365 Days

Það þarf að skrapa ansi lágan botn til að maður þurfi að íhuga betur listrænt þemagildi fyrstu Fifty Shades of Grey kvikmyndarinnar. Í samanburði við 365 Days lítur Grey út eins og upplífgandi, heilsteypt og þýðingarmikið dramaverk um losta og persónuleg takmörk. Sögurnar eru óneitanlega líkar á marga vegu þegar eitur sambands og hegðunarmynstur karldýrsins er skoðað til fulls á meðan eina sem nokkru máli skiptir er útfærsla erótískra sena.

Kynlífssenurnar ná aldrei tilætluðum loga þegar persónudýnamíkin sem að þeim leiðir er heil krukka af viðbjóði og ofbeldi. Það hvort leikararnir séu trúverðugir og flottir með eða án spjara skiptir litlu í ljósi þess hvað grunnhugmyndin byggir á ógeðfelldri glamúríseringu á hinu fræga Stokkhólmseinkenni – og seiglu eins skíthæls sem svífst einskis til að eigna sér réttu konuna. Æsandi stöff! Og kemur satt að segja mest á óvart að helsta kvenpersóna myndarinnar fái að vera nafngreind.

Myndin er líka hundlöng, með ólíkindum langdregin, skítfull af endurtekningum, uppfyllingum og stílblæti af verstu sort.

Samkvæmt upplýsingum Netflix er 365 Days vinsælasta mynd streymisins á síðasta ári, en undirritaður vonar að stór hluti þeirrar niðurstöðu sé af völdum fast-forward takkans. Heppilega er veraldarvefurinn snappfullur af vafasömum valdafantasíum til þess að þurfi ekki að saurga streymisaðganginn með taktlausu og ósexý tímaskekkjusulli í líkingu við þessa mynd.


Besta senan:
Ókei, fæn! Báturinn.
Góð klipping.

Sammála/ósammála?