Author Archives: Tómas Valgeirsson

Once Upon a Time in Hollywood

Hér er bíómynd sem sýnir ferlega vel hvernig margt smátt og sundurslitið getur myndað eitthvað stórt, áferðarmikið og bítandi í laumi. Þó Quentin Tarantino hafi sjálfsagt átt hvassari eða frumlegri daga, þar sem kúlið og kjafturinn trompar flest, er Once Upon a Time in Hollywood trúlega hvað persónulegasta, afslappaðasta og ef til vill þroskaðasta verkið frá honum til þessa. Og líklega fyrsta pjúra gamanmyndin hans.

Á margan veg má segja að glamúrheimur Hollywood-iðnaðarins hafi tekið miklum stakkaskiptum undir lok sjöunda áratugarins, á “gullaldarskeiði” bransans. Á annan veg fjallar myndin um dag í lífi sjónvarpsleikarans Rick Dalton (Leo DiCaprio) og samband hans við dyggan áhættuleikara sinn – Cliff Booth (Brad Pitt) – atvinnutækifæri þeirra og tímamót innan umhverfis sem er þeim nú orðið sama og ókunnugt. Og ekki er „hippafaraldurinn“ að hjálpa.

Hins vegar stráir myndin líka inn sögu af Sharon Tate (Margot Robbie), lifandi lífinu til fulls á þeim tíma þegar hún átti alla framtíðina frammi fyrir sér. Myndin er ekki plottdrifin á neinn veg. Sagan lætur vel um sig fara í rólegheitunum en leikstjórinn svíkur ekki þá hefð að brjóta hefðbundnar strúktúrsreglur og föndra með frásögnina að vild, og blanda saman fantasíu og raunveruleika á mjög Tarantino-legan máta – sem er gott, en gefur kannski ekki frá sér sama högg og undanfarin skipti. Eflaust var það aldrei markmiðið en maður kemst ómögulega hjá því að bera Tarantino-verk saman við önnur Tarantino-verk.

Það er ekki óhentugt að líkja Once Upon a Time in Hollywood við eina vanmetnustu myndina hans, Jackie Brown, mynd sem hlaut milt en prýðislof á sínum tíma en hefur orðspor hennar einungis aukist með tímanum. Á meðan persónur í myndum Tarantinos eru yfirleitt háfleygar, jafnvel ýktar en þó ákveðið agressífar, eru þær ósköp jarðbundnar og viðtengjanlegar í þessari nýjustu mynd hans – en hið sama má akkúrat segja um Jackie Brown.
s
Áhorfendur í leit að klassískri A-til-B framvindu eða söguþræði í hefðbundinni merkingu orðsins eiga lítið erindi hingað. Myndin er merkilega plottlaus og virkar hreinlega stefnulaus við fyrsta áhorf, með sáran skort á ágreiningum og hefðbundna “keyrslu.” Once Upon a Time in Hollywood virkar því meira – á tíðum a.m.k. – eins og samansafn langra sena sem finna sinn kjarna undir lokin frekar en hnitmiðuð frásögn. Þetta er annars vegar ekki beinlínis hemlandi galli og vinnur með bugðóttri heildarsögunni frekar en ekki. Þetta meinta stefnuleysi verður hægt og rólega að einhverjum stærsta sjarma myndarinnar – sérstaklega í seinni áhorfum. Fyrir mitt leyti á það enn eftir að gerast að Tino-myndir verði ekki ögn betri og lagskiptari því oftar sem þær eru séðar og meltar.

Flestar ef ekki allar senurnar á über-gjafmilda sýningartíma þessarar myndar gera heilmikið fyrir prófíl karaktera og almennt andrúmsloft myndarinnar, sem sagt þetta vanafasta nostalgíurúnk leikstjórans, L.A. rætur hans, poppkúltúrsþekking, vestra- og táslublæti er hér ríkjandi fyrir allan peninginn. Tarantino hefur venjulega notast við hefndagirni, örvæntingu eða stórar peningaupphæðir til að keyra persónur sínar áfram, en ekki hér. Hér fá allir bara að njóta, læra og vera til á mikilvægum tímamótum í lífi þeirra.

Tarantino flytur áhorfandann áreynslulaust til þessa tímabils, að vísu með ómetanlegri hjálp frá Robert Richardson tökumanni, rúllandi góðu sándtrakki, búninga- og sviðshönnun og öllu tilheyrandi sem heyrir undir skipun höfundarins. Umrætt tímabil er pakkað saman með hressum, björtum en hálf melankolískum lofsöng á blálok sjöunda áratugarins. Einnig var á þessum tíma þrúgandi upprisa þekktra morðingja í Bandaríkjunum og geislar harmleikur Manson-morðanna og fylgjenda hans yfir glansa skemmtanabransans eins og hann er sýndur. Pólitískur ágreiningur tímabilsins ómar annað slagið í útvarpsútsendingum í bakgrunninum og gefur í kjölfarið upp skýrari mynd af tíðarandanum. Það er ýmislegt dýpra í pípunum hérna í tengslum við stöðugildi, brostin egó, vináttu, kraft og tengingarmátt bíólistarinnar (en ekki hvað?) og kynslóðabil.

DiCaprio og Pitt eru algjörlega upp á sitt bestasta og hressasta (og líkindi Brads við Robert Redford í seinni tíð eykst stöðugt). Rick er hið fyndnasta grey á barmi taugaáfalls á meðan hann glímir við eigið mikilvægi og matsgildi, á meðan hinn sultuslaki en vafasami Cliff lætur hvorki breytingaskeið iðnaðarins né eigin skuggafortíð trufla sig. Saman eru persónur þeirra beggja litríkar, viðkunnanlegar upp að gefnu marki en alltaf ánægjulega uppteiknaðar. Samspilið og ósagða sagan á milli þessara manna er aðall myndarinnar og skilar sér 100%. Það kæmi heldur ekki á óvart ef margir mátar, helst til drengir, eigi í framtíðinni eftir að deila um það sín á milli, hvor þeirra sé meiri Rick eða Cliff í sínu vinasambandi.

Robbie er alveg á tæru fullkomin í hlutverk upprennandi leikkonunnar Sharon Tate, eða gefinnar fantasíuútgáfu af henni. Myndin er ekki síður (jafnvel meira svo) lofsöngur til hennar en tímabilsins sem þekur söguna en erfitt er að færa rök fyrir öðru en að hjarta, hlýja og sál myndarinnar skrifist á hana. Því er augljóslega sú nálgun viljandi að hafa Tate svífandi um atburðarásina í stað að vera virkur þátttakandi í sögunni sjálfri.

Þetta veldur því að hún fær ekki sérstaklega margar línur og sjáum við lítið gert við leikkonuna nema bara að sinna hinu hversdagslega. Á móti dekkri skuggum Daltons og Booth er Tate þarna algjörlega til þess að vera tákn vonar, bjartsýninnar og sakleysis. Þarna er Tarantino samt óneitanlega á hálum ís; nálgunin svínvirkar innan marka og kemur Tate oft út eins og lifandi Disney-prinsessa. Robbie hefur meira í sér en að vera skraut og hefði mátt finna sterkari milliveg og gefa Tate meira vægi í innihaldinu – og þá allra helst á lokametrunum, frekar en að salta henni inn í þematilgangi auk þess að gegna hlutverki vissrar truflunar í narratífunni.

Umfang myndarinnar býður annars upp á botnlausa stóra súpu af gestaleikurum og blasir við að hver og einn hafi einhverju við stjörnufansinn að bæta. Á meðal þeirra sem bera skilyrðislaust af eru Julia Butters, Lorenza Izzo, Margaret Qualley, Al Pacino, Kurt Russell, Timothy Olyphant, Austin Butler og Damian Lewis í hlutverki Steve McQueen. Mike Moh stelur líka hverjum ramma með eina líflegustu Bruce Lee-eftirhermu allra tíma, og stórlega umdeilda ofan á það.

Ljóst er þó að flestir áhorfendur deili ekki sama blæti fyrir “gamla” Hollywood eins og Tarantino sjálfur. Þarna er líka komin auðfengin ávísun á dóminerandi typpa- og valdafýlu hvítra karla (eins og þessi heimur var nú þá… og enn í dag að mörgu leyti) og er erfitt að vita hvort það sé viljandi gert eða ekki hvað minnihlutahópar eru óvenju fjarverandi. En þrátt fyrir að Tarantino skapi trúverðuga og raunsæja mynd af tímabili sínu gerir maðurinn lítið til að kommenta á það í nútímasamhengi, þá án nostalgíugleraugnanna.

Rétt aðeins undir lokin er leikstjórinn kominn í talsvert kunnuglegri gír og má sjálfsagt deila um það hvort klímaxinn stemmi fullkomlega við allt sem hefur á undan komið (og merkilegt að hugsa til þess að þessar mínútur séu merki um leikstjórann að hemla sig), en ánægjan sem fylgir umræddum – og sprenghlægilegum – lokasenum er hin mesta dásemd.

Þó það sé mikil klisja að segja það er þetta að miklu leyti eins og bíómyndin sem ferill leikstjórans hefur lengi leitt að; úr verður þá einstakt ástarbréf og fortíðarinnlit frá manni sem blæðir hreinlega út umhyggju fyrir kvikmyndaforminu og um leið má segja að þetta sé manneskjulegasta myndin hans af öllum í þokkabót. Myndin er umdeilanlega aðeins of löng – eða það verður allavega álit almennings sem á erfitt með bíósetu án þess að glugga í símann – og má alveg finna fyrir lengdinni. Hún slær í tæpa þrjá klukkutíma en ef maður kemst inn í grúvið og trippið sem tásluóði bíómeistarinn kallar fram, er varla hægt að segja að sú lengd sé annað en gjöf. Ég hefði alveg getað góðan klukkutíma í viðbót.

Tarantino áætlar að áhorfandinn þekki til Manson-kúltsins og að sama skapi Hollywood-menningarinnar sem hún tekur fyrir og því ekki eins aðgengileg fyrir víðan almenning og margar hverjar af þekktari Tarantino-myndunum. En hún er kvikmynd sem mun að öllum líkindum eldast vel með þematíska, þrælskemmtilea afturhvarfi sínu og standa upp úr þegar heildarferill mannsins er grandskoðaður og ítarlega krufinn á seinni árum.

Besta senan:
Í stuði við sundlaugabakkann.

PS. Heba Þórisdóttir förðunarmeistari fer með lítið hlutverk sem… jú… förðunarmeistari. Gott touch þarna, og íslenski hreimurinn leynir sér ekki.

Og… bara sem nördalegur viðauki, og upp á ákveðið samhengi, þá skil ég eftir gæðaröðun á QT myndum eftir persónulegu uppáhaldi.

1. Inglourious Basterds
2. Django Unchained
3. Pulp Fiction
4. Once Upon a Time in Hollywood
5. Jackie Brown
6. Reservoir Dogs
7. The Hateful Eight
8. Kill Bill
9. Death Proof

Categories: Gamanmynd, Kryddblöndumynd | 1 Comment

The Lion King (2019)

Sjaldan eða aldrei hefur eins mikill peningur farið í jafn litla efnislega hugmyndavinnu. Stórrisarnir hjá Disney hafa svo sannarlega borið af síðustu árin þegar kemur að markmiðinu að þrýsta fast á nostalgíuhnappa fólks, en hingað til hefur ekki verið skýrara, ógeðfelldara dæmi um Copy-Paste endurpökkun á þessum skala.

Beauty and the Beast endurgerðin frá 2017 kom býsna nálægt slíkri nálgun en bætti þó smávegis (drasli) við. Meira að segja nýi Aladdin fann nokkra nýja vinkla og Dumbo líka. The Lion King endurgerðin er í orðsins fyllstu merkingu pjúra uppfærsla – og tilfærsla á teikniformi. Hún er meira æfing í vörumerkjagræðgi og fótó-realisma í tölvubrellum. Stórglæsilegur afrakstur sem slíkur og ekki alvond kópering, en hreinræktuð kópering engu að síður. Sköpunarvinna og listrænt frelsi er í algeru núlli og til að bæta gráu ofan á svart hafa lögin ekki sama kraft og í teiknimyndinni.

Myndin kemst engan veginn hjá samanburði við uppruna sinn vegna þess að hún stólar alltof mikið á hann – og tengingu fólks við hann – án þess að betrumbæta, dýpka eða gera nokkuð framandi með aðlögunina.

Það þýðir ekki bara að klessa gömlu senurnar á skjáinn með sömu músík, og nýrri grafík, og ætlast svo til þess að þau gefi frá sér nákvæmlega sömu tilfinningahögg. Það sem glatast þarna í endurfæðingunni er til dæmis ýkta, tjáningarríka og hádramatíska levelið sem þessi sama saga hamraði svo fínt í eldra teikniforminu.

Konungur ljónanna án litadýrðarinnar og ríku svipbrigði karaktera er bara geldur, óaðlaðandi skjávari. Hans Zimmer-tónlistin og lögin almennt í myndinni eru sennilega stærsta ástæða þess að teiknimyndin er talin svona… sígild. Sjálfsafgt hafa ófáir fengið gæsahúð þegar fyrsti ramminn rís með sólinni og Hringrás lífsins hefst með góðu gargi. 

Á nokkrum stöðum bregða fyrir kaflar í nýju myndinni sem framkalla með naumindum þessa sömu tilfinningu og uppruninn gerði, en svo tekur “uncanny-valley” truflunin við eða þessi stórundarlegi metnaður fyrir því að taka “skot-fyrir-skot” afrit af römmunum. Það hættir aldrei að vera undarleg tilfinning að sitja yfir mynd þar sem aulahrollur og gæsahúð sync’ast saman í eitt á sama tíma.

Það er lítið út á nýju raddleikarana að setja í sjálfu sér, þó aldrei verður hægt að eiga séns í línuflutning manns eins og Jeremy Irons. Fyrst að James Earl Jones var fenginn aftur í hlutverk Mufasa hefði allt eins bara mátt fá Irons á ný sem skúrkinn bitra, ef ekki nota gömlu upptökurnar. Fáránlegri hlutir hafa nú gerst hjá höfuðstöðvum Disney. 

Þegar Seth Rogen reynir ekki að syngja kemur hann stórvel út sem Púmba, þó útlitslega útkoman á geltinum sé ekkert skárri hugmynd en það að gera Pöddulíf að live-action endurgerð. Billy Eichner er ekki slæmur Tímón heldur. Hann fær víst nýjan brandara sem markar eitt af betri mómentum myndarinnar. Svo má ekki gleyma hressilegri viðbót þar sem við fylgjum hárklumpi úr Simba og sjáum hann ferðast langar leiðir, gegnum lægðir og hægðir. Og það er nákvæmlega eins og þarna stendur.

Það má næstum því kalla það stór vandamál að handritshöfundurinn Jeff Nathanson fái í alvörunni kredit fyrir þetta handrit sem hann er titlaður fyrir, þegar réttast væri að nota upprunalegu höfundana með. Ef út í það er farið gátu framleiðendur alveg eins viðurkennt að efniviðurinn er allur stolinn frá japanskri seríu að nafni Kimba The White Lion. En það skiptir svo sem litlu máli hér. Sá stuldur skrifast á upprunalegu teiknimyndina – sem þó lagði helling í sköpunarferlið, frá sögu til söngs, en nýja myndin á ekki að eigna sér frásagnartakta og allt klabbið úr originalnum og kalla það sitt eigið. Það skondna er hins vegar að þessi nálgun býður einnig upp á það að myndin erfir alla galla upprunalegu myndarinnar líka…

Rómantíski þráðurinn slær ekki á neina hjartastrengi því hún fær mjög flýttan fókus og tilvistarkreppa aðalpersónunnar hittir ekki nægilega í mark. Reyndar finnst mér Simba og Nala (ennþá) vera afskaplega þunnar persónur, sérstaklega miðað við það að flestallir aðrir eru mjög eftirminnilegir og sterkir í sínum prófíl.

Sem kvikmyndagerðarmaður hefur Jon Favreau aldrei verið beinlínis masterklassa sögumaður eða leikstjóri með brodd. Þó er ljóst að hann hafi greinilega öðlast fullmikið blæti fyrir tölvugerðum dýrum og skógarumhverfumum í (stórfína) Jungle Book rímeikinu til að telja sig trú um annað en að þetta gigg snúist eingöngu um að telja Disney-seðlana. Uppfærsla á The Lion King var greinilega eina leiðin fyrir Favreau til að finna auðfengnara fé en að gera framhald af Elf.

Myndin er nógu fínslípuð í grafík og hlaðin kostum uppruna síns til að vera ekki viðbjóðurinn sem tilvist hennar ætti að sýna fram á. Sem sjónarspil er augljóslega ýmislegt til að dást að og stafrænar kameruhreyfingar hafa aldeilis tekið stökk. Á þeim enda er nýja myndin alveg að smella, sama hvað dýrin urra hátt í tómri tunnu. Þá verður að spyrja sig hvort eina gagn The Lion King endurgerðarinnar sé að höfða til fólks sem hefur aldrei séð teiknimyndina, sem eru samt ómeðvitað að gera sér eilítinn ógreiða með því.

Besta senan:
Ferðalag hárklumpsins.

Categories: _ | Leave a comment

Spider-Man: Far From Home

Er það eðlilegt að almenningur hafi á sautján árum fengið ellefu bíómyndir þar sem Köngulóarmaðurinn skýtur upp kollinum? Tæknilega séð tólf ef við teljum hina Spider-Man-lausu Venom með…

Er þetta of mikið af hinu góða á þegar pökkuðum markaði? Eða…

Má færa rök fyrir því að Spider-Man sé einfaldlega ein skemmtilegasta ofurhetja í heimi?

Stutta svarið ætti í raun og veru að vera já við öllu þrennu, en eins og ég sé það virðist bara hafa komið aukning á því hvernig best er að útfæra Spider-Man myndir með árunum – með því að embrace’a unglinga/gaggó-dramað og setja alvöru þematík í mixið. Bara á síðasta ári fengum við LANGflottustu og bestu Lóamyndina, Into the Spider-Verse, sem sýndi 150% með poppuðum teiknistíl og frábæru handriti hvað hægt er að gera við þessa hetju á hvíta tjaldinu.

Eftir þá mynd hélt ég að væri í raun ekki aftur snúið með þessa hetju, að lítið þýddi einu sinni að reyna aftur með leikna formið.

Heppilega er Tom Holland algjör fengur, eins og hann er löngu búinn að sýna fram á. Hann er allt það sem Tobey Maguire vildi vera (og enn lítur sá maður út eins og hann sé 15 ára) og með “lúðafaktorinn” sem Andrew Garield náði ekki alveg tökum á. Það skrifast massamikið á Holland hvað hann nær að gera mikið fyrir karakterinn og myndirnar. Ofar öllu er hann líka viðtengjanlegur.

Far From Home er einn ragmagnaður gleðipakki ef ofurhetjan gefur þér eitthvað (Peter-)kitl; hún virkar sem góð gamanmynd á eigin veg, frábær Spider-Man mynd og bragðmikill eftirréttur (/eftirmáli?) í kjölfar þungu, drollandi og flötu máltíðarinnar sem Avengers: Endgame var. Stundum var eins og vantaði alla keyrslu og flug í þá mynd – og ekki síður Captain Marvel sem á undan kom – en þessi ræma er með þeim allra betri frá Marvel stúdóinu til þessa. Kannski ekki sú súrasta, hugmyndaríkasta eða mest heillandi, en absolút dúndurfjörug, frá upphafsatriðunum til tveggja ansi góðra endasena. Eitthvað gerist það ógurlega sjaldan að mið-kreditsenur bæti einhverju við, en þær gera það hér.

Í Homecoming var þróunin hjá Peter Parker sú að finna sjálfan sig og hetjuna í sér, en núna er komið að honum að sýna hort hann geti miklu meira en hann trúir; ekki bara þarf hann að finna Hefnandann í sér, heldur eigin leiðtoga í sjálfum sér, átta sig á því hvaða leyndarmálum er þess virði að halda – og hvaða fleiri aulamistök gerir maður á svona ungum aldri. Og annað en síðast er komið að því að efla hösslarann í sér.

Á meðan Homecoming var svolítið sjónvarpsleg í lúkki og ekki alveg nógu tilþrifarík, þá er dramatískt meira í húfi í Far From Home, þó henni takist allan tímann að vera eiturhress og brandarlega skemmtileg ferðakómedía, með ágætum og stundum æðislega trippuðum hasar bökuðum inn. 

Auk þess er Jake Gyllenhaal hreint frábær viðbót í þennan heim, og neglir það kalt að vera sjarmerandi, mystískur og vafasamur. Stuðningsfólkið fær margt til að vinna með; Samuel L. Jackson, Jacob „Ned“ Batalon, Jon Favreau, Marisa Tomei og Martin Starr eiga marga frábæra spretti. Meira að segja Zendaya hefur þroskast og þróast helling úr one-liner hipsterboltanum sem hún lék síðast og hefur núna miklu við að bæta. Hollendingarnir stela líka senunni á góðum tímapunkti. Allir sem einn.

Það eru fáein bremsuför í handritinu og má deila um það hvort myndin erfi fullmikið af lausum þráðum sem Endgame náði ekki að dekka. Þar að auki, þar sem þetta er Marvel Studios-mynd má aldrei líða of langur tími til að díla við tilfinningar án þess að brandari komi og „skemmi“ (það og klippingin er svolítið sérkennileg/off á tíðum). Slíkt eru samt svo miklir prump-hnökrar þegar myndin á móti nær að faðma að sér alla vitleysuna sem henni fylgir. Þó heilalaus sé þá er hún fjarri því að vera laus við stórt, sláandi hjarta.

Spider-Man: Far From Home nær á hinn besta máta að vera akkúrat það sem hún þarf að vera, og vill vera. Pjúra popp-afþreying, ídeal sumarskemmtun og jafnvel næstbesta Lóamyndin. Hún lokar fyrir margt af því sem hefur á undan komið í 20+ mynda fösum hjá stúdíóinu og leggur ýmsa teina fyrir spennandi áframhald, bæði fyrir titilkarakterinn og tilheyrandi heim.

Besta senan:
„Mændfökk-ferðalagið“

Categories: _ | Leave a comment

Powered by WordPress.com.