Author Archives: Tómas Valgeirsson

Joker

Hver um sig getur leyft sér að sjá ýmislegt við sitt hæfi úr Joker; upphafssögu og nýjan vinkil á Batman-fígúru, stúderingu á misskildu fórnarlambi sem finnur sinn sess í skemmdum heimi sem óvænt byltingarhetja, eða stóru incel-íkveikjumyndina miklu og allt þar á milli.

Sjálfur sé ég mynd sem stelur ýmsum lykilhráefnum úr góðkunnum Scorsese-myndum og spilast út eins og Fight Club fyrir orkudrykkjakynslóðina, ef hún væri gerð af einstaklingi sem fattaði ekki að sú mynd væri um eitraða karlmennsku og neysluhyggju en ekki einhver ’90s-töffaramynd. Af sjálfstæðri, brútal Jókermynd að vera er myndin óvenju áhættulaus, stíf og ekki alveg nógu prakkaraleg, nema það teljist með að gera lag frá dæmdum barnaperra að upprisumúsík titilmannsins.

Í besta falli má segja að þetta sé fínasta forvitnisgláp sem sýnir hvað hægt er að gera utan ofurhetjugeirans. Í versta falli góð áminning til fólks um hvað Joaquin Phoenix er sturlað sterkur leikari.

Phoenix leikur sér að yfirborðskenndu klisjuhandriti og mjólkar úr því allt sem hann getur með smáatriðaríkri maníu, trúverðugu geðtapi og sannfærandi innri sársauka. Karakterinn sem hann leikur, aftur á móti, hann Arthur Fleck, er skrifaður eins og Óskarsbeitufígúra, þar sem eymdin er hlaðin á pari við vesældarstúlkuna Precious; hann er ítrekað beittur ofbeldi, átti ömurlega æsku, óheppnari en allt, treggáfaður, býr hjá móður sinni, hefur ekkert fyrir stafni, fær hverjar hörmungafréttirnar á eftir öðrum og ofan á það með fráhrindandi sjúkdóm sem veldur stjórnlausum hlátri þegar hann stressast upp. Það eina sem vantar upp á er myrt gæludýr til að sigla myndinni alla leið í harðkjarna tilfinningarúnk.

Arthur kemur út eins og honum finnist heimurinn skulda sér athygli; draumur hans er að verða uppistandari, þó hann hafi varla getu til að muna einn brandara. Arthur tekst með undraverðum hætti á einum tímapunkti að sá fræjum fyrir upprisu í glæpum huldufólks sem kennir ríka fólkinu um núverandi infrastrúktúr. Handritið virðist heldur ekki hafa neitt almennilegt að segja með innliti sínu. Sagan skoðar til dæmis ekki samfélagslega sögusviðið með dýpri skoðun en „ríkir eru vondir, við hin erum góð“. Hvað það varðar keypti undirritaður það aldrei að Arthur gæti óvart komið byltingu af stað með þeim litla hætti sem hann gerir þegar borgin er í niðurrifum fyrir.

Jókerinn hefur í gegnum áratugaraðir verið teiknaður upp í margs konar stærðum, gerðum og gervum og það verður að segjast að Arthur Fleck ber ýmis merki um athyglisverða nálgun. Það sem rænir honum samt þeim prófíl að vera athyglisverð persóna er hversu lítið jákvætt er dregið upp úr honum; hann hefur enga sýnilega hæfileika, ekkert karisma, enga snilligáfu eða neitt sem sver hann í sambærilega ætt við þekktasta glæpatrúð í sögu dægurmenningar.

Þegar þú rammar Arthur inn í þennan Batman-heim, þá veistu nákvæmlega hvert framvindan stefnir með aðalkarakterinn og skilur þetta lítið pláss eftir fyrir tilraunastarfsemi. Þar af leiðandi skiptir í rauninni engu hvort maður trúi því að hann komist frá B til C, svo lengi sem C er endastöðin þar sem hann öðlast status sem einhver glæpafyrirmynd. Myndin vill tilheyra Gotham-heiminum en vill samt ekki vera með neinu móti bendluð við nein hasarblöð. Þess vegna kemur umrædd tenging frekar pínlega út, enn fremur í ljósi listræna frelsisins sem handritið tekur á upprunalegu fígúruna, og hefði myndin verið trúlega betri sem sjálfstæð, óháð saga – þótt tengingin sé 90% ástæða fyrir aðdraganda vinsældanna, sama hvaða sögu þú dressar þarna undir.

Til að efla genin við Taxi Driver og The King of Comedy er Robert De Niro mættur á svæðið í Joker til að gera örlítið meira en að hirða launin sín. Þótt nærvera De Niros bæti vissum, auknum glæsibrag á heildarverkið er maðurinn ekki alveg réttur maður í hlutverk spjallþáttastjórnandans sem Arthur lítur upp til. Hin efnilega Zazie Beetz (úr Deadpool 2) er fínn viðauki í hópinn en henni er algjörlega sóað með rullu sem er í sjálfu sér tilhlaup að ódýrri handritsreddingu – sem verður fyrirsjáanleg frá þriðju mínútu. Frances Conroy er annars vegar frábær sem móðir Arthurs og hefði mátt fá meira til að vinna úr.

Á jákvæðu nótunum má alveg skrifa það á Hildi Guðnadóttur að hún eigi annað aðalhlutverk myndarinnar. Þrúgandi sellóið hennar gerir sumar skelflatar senur að litlu kraftaverki í mómentinu og skapar tónlistin almennt drunga sem gefur gráan skugga á jafnvel þær senur sem koma einhverri skammlífri gleði til skila. Hildur hefur átt magnað ár í ár með meiri háttar stefjum úr Chernobyl og opnar fjöldann allan af dyrum og tækifærum með framlagi sínu hér. Það eru að lágmarki þrjár til fjórar senur sem eru stórkostlegar í gegnum magnaðan samruna aðalleikarans og tónlistar Hildar.

Merkasti brandari Jókersins frá upphafi umtalsins var að sannfæra heiminn um að myndin byði upp á djúpar umræður og grandskoðun til að byrja með. Ýmsir fjölmiðlar og hópar veltu lengi fyrir sér hvort myndin væri í raun stórhættuleg, að hún gæti sérstaklega hvatt kynsvelta karlmenn til vafasamra aðgerða vegna versnandi samfélags um heim allan. Þetta finnst mér umræðuverður punktur og er skiljanlegt að það vakni spurningar.

Persónulega trúi ég ekki að nein kvikmynd ætti að teljast ábyrg fyrir vandamálum sem finnast víða fyrir, en allt er svosem líklegt í raunheimi þar sem margir veikir tóku A Clockwork Orange til abstrakt fyrirmyndar á sínum tíma, fólk stofnaði alvöru slagsmálaklúbba og manneskja hefur bókstaflega kafnað úr hlátri í miðju áhorfi á A Fish Called Wanda. Svo skulum við ekki gleyma hópnum sem horfði á Avatar og var langt kominn í sjálfsvígshættu þegar í ljós kom að Pandora væri ekki raunverulegur staður.

Joker espir trúlega einhvern minnihlutahóp með bjagaðri en eldfimri hugmyndafræði en þegar öllu er á botninn hvolft er myndin ekkert hættulegri neinum frekar en Paddington eigi sök á að valda köfnun á marmelaðisamlokum.

Sennilega, ef myndin væri hlaðin meiri súbtextum og handritshöfundar vissu sjálfir hver skilaboð og þemu sín væru, yrði lokaverkið meira tilbeðið með skaðlegri hætti. En eins og stendur er um að ræða býsna innantóma mynd sem lúkkar vel og gargar hátt. Djókurinn er of alvarlegur til að virka og alvara myndarinnar of mikill djókur.


Besta senan:
Dýr ráð hjá dverg.

Categories: _ | Leave a comment

IT: Chapter Two

Þá er komið að seinni hluta trúða- og óttaepík Stephens King, þar sem síendurtekin óttamótíf, uppgjör, minningar og fortíðardraugar eða andsettir skrípalingar ráða ríkjum. Því er ekki hæpið að segja að þessi skítþykka bók sé samansafn af öllum helstu King-formúlunum (Maine, útskúfun, vinátta, óþekkt illskuöfl, sálarhreinsun í gegnum fortíðaruppgjör, hinir hrottalegustu hrottar, rithöfundur í krísu o.fl.). Persónurnar hafa allar sinn djöful að mæta, sem tengist yfirleitt einhverju fráskildu skepnunni – t.d. samviskubit yfir fráfall persónu, martraðir úr æsku, andlegt ofbeldi o.fl.

Síðast fylgdumst við með krökkunum, nú er komið að fullorðna hópnum (þó búið sé að strá allnokkrar senur með krökkunum þar sem búið er að yngja þá aðeins með truflandi effektum). Sagan í grunninn pikkar ekki bara upp þráðinn 27 árum seinna, heldur hafa flestar persónur gleymt því sem gerðist – sem er í rauninni hin fullkomna afsökun til að gera nákvæmlega sömu mynd aftur.

Þessi sena er hilaríus! – var það… ætlunin?

Tæknilega og táknrænt séð setur Chapter risastórt stækkunargler á helstu vankanta fyrri kaflans – nánast eins og hún hafi verið stundum unnin af allt öðru aðstandendateymi. Hún er stærri, dýrari, ruglaðri, lengri, langdregnari, kjánalegri, meira þreytandi og ó-drungalegri á allan veg. Það er ágætis karaktervinna hér og þar en að sama skapi nær þessi samanlagða 5+ tíma heild ekki að gera öllum hópnum góð skil. Hún nær aðeins fínni lendingu á síðustu 40 mínútunum (sem er skondið í ljósi þess hversu oft King skýtur á það í þessum hluta hvað “rithöfundurinn” í sögunni er ömurlegur í því að skrifa enda), en tveggja tíma biðin fram að því er voðalega rykkjótt og óspennandi.

Fyrri myndin hafði sína spretti í hryllingi og múdi, á meðan þessi kemur oftar en ekki út eins og hálfbökuð Sam Raimi eftirherma í subbulega óhugnaði sínum, með slöppum brellum, klúðurslegum senubyggingum sem eru allan daginn hallærislegri frekar en skerí, illa tímasettum bröndurum og haug af litlum uppfyllingum og karakter-mómentum sem fyrri kaflinn var löngu búinn að dekka.

Bill Skarsgård er enn þrumugóður og hressandi sem Pennywise, þó gjarnan hefði mátt vera meira af honum í stað… allra þeirra skepna sem poppa upp í hans stað. Almennt er einhvern sjarma að finna í fullorðinshópnum, enda annað erfitt með svona fínt sett. Jessica Chastain og James McAvoy eru frábær þó þau séu á sjálfstýringu, talent sem fylgir víst leikurum sem eru *með’edda*. Bestur er sjálfsagt hinn ávallt hressandi Bill Hader, að gera það sem hann gerir best – að djóka yfir sig í aðstæðum og koma með sannfærandi taugaveiklun. Isaiah Mustafa (úr eldri Old Spice-auglýsingunum) er líka með góða nærveru en alveg eins og gerðist með fyrri hlutann fær persóna hans minni athygli heldur en ætti að vera sjálfsögð. Aukaplottið með svívirðilega hrottann kemur á annan veg út eins og pirrandi uppfylling, ef út í heildarhópinn er farið. Það liggur allavega strax fyrir að eldri hópurinn hefur ekki alveg tilgerðarlausu kemistríuna sem þessi yngri hafði.

Á stílísku leveli gerir Andy Muschietti ýmislegt fínt úr atmói sem minnir á hreint martaðar-karnival – í bland við grafalvarlega Beetlejuice á milli. Litapallettur- og lýsingarföndur nýtur sín á öllum þeim sviðum sem klipping, brellur eða hljóðvinnsla klikkar á. En IT: Chapter Two er góðum hálftíma allt of löng og hefði trúlega betur mátt nýta tímann sem hér er í boði. Af klippingunni að dæma er oft eins og hlunka vanti úr klippi sem hefði greinilega átt að vera lengra. Með því að brjóta upp bókastrúktúr Kings eins og þessar bíóaðlaganir (sjónvarpsmyndin þar meðtalin) hafa gert er úrvinnslan alltof mikið í endurtekningum og táknmyndum sem margbúið er að tyggja.

Að erfa galla bókarinnar er eitt, en fyrir aðstandendur að takast því furðulega verki að gera býsna leiðinlega og áhrifalausa hryllingsmynd um SNARKLIKKAÐAN TRÚÐADJÖFUL er eitthvað allt, allt annað skammarstig.Besta senan:

McAvoy í karnivali.

Categories: Drama(tripp), Hryllingsmynd | Leave a comment

Pappírs Pési sniðgenginn af Óskarnum

Framlag Íslands í fyrra var dramatíska kómedían Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson en komst hún ekki áfram og var sniðgengin af akademíunni vestanhafs. Nú í ár verður reynt á ný með Hvítum, hvítum degi, sem undirritaður spáir að komist heldur ekki áfram (en meðlimir akademíunnar munu væntanlega komast afar nálægt því að velja hana þó)

Á hverju ári eru send framlög til þessarar nefndar en hefur íslensk kvikmyndagerð ekki fengið sess síðan árið 1991 með hinni margumtöluðu Börn náttúrunnar. Samkvæmt sögum vorum við nálægt því að komast í úrslit með Djúpinu hans Baltasars. Einn daginn mun Ísland komast aftur á radarinn en þangað til sá dagur rennur upp er þess virði að skoða fimm furðulegustu framlög sem okkar ágæta kvikmyndagerðarfólk hefur lagt út í gegnum árin.

Pési tættur (The Adventures of Paper Peter – 1990)

Það er fátt sem öskrar „Óskarsmynd“ meira en barnamynd um teiknaðan leikfélaga sem vaknar til lífs og veldur usla – eða hvað? Á milli hennar og kvikmyndarinnar Ryð, sem kom einnig út árið 1990, var um lítið annað að velja. Pappírs Pési ákvað engu að síður að vaða í Óskarshlaupið af fullu afli og vona það besta. Fígúran kætti ófá börn á sínum tíma og í gegnum árin á Íslandi en þótti víst ekki nógu efnilegur fyrir alþjóðamarkað. En Pappírs Pési má að sjálfsögðu ekki gefast upp og ef hann verður einhvern tímann endurgerður er gráupplagt að spýta í lófana og gefa honum annan séns. Hann Pési okkar á það skilið, því fátt rífur meira í hjartarætur Íslendingsins en þegar hann setur upp fýlusvipinn.

Blossinn sem dvínaði (Blossi/810551 – 1997)

Þessi „pönkaða“ unglingamynd úr smiðju Júlíusar Kemp féll svo sannarlega ekki í kramið hjá öllum þegar hún kom út árið 1997. Mörgum þótti hún heldur tilgerðarleg, ef ekki pínleg, þótt góð tónlist og hressir frasar hafi staðið upp úr. Blossi hefur þó öðlast ákveðinn status sem „költ“-mynd í gegnum árin og hafa ýmsir krafist þess að myndin komist í þá stafrænu útgáfu sem hún á skilið. En í ljósi þess að mynd eins og Trainspotting hafa varla fengið mikla ást frá akademíunni í denn, átti þá Blossi nokkurn séns frá upphafi?

Stikkfrí frá Óskarnum (Count Me Out – 1997)

Stikkfrí verður að segjast vera með betur heppnaðri fjölskyldumyndum Íslands. Myndin sló alveg í gegn í kvikmyndahúsum og á leigum og hefur reynst mikil nostalgía fyrir þá hópa sem voru á sambærilegum aldri og stúlkurnar í aðalhlutverkunum. Hins vegar hefur Óskarinn sýnt það fordæmi að fjölskyldumyndir þurfi að vera í bitastæðari kantinum og örlítið meira brautryðjandi til að eiga möguleika (sjá Pappírs Pésa). Myndin kom út sama ár og Blossi hérlendis en var send inn sem framlag næsta ár á eftir. Stikkfrí lifir svo sannarlega í þjóðarsál íslenskrar kvikmyndagerðar, en það ætti að hafa verið nokkuð ljóst frá upphafi að þar væri hún best geymd frekar en að koma henni víðar.

Stuðmenn í súginn? (Ahead of Time – 2004)

Seinni Stuðmannamyndin er enn þann dag í dag heldur umdeild, ekki síður þegar hún er borin saman við frummyndina sem sigraði hjörtu Íslendinga snemma á níunda áratugnum. Það þykir þó heldur undarlegt að senda kvikmynd út sem framlag til stærstu verðlaunahátíðar kvikmyndabransans þegar hún er morandi í einkahúmor og óteljandi tengingum við Með allt á hreinu. Akademían hefur væntanlega ekki þekkt mikið til upprunalegu myndarinnar né náð að dilla búknum yfir nýrri lögum Stuðmanna. Í takt við tímann hlaut varla umtal né viðlit í kringum Óskarstímabilið 2005. Sennilega skrifast valið á tiltölulega slappa samkeppni það ár og má deila um það hvort Í takt við tímann beri af við hliðina á titlum á borð við Dís, Blindsker, Opinberun Hannesar og Kaldaljós. Þetta er engu að síður upplagt tækifæri til að spyrja landann hvort sú manneskja sem til sem kann betur að meta seinni Stuðmannamyndina en þá fyrri. Hún má endilega stíga fram.

Skari skrípó sækir í Skara frænda (Reykjavík-Rotterdam – 2008)

Spennutryllirinn Reykjavík-Rotterdam var með vinsælustu myndum á Íslandi árið 2008. Myndin er samstarfsverkefni þeirra Baltasars Kormáks, Arnaldar Indriðasonar og Óskars Jónassonar (Skara skrípó). Það eru fáir sem ekki taka undir að tæknivinnsla hafi verið vönduð og keyrsla myndarinnar brött, en í samhengi hins stóra markaðar er þessi tryllir aðeins dropi í hafið. Þetta kom meira að segja í ljós þegar myndin var endurgerð fyrir bandarískan markað undir nafninu Contraband og gagnrýnendur sögðu söguna vera langsótta, gjarnan ófrumlega og dæmigerða. Óskarinn er kannski ekki alltaf samkvæmur sér sjálfum en það þarf að miða aðeins hærra en að „ásættanlegri spennumynd“ til að Skari frændi finni þig á radarnum.

Categories: actual blogg | Leave a comment

Powered by WordPress.com.