Never Rarely Sometimes Always

Þungunarrof hefur verið ófáum gífurlegt hitamál og sumum töluvert tilefni til smánunar. Never Rarely Sometimes Always er mynd sem veður í þessa umræðu og hliðar hennar út frá bandarískum veruleika án þess að nokkuð sé skafið af hlutunum eða predikað. Í kjarnanum er hér þó innbyggð saga um stuðning, drungalega óvissu og drifkraft í erfiðum aðstæðum.

Sagan er óvenjulega byggð í strúktúr en nær þeim ljúfa, ósjálfsagða árangri að glugga í merkilegan, tilgerðarlausan hversdagsleika. Myndin er skrifuð og leikstýrð af Elizu Hittman og er töluvert fútt sett í blákaldan veruleika, sterkar þagnir og sannfæringarkraft aðalleikaranna. Þegar loks líður að senunni sem titill myndarinnar vísar svo sterkt í myndast þarna einhver kraftur sem hefur hægt og rólega kraumað. Það er einungis brot af þessum krafti sem skilar frá sér ómetanlega lúmskum en brillerandi broddi.

Skemmtanagildi er ekki beinlínis stærsti aðdragandinn hér en erfitt er að þverneita fyrir það hvernig frábærlega unnið lítið drama getur tryggt góða endingu í minnisbúinu.

Besta senan:
Sú sem titillinn vísar í. Brúúútal.

Sammála/ósammála?