Þau voru eitt sinn bíógagnrýnendur

Gagnrýnandinn er oft kallaður lappalaus maður sem segir öðrum hvernig best skal hlaupa.

Þetta er vanþakklátt starf sem svo sannarlega er ekki allra en öll list hefur gott af að vera sett undir smásjána. Bæði verður gagnrýni til að auka umræðu um listformið, en einnig vonandi til að velta upp nýjum hlutum, og veita fólki innsýn í aðrar víddir listaverksins. Að þessu sögðu er auðvitað mikilvægt að gagnrýnandinn geti líka tekið gagnrýni. 

Í íslenskri menningu hefur kvikmyndaumfjöllun tekið á sig alls konar form, og margir hafa spreytt sig á forminu, en ekki er víst að allir muni eftir fólkinu sem eitt sinn hafði starfa af því að gagnrýna. 

Kvikmyndir.is fannst tilvalið að rifja nú upp hvaða þekktu Íslendingar hafa spreytt sig í kvikmyndagagnrýni.

Kíkjum á þessa fyrrum bíógagnrýnendur og skoðum brot úr minnisstæðum dómum þeirra:

Grínistinn Ari Eldjárn var aðeins fimmtán ára gamall þegar hann fékk starf kvikmyndagagnrýnanda fyrir Helgarpóstinn og stóð hann sig með miklum sóma, enda orðheppinn og skemmtilegur penni með húmorinn í fyrirrúmi.

Í dómi um myndina That Thing You Do (frá 1996) ritar Ari:

Myndin er fyndin, létt og tekur sig ekki of hátíðlega, sem eru því miður alltof oft fyrstu viðbrögð manna eftir vel heppnaða mynd t.d. Quentins Tarantino og fleiri. 


Spennusagnahöfundurinn Arnaldur Indriðason hefur átt farsælan feril sem glæpasagnahöfundur síðustu ár. Um skeið gegndi hann hlutverki bíórýnis hjá Morgunblaðinu og var gífurlega afkastamikill. 

Hér sjáum við nokkur dæmi um bíódóma Arnaldar.


Grínarinn og höfundurinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, var virkur í dómum á fyrsta áratug þessarar aldar, bæði kvikmyndadómum og tölvuleikjarýni. Stundum sameinuðust þó þessi áhugasvið og á meðal margra kostulega dóma skrifaði Halldór að Hitman hafi skemmt jólin. Þetta var árið 2007.

Hér segir í dómnum:

Hitman-myndin er langt frá því að vera góð. Hún er yfirborðsleg, illa skrifuð, óspennandi, illa leikin og fyrirsjáanleg.


Egill Helgason fjölmiðlamaður og bókmenntarséní skrifar enn bloggpistla um kvikmyndir og er oft á skjön við almenningsálitið, sem er alltaf gaman, þó segjast megi að umsögn hans um ástardramað Before Sunrise hafi verið í sérflokki. Egill ber myndina saman við hina sígildu A bout de souffle og segir um þau Julie Delpy og Ethan Hawke: 

Þau eru ósgu sæt, fallegt par, tala bæði eins og eru í raun sama persóna. Sem þýðir að þau eru eiginlega engin persóna.

Gamanmyndin Dumb & Dumber féll heldur ekki vel í kramið hjá Agli á sínum tíma, eins og sjá má hér:


Erpur Eyvindarson, betur þekktur sem BlazRoca, skrifaði eftirminnilega umsögn um kvikmyndina Star Trek frá 2009. Öfugt við flesta gagnrýnendur á þeim tíma synti rapparinn gegn straumnum og gaf myndinni eina og hálfa stjörnu. Dómurinn birtist í DV og þar segir meðal annars:

Rennihurðir, ofnotkun á reykvélum, tölvupíphljóð, geislabyssubardagar með neonlituðum geislum, menn að slást á grönnum stálbrúnum með hyldýpi sitthvorum megin sem menn detta næstum því niður. Við höfum séð þetta allt áður… og sorrý Star Trek nördar en fyrstu Stjörnustríðsmyndirnar hafa ennþá vinninginn.


Ingibjörg Haraldsdóttir, ljóðskáld og leikstjóri var kvikmyndagagnrýnandi Þjóðviljans á níunda áratugnum. 

Hér er brot úr úttekt hennar um kvikmyndina Norma Rae frá 1979:

„Þungamiðja myndarinnar er þróun Normu Rae úr ómeðvitaðri en uppreisnargjarnri verkakonu í meðvitaðan verkalýðssinna. Hún er enginn engill og á í vandræðum með sjálfa sig og karlmennina í lífi sínu. Sally Fields tekst að skapa trúverðuga persónu, sem vekur alla samúð áhorfandans, og átti fyllilega skilið að fá Óskarsverðlaun fyrir túlkun sína.“


Kristófer Dignus kvikmyndagerðarmaður skrifaði fyrir Helgarpóstinn um tíma, og matreiddi meðal annars þennan þrususkemmtilega dóm um spennumyndina Assassins.


Óskar Jónasson kvikmyndagerðarmaður er hæfileikabúnt. Margir þekkja hann sem leikara, jafnvel Skara skrípó, á meðan aðrir hugsa til hans sem barnabókahöfundar með meiru.

Á tímabili mætti Óskar reglulega í morgunsjónvarp Stöðvar 2 í þættinum Í bítið og dæmdi þar ófáar bíómyndir. Einn eftirminnilegasti dómur hans var um kvikmyndina Fight Club, sem á þeim tíma féll ekki í kramið hjá Skara og þótti honum endirinn of ruglingslegur.


Lilja Katrín Gunnarsdóttir, leikkona, blaðamaður og baksturssnillingur með meiru, hefur farið um víðan völl á glæstum og afkastamiklum ferli. Vakti hún talsverða athygli – og eflaust sterkar aðsóknartölur á Vísi – árið 2014 með umdeildum dómi á kvikmynd Hafsteins Gunnars Hafsteinssonar, París Norðursins. Í dómnum mælti Lilja:

„Hér er einhvers konar tilraun til að búa til úber-realíska mynd um líf í smábæ og tengsl fólksins sem þar býr. Hér er allt svolítið óljóst. Engar skarpar línur. Engir skarpir árekstrar. Engin skýr vandamál. Allt er svolítið bla. Og út af því að allt er frekar óljóst gerir það leikurunum erfitt fyrir að vita nákvæmlega hvert persónur þeirra stefna, hvað þær vilja og af hverju í ósköpunum þær gera það sem þær gera. 

Það gerir það svo að verkum að ég sem áhorfandi skil ekki neitt í neinu. Skil ekki af hverju þetta fólk er á Flateyri, hvaða hvatir búa að baki viðbrögðum þeirra og ákvörðunum og hvert myndin stefnir. Það er engin yfirvofandi hætta, yfirvofandi gleðitíðindi, yfirvofandi sorg. Það er akkúrat ekkert yfirvofandi og svo er myndin bara búin. Og skilur nákvæmlega ekkert eftir sig.“

Má þó einnig geta að Lilja skrifaði hörkufínan dóm í Fréttablaðinu um (hina vanmetnu) Noah.


Aðrir sem voru bíógagnrýnendur um skeið:
Ásdís Thoroddsen, Friðrik Þór Friðriksson, Gísli (Nexus) Einarsson, Hilmar Karlsson, Hugleikur Dagsson, Kristján Þórðarson (Stjáni stuð), Ómar Hauksson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Úlfhildur Dagsdóttir

Sammála/ósammála?