Author Archives: Tómas Valgeirsson

X-Men: Dark Phoenix

Endalaust ætlar þessi blessaða X-sería að vera til vandræða, svona rétt þegar hlutirnir voru farnir að ganga svo fínt aftur – hvort sem maður telur þá Logan eða Deadpool með eða ekki.

Segja má auðvitað heilan helling um Bryan Singer, en það verður ekki tekið af honum að hann hafði oft visjúalt auga fyrir bíói og áhugaverðum senubyggingum af og til – sem hvort tveggja er fjandsamlega fjarverandi í X-Men: Dark Phoenix.

Myndin er leikstjórafrumraun Simon Kinberg, handritshöfundarins og framleiðandans sem hefur verið með lausa yfirsýn yfir X-heiminum í rúman áratug núna. Þetta er önnur tilraun hans til að koma aðlögun á Dark Phoenix sögunni frægu en skilar af sér einhverju sem bæði fetar oft í sambærileg spor og X-Men: The Last Stand – og low-fi og púðurslausu á sama tíma. Myndin er bombastísk í tón undir músík Hans Zimmer en Kinberg er alveg úti á þekju með að flytja tilfinningakraftinum af blaðinu. Hann er líka alveg týndur í samsetningu á öðru en einföldum díalogssenum.

Samtölin eru ekkert sérstök yfir heildina – og halla að verri tendans myndabálksins til að predika. Frásögnin er slitrótt, persónusköpun þunn (og sérstaklega bjánalegt hvernig unnið er úr Magneto í þessari lotu) og vantar alla sjónræna dýnamík í stílinn. Myndin hefur þá væntanlega ætlað sér að vera nær því að vera mínimalískari svanasöngur í anda Logan – en aldrei hefur það betur sést í seríunni hvað Logan var mikið kraftaverk; vel skrifuð, kröftug, skemmtileg, brútal – X-Men: Dark Phoenix er að vísu hressilega grimm á köflum en linnulaust lin, illa klippt og feilar alveg á tækifærinu til að leyfa frábæra cast’inu að skína til fulls.

Sophie Turner kemur því vel til skila hvernig Jean Grey tekst á við nýfundna krafta sína og hvað hún vill að úr sér verði. Síðan höfum við Jessicu Chastain og Jennifer Lawrence (sem er endanlega sofnuð í hlutverkinu núna) sem eru þarna að mestu til skrauts og útskýringa. Verst er þó auðvitað Alexandra Shipp sem Storm. Hún er þarna eingöngu til þess að pósa í nærmyndum á klukkutíma fresti og vera ekki of mikið fyrir.

Þau sem koma best út, að frátaldri Turner, eru Nicholas Hoult, Kodi Smit-McPhee og James McAvoy. Kinberg klúðrar því hins vegar hart á handritsleveli að gera breytingu og þróun Xavier að þungamiðju sögunnar. Sagan leggur meira upp úr því að snúast um hvernig hann getur fundið endurlausn á því að hafa eyðilagt og bælt niður Jean, í stað þess þá að gefa okkur meira af Jean. Aftur, eins sannfærandi og Turner getur verið í lykilsenum sínum, þá er persónan gerð að alltof þunnum pappír til að þemunin og krafturinn skili sér.

Það er grautfúlt að sjá X-seríuna (eða réttar sagt, þessa „kynslóð“ sem tilheyrir henni) ljúka sig af með svona aumu freti. Aðdáendur voru svosem í heildina ekki sáttir við Apocalypse (annað en ég á sínum tíma) en því er samt erfitt að neita að hún lokaði sínum hóp bara prýðilega. Ég skil ekki einu sinni hvers vegna leggja í annan “svanasöng” eftir jafn glæsilegan ópus og Logan. Núna eru þessir fínu leikarar – þar sérstaklega Fassbender, Lawrence og McAvoy – orðnir að bröndurum í sífellt endurteknu samspili (hlutskipti Magneto í sögunni eru með eindæmum frústrerandi og hvað hann tekur skjóta breytingu).

Jákvæðu elementin við þessa mynd tengjast að vísu bombastíkinni hjá Zimmer, vannýttu Turner-greyinu, Hoult, stökum ágætissenum og þessum hellaða klímax þar sem Kinberg breytir myndinni í Under Siege 2 án þess að nokkur hafi beðið um það. Og ef horft er á enn jákvæðari hliðar þá er þessi mynd alveg þremur bjórum skárri en X-Men Origins: Wolverine. En vissulega á rangri hillu fyrst að Brett Ratner myndin er skyndilega farin að líta betur út í samanburði við nýja svanasönginn.

Besta senan:
Dýrið grætur.

Categories: Ævintýramynd, Drama, Spennuþriller | Leave a comment

Eden

Eden er það næsta sem hefur komist því að vera finna arftaka Blossa.

Þetta er (vissulega) meint sem blússandi hrós, þrátt fyrir það að síðarnefnd næntís-dópmynd hafi ekki beinlínis verið snilldarstroka í kvikmyndagerð; þvert á móti hlægileg, þvæld, kjánaleg en á móti stútfull af orku, viðeigandi attitúdi, góðri tónlist og léttum væb sem íslenskar kvikmyndir leyfa sér sjaldan að prófa – þrátt fyrir það ógrynni af dóp-og/undirheimamyndum sem við höfum af okkur getið.

Íslensku krimmamyndirnar hafa auðvitað tekið sig misalvarlega og tæklað mál um fíkniefni eða neytendur slíkra í bobba á ólíkan máta. Hins vegar hefur verið gríðarlegt gegnumgangandi þrot hvað beitingu myndmáls eða sköpun andrúmslofts. Kvikmyndagerðarmaðurinn Snævar Sölvi Sölvason (hinn sami og gerði hina hræódýru Albatross og enn minna séðu Slay Masters) er upprennandi á indisvíðinu, en strax með einni uppgötvun á grunnstiginu er Eden komin fram úr flestum sambærilega subbulegum myndum; og sú uppgötvun snýr að litameðvitund – og jafnvel þó Eden væri rusl á öllum öðrum frontum – þá verður það aldrei tekið frá henni að hún er, sjónrænt séð, ótrúlega lifandi – ælandi og blæðandi litaskiptingum og pallettum eins og enginn sé morgundagur.

Seinast þegar mynd um neyslu náði svona vel að púlla “undir áhrifum” viðbótina með stílnum var trúlega XL frá Marteini Þórssyni, bara hér er það stílhreinna og kannski með meira pönki.

Myndin lítur vel út en græðir líka ýmislegt á einfaldri narratífu – og þarna má fara frjálslega með orðið narratífa – og fókus sem liggur allan tímann á skjáparinu, þeirra sambandi, hamagangi og hvernig gangverk þeirra magnast upp í aðstæðum. Ég get heldur ekki annað en gefið ákveðið hrós til kvikmyndar sem finnur leiðir til þess að gera Fuglastríðið í Lumbraskógi að ómissandi þemaþræði myndarinnar.

En hér segir frá parinu Ólafíu og Óliver sem lenda í kröppum dansi við ranga aðila á réttri stundu. Þá eru þau Hansel Eagle (rólegur…) og Telma Huld Jóhannesdóttir alveg frontuð og sækir leikstjórinn meira í “elskendur á flótta” undirgeirann frekar en eitthvað sveitta skilaboðasögu. Það er aðeins um víxlaða kynjadýnamík í framvindunni og samkvæmt eldri hefðum væri karlmaðurinn orkuboltinn, drífandinn og naglinn á meðan konan bara barbídúkkan í farþegasætinu (sorrí, Blossi) – þessu er snúið við og verður oft til skemmtilegur straumur á milli parsins.

Hansel stendur sig þokkalega sem nýaldarhippinn sem vill bara halda friðnum, en Telma annars vegar flytur myndina á allt annað level; hörð, framsækin, springandi af persónuleika og orku – og leikkonan selur rullu sem hefði alveg getað hrunið á andlitið með rangri tæklun. Ekki er það síst í ljósi þess að Snævar bindur sig ekki við neinn læstan tón og flakkar hann frjálslega úr flippi í alvarleika og jafnvel draumkenndan absúrdleika (komum að því) með áreynslulausum sveiflum, þó ýmsir aukaleikarar mættu alveg vera sterkari, en sleppa.

En aftur að parinu, þá skortir honum… Hansel þetta náttúrulega ó-pósandi karisma sem geislar svo áreynslulaust hér af henni Telmu, enda gædd meiri karakter og smáatriðum, þannig séð. En saman mynda þau gott and-dúó og krútta þau nægilega oft yfir sig til að manni sé ekki of drull um hvernig fyrir þeim fer. Snævar fordæmir heldur aldrei persónur sínar eða lítur bersýnilega niður til þeirra í handritinu fyrir að krauma sér jónur eða taka inn hvað annað í kammó samræðum. Það fylgir þessu líka ákveðinn ferskleiki þegar hugað er svona sterkt að því að leyfa myndinni að njóta hversdagsmómentana á milli alls trippsins sem á milli kemur.

Samtölin eru stundum eins og beint upp úr myndastrípu og það steikir raunverulega á manni hausinn hvað Arnar Jónsson er fyndinn sem óstereótýpískur krimmaforingi. Þá komum við að hinu enn furðulegra, eða eins og einhverjir munu eflaust segja: “virkilega fokkt-opp kaflanum”. Án þess að segja of mikið má tengja hið yfirnáttúrulega við söguna og allegóríum sem stafa það út að titilinn sé meira en bara skraut og tilviljun.

Hvort metafórurnar og aukni absúrdisminn gangi almennilega upp er erfitt að segja, en hann gefur myndinni visst krydd sem bætist bara við þá dramakómedíuklípusúpu sem hún er fyrir – þannig að það er ekki beinlínis úr takt þó áhrifin skili merkilega litlu. Almennt séð á tilfinningaleveli hefur þessi mynd ekki afar margt af gefa frá sér, þó hún reyni það vissulega. En eins og áður nefndi eru það einhverjir óséðir töfrar sem sumir leikararnir gæða því sem hefur á pappírnum verið.

Að öllum samanburði við Blossa slepptum, er Eden einfaldlega bara rokkandi fín lítil klakamynd; unnin á hnefanum, en brött, hressilega ýkt, sóðalega skemmtileg á köflum og rúllar á sterkum performans frá svakalega efnilegri leikkonu. Hún er mynd sem á örugglega eftir að lifa góðu költ-lífi á klakanum á ókomnum árum (sérstaklega í ljósi þess einnig að hún er JÓLAmynd!) og ljóst er einnig að Snævar Sölvi er ekki fastur innan ramma einhvers eins geira þar sem tök hans á fjölbreytni hafa tekið sýnilegan (lita)kipp. Í heildina yfir, fínasta tripp.

Ábyggilega sexí sexa á góðum degi en þrumandi sjöa undir áhrifum.

Besta senan:
Arnar og Litla hafmeyjan.

Categories: (mynd sem varla er hægt að flokka), Gaman(með drama-)mynd, Spennumynd | Leave a comment

Men in Black: International

Nú er ég alveg tilbúinn til að taka til baka allt það vonda sem ég hef sagt um Men in Black II og 3, þó svo að þær hafi verið báðar slappir og sterílir skuggar forvera síns (og ég skal meira segja leyfa því að slæda að önnur myndin ber rómverska tölu en hin ekki).

Jú jú, hin framhöldin höfðu í það minnsta EITTHVAÐ af steypusjarmanum, sköpunargleðinni og ruglinu sem gerði fyrstu myndina svo skarpa, pakkaða og skemmtilega. Will Smith var allavega gegnumgangandi í stuði, Tommy Lee Jones kann manna best að vera í fýlu og tókst Barry Sonnenfeld í það minnsta að djúsa vaxandi farsagangi þríleiksins einhverja orku.

Hvernig Men in Black International varð að veruleika mun ég seint skilja…

Og ef það er eitthvað sem Independence Day: Resurgence kenndi okkur, það er að þú skiptir ekki bara út góðum Will Smith sísvona…

En ókei, gefum okkur það að nýtt blóð, hressir og áreiðanlegir leikarar og kannski smá stefnubreyting hafi akkúrat verið það sem þetta brand þurfti á að halda, þá er þeim mun meira óskiljanlegt hvernig allir eru hálfsofandi í gegnum svona bitlaust og fúlt handrit sem dettur í sömu gryfju og hinar framhaldsmyndirnar; með því að í rauninni herma bara eftir fyrstu myndinni eina ferðina enn. Það er þó langt frá því að vera stærsti bömmer faktorinn við MIBI, hún er einfaldlega bara mökkleiðinleg.

Á eðlilegum degi er ekkert nema hressandi hluti að segja um Tessu Thompson og Chris Hemsworth, og þau reyna svo sannarlega allt sem hægt er að lífa upp á svona úldið, ófyndið og hugmyndalaust handrit. Hvorki þau né leikstjórinn eða handritið jafnvel nær að gefa kost á einhverri kemistríu á milli þeirra. Þetta er allt steindautt. Allt saman.

Framvindan kemst aldrei á nægilegt flug, hasarinn er illa klipptur og með engan púls og hverjum fínum leikara á eftir öðrum sóað í annaðhvort svæfandi exposition-skitu eða niðrandi brandara; hvort sem leikararnir heita Rafe Spall, Emma Thompson, Rebecca Ferguson eða Liam Neeson.

Nota bene, myndinni er leikstýrt af manni sem hefur notið þess áður að taka við keflinu af Barry Sonnenfeld. Hinn annars ágæti leikstjóri F. Gary Gray náði þó aldrei sömu hæðum þegar hann óð í framhaldið af Get Shorty, Be Cool. Svipað gerist hér og það eru óvenju lítil merki um einhvern sérstakan stimpil frá honum sem kvikmyndagerðarmanni. Að mestu til er hann bara að kópera stíl og tón Sonnenfelds beint (og meira að segja sömu upphafsfonta og stef) en virðist ekki alveg vera í þægindaramma sínum þegar kemur að kjánahasar og neinu of súrrealísku.

Eftir Fast & Furious 8 er Gray annars vegar nú orðinn vanur glansandi bílaauglýsingum og það er eina forljóta plögg-senu að finna í þessari, sem einhvern veginn best súmmerar upp hvað öll myndin er mikil söluvöruprumpfroða – Hin íðilfögru Chris Hemsworth og Tessa Thompson að pósa og selja svört jakkaföt og sólgleraugu á meðan þau stíga inn í glansandi Lexus-bíl (eftir að hafa bókstaflega svipt hulunni af honum) og keyra svo af stað til að sparka í rassa.

Svarið liggur þó svo skýrt í augum uppi: Ef viðkomandi vill sjá Hemsworth og Thompson vera bæði töff og eldhress, þá er Ragnarök allan dag að sigra þennan slag. Það er engin skömm í forvitnisglápi og en hafið varann á; Men in Black International sýgur ansi djúpt og kjánalega; söguþráðurinn er leiðinlegur, hasarinn er leiðinlegur, skúrkurinn er leiðinlegur og ég verð leiðinlegri því lengur sem við tölum um þessa mynd. Það er auðvelt að koma með brandara um að áhorfendur þurfi minnisþurrk að glápi loknu, en versti glæpur allra MIB mynda er að sjá til þess að framvindan hverfi úr minninu áður en hún klárast.

Getum við plís horft aftur á Thor: Ragnarök?

This image has an empty alt attribute; its file name is aviator-20sunglasses-20vector-2048.png

Categories: Ævintýramynd, nei takk, Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.