Klovn: The Final

Alltaf er jafn auðvelt að finnast maður eitthvað ofsalega skítugur þegar maður horfir á vitleysingana tvo í Klovn. Að fylgjast með lífi þeirra Franks Hvam og Caspers Christensen er eins og dæmi um verri eðlishvatir karldólgsins, hvors á sinn hátt, án þess að það verði að lögreglumáli. Báðum mönnum tekst alltaf að finna nýjar leiðir til að ganga út fyrir siðferðis- og velsæmismörk og það er hlutverk okkar áhorfenda að hlæja, benda og horfa undan. Svona lítur það út þegar þróunarkenning mannsins er sýnd í bakkgír.

Húmor þessara dónadana nær þó ítrekað að framsetja efnið með köldum raunsæisblæ á milli farsagangsins sem gerir þá heimskupör lygasjúku lúðanna þeim mun trúverðugri. Því er það ekki að ástæðulausu að hinir meðvirkustu upplifa bæði þættina og kvikmyndirnar sem einhvers konar martröð.

Það skal strax sagt að Klovn: The Final kemst ekki alveg með tærnar þar sem groddaralegheit og brött stemning fyrstu myndarinnar var með hælana. Hún er betri en miðjumyndin; fyndnari og spilast síður út eins og langur þáttur þar sem lopinn er teygður. Þessi svanasöngur hirðfíflanna beggja er meira af því sama, eða reglulega, sem áhorfendur annaðhvort elska eða hata við trúðana tvo.

Að þessu sinni fjallar ærslagangurinn um misheppnaða ferð félagana til Íslands, þegar Eyjafjallajökull byrjar að gjósa. Frank er nýskriðinn á sextugsaldurinn, með gráa fiðringinn stöðugt kraumandi, hugann á sjálfstýringu og hjónaband hans og Miu er á hálum ís sem aldrei fyrr (… loksins). Þá tekur að sjálfsögðu við atburðarás þar sem hver vandræða- og lygagryfjan á eftir annarri dýpkar og neyðist Frank þá fyrir fullt og allt að sanna hvað í honum býr áður en skaðinn verður endanlegur. Á sama tíma er Casper alltaf samur við sig, nema nú glímir hann við hið undarlegasta vandamál sem tengist samskiptum hans og nýrrar tengdamóður hans.

Fyrsta kvikmyndin fjallaði um Frank að takast á við föðurhlutverkið (með þeim blússandi árangri sem varð raunin), önnur myndin gekk út á vináttu fíflanna þegar líf beggja var hvað mest að stía þeim í sundur. Í þriðju bíólotunni er það ástin sem er ofar öllu í þemanu og þarf lykiltrúðurinn að sanna sig fyrir fullt og allt áður en spúsan gefst endanlega upp á vítahringnum.

Eins og við má búast er farsinn auðvitað í tólfta gír og meikar engan sens, eins og sagt er. Það koma þó vissulega ákveðin þreytumerki í þessa seríu þegar rútínan er orðin svona sterk. Eftir allt það vesen sem er að baki hjá persónunum er stuðullinn svo brandaralega hár að það kemur fátt orðið á óvart með þessa trúða. Undirritaður fær einnig þá tilfinningu að fyrsta kvikmyndin hafi farið svo langt yfir strikið í augum almennings að önnur og þriðja myndin hafa einfaldlega ekki magann eða þorið til að fara sambærilega leið. Það breytir þó ekki því að myndin heldur prýðisdampi, handritið lumar á síkætandi manneskjulegri hnyttni og leikararnir eru bráðskemmtilegir, hver og einn einasti.

Það er engin stórvægileg dýpt í þessu bíói en afþreyingargildið heldur sér og gott betur ef viðkomandi veit hvers er að vænta. Húmorinn er ekki sá dannaðasti en það eru heldur ekki einstaklingarnir sem hér er stöðugt reynt að snara þroska- og dæmisögu í kringum. En við hlæjum eða hneykslumst því við þekkjum öll því miður að minnsta kosti einn Frank og þrjá eins og Casper. Lokasenur myndarinnar sækja sennilega fullmikið í einn stærsta hápunkt fyrstu myndarinnar, en því verður ekki neitað að lokauppgjörið er alveg húrrandi gott grín. Frábær leið til að reka smiðshöggið á tengsl áhorfandans við tvíeykið góða.


Besta senan:
Misheppnaður ‘grátur’ Caspers.

Sammála/ósammála?