Author Archives: Tómas Valgeirsson

Venom

Það tók aðeins ellefu ár en harðkjarna Spider-Man-unnendur hafa loksins fengið þann óbeislaða Venom sem þeir þráðu – án nokkurrar aðkomu frá aumingjalegum Topher Grace til þess að spilla fyrir fjörinu. Það verður reyndar að teljast nokkuð merkilegt að ofurhetjugeirinn, og stúdíó-kvikmyndagerð eins og hún leggur sig, sé kominn á þann stað þar sem hægt má búast við kvikmynd úr heimi Köngulóarmannsins án þess að Lóa bregði nokkurn tímann fyrir. Að vísu er það ekki af frumkvæði aðstandenda, heldur tengist þetta allt kómískum réttindadeilum.

Lóa-leysið er annars vegar fjarri því að vera lykilvandamálið við sjálfstæða kvikmynd um þorparaskrípið Venom. Það má svo sem ekki neita því að mynd um vinsælasta skúrkinn í heimi Lóa eigi síður möguleika á því að ganga upp þegar vantar réttu hetjuna til að mynda mótvægið. Á móti því er hér komin fínasta afsökun fyrir þungavigtarleikara eins og Tom Hardy til þess að leika lausum hala, innan barnvænna marka. Vissulega.

Til þess að njóta myndarinnar er eina vitið að láta það ekki þvælast fyrir hvað margar ákvarðanir persóna eru taktlausar og bjánalegar, hvað A og B söguþræðirnir eru báðir grautþunnir, hvað framvindan og atburðarásin er lengi að koma sér af stað og reynir að haka í ákveðin tékkbox af úldnum klisjum.

Á pappír er Venom brakandi fersk hugmynd að ofurhetjusögu með sveigjanlegri siðgæðisvita, en hvað úrvinnslu varðar er þessi mynd trúlega fimm eða tíu árum á eftir sinni samtíð. Deadpool-myndirnar ættu m.a. að hafa sýnt fram á að geirinn er farinn að leyfa svigrúm fyrir tilraunastarfsemi, meiri klær og meira pönk. Þess vegna veldur það talsverðum vonbrigðum hvað Venom í rauninni leikur mikið eftir eyranu án nokkurra sénsa. Það kemur hálfpartinn á óvart hvað hægt er að búa til krakkavæna mynd um furðuhetju sem ítrekað étur hausinn af óvinum sínum. Aðeins tenntari nálgun á hráefnið hefði ekki sakað.

Í stórmyndum þessa dagana er þó ekki í boði að framleiða kvikmynd um illmenni án þess að sé þá dregin upp þörf til þess að breyta henni í gallaða hetju, ekki þegar helsti markhópurinn er á grunnskólaaldri. Þá þarf að finna annan, enn verri skúrk fyrir andhetjuna til þess að slást við. Í tilfelli Venom lendir þetta þá í hinni margnotuðu gryfju – sem Marvel Studios myndirnar hafa nú mjólkað niður í tær – þar sem handritið kokkar upp skúrk sem er bein hliðstæða við (and)hetjuna, með nákvæmlega sömu krafta. Þetta skrifast væntanlega líka á efnivið myndasagnanna að einhverju leyti, en það gildir ekki alltaf sem afsökun.

Óneitanlega tekst Tom Hardy að rífa þetta ruslhandrit á betri stað, með dásamlegum ofleik sem slær upp í létta Nic Cage-takta á tíðum. Leikarinn hefur sjálfur gefið í skyn að myndin hafi verið skorin niður um góðar 40 mínútur (hvort sem hann sagði það í gríni eða ekki er enn óvitað). Ef áhorfandinn skoðar saumanna er alveg óhætt að segja að það sjáist merki um að myndin hafi lent í einhverri hakkavél hjá höfuðstöðvum Sony. Skýrasta dæmið um það liggur í stærstu persónuþróun myndarinnar, sem er hjá titlaða sníkjudýrinu. Á augabragði breytist Venom úr fjandsamlega illu kvikindi með heimsyfirráð í huga yfir í mýkra dýr með veikan blett fyrir Jörðu og vont sjálfsálit (algjör „lúser“, eins og hann sjálfur segir). Ekki er það mjög sexí og framleiðendur virðast ekki telja það neinu máli skipta að skilja eftir nokkuð kjöt á hvaða beinum sem hér eru í boði.

Þegar handritið finnur sér tíma til að einblína á hið eitraða samband og hressilegu félagasamskipti milli aðalpersónunnar og sníkjudýrsins, verður útkoman nokkuð skemmtileg. Verst er þó að myndin er ekkert sérstaklega fyndin, sama hve mörgum bröndurum hún hleður inn. Það laumast inn kaótískur hasar af og til, en trekkir sjaldan upp neinn púls. Síðan er einhver staðar rauður þráður að ástarsambandi en einungis til þess að haka við enn eitt boxið. Michelle Williams er t.a.m. frábær leikkona á góðum degi en er meiri uppfyllingarpersóna hér en annað. Riz Ahmed leikur helsta skúrk myndarinnar sem eins konar illa Elon Musk fígúru og kann augljóslega vel við sig, áður en hann leysist upp í þorpara af færibandi.

En ef við snúum okkur að köldu mati, þá er makalaust hægt að skemmta sér yfir þunnildunum, svo framarlega sem væntingar séu langt niðri í gólfi og heilastarfsemin í fríi. Það er pottþétt svigrúm til þess að halda áfram með þessa seríu og gera brenglaðri hluti en sem stökkpallur og fígúrukynning hefði margt mátt betur gera. Venom má þó eiga það að vera skömminni skárri og ögn villtari heldur en bæði síðasta mynd Köngulóarmannsins sem var eingöngu í meðferð Sony. Þá er ekki minnst á Spider-Man 3 þar sem úrvinnsla fígúrunnar jaðraði við tómt nördaslys. Þegar upp er staðið eru það slíkir litlir sigrar sem skipta mestu, ef einhverju.

 

Besta senan:
Hardy og humarinn.

Categories: Spennumynd | Leave a comment

Lof mér að falla

Frá upphafi íslenskrar kvikmyndaflóru hefur eymdin verið í ríkjandi burðarhlutverki. Þá fylgir alltaf þessi stimpill að meirihluti okkar framlaga einkennist af litlu öðru en neyslu, erjum, vanlíðan og tilheyrandi ofsadramatík.

Tímarnir hafa aðeins verið að breytast. Ýmist upprennandi kvikmyndagerðarfólk hefur lagt það að markmiði að þverbrjóta þessa reglu og sækja í nýja liti úr öskjunni. Þar á móti kemur Baldvin Z og faðmar vesaldóminn að sér eins og ekkert sé heilagra í okkar afþreyingarmenningu. En stærsti munurinn á úrvinnslu Baldvins frá flestum öðrum starfandi eymdarfíklum hefur þó legið í tilgerðarlausri einlægni svo úr verði meiri áhersla á bítandi raunsæi heldur en órgandi melódrama.

Þessi umrædda einlægni er án efa öflugasta vopnið sem Baldvin hefur, enda er Lof mér að falla einn pakkaður grautur af óþægindum með yfirvofandi volæði stráðu yfir og borinn fram jökulkaldur. Grautur þessi hefur það merka hlutverk að sýna unglingum hlutina ófegraða og ráðast á foreldrahjarta ófárra með stórum veruleikaspegli og þrumusparki, þó hún sé alls ekki laus við sinn sjarma heldur.

Í kvikmyndum Baldvins hefur þó yfirleitt verið pláss fyrir hlýju, upplífgandi mannúð og jafnvel húmor í annars hádramatískum sögum, en með þessari kann hann betur við myrkrið og finnur sig þar umhugsunarlaust í hráefninu sem í boði stendur. Leikstjórinn hefur brínt á sér klærnar og sækir bæði meðvitað og ómeðvitað í dramafíkla af meistaragráðu í líkingu við Darren Aronofsky, Lars von Trier og Lukas Moodyson. Það er ekki slæmur hópur til að vera kenndur við, þó umrædd þrenning sé eflaust ekkert voðalega hress í partíum.

Við upphaf sögunnar er hin sakleysislega Magnea á grunnskólaaldri og komin í vafasaman félagsskap, sem er leiddur af hinni eldri og (í augum Magneu) svalari Stellu. Spenna og tilfinningaflóð skákar að sjálfsögðu alla rökhugsun en áður en langt um líður eru nokkur fikt við hörð efni orðin að vandamáli í formi martraðarkennds mynsturs. Vinátta og tengsl stúlknanna prýðir alltaf forgrunninn en það líður ekki á löngu þangað til áhorfandinn er betur farinn að skynja eitrið í loftinu á milli þeirra.

Framvinda myndarinnar er minna í því að spyrja spurningarinnar „Hvað ætli fari úrskeiðis?“ – enda kemur það snemma í ljós og skoðar sagan meira „Hvernig?“-vinkilinn og „Með hvaða afleiðingum?“ Sagan leikur sér að tímalínunni nokkuð frjálslega og kynnumst við einnig þeim Magneu og Stellu á eldri árum, á sitt hvorum staðnum í lífinu en báðar háðar minningum og sárum sem þær losna ekkert við.

Bæði má líta á myndina sem eins konar karakterstúdíu og skilaboðasögu. Handritið í umsjón Baldvins og Birgis Arnars Steinarssonar stillir atburðarásinni upp sem samansafni minningarbrota og er mikil vinna lögð í að sitthvorar tímalínurnar þjóni hvorri annarri, bæði á tilfinningaskala og gegnum upplýsingar. Það sem heldur lífinu í báðum stúlkunum er hversdagslegi andinn sem yfir þeim svífur. Áreynslulausa kemistría þeirra Elínar Sif Haraldsdóttur og Eyrúnar Bjarkar Jakobsdóttur landar þessu einnig með trompi. Tekst þeim oft að segja mjög mikið með mjög litlu.

Það þýðir í sjálfu sér ekkert að kryfja hvern leikara fyrir sig í þessari mynd. Leikstjórinn hefur löngu sýnt sig færan um að geta náð fram nöktum tilfinningum úr liði sínu með einum fingrasmelli. Allir leikararnir með tölu eru sterkir en mest krefjandi þyngslin fær sitthvor túlkunin á Magneu, leikin af Elínu Sif og Kristínu Þóru Halldórsdóttur. Það telst líka til ákveðins sigurs að breyta Góa í eins tæran viðbjóð og hann leikur hér. Óviðkunnanlegri hefur hann ekki sést síðan Hringekjan hóf göngu sína um stutt skeið.

Lof mér að falla er vissulega feykilöng kvikmynd (mögulega sú lengsta í íslenskri kvikmyndasögu) en fyllir upp í hverja mínútu þegar farið er yfir eins víðan völl og hér. Á hinn bóginn hafa handritshöfundar þurft að vinna sig í kringum ákveðnar handritsgildrur (sem best mætti lýsa sem krassandi tilviljanir) sem smækka heim myndarinnar frekar en að gera hið öfuga. En á litla Íslandi gengur það svo sem upp á sinn hátt.

Af gríðarlegri nærgætni tekst Lof mér að falla á við þemu um áhrifagirni, traust, taumhaldsleysi, hringrás, unga ást, óhjákvæmileg uppgjör og munar öllu að erfiðari kaflarnir skila sínu án fyrirlestra. Það ríkir mikil umhyggja fyrir persónunum í handritinu, með auknu tilliti teknu til þess að leyfa minni karakterum að brennimerkja söguna jafnt og stærri. Til að gera gott enn betra fáum við frábæra tónlist og úthugsaða kvikmyndatöku sem fangar ákveðna fegurð í ljótleikanum.

Augljóslega er ekki mælt með þessari mynd sem skemmtiáhorfi. En á móti er um að ræða þrælmagnaða ræmu sem skoðar (því miður) hversdagslegan veruleika með vandaðri samsetningu og sálina ávallt í forgangi. Besta ráðið er að halla sér aftur og taka á móti eymdinni opnum örmum, því hérna er auðvelt að verða háður henni.

 

Besta senan:
Hraðbankinn + stúlkurnar á „svölunum“ + lokaskotið.

Categories: drama beint í æð | Leave a comment

The Happytime Murders

The Happytime Murders virðist rísa og falla á einni einfaldri (og innantómri) grunnhugmynd. Hún lýsir sér þannig að það sé skilyrðislaust stórfyndið að fylgjast með leikbrúðum blóta, dópa og stunda fleiri ódönnuð dólgslæti. Handritsgerð eða hugmyndaflug með þessum tiltekna húmor fer rakleiðis í aftursætið. Þá stendur í rauninni eftir fátt annað en langdregin sketsamynd sem óskar þess að eiga roð í flugbeittu hnyttnina sem einkenndi t.d. Team America – þar sem háðsádeila og samtímagrín flutti ruddaskapinn á efra plan.

Staðreyndin er sú að The Happytime Murders hefur einfaldlega komið út röngu megin við aldamótin. Þetta er mynd sem ber 16 ára aldurstakmark en er í rauninni gerð handa 12 ára krökkum og styðst við 20 ára gamla brandara. Þá fellur ekki niðurstaðan aðeins í skuggann á ofannefndri brúðumynd, heldur líka uppátækjasemi efnis á borð við Crank Yankers sjónvarpsþættina eða Meet the Feebles frá Peter Jackson.

Það er erfitt að binda líflínuna við brúður í tómu lúalagi þegar aðstandendur eru langt frá því að vera fyrstir í mark, en ófrumlegheit má alltaf fyrirgefa þegar efniviðurinn er tenntur og heldur athygli. Hér er notast við þá hundgömlu tuggu að matreiða skopstælingu á harðsoðna „noir-geiranum“ og sárvantar skarpari eða breiðari vinkil. The Happytime Murders tekur helstu spæjaraklisjurnar fyrir (kynlíf, dóp, svik, kúgun, félagaerjur o.þ.h.) með lítilli meðvitund fyrir þeim klisjugildrum sem handritshöfundar lenda sjálfir í.

Það eina sem gerir verkið eitthvað merkilegt að lágmarki er vissulega aðkoma Brians Henson, son Prúðuleikaraföðursins Jim Henson (og þess má geta að Brian leikstýrði sömuleiðis einni bestu mynd þeirrar seríu, sem er Muppet Treasure Island). Þessari staðreynd fylgir auðvitað loforð um að brúðuvinnan sé til mikillar fyrirmyndar og hönnunin á ýmsum fígúrum skrautleg. Lengra nær það hins vegar ekki þegar persónurnar sjálfar – hvort sem þær eru handstýrðar eða af holdi og blóði – eru svona bragðlausar.

Áreynsluleysi er vanmetinn galdur í groddaragrínmyndum og það nær The Happytime Murders aldrei að mastera. Hún svitnar af rembingi og virðist Henson vera sannfærður um að kjaftagangurinn haldi merkilega bröttum sýningartíma á lofti. Myndin er rétt í kringum 70 mínútur en nær samt lítið á þeim tíma að koma með sögu, skítsæmilega persónudýnamík eða spennandi framvindu til þess að réttlæta þessa lengd sína af viti þegar hálftími hefði dugað.

Það má lengi tönglast á því sem þessi mynd nær hvergi tökum á, en það hversu ískyggilega ófyndin og fyrirsjáanleg hún er við hvert horn er hennar alvarlegasta brot. Það telst til mikils sigurs ef hálfu flissi er náð á þessum sýningartíma. Þar að auki þarf einhver loksins að flytja Melissu McCarthy þær fréttir að mikill kjaftur er ekki alltaf samasemmerki á hláturskast. Á góðum degi (og sérstaklega með efnilegt handrit) er ýmislegt hægt að gera gott við nærveru McCarthy, en þessi bíómynd dregur út hennar verri hliðar. Vonandi fær umbinn hennar vænt spark í heilaga svæðið eftir svona frussandi flopp.

 

Einkunn: Tveir dauðir Kermit’ar af tíu.

Besta senan:
Örugglega einhver throw-away lína sem ég flissaði yfir í míkrósekúndu, en gleymdi svo.
Týpískt.

Categories: Grín, Sori | Leave a comment

Powered by WordPress.com.