20 verstu myndir áratugarins

Eðlislega er ómögulegt að skoða toppinn þegar engan botn er að finna. Fyrir reglulega bíófara og flestar alætur getur meðalmanneskja þurft að þola tíu slæmar eða ekkert sérstakar kvikmyndir fyrir hverja eina sem beint skýtur í mark.

Eins og áður hefur verið bent á hefur alls ekki vantað aukið framboð og er alltaf heilan haug af úrvali að finna, en það sýnir líka fullkomlega fram á það að alls konar rasshausar fái þá að fljóta með og kasta út sinni rödd. Stundum geta góðir snillingar misstigið sig en síðan er líka fjöldinn allur af hæfileikalausu liði sem hefur kannski áhugann eða viðskiptaglampinn í fyrirrúmið en eru alveg týndir með framsetningu.

Gleymum því þó ekki að oft getur það verið hin mesta skemmtun að horfa á bíómynd sem er svo vond að hún umturnast í einhverja gleðisprengju (við komum að þeim…), eða fóður fyrir dýrindis félagsskap. Svona myndir sem reyna hvað þær geta að vera eitthvað annað en þær eru, eða myndir sem eru svo týndar og yfirdrifnar að upplifunin verður ekkert síðri en að stíga út af algeru hnefann-í-loftið meistarastykki.

En eftirfarandi listi snýst því miður alls ekki um skemmtilegar draslmyndir. Nei, þetta eru myndirnar frá árunum 2010-2019 sem skildu eftir sig svo sterkt óbragð að mig langar helst ekki að tala um þær, né plögga. Í besta falli tekst mér þó að vara öðrum við þeim dýrmæta tíma sem gæti farið í þær, í verra fallinu gætu viðkomandi fengið eitthvað óvænt út úr upplifuninni sem mér tókst ekki að finna. Allir í seinni hópnum hljóta bæði mína öfund og samúð.

Hér koma sumsé 30 pínlega vondar kvikmyndir frá síðastliðnum 10 árum.
Sautján þeirra raðast í stafrófsröð og mega því allar fokka sér á sambærilegum skala, en „efstu“ þrjár eru sérstaklega kallaðar inn til skoðunar og í skýrslutöku með vænar skammir í vændum.

Abduction (2011)

Það er ekki hægt að plokka bara hvaða (á þeim tíma) celeb sem er, svo lengi sem hann er vinsæll hjá unglingunum, troða manneskjunni í hvaða færibandsræmu sem er og búa til þá dulúð um að þetta sé einhvers konar „Bourne-fyrir-unglinga“ mynd – og ætlast síðan til þess að hún sé tekin alvarlega. Abduction er jafn afleit í útkomunni og Taylor Lautner er sem hasarhetja. Meira að segja titillinn er þurr og óspennandi. Hann á sér heldur ekkert samhengi við atburði myndarinnar, nema litið sé á þetta í samhengi þeirra mínútna sem áhorfandinn fær aldrei nokkurn tímann aftur. Hvílíkt múv!

Brick Mansions (2014)

Brick Mansions er meistaralega gagnslaus og illa samsett endurgerð á einni þrususkemmtilegri mynd (District B13!), sem verður meira pirrandi og púðurslaus sökum þess hvernig sumir upprunalegu aðstandendurnir eiga alstærsta þáttinn í öllu klúðrinu. 

Gotti (2018)

John Travolta má eiga eitt; honum tókst að mastera tökin á því að viðhalda sama svip og megnið af þeim áhorfendum sem sáu þessa meinfyndnu travestíu. Gotti sýnir ansi vel að það getur ekki bara hvaða gæi sem er (Kevin Connolly í þessu tilfelli – sem lék E í Entourage) komið með glæpamynd í Scorsese-stíl og búist við sambærilegum krafti. Þessi taktlausa óreiða nær engu flugi og ætti að vera kennd í tímum sem dæmi um það hvað biopic-myndir geta verið fratleiðinlegar og pirrandi á versta degi.

Fyrir betri Travolta-performans í seinni tíð er miklu frekar mælt með fyrstu seríu af American Crime Story.

Grown Ups 2 (2013)

Ef helvíti er til, þá er ég viss um að Grown Ups 2 sé spiluð þar einhvers staðar á lúppu – á meðan elgur pissar á þig með óreglulegu millibili. Frekar horfi ég á Martyrs til að kæta mig frekar en þessa nokkurn tímann aftur. Fyrri myndin var ekki góð en þetta er alveg annars-stigs frussugubb.

Hrafnar, sóleyjar og myrra (2011)

Hvar nákvæmlega er þessi mynd í dag? Enginn veit. Jú, hún hefur sést annað slagið á flakki á myrkari slóðum internetsins og hefur orðspor hennar hægt og bítandi daðrað við „költ“-statusinn. Hrafnar, sóleyjar og myrra (titill sem á sér annars ekkert útskýring samhengi í sögu myndarinnar) er næstum því – og þá næstum því – svo amatörlega unnin og snarrugluð í samsetningu að hún verður dúndrandi skemmtileg. Það er þó ekki raunin. Í kannski samanlagðar 5-10 mínútur koma upp senur sem er með því súrasta og hlægilegasta sem Íslensk kvikmyndagerð hefur séð, en allur afgangurinn á myndinni er of illa leikinn, of flatur, of pirrandi og sundurlaus að kannski var það til hins betra að enginn sá hana. Ekki breytir það því þó að hér hefur verið unnið að verkefni sem aldrei má falla í gleymsku, rétt eins og sjónvarpsþættirnir Tríó.

Jack & Jill (2011)

Þessi mynd ætti ekki að vera til, en ég skal segja að hún sé hársbreidd skárri en Grown Ups 2 fyrir það eitt hvað Al Pacino er með ólíkindum hress í henni. Annars má þessi hégómaæla Sandlers alveg hoppa upp í boruna á sér og helst halda sér þar svo slysum fjölgi ekki.

Movie 43 (2013)

Movie 43 er svo sögulega stórt ógeð að hana ætti helst að líta á sem áskorun í stórum vinahópi, til að sjá hver nær að gretta sig sjaldnast eða koma með bestu afsökunina um að flýja. Annars þarf svosem ekki að bragða á hlandinu til að vita það að ekki er góð hugmynd að leggja í þá áskorun. Og allir sem óvart enda á því að hlæja af sér sitjandann kaldhæðnislaust þurfa að láta tékka á sér vitlausa beinið, kannski jafnvel fjarlægja það.

Ekki það að ég vilji segja öðru fólki hvað það er sem því má ekki þykja fyndið, en þú gerir engu partíi greiða með því að viðurkenna opinberlega að/ef þú hlóst að þessari mynd. Þannig sigra djöflarnir.

Nine Lives (2016)

Þegar Nine Lives kom fyrst út var ég ekki svo viss um að Kevin Spacey ætti hana skilið.

Nú veit ég það. Hann átti þetta skilið. En við hins vegar ekki.

Ófeigur gengur aftur (2013)

Það eina sem hefur komið í veg fyrir stærri skammarstimpil á Ófeig er að það hvarflaði aldrei að neinum að senda þessa mynd út sem framlag okkar til Óskarsins, eins og var gert með Í takt við tímann. Ái.

Resident Evil: The Final Chapter (2017)

Öll þessi sería (a.m.k. bíóserían) er hið mesta drasl. Ofbeldið er útþynnt, hallærislegt og tilraunir til „kúlsins“ eru svo yfirgengilega misreiknaðar. Með tímanum fór þetta eingöngu að snúast um það að halda þétt utan um dauða maskínu og nýjar leiðir fyrir Paul W.S. Anderson til þess að monta sig af eiginkonu sinni. The Final Chapter færir þó seríuna á glænýtt stig leiðinda og súmmerar fullkomlega með lokaeintakinu hvað allur leiðangurinn hefur verið stefnulaus, bitlaus og morandi í endurtekningum.

Til að undirstrika andstyggilegheit og pirringinn sem fylgir þessari lokamynd missti áhættuleikkona útlim við gerð hennar og lést önnur manneskja úr tökuliðinu. Bölvunin var ljós frá því að fyrsta myndin kom út – og fyrir utan hina bærilegu RE: Apocalypse – hefur þetta í raun bara versnað síðan.

Taken 3 (2015)

Það ætti í rauninni að skella Taken 2 og 3 saman. Þær eru báðar klúðurslegar, ömurlegar skuggamyndir af grjótharða uppruna sínum, nema vill svo til að framhaldsmyndirnar eru ekki bara aulalega skrifaðar, heldur leikstýrðar af sama manninum sem kann ómögulega að bera fram hasar. Af tvennu illu er þriðja myndin þó aðeins verri vegna þess að Neeson er bersýnilega orðinn þreyttari á þessu – og þetta er bíómyndin sem sýnir manninn stökkva yfir girðingu frá 8-10 mismunandi sjónarhornum. Þetta er stórfrægur bútur en myndin er því miður öll svona. Öflugt mígrenisfóður.

The Bounty Hunter (2010)

Taktlaus táknmynd þess hvað gamanmyndir frá stúdíóum, sem snúast eingöngu um frægu leikaranna, geta verið vandræðalega ófyndnar, niðurdrepandi og skammarlegar. Ég myndi allan daginn horfa frekar á The Ugly Truth, svona tuttugu sinnum.

The Emoji Movie (2017)

Hatur er ljótt orð, þannig að segjum bara að það er óskaplega, miskunnarlaust erfitt að elska þessa mynd. Við hvern kant er hún ódýr, úrelt, sjarmalaus, laus við alla sköpunargleði og morandi í pirrandi auglýsingum (enda Sony). Þetta er akkúrat það sem gerist þegar þú reynir að gera „Pixar-mynd“ en hefur ekki hugmynd um hvernig á að fá sálina til að fúnkera. Sjálfsagt er hún nógu litrík, „saklaus“ og ærslafull fyrir krakkana, en foreldrar geta alveg sett sig í þá aðstöðu að neita einfaldlega tilvist þessarar myndar.

The Happytime Murders (2018)

 Þetta er mynd sem ber 16 ára aldurstakmark en er í rauninni gerð handa 12 ára krökkum og styðst við 20 ára gamla brandara.  Það má lengi tönglast á því sem þessi úrelti rembingur nær hvergi tökum á, en það hversu ískyggilega ófyndin og fyrirsjáanleg hún er við hvert horn er hennar alvarlegasta brot.

The Last Airbender (2010)

Í augum hins hlutlausa kvikmyndaglápara er The Last Airbender einfaldlega vond, asnalega þjöppuð, hræðilega leikin og undarlega ó-skemmtileg ævintýrasúpa og gott dæmi um hvernig M. Night Shyamalan ræður oft ekki við eigin metnað.

Í augum þeirra sem þekkja til teiknimyndanna eða bókanna, er þessi mynd annars vegar bein árás á þrusufínt hráefni.

The Mummy (2017)

Óheflaður áhugi Tom Cruise virðist litlu sem engu bjarga þar sem myndin er skelþunn, frústrerandi, illa skrifuð, hlægileg þegar myndin tekur sig of alvarlega og í senn býsna niðurdrepandi þegar hún reitir af sér úrelta brandara. Skyndilega varð Van Helsing (eða – jeminn… – The Mummy Returns) bara hlægilega fín í samanburði.

Winter’s Tale (2014)

 Winter’s Tale tekur sig óskynsamlega alvarlega, býður upp á áskrift að aulahrolli og væmnin sem kæfir hana jaðar við persónulega áskorun, ef ekki æfingu í hvernig skal gera fræga leikara að fíflum haldandi að þau séu að gera góða mynd fyrir leikstjóra (eða í raun handritshöfund að leikstýra í fyrsta sinn) sem greinilega á sér öflugt tengslanet. – sem er rétt. En kræst, samt! Þessi mynd er einstakt klúður – sem best sést á frammistöðu Russell Crowe og Will Smith í hlutverki Satans.

Þá skröpum við botninn.

3. YOGA HOSERS

Ég hef lengi vonað að það sé ekkert orsakasamhengi á milli þeirra hrörnandi gæða Kevin Smith-mynda og tímabilsins þar sem hann ákvað að gera kannabisreykingar að lífsstíl. Yoga Hosers er þó einhvers konar sýnidæmi um hálfbakað og í raun óútgefanlegt verk sem veit ekki hvað snýr upp eða niður. Svívirðilega ófyndin, týnd, bitur (Smith ákveður eina ferðina enn að láta eins og gagnrýnendur fari ekkert í taugarnar á sér – í sjokkerandi mæli) og almennt ein verst klippta ræma sem ég hef nokkurn tímann séð frá leikstjóra sem var eitt sinn ágætlega fær í sínu starfi. Myndin er drifin af samtölum en hefur ekki rassgat að segja. Hún inniheldur ljótar brellur en ekki með sjarmerandi hætti og yfirþyrmandi langdregin þó hún slái varla upp í 80 mínútur. Dætur þeirra Smith og Johnny Depp – sem prýða þetta refsisrúnk – virka nógu efnilegar til að eiga betra tækifæri skilið.

2. AUSTUR

Það að Austur hafi tekist að skila sér í kvikmyndahús er dapurt merki um standard (lærði enginn neitt af Blóðhefnd?!) eða stórsigur fyrir stórt „ekkert“. Hún er mynd sem má mín vegna hverfa sem allra fyrst af yfirborði Klakans ef ekki væri hægt að nota hana sem sýnikennslu um hvernig þú átt ekki að fara að því að teygja svona stíft á ímynduðum lopa. Ofar öllu er þetta er þetta þurr, þreytandi æfing í stíl og afbragðs áskorun fyrir þolinmæði hvers og eins. Persónulega hef ég ekki hugmynd um hverjum þessi mynd er ætluð, en mér leiddist svo mikið yfir henni að hugur minn hvarf á staði sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í heilabúinu; dökka, furðulega staði sem komu hvergi umfjöllunarefni myndarinnar við né áhrifum þess.

Það fylgir því ákveðin áfallastreituröskun (væg, sem betur fer) að reyna að hreinsa þessi leiðindi úr minnisbankanum.

1. GENERATION UM

Talandi um áskorun í þolinmæði… Generation Um hefur allan pakkann!… af nákvæmlega ENGU. Hún er því kennsla í stefnuleysi, drolli og þolinmæði þeirra sem á hana horfa og tilheyra hverjum ramma. Ef einhver manneskja getur frætt mig um tilganginn með þessari plásseyðslu væri það vel þegið en alla myndina lítur út eins og Keanu Reeves sé að bregðast við því að hafa verið blekktur í þessa über-tilgerðarlegu steypu. Í gegnum alla myndina leitar hann að söguþræði eða þemu og áhorfandinn má kalla sig heppinn ef hann heldur vöku í þeirri merku leit. Svona myndir eru eingöngu gerðar til að „trolla“ fólk – og þess vegna er það ákveðið fagnaðarefni hversu fáir hafa séð hana.

Meira að segja harðkjarna Keanu-fylgjendur hafa ekkert við þetta að gera, frekar en leikarinn sjálfur.

Fleiri ömurlegar (sem ég man þó varla eftir… heppilega):
Act of Valor, Beastly, Chloe and Theo, Circle, Dumb & Dumber To, Frost, Getaway, Horrible Bosses 2, Hross í oss, Identity Thief, I, Frankenstein, Jonah Hex, Just Go with It, Kurteist fólk, Leap Year, Left Behind, Mother’s Day, Piranha 3DD, Rings, R.I.P.D., Seventh Son, The Babymakers, The Legend of Hercules, The Tourist, The Nun, Zookeeper

Heiðursgestir“
Blóðhefnd (2012) og The Three Musketeers (2011)

Hvor á sinn hátt meiriháttar skemmtileg og hlægileg af öllum röngu ástæðunum. Að rýna of djúpt í Blóðhefnd er gagnslaust því myndin er eins og sjálfs-paródía af bestu gerð. Það gerist ekkert meira ósannfærandi heldur en þetta ef þetta, sama hvort litið er á þetta sem tilraun eða „spennumynd.“ Maður hefur séð fjöldann allan af hrútlélegum og leiðinlegum senum í íslensku efni, en ég veit ekki hvað á að kalla þessa myndefnahrúgu sem Blóðhefnd þykist vera en allavega ekki var náð að selja manni þetta sem tilfinningarík atriði, eða atriði yfir höfuð. Besti búturinn tilheyrir þó jarðafararsenu, þar sem hver „leikarinn“ eftir öðrum gengur upp að „leikstjóranum“ (sem er að sjálfsögðu í aðalhlutverki) og segir við hann: „Ég samhryggist,“ oft og mörgum sinnum.

The Three Musketeers – í leikstjórn eiginmanns Millu Jovovich (og það sést!) er aftur á móti ein af mínum allra uppáhalds draslmyndum nýliðins áratugs. Ég elska þetta sorp. Skrítið en satt. Þegar mynd gerir svona margt rangt fer hún nánast hringinn, hættir að sökka og byrjar að skemmta þér konunglega í staðinn. Hún móðgar kannski gáfur þínar en bætir það upp með þeirri hégómafullu staðreynd að hún heldur að hún sé í alvörunni að ganga upp sem skotheld afþreyingarmynd. Leiktilþrifin hjá Orlando Bloom eiga a.m.k. þrjá kafla skilið í mörgum kvikmyndasögubókum.

Setjið þessar myndir á listann ykkar. BÁÐAR.

Sammála/ósammála?