Tom & Jerry (2021)

Gjarnan má furða sig á því hvernig við búum á plánetu þar sem ekki er búið að mjólka út fleiri bíómyndum Tomma og Jenna. Af öllum þeim margvíslegu formum að dæma, sem þetta handteiknaða tvíeyki hefur þraukað, þolað, skemmt og pirrað heilum áratugum saman, virðist vera nóg efni í færibandsbíó, jafnvel seríur eða allavega einhverja möguleika.

Ekki má gleyma því heldur að Jenni er bókstaflega fyrsta handteiknaða persónan til að skottast á bíótjaldið umkringdur leiknu umhverfi. Þetta var árið 1945 í myndinni Anchors Aweigh og því miður hefur hvorki músin né félagi hans átt betri daga í bíómyndum. Það helsta sem hefur þróast á hvíta tjaldinu hvað þessar fígúrur varða er að músin útskrifaðist úr því að eiga gestahlutverk í mynd með Gene Kelly yfir í það að vera í aukahlutverki í eigin ævintýri. Virðist það vera orðin venjan.

Tímarnir breytast, siðgæði breytast, skrípóofbeldið breytist en að mestu hafa fígúrurnar haldist þær sömu, enda ekki að klúðra svona einfaldri uppskrift (eða svo er kenningin…); köttur og mús valda reglulegum usla. Þeir hata oftast hvorn annan og ögra í sífelldu, en þó óskaplega ljúfir báðir tveir í raun og gera hvað sem þeir geta til að viðhalda þaki yfir höfði. Gerist það annað slagið að þeir haldist prímavinir og eiga í raun lítið annað en hvor annan að, en þá fyrst getur gott komið úr góðverkunum.

Síðast þegar kom út bíómynd í fullri lengd um þá tvo, Tommi og Jenni mála bæinn rauðan (‘92) var uppskriftinni hent í tætarann og kom í stað söngvamynd um peningagræðgi og vináttu þar sem allt aflið fór í hálfbakaða Disney-dressingu. Tommi og Jenni voru ekki lengur mállausir fjendur, heldur masandi mátar sem flækjast í harmleik ungrar stúlku og tengsl hennar við ógeðfellt og rammkapítalískt frændfólk hennar, önnur skítseiði og söknuð gagnvart föður sem leit út eins og Tom Selleck útgáfan af Indiana Jones

Skemmst er að segja frá því að klassíski “Tomma-og-Jenna-fílingurinn” var ekki aðalfókusinn hjá aðstandendum teiknimyndarinnar, þó hún hafi vissulega boðið upp á nokkra eyrnarorma. Í grunninn voru þó félagarnir gerðir að aukapersónum í eigin sögu, og þessi hefð einmitt endurtekur sig í þessari spánýju, glansandi 2021-mynd Tomma og Jenna. Nú þurfa þeir að víkja fyrir framapoti og lygavef persónu Chloe Grace Moretz og tengsl hennar við frægt stjörnupar sem vill kannski eða kannski ekki hafa teiknaða fíla í komandi brúðkaupi sínu. Allir hljóta að tengja við þá krísu.

Jú, inn í spilið blandast vissulega heimilislaus kisi og klók lítil mús og velta örlög brúðkaupsins að mörgu leyti á frið þeirra beggja, en þetta er í rauninni aukaatriði.

Það væri sjálfsagt meiri missir að tapa sviðsljósinu af titilpersónunum ef tíminn með þeim væri ekki svona mikið tómt loft í formi gamalla brandara og rútína. Báðir karakterar eru staddir meira í söluvöru en ævintýri; umkringdir umbúðum sem lykta af galtómri sýndarmennsku og lummulegri blöndu af nostalgíudýrkun og nútímatakti. 

Þá bitnar allt voðalega á stórlega linu og fyrirsjáanlegu handriti og leikstjórn sem er sjálfstýringu lík Tim Story leikstjóri á ekki voða glæstan feril, vissulega ekki alglataðan heldur (fyrir utan Taxi endurgerðina, þann blett er ómögulegt að þrífa). En hvaða líf eða stíll sem hér heltekur skrípóið virðist allavega ekki styrkja rammstíft efni, og þeir brandarar sem hitta í mark gera svo yfirleitt þegar áberandi gengur vel að sækja innblástur í eldri ræturnar, en ekki bara endurvinna gamla djóka. 

Story virðist annað slagið kunna rétt lag með að sækja í sígildar rætur, en þá er aldrei stutt í pínlegra grínið, svo sem móment þar sem Tommi syngur með autotune-hljómi, tekur “floss’ið” og Jenni glennir rassinn á prenti og verður gegnum myndina að meiri drullusokki en vanalega. Trúlega hefur það einhverja tengingu við greinilegan áhuga Jenna á því að komast í Vikuna á Instagram.

Hugsast getur að það sé bara innbyggt í form og formúlu Tomma og Jenna að geta ekki haldið dampi í sviðsljósinu þegar um fulla bíómyndalengd er að ræða, eða jafnvel klukkutíma. Vörumerki þeirra hefur oft sést klessast í afbrigðileg form til að fylla út slíkan tíma með því að veita öðrum persónum forgang, eða slá tvær flugur í einu höggi og troða tvíeykinu í aðrar þekktari sögur. Fyrst að félagarnir hafa dúkkað svo oft upp í slíkum furðukokteilum og mætt persónum eins og Sherlock Holmes, galdrakarlinum í Oz, Willy Wonka og enn fleiri. Útkoman á flestum þessara “crossover” teiknimynda er þó sjaldnast jafn spennandi og gæti hljómað.

Tim Story-myndin nýja hefði þó alveg mátt við afbrigðilegu hugmyndaflugi að halda. Tom & Jerry ‘21 myndin er einfaldlega – á mannamáli – ekki nógu fyndin, aldrei óvænt eða sjarmerandi. Þessi 3D-rendering á 2D-teiknistíl fígúra kemur út eins og framleiðendur Warner Bros. hafi þarna eingöngu nýtt þetta sem tækifærið til að hita upp járnið fyrir Space Jam framhaldið. Reyndar er meirihluti sýnilegu leikaranna ósköp viðkunnanlegur og vakandi en allir með tölu hafa miklu meiri fyndni í sér en hér er fengið að flexa. Tommi og Jenni eiga að skemmta, fíflast og helst meiða hvorn annan – ekki mannssál áhorfenda. 

Rétt skal þó vera rétt með það að Tom & Jerry 2021 er ekki algagnslaus þegar kemur að barnapíugildi fyrir yngri (segjum þriggja-til-níu…) hópana. Ærslagangurinn og hasarflippið fangar alveg það sem þessar fígúrur eru þekktastar fyrir.

Eeeen… ef valið og valdið er hjá foreldrinu er miklu betri, steiktari og langtum fjölbreyttari tímaeyðslu að finna í að gramsa bara í gegnum gamla sarpinn aftur. Málið leyst.

Besta senan:
Kunnugleg fígúra dúkkar upp á skondnum tíma.

Sammála/ósammála?