Hamilton

Hamilton var án umhugsunar með því besta sem kom út á nokkur streymi á faraldursárinu mikla. Það er umdeilanlega smá svindl að smella Hamilton með í flokk ‘bíómynda’ þar sem hvorki er um kvikmynd að ræða né kvikmyndaða sýningu frá árinu 2020. Þó var mikið húllumhæ í kringum útgáfuna á upptökunni og stóð meira að segja upphaflega til að gefa hana út í bíóhús. Á endanum rataði hún með látum á Disney+ og fékk stór hluti heimsbyggðar loksins að sjá – í gullfallegri háskerpu – um hvað hæpið snérist áður.

Hamilton-sýningin er vissulega algjört eitur fyrir fólk með söngleikjafóbíu og ekki beinlínis líkleg til að breyta þoli þess. Aftur á móti er auðvelt að taka þessu sjói með opnum örmum ef maður kann að meta orkuna sem hér er til staðar, textana, orðaleikina, taktinn og tilfinningarnar. Með einhverjum ofurheilatöfrum tókst hinum endalaust fjölhæfi Lin Manuel Miranda (sem áður hafði þegar malað gull og smalað liðum á söngleikinn In the Heights) að smíða merkilega töff verk, rjúkandi af sál, upp úr viðfangsefni sem hljómar hvorki eins og stemning né spennandi.

Það blasir fljótt við að uppsetning söngleiksins með upprunalegu leikurunum er algjör tour-de-force sprengja af hæfileikum, skáldaleyfi, ýktu drama og miklum húmor. Þó má ekki horfa framhjá því hvað kvikmyndaða útgáfan á Disney+ er listilega klippt saman, dýnamísk og úthugsuð framleiðsla á sinn veg. „Myndin“ er samsetning upptöku með áhorfendum árið 2016 og lokuðum rennslum, sem leynir sér ekki þegar sést hvernig upptökuvélum er stillt upp. Það er yfirleitt mikið í gangi á sviðinu og í þessu klippi er radíusinn alltaf skýr. Með fylgir þessi fíni bónus að geta verið nær fólkinu á sviðinu, eða með því, frekar en að sitja læstur í sömu fjarlægð og með eitt sjónarhorn.

Gæti það örugglega sagt meira til um hvað bíóárið 2020 virkaði tómlegt á tíðum, en Hamilton fær klárlega að fljóta með í upptalningunni. Gæsahúðin hefði jafnvel skilað sér enn betur ef hefði tekist að koma henni í kvikmyndahús.

Besta senan:
The Room Where it Happens. Eða My Shot.

Sammála/ósammála?