Þriðji póllinn

Þriðji póllinn er fínasta dæmi um hvernig hægt er að snerta á þungum málefnum á einfaldan hátt, með opnum örmum. Þau Anní Ólafsdóttir og Andri Snær Magnússon leggja saman í forvitnilegan leiðangur um sjálf og hugarheim tveggja ólíkra einstaklinga þar sem ýmsir pólar geðhvarfa eru skoðaðir.

Hér höfum við ferðalag Önnu Töru Edwards og Högna Egilssonar um landslag Nepal. Anna Tara ólst þar upp innan um tígrisdýr, fíla og nashyrninga. Upp úr tvítugu greindist hún sjálf með sömu geðhvörf og drógu móður hennar til dauða. Síðar meir varð þetta henni innblástur þegar Högni steig fram og greindi frá sínum sjúkdómi. Í kjölfarið hélt Anna Tara styrktartónleika í í Katmandú, opnaði sjálfshjálparlínu og hefur almennt stuðlað að geðheilsuvakningu í Nepal.

Það er ekki mikla sögu að finna í Þriðja pólnum í hefðbundnum skilningi. Myndin er samansafn augnablika. Við fylgjumst aðeins með Önnu Töru og Högna velta fyrir sér stórum spurningum um eigið líf, fortíð og „stigmatíseringar“ andlegra veikinda. Þau skoða hvað og hvernig þeirra líf hefur mótað þau og úr því verður einhver ævintýralegur lækningamáttur.

Þó hvorki sé skýr saga, stefna eða bygging í myndinni, þá er myndin límd vel saman úr ákveðnum þemum, kærleika og tómri (en ekki alveg innantómri) hreinskilni. Þau Anní og Andri Snær virðast hafa leyft (heildar-) myndinni og hjartanu að þróast í miðju ferlinu, leitandi að rétta kjarnanum. 

Myndin stafar ýmist út með beinum skilaboðum, sem vísa á lausnir eða tillögur að sameiningu, hlustun sem og ráð. Það er auðveld leið að segja allt beint út og skýra kjarnan með texta, en í Þriðja pólnum er merkilega vel komist hjá því að hengja allt á allt sem sagt er undir lokin og drolla svo með afganginn. Hafa þá aðstandendur nægilegan og djúpstæðan áhuga á mannlega þættinum og til að landa þessu öllu. 

Andri reynir jafnvel sjálfur með krúttlegum hætti að súmma upp “þráð” myndarinnar sem nútíma ævintýri. En myndin helst á floti með vönduðum vinnubrögðum og þeirri tilfinningu sem áhorfandinn fær fyrir því að vilja kynnast Töru og Högna betur; bernskusögum þeirra, skoðun þeirra á eigin sjálfsmynd, líðan þeirra og leiðum til að varpa sínu ljósi á þarfa umræðu.

Þar að auki rúllar myndin prýðilega. Blærinn og stíllinn verður á köflum hálf draumkenndur en aldrei myndast neitt sérstakt lag af fitu eða „uppfyllingarefni“ í efnistökunum. Það er snertur af sýndarmennsku í reglulegum nærmyndum, í og úr fókus, af öllu mögulegu og ómögulegu í náttúrunni, en að því sögðu virðist vera hægt að sýna fílshúð á hreyfingu í háskerpu og dáleiða mann all svakalega.

Myndin er ekki eitthvað sem auðveldlega telst til einhverjar blússandi skemmtunar og með verri tökum væri þetta glamrandi og tilraunakennt tilfinningarúnk, en raunin er barasta alls ekki svo. Umdeilanlega vantar þó meiri djús og dýpt í myndefnið, samantektina og andartökin sem þarna nást á upptöku, en innlitið sem við blasir er engu að síður ljúft, fallegt, einlægt og umfram allt smekklega og snyrtilega samsett.

Í styttra máli: Einfalt og fallegt verk sem faðmar til baka.

Besta senan:
Fíllinn, mar.
Fíllinn. (*sniff*)

Sammála/ósammála?