Possessor

Mikið getur oft verið gaman að ljúka við áhorf á kvikmynd og spyrja sig sjálfan:
„Á hvern fjandann var ég að horfa??“

Kvikmyndagerðarmaðurinn Brandon Cronenberg skaust fyrst almennilega á sjónarsviðið með hinni ágætu Antiviral en hefur formlega náð að útskrifast nú í mínum bókum og betur mótað eigin rödd með annarri mynd sinni í fullri lengd. Cronenberg yngri á augljóslega ekki langt að sækja hæfileika í gerð martraðarfóðurs, dæmisagna um skemmdar sálir með grimmd og mannúð.

Possessor (Uncut) er geysilega sterk lítil rússíbanareið með („high-concept“) sci-fi hrollvekjuívafi, umvafin hvössum spurningum/vangaveltum um sjálfið, hvatir, hemlur, mannlegt eðli og enn fremur náttúrueðli. Andrúmsloftið flýtur og bítur frá fyrstu senum, tónlistin dáleiðir og handritið heldur alveg vandræðalega góðu flugi út í gegn. Myndin er óvænt, óþægileg, súrrealísk og ófáir rammar Cronenbergs yngri síast langt inn í heilabúið. Manndjöfullinn…

Öll tilvistarkreppukássan er síðan hrærð til fullkomnunar með rafmögnuðum, ef ekki stingandi sterkum leik frá Andreu Riseburough, Tuppence Middleton og Jennifer Jason Leigh. Sem sagt, meiriháttar þrillerveisla fyrir fólk með sterk bein, þorsta fyrir einhverju abstrakt og vel þess virði að stúdera langt fram eftir glápið.

Besta senan:
Lokauppgjörið.

Sammála/ósammála?