsku eins og Ruben Östlund. Í þessu bítandi og dúndurskemmtilegu drama eru hlutskipti „kjarnafjölskyldunnar“ og hrörnandi hjónaband sett í gervi sem minna á stórslysamynd. Tragísk ræma og ó-svo hlægileg líka.

Gone Girl (2014)

Gone Girl er nútíma klassík að mínu mati. Einn ferskasti dramatryllir síðustu ára og hreint drepfyndin, bleksvört kómedía í laumi. Hún er beitt, hún er skemmtileg, hún er rugluð – hún er snilld.

Her (2013)

Hún er bara frábær; heillandi, súr, hversdagsleg, ljúfsár. Arcade Fire-tónlistin spillir heldur ekki fyrir.

Kubo and the Two Strings (2016)

This image has an empty alt attribute; its file name is kubo-the-sisters.jpg
Þó þetta sé ekki dæmigerð fjölskyldumynd er svo sannarlega eitthvað sem allir aldurshópar geta fundið til að tengja við; karakterarnir, heimurinn, stíllinn, handritið, boðskapurinn eða ævintýrafílingurinn. Flott, frumleg og minnisstæð. Dásamleg.

Lof mér að falla (2018)

Það næsta sem Ísland hefur komist að því að gera Lilyu 4-Ever.
Bítandi, mannlega beisk, óþægileg, heillandi og gefur högg á magann án þess að freistast til að predika.

Logan (2017)

Ef ég leyfi mér að vera skítsama um X-Men og allt sem því tengist, þá stendur samt eftir kvikmynd sem fullkomlega gengur upp á sinn máta. Logan er brútal, manneskjuleg, hrá og með máttinn til að græta hinar hörðustu sálir. Jackman er stórkostlegur, Stewart líka. Handritið sterkt, tónninn glæsilegur, hasarinn smellur og dramað enn fremur. Svona er hægt að gera þetta og hvernig þessi mynd var ekki meira áberandi á Óskarnum (en Black Panther og Joker þá frekar?) mun ég seint skilja.

Moonlight (2016)

Því miður, en ég bara tárast í sálinni við að hugsa um þessa mynd, satt að segja.
Hún stingur í dramanu en búbblar upp ómældan sjarma í bjartari senunum. Lúkkið, leikurinn, rennslið, áþreifanleikinn, Moonlight er svo mikið málið.

Nightcrawler (2014)

Skítt með Jókerinn. ÞETTA er hin raunverulega „Taxi Driver fyrir nýju kynslóðina.“ Gilroy og Gyllenhaal hafa í sameiningu, með ómetanlegum liðsauka, skapað dökka, geðbilaða, óhugnanlega realíska, sjúklega kómíska karakterstúdíu og með djúsí ádeilu á sjokk-áráttu fjölmiðla ofan á það. Lou Bloom í forsetann.

Once Upon a Time in Hollywood (2019)

Mannlegasta kvikmynd Tarantinos í áraraðir, mögulega frá upphafi. Hér er dregið úr óðablætinu og geiraflakkinu og sækist leikstjórinn frekar í intróspektíva og gullfallega „tjill-mynd“. Niðurstaðan er ekki allra en frá mér séð lifandi, stórskemmtileg og er fátt í lífinu svalara heldur en Brad Pitt og hvernig hann ber sig í þessari mynd.

Parasite (2019)

Þetta snýst ekki orðið um hæp. Annað slagið kemur út kvikmynd sem er einfaldlega víða talin hin mesta skemmtun af góðri ástæðu. Ég hef kannski ekki leyft mér að rýna grimmt í öll smáatriði en allt við Parasite finnst mér ganga upp í samhengi óvenjulegrar afþreyingarmyndar; tónaskiptingarnar, ádeilan, persónurnar, ágreiningarnir og hið óvænta rothögg sem framvindan gefur á köflum. Bong Joon-Ho er endanlega kominn í meistaradeildina.

Raw (2017)

Einhver ferskasta þroska- og unglingasaga seinni ára – grótesk, skondin, óvænt og bítandi. Aðalleikkonan, Garance Marillier, er ómetanlega frábær samkvæmt öllum mælikvörðum og mótar eina eftirminnilegustu persónuna sem fylgir þessum lista. Og músíkin, mar…!

Roma (2018)

Myndin er vissulega ekki ætluð hinum óþolinmóðu en útfærslan er sígilt dæmi um notkun myndmáls sem segir meira en djúpar útskýringar. Fegurðin er allsráðandi en ljótleiki heimsins lætur á sér kræla á köflum. Því má segja að myndin sverji sig í ætt við regluna „minna gefur meira“ og í hreinni merkingu orðsins er Roma tært listaverk. Það er besta fallið. Fyrir marga er hún örugglega heljarinnar svefnpilla og ekkert minna gagnlegt verk ef svo.

Shame (2011)

Fassbender virðist alltaf vera ósigrandi undir leiðsögn Steve McQueen. Shame þykir mér bera af hvað þeirra samstarf varðar. Köld, óþægileg, vægðalaus, knúsanleg og umræðuverð stúdía.

Shoplifters (2018)

Shoplifters gekk alveg frá mér. Aldrei skera lauk og horfa samtímis á Shoplifters….!

Spider-Man: Into the Spider-Verse (2018)

Það er svo grillað að þessi mynd hafi verið gerð og hún er – enda algjört sýrutripp af fyndnum línum, snjöllum stefnum, geggjuðum hasar, flottri músík og abstrakt flottum pælingum. Teiknistíllinn er algjört konfekt og kemur út eins og 2D-stíll, tölvuteikning og stop-motion í sömu umgjörð. Algjörlega júník og það er ekki með nokkru móti hægt að gera öflugri Spider-Man mynd en þetta. Ég vona að það reynist rangt hjá mér.

Spring Breakers (2013)

Súr, skemmtileg og frábrugðin öllu sem til er, sem má bæði nota með og gegn þessari einstöku „hvað-var-ég-að-horfa-á?“ perlusýru. Harmony Korine er venjulega kvikmyndagerðarmaður sem ég meika ekki, en Spring Breakers er stórkostlegt innlit inn í glamúraðan subbuheim. Einstök mynd með einstakri frammistöðu James Franco sem ætti að fara í sögubækurnar.

Steve Jobs (2015)

Aaron Sorkin er yfirleitt í stuði, en hér sameinast þeir Danny Boyle og rumpa út kvikindislega ferskri nálgun á „bio-pic“ uppskriftinni úldnu. Brött, marglaga, lífleg og óaðfinnanlega leikin. Mynd sem alltof fáir hafa gefið séns. Skiljanlega svo sem, og Ashton Kutcher að kenna.

Suspiria (2018)

Ég gapti yfir sumum senunum, sat stjarfur yfir þessu lágstemmda og skítkalda atmói. Nýja Suspiria myndin daðrar við sama umfjöllunarefni og originalinn, en tekur 100% sinn eigin vinkil á þetta allt saman. Fyrirtaks, æðislega truflandi og mátulega yfirdrifinn horror sem talaði rakleiðis til mín.

Swiss Army Man (2016)

Aldrei hefði mér dottið það í hug að hægt væri að gera hjartahlýja, djúpa, ruddalega fyndna og hreinskilna vináttusögu þar sem annar aðili kjarnatvíeykisins er síprumpandi lík, meistaralega leikið af Daniel Radcliffe í þessu tilfelli. Swiss Army Man er algjörlega einstök og skemmtileg lítil perla, borin einmitt uppi af Radcliffe og Paul Dano. Myndin er stútfull af skrautlegum pælingum um lífið, tilveruna og mannlegt eðli en hún er framsett sem vægast sagt flippuð, dökk dramakómedía sem þarf eiginlega að sjá til að trúa að sé til.

The Counselor (2013)

Ein grimmasta mynd Ridleys Scott í áratugaraðir,
jafnvel frá upphafi, og trúlega sú allra vanmetnasta.
Myndin er ljóðrænn níhilismi uppmálaður (enda Cormac McCarthy skrifaður fyrir þessu, halló…), en samt svo hressandi, kómískur, ógeðfelldur og almennt kexruglaður dramaþriller.

The Handmaiden (2016)

Chan-wook Park hefur alveg toppað sjálfan sig. The Handmaiden er ekki fyrir hin óþolinmóðu en ef þú sogast í söguna færðu eina magnaða, íburðarmikla, djöfull óvænta og almennt geggjaða upplifun!

The Irishman (2019)

Fyrstu tveir klukkutímarnir (+) gefa upp skemmtilega, vel skrifaða og þrælvandaða glæpamynd í vintage Scorsese-stíl. Aftur á móti er það langi lokaspretturinn – þar sem í ljós kemur hvað sagan (og þ.a.l. Scorsese) hefur að segja – það sem siglir The Irishman rakleiðis í höfn. Myndin umturnast í krassandi harmleik þar sem leikstjórinn er bæði beint og óbeint að kommenta á þær glamúruðu glæpamyndir sem hann er þekktastur fyrir. Sannleikurinn er sár og seinustu atriðin í þessari mynd skildu eftir djúpstæð spor. Sjálfsagt er myndin þolraun fyrir margan áhorfandann, en fyrir mig er þetta absolút veisla… með tilheyrandi þynnku og grófri sjálfsskoðun undir lokin.

The Lighthouse (2019)

Viti menn. Ef þetta er ekki með betri „Lovecraftian“ myndum sem ég hef séð skal ég Hilmar heita. The Lighthouse er súr, klástrófóbísk, truflandi, skondin, meiriháttar vel unnin, stílíseruð og þeir Robert Pattinson og Willem Dafoe eru algjörlega í hágír. Snillingar í snarruglaðri snilldarmynd.

The Master (2012)

Það tók laaaaangan tíma að melta þessa almennilega – og fyrsta áhorfið tók á, satt að segja. Með tímanum hefur hún mallað, setið eftir og boðið upp á dýpri skoðun, aftur og aftur. Skemmst er frá því að segja að The Master gæti verið tímamótaverk. Hún er í það minnsta svo sannarlega verk mikils meistara í essinu sínu og slást heilir þrír þungavigtarleikarar um að stela allri myndinni – eða styrkja þursasterka karakterstúdíu í sameiningu. Gefð’enni (annan) séns.

The Neon Demon (2016)

Hvílík dáleiðsla, þessi skrattans kvikmynd! Gordjöss, ljót, skemmtileg, fráhrindandi. Sú flottasta og brenglaðasta frá Refn að mínu mati (rétt á eftir Only God Forgives).

The Raid 2 (2014)

Nei. Ekki séns.
John Wick-myndirnar eiga jú, kannski góðan séns en það er bara ekki til magnaðri hasarmynd en The Raid 2 þennan áratug. Heppilega er hún líka bara epísk, fjölbreytt, dramatísk, stílísk og með púlsinn dúndrandi allan tímann.

The Skin I Live in (2011) 

Fyrsta „hryllingsmynd“ Almadóvars. Svo sturluð, lokkandi og meiriháttar.

The Wolf of Wall Street (2013)

Er einhver betri en Scorsese í að gera fræðandi og fokk-skemmtilegar kvikmyndir um masterklassadólga? The Wolf of Wall Street er táknmynd dólgamynd en það kemur ekki í veg fyrir þetta taumlausa skemmtanagildi, þessa hressilegu skoðun á siðleysingjum og einn snarruglaðan Leó.

The Social Network (2010)

Það rífur enginn kjaft eins og Sorkin, eða fær karaktera til að rífa kjaft með öðru eins rakettuflugi og ljóðrænni dýnamík. The Social Network er mynd sem ætti ekki að ganga upp, en hún gerir það hnökralaust. Og þvílíkt „replay-gildi“. Hefði ekkert á móti því að sjá Sorkin og Fincher tækla „framhaldið“ í ljósi undanfarinna mála hjá Zuckerberg.

Three Billboards outside Ebbing, Missouri (2017)

Snilldar handrit, ómótsæðilegur leikhópur og ófyrirsjáanleg framvinda sem skoðar nýja vinkla á hinu kunnuglega. Sagan fjallar um reiði, óleystar gremjur, fordóma og afleiðingar en hlær að þessu öllu líka. Hún snýr út úr formúlum og spilar með væntingar við hvert tækifæri án þess að fórna taumhaldinu á firnasterkri sögu. Frances McDormand slær eiginlega Marge úr Fargo við með sinni brilljant frammistöðu hér – sem staðfestir í hundraðasta skiptið hvað leikkonan er alltaf frábær.

War for the Planet of the Apes (2017)

Hollywood mynd sem tekur sénsa og setur persónur og (skítþunglynda) narratífu í forgrunn fram yfir hasar og sjónarspil. Þetta er eymdarlegt prísundar- og stríðsdrama dulbúið sem blockbuster-mynd. Vel renderaðar persónur, gott drama, hörkuleikur frá Serkis og sjónræn frásögn af hæsta kalíberi.

Whiplash (2014)

Whiplash er mikill rússíbani. Hún sýnir hversu óbærilega tens það getur verið að eltast við frábærleikann og gera kröfuhörðum skrímslakennara til geðs á sviði djasstónlistar. Óaðfinnanlega leikin, vel skrifuð, fitulaus í flæðinu og endirinn með þeim ógleymanlegri.

TOPP 10

10. Wild Tales 

Ein sú mynd sem kom mér hvað mest á óvart á síðustu árum. Stórfyndin, prakkaraleg og absolút skylduáhorf fyrir alla sem kunna að meta góðar hefndarklámssögur og smásögumyndir.

9. Inception

Nú þegar hæpið er löngu búið og allir búnir að margoft gera grín að draumaræmu Christophers Nolan, er tilvalið að stíga aðeins aftur og meta myndina upp á nýtt. Frá mér séð er Inception ekki bara snilldarlega unnin hasarmynd jafnt og ólöglega frumleg „heist“ mynd, heldur einstök saga um eins manns samviskubit, fortíðardrauga og sjálfsuppgjör. Líflegar persónur, öflugt flæði og hið sögulega „BWONG“ bragðbætir kokteilinn, vissulega.

8. mother!

Allt og eldhúsvaskurinn með. Þessi mynd er algjört pönk, en ég fíla hvað hún er rugluð og drukkandi í trylltri sýnimennsku. En allt með góðum punkti, og heljarinnar rússíbana gegnum tilfinningar og martraðir… Allegoríublætið er allsráðandi en með undraverðum hætti gengur þessi einstaka djöflasýra upp og það meira.

7. Jagten

Kraftmikil, grípandi og að öllu leyti spennandi mynd sem notar stigmögnun rétt, líkt og góðum dramatrylli er algjörlega lagið. Þetta gerir hún samt alfarið á jarðbundnu, dramatísku leveli. Enginn hasar, engin margslungin atburðarás eða meðfylgjandi fléttur, heldur aðeins tilfinningar og sálarskaðandi óheppni hjá einni sögupersónu! Jagten er líka þægilega aðgengileg mynd og það gerir það miklu auðveldara að mæla með henni fyrir flesta ef ekki alla fullorðna… sem þola það að eyða meira en 10 mínútum fyrir framan skjáinn án þess að bíll þurfi að springa í loft upp.

6. Scott Pilgrim vs. the World

Hin undarlegasta þroskasaga skíthæls þar sem öllu mögulegu er tjaldað til í einn graut. Myndin er um hipstera en stílbrögðin sækja í myndasögur, manga, tölvuleiki og alls konar steypu. Handritið gengur samt frábærlega upp og styður þennan stílgraut sem er hlaðinn súbtextum, páskaeggjum og marglaga, ýktum tilþrifum leikaranna á skjánum. Michael Cera er ekki tepoki allra en hann smellpassar hér og allur liðsauki er brilljant. Hef lengi vel getað horft á þessa aftur, og aftur og.. .

5. Phantom Thread

Róleg en samt stórskemmtileg. Uppfull af litlum lögum og grand, rugluðum tilfinningum. Grípandi og umræðuverð saga um valdadýnamík, rútínur, málamiðlanir og skít-tonn af mæðraissjúum. Frá mínu sjónarhorni er þetta næstum því gallalaus kvikmynd – og hún er bráðfyndin (og endalaust kvótanleg) í þokkabót. 

4. Carol

Cate Blanchett er ein af mínum allra uppáhalds leikkonum og Rooney Mara getur verið feiknagóð á fínum degi. Í Carol geislar þó af þeim sem aldrei fyrr. Myndin er bæði dáleiðandi ástarsaga og í senn merkileg hugleiðing um stöðu samkynhneigðra kvenna sem voru nær ósýnilegar í samfélaginu á þessum tíma. Ein ljúfsárasta og bitastæðasta ástarsaga síðustu ára og það er nóg um samkeppni fyrir.

3. Mad Max: Fury Road

Ég held að, ef þú diggar Mad Max eða góðar, hraðskreiðar hasarmyndir eða kannt að meta það að sjá áhættuleikara og kvikmyndagerðarmenn framkvæma hina sturluðustu hluti á kameru… þá ætti ekki að vera líffræðilegur séns að þú hafir ekki séð Fury Road með galopinn kjaftinn meira en út hálfa lengdina.  Harkan, adrenalínið, umhverfið, súbtextarnir, Charlize Theron, mótórhjólaömmurnar og barasta allt við Fury Road gerir hana að skólabókadæmi um hvað það er sem dregur mann í bíósalinn.

2. Cloud Atlas

Ég get ómögulega útskýrt það, en Cloud Atlas slær á allar réttu nóturnar hjá mér (og tekur aðlögun á samnefndri bók upp á allt annað level). Tilraunarkennd, aðdáunarverð og hlaðin alls konar tilfinningum og gefur skít í þá hugsun að aðskilja gerólíka geira. Í einum, títanískum pakka höfum við tvær (tæknilega séð þrjár) períódumyndir, samsærisþriller, breska „fílgúdd“ gamanmynd, dökka vísindaskáldsögu og eftirheimsendamynd. Myndin er hefur gífurlega indí-töfra en sjónarspil á við stærstu Hollywood-sprengjurnar í kaupbæti. Leikstjórateymið sér til þess að halda kjarnanum á floti án þess að missa hraðann og er hvergi sena eða myndarammi sem fer til spillis á þessum 170 mínútum.  Og eitt enn mikilvægara – ég tárast ALLTAF þegar ég horfi á hana.

1. Before Midnight

Hér er framhaldsmynd sem var ekki gerð vegna þess að forverinn stórgræddi, heldur vegna þess að aðstandendur töldu sig hafa hæfilega góða sögu að segja. Og þeim tókst það með glæsibrag og trúlega sterkustu „Before“ myndinni til þessa (og vonandi endanlega). Julie Delpy og Ethan Hawke smella í þau hlutverk sem þau þekkja vel fyrir og bæta heilmiklum tilfinningum ofan á góðan grunn. En myndin er gegnumgangandi heillandi, realísk, lúmskt átakanleg og báðar hliðar skjáparsins umræðuverðar út í hið óendanlega. Í stuttu máli fullkominn „endir“ á fullkominn smáþríleik; yndislega náttúruleg, vel skrifuð og leikin fyrir allan litla aurinn. Midnight er meistaraverk sem bæði slær og knúsar fast til baka.

4 athugasemdir við “50 „bestu“ myndir áratugarins

 1. Valid punktur! Ég ELSKA Interstellar en skal fúslega viðurkenna að stafræna útgáfa myndarinnar – með tilheyrandi IMAX-flöktandi römmum – er einstaklega frústrerandi og dregur mig smá út úr myndinni. Þetta er ekkert brjálæðislega truflandi og ætti ekki að sakast við myndina í raun en hefur haft smávægileg og smámunasöm áhrif á enduráhorf (og nota bene, ég sá þessa mynd 4x í bíó – þar sem myndin var í gordjöss, læstum widescreen ramma allan tímann).

  Þetta er 110% ein metnaðarfyllsta mynd undanfarinna ára, með tonn af sterkum hápunktum, umdeilanlega eina af bestu grátsenum kvikmyndasögunnar og magnaðasta besta Zimmer-score frá upphafi – en við vinnslu listans bömpaði ég henni út fyrir aðra mynd.

  En Interstellar, eins og trilljón aðrar myndir, á skilið veglegan „runner up“ sess.

 2. Solid listi. Mjög sammála mörgum, ósammála nokkrum og hef ekki séð nokkrar.

  Wild Tales á svo fullkomlega skilið sæti á topp 10, en finnst þér The Lighthouse betri en The VVitch?

 3. Búinn að sjá tuttugu á listanum og þessar tíu standa upp úr. Saknaði Interstellar og Joker.

  1. Inception
  2, Birdman (2014)
  3. Blade Runner 2049 (2017)
  4. Logan (2017)
  5. Moonlight (2016)
  5. Parasite (2019)
  7. Shoplifters (2018)
  8. The Irishman (2019)
  9. Three Billboards outside Ebbing, Missouri (2017)
  10. Carol

Sammála/ósammála?