_

Avengers: Endgame

(Það eru engir gífurlegir spillar í neðangreindum dómi, en betra er að lesa ef þú hefur séð myndina, hefur engan brjálaðan áhuga eða sért slétt sama um að vita hvernig framvindan spilast út í grunndráttum

… en stutta útgáfan: Hún er alltílæ)

Hér höfum við mynd lætur sér það ekki nægja að vera einfaldlega stórmynd. Nei, hennar hlutverk var alltaf að marka ákveðin kaflaskil í þeim geira sem hefur tröllriðið bíótrendum síðustu ára, frá einmitt stúdíóinu sem dafnað hefur með ofurmannlegum öflum síðan fyrsta Iron Man myndin kom út. Númeruð framhöld og standard þríleikir eru fyrir aumingja, stórir lokahnykkir á seríu sem spanna cirka þrjú eintök á ári eru víst alveg málið í dag.

Avengers: Endgame skrúfar fyrir ákveðna kjarnaörk sem hefur verið lauslega gegnumgangandi í rúman áratug hjá Marvel Studios bíómyndum. Þessi stjörnuprýdda lokaskriða er til þess unnin að fagna því sem hefur komið af færibandinu, nýjum sem gömlum hetjum og ofar öllu græta og kæta hörðustu aðdáendur. Þessu markmiði ætlar myndin sko að ná, sama hversu mörgum holum þarf að sigrast á.

Endgame er stapphlaðin frábærum atriðum (t.a.m. fyndnum línum, hressandi páskaeggjum, einlægum persónumómentum o.fl.), sem þó hanga öll utan um óþarflega þvælda framvindu, sem límd er saman úr ójöfnu handriti. Þetta er meira samansafn gullkorna og eftirmála frekar en heilsteypt og sterk saga út af fyrir sig.

Með Endgame kemur reyndar á óvart að aðstandendur hafi minnkað umfangið töluvert frá síðustu lotu og hægja á hlutunum í stað þess að drekkja skjánum í ofhleðslu og óteljandi karakterum (með fullri virðingu fyrir Infinity War). Vissulega er nóg pláss fyrir slíkt en hlutfallslega, miðað við lengd myndarinnar, er hún merkilega sparsöm þegar kemur að hasarnum – og eitthvað furðulega bragðlaus, grámyglulegur og daufur í litatónum – þó brellurnar lúkki auðvitað fyrir allan peninginn.

„Er ekki James Gunn örugglega kominn aftur?“

Myndin er í eðalaðstöðu til þess að fjalla um missi, fórnir, samstöðu, úrræði og taktíkina að horfa fram á við. Það er svo sem gott og kærkomið að fá þriggja tíma graut sem samanstendur af hnútahnýtingum og lauslega tengdum þemapunktum um sorgina. En önnur lögmál gilda um endasprett af þessum toga þar sem hefði mátt fara villtari leiðir með framvinduna, tefja minna, laga díaloginn sum staðar og setja aðeins meiri klímax í þetta. Meira að segja lokabardaginn, þó flottur sé á (hasar)blaði og hamrar út nokkrum gullkornum, er í heildina linur, úti um allt og furðu hugmyndasnauður.

Þess vegna virkar Endgame hvað mest í fyrsta þriðjungnum, þegar myndin er nær því að vera eins konar eymdardrama og sýnir þar nýjan tón með fókus á afleiðingarnar. Myndin hefði mín vegna mátt öll snúast um það sem fyrsti hlutinn gerir: eftirlifandi Hefnendur að syrgja fallna vini, takast á við feilana og gera það besta úr því sem þau geta í ömurlegri stöðu. En auðvitað viljum við öll hlassastóran endabardaga sem leyfir öllum og ömmum þeirra að skína í hasarnum, þó ekki nema í einhverjar sekúndur. Það munar líka um svo miklu hvað stjörnusúpan er endalaust hlaðin góðu samspili karaktera.

„Merkilegt að litapallettan sé ekki fallegri…“

Það eru leikararnir sem hafa hvað mest náð að koma í veg fyrir að þessar myndir eru eintómir flugeldar. Eðlilega eru allir löngu komnir á lag með þessi hlutverk sín og gætu rúllað þeim upp í svefni. En svo einhver séu nefnd fara þau Robert Downey Jr., Scarlett Johansson, Mark Ruffalo, Jeremy Renner og Chris’arnir, Hemsworth og Evans, létt með æðislega dýnamík og hafa ómetanlega orku að gefa í framvinduna. Annars vegar fær Paul Rudd heiðurinn á því að stela þessari mynd ef ekki Evans með sína stórhættulega bræðandi persónutöfra. Þau Gwyneth Paltrow og Jon Favreau koma líka ansi sterk inn.

Aukaleikarar eru allir í fyrirsjáanlega góðum fíling – flest gestahlutverkin lífleg – en er úr merkilega litlu að moða hjá rest, eða flestum svosem. Þetta þýðir samt ekki að nærvera þeirra sé óvelkomin þrátt fyrir það, þvert á móti, en handritshöfundar virtust vera alveg týndir með hvað ætti að gera við suma karaktera.

„Þú sérð það, er það ekki? Litatónninn er eitthvað off“

Einn af forvitnilegri vinklum sögunnar felst í því hvernig hún þræðir tímaflakki inn í miðkaflann, á þannig máta sem býður upp á ógrynni af skemmtilegum tækifærum til að leika sér. Það gerir hún með að rugla hressilega í fortíðinni og mjaka sér upp úr leiftrum liðins tíma hjá þessari seríu. Hugmyndin lofar góðu en í framkvæmd kemur verður þetta að einhvers konar æfingu í sjálfsklappi og kemur meira út sem uppfylling í stað þess að vera ómissandi hluti sögunnar.

Lógíkin og tímalínuruglið er síðan eðlilegur hausverkur í sjálfu sér, einn sem sérstaklega steikir heilann þegar einhver hugsun er lögð í hlutina – en orðafjöldans vegna ætla ég að láta eins og það skipti engu máli. Myndin reynir sitt besta til að útskýra reglurnar; afsaka og blæða ekki þversögnum til að sannfæra áhorfandann um að leggja ekki hugsun í stefnurnar. En á frásagnarstigi virðist þó handritið bara spila eftir eyranu með eigin hentugleika í sigtinu þegar kemur að sögulausnum. Sumar hverjar eru með eindæmum ódýrar og einfaldar.

„Pottþétt eitthvað off“

Aukning og áfylling af rjómalagaðri melódramatík hjálpar heldur ekki þessari lotu, en hinir annars ágætu Russo-bræður hafa náð að forðast allt slíkt fram að þessu. Einnig er fúlt hvað Thanos er orðinn steríll; skyndilega breyttur í formúlubundinn og geðillan skúrk, strípaður svolítið frá stóíska þokkanum og mannlega þættinum sem seinasta mynd eyddi miklum kröftum í að stilla upp.

Ef báðar síðustu tvær Avengers-myndir eru bornir saman finnst mér blasa við að Infinity War bjóði upp á stærri og safaríkari bitann – umhugsunarlaust; skemmtilegri, pakkaðri, þéttari, flottari, kraftmeiri, fyndnari, allt saman, og sóaði hún hvergi mínútu í keyrslunni.

Einn stærsti kosturinn við Endgame er hvernig sagan hallast meira að þemu, persónusköpun og upprifjunum á því gamla og góða heldur en lógík og látum. En þess vegna hefði verið stórfínt ef niðurstaðan hefði skilið eftir færri bremsuför og siglt þessum lokahluta alla leið í höfn, frekar en að stranda þarna rétt við og halda partíið þar.


(létt sexa)

Besta senan:
Samtal um ostborgara. Eða Hamarinn.

Categories: _ | Leave a comment

Bestu (og verstu) myndir 2018

Nú þegar (bíó)árið er að baki þýðir ekki annað en að gera upp framlög til kvikmyndalistarinnar og sjá hvað upp úr stendur. Hvaða kvikmyndir grættu okkur mest? Hverjar voru þær fyndnustu? Hverjar voru mest spennandi, fallegustu og, svo við gleymum því ekki, hverjar skildu mesta óbragðið eftir sig?

Þetta eru spurningarnar sem flestir reglulegir bíófarar og kvikmyndafíklar eiga að spyrja sig í lok hvers árs.

Undirritaður hlóð í lista sem sigtar út báða enda pólsins.

10 bestu myndir ársins 2018

 

10. Tully

Er grasið alltaf grænna hinum megin? Var lífið miklu betra þegar við vorum yngri? Hvað er það sem vefst fyrir lífi móður í fullu starfi sem er hömluð af svefnleysi og takmarkaðri orku? Í gamandramanu Tully er Charlize Theron algj0rlega upp á sitt allra besta í mynd sem málar sláandi og hreinskilna mynd af ósögðum erfiðleikum foreldrahlutverksins og hvernig það helst í hendur við að viðhalda sér sjálfum á erfiðustu stundum.

9. The Death of Stalin

Hér þarf aðeins að beygja reglurnar. Þessi er í rauninni ekki 2018-mynd en (líkt og nokkrar aðrar í þessari úttekt) var ekki aðgengileg fyrr en í mars/apríl-mánuði í fyrra. The Death of Stalin er bæði lúmskt fyndin og sprenghlægileg. Hún fjallar um flókin og þung málefni en spinnur alveg snarruglaðan farsa úr þeim. Leikhópurinn er hreinn fjársjóður og er handritið hlaðið hnyttnum frösum en skefur ekki af veruleikanum sem snýr að pólitískum átökum og fjöldamorðum á tímum Stalín. Steve Buscemi er þarna fremstur á meðal jafningja en hann er sérstaklega eftirminnilegur sem Khrushchev í krísu.

8. A Quiet Place

Hrollvekjan hefur verið á farsælu flugi síðustu árin og slást yfirleitt nokkrar um að bera af á hverju ári. A Quiet Place markar eina af skemmtilegri bíóferðum ársins hjá undirrituðum, þó svo að hún sé sáraeinföld og gölluð í aftari hlutanum, nær hún þó að vera undarlega áhrifarík frá byrjun til enda. Hún flýgur hátt á frumlegri grunnhugmynd og leikur sér þrælskemmtilega með þagnir og hljóðvinnslu sem gerir hana nánast að nýstárlegri þögulli mynd. Hún snýst í rauninni meira um fjölskyldutengsl en skrímsli eða dystópíu; um samskiptaleysi, missi, samviskubit og ýmislegt sem nánir ættingjar láta ósagt. Aðalleikarar myndarinnar  bæði hjónakornin og krakkarnir eiga stórleik. Sannfærandi barnaleikarar eru yfirleitt algjör rúlletta í hryllingsmyndum og hér er ekki feilnóta slegin.

7. Paddington 2/ Incredibles 2 

Hér höfum við drengilegt jafntefli á milli tveggja æðislegra fjölskyldumynda, sem báðar eiga það sameiginlegt að vera framhaldsmyndir. Í Paddington 2 ríkir botnlaus jákvæðni, einlægni og fylgir boðskapur með sem kemst hispurlaust til skila án þess að sökkva ofan í melódramatík. Myndin er vel skrifuð, hressilega vel samsett og hugguleg í alla staði. Ein af þeim sem knúsar til baka.

Nýja ævintýri Incredibles-fjölskyldunnar, sem er snéri aftur eftir 14 ára fjarveru, olli ekki vonbrigðum og sýnir allsvakalega hvað Pixar getur á góðum degi. Myndin jaðrar við það að slá út þá upprunalegu og kemur með skemmtilega vinkla á kunnuglegar uppskriftir. Auk þess er teiknistíllinn stórglæsilegur og rýkur orkan í gang með hverjum hasar á eftir öðrum. Þetta er ljúfur pakki og samanlagðar sýna þessar tvær myndir að framhaldsmyndir þurfa ekki að vera glórulausar peningamaskínur.

6. Annihilation

Alex Garland er algjör gersemi í sci-fi á smærri kvarða. Eftir glimrandi leikstjórafrumraun eins og Ex Machina var erfitt að fylgja slíku eftir, en það gerði hann vissulega með hugmyndaríku, súrrealísku og þematískt margslungnu horror-drama. Annihilation inniheldur ramma og senur sem seint hverfa úr minninu og skefur Garland ekki af því að gera sem mest úr þessu abstrakt ferðalagi sem er hér á boðstólnum. Leikkonur eru af háu kalíberi (Natalie Portman er traust, en ég kemst ekki yfir það hvað Tessa Thompson er alltaf heillandi orðið) og andrúmsloft faglega masterað. Þetta er ein af þessum myndum sem ég skil að auðvelt er að dást að en erfiðara að elska, en eftir góða meltingu tel ég ekki ólíklegt að Annihilation verði séður sem sígild lítil geiraperla þegar uppi er staðið.

5. Avengers: Infinity War

Marvel-stúdíóið hefur dritað út myndum undanfarin ár sem hafa mikið skemmtanagildi en fá kannski ekki hrós fyrir djúpa sögu eða flókna karaktera. Þess gerist yfirleitt ekki þörf enda markhópurinn ekki á höttunum eftir slíku. Það voru margir skelfdir yfir þeirri tilhugsun hvernig ætti að vera hægt að búa til kvikmynd með öllum helstu ofurhetjum Marvel-heimsins í öndvegi en það tókst með eftirtektarverðum hætti. Myndin er hlaðin hasar, tæknibrellum og fimmaurabröndurum en er einnig uppfull af eymd, vonleysi og dauðsföllum sem hafa örugglega grætt ófáa í bíósalnum á árinu – auk þess að skilja yngstu hópana eftir í sjokki. Myndin nær ótrúlegu flottu jafnvægi á óteljandi persónum en í lykilhlutverki er skúrkurinn Þanos sem Josh Brolin eignar sér. Meira að segja þó að framhaldsmyndin verði drasl, þá stendur þessi næstum því á eigin fótum sem góð saga um einn geðillan en einbeittan þrjót sem telur sig vera að gera réttan hlut með því að eyða helmingi lífs í alheiminum. Og hvílíkur endir …

4. You Were Never Really Here

You Were Never Really Here tekur öðruvísi snúning á tveimur kunnuglegum stefjum, hefndartryllinum og harðsoðnu rökkurmyndinni. Í slíkum myndum er yfirleitt hart ofbeldi fléttað við eins konar spæjarasögu, nema hér er komin mynd sem nálgast hið hrottalega með bítandi og óvenjulegum hætti – og þrátt fyrir allt skiptir söguþráðurinn afskaplega litlu máli. Myndin snýst um andrúmsloft, geðshræringu og ekki síst andlegt ástand aðalpersónunnar sem túlkuð er með eldfimum hætti af Joaquin Phoenix. Sagan hvílir öll á herðum hans og óróleiki hans smitast yfir á áhorfandann. Þessi óróleiki er ef til vill betur sniðinn fyrir áhorfendur sem horfa ekki bara á kvikmyndir sér til afþreyingar en ringulreiðin í kringum karakterinn sem Phoenix skapar er nánast áþreifanleg í hverri senu.

3. Lof mér að falla

Einföld í grunninn en mátulega komplex stúdering á trausti, vonleysi, taumhaldsleysi, vítahring neyslunnar og ungri ást. Það munar öllu að erfiðari kaflarnir skila sínu án fyrirlestra og nær myndin að slá á þunga strengi án þess að detta í predikun. Lof mér að falla sameinar helstu styrkleika Baldvins Z í listilega strúktúraða og öfluga skilaboðasögu sem leikur rétt á tilfinningarnar. Áreynslulausa kemistría þeirra Elínar Sifjar Haraldsdóttur og Eyrúnar Bjarkar Jakobsdóttur landar þessu einnig með glæsibrag og leyfir myndinni og sambandi þeirra að koma miklu til skila með afar litlu.

2. Mandy

Nicolas Cage er hér í biblískum hefndarhug í hreint martraðarkenndu ferðalagi út á ystu nöf. Ofan á þetta brjálæði bætist við eitt besta kvikmyndastef Jóhanns Jóhannssonar heitins (og umrætt stef sækir örugglega meira í Vangelis en Blade Runner-tónlistin hans hefði gert) og stílbrögð sem sjá til þess að áhorfendur vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Mandy er bæði grafalvarleg og hressilega yfirdrifin og Nicholas Cage fer á kostum. Myndin er einföld í framvindu en margbrotin í táknrænni maníu og yfirþyrmandi dáleiðandi ef þú ert í réttum fíling. Eðlilega er Mandy svo sannarlega ekki tebolli allra, en hún sýnir tært hvað Cage getur verið ógleymanlegur þegar hann er settur í réttan taum. Og hvernig er hægt að segja nei við einu besta einvígi undanfarinna ára, en þar koma keðjusagir (já, í fleirtölu) hressilega við sögu?

1. Roma

Nýjasta meistaraverk fagmannsins Alfonso Cuarón sýnir ljúfsára og átakanlega úttekt á samkennd, mannúðleika og kaflaskilum í lífi þeirra persóna sem Cuarón kynnir til leiks. Myndin gerist nánast á sniglahraða og gætir þess að áhorfendur fái að upplifa líf og persónuleika aðalpersónanna. Roma er einnig gullfallega skotin og nær lúmskum og bitastæðum krafti úr svarthvítu kyrrðinni. Myndin er vissulega ekki ætluð hinum óþolinmóðu en útfærslan er sígilt dæmi um notkun myndmáls sem segir meira en djúpar útskýringar. Fegurðin er allsráðandi en ljótleiki heimsins lætur á sér kræla á köflum. Því má segja að myndin sverji sig í ætt við regluna „minna gefur meira“ og í hreinni merkingu orðsins er Roma tært listaverk.

 

Fleiri góðar:
Andið eðlilega, Bad Times at the El Royale, Cold War, Into the Spider-Verse, Mission: Impossible -Fallout, Searching, Sorry to Bother You, 

 

Þá er komið að botninum … Hér eru fimm verstu

A Star is Born

Undirritaður er í óhuggulegum minnihluta hvað þessa sandpappírsþunnu og fjári hégómafullu alkavælu varðar. Reyndar er hún gædd nokkrum ágætis lögum til að fylla í langdregið og yfirborðskennt handrit þar sem aðdráttur aðalpersónanna minnkar eftir því sem á líður. Jú, Lady Gaga er sjarmerandi og kann að vera hversdagsleg, en rámur og vaggandi Bradley Cooper reynir að hrifsa af henni sviðsljósið við hvert tækifæri. A Star is Born er bæði máttlaus Óskarssegull og lint tilfinningaklám. Áhorfendur sem keppast um að lofa hana eiga eflaust flestir eftir að berja augum frummyndina frá 1937, eða báðar endurgerðirnar sem komu í kjölfarið. Þær eru allar betri en nýja mixið.

Fullir vasar

Fullir vasar nær aldrei að komast yfir einn hjalla og heilt yfir má segja að þetta sé meiri vörukynning en bíómynd, með vænan tíma til þess að „plögga“ Domino’s, Vodafone og Húsasmiðjunni, sem dæmi. Myndin sjálf er innihaldsrýr, hálf stefnulaus, þvæld og er lítið gert við persónur sem tengist því ekki að tala út í loftið eða spinna þreytta brandara. Myndin er fjarri því að vera myglað sorp en þó tímasóun fyrir alla sem bæði að henni komu og berja hana augum.

A Wrinkle in Time

Það verður seint illa séð þegar Disney leggur í súr ævintýri en þá þarf helst að vanda til verka í frásögninni. Það er fínn boðskapur grafinn innst inni í þessari aðlögun skáldsögunnar eftir Madeleine L’Engle en leikstýran Ava DuVernay er alveg úti á Klambratúni með sínar áherslur. Myndin er óbærilega væmin og mistúlkar tilgerðarlegt tilvistarstefnuröfl fyrir dramatík og sjarma. Það má einnig lengi spyrja sig handa hverjum myndin var gerð; hún er of barnaleg fyrir fullorðna en of hæg og „artí“ fyrir yngri hópa.

The Happytime Murders

Þegar þú gerir groddaralega brúðumynd er nauðsynlegt að hafa meira uppi í erminni en nákvæmlega bara þá hugmynd. Áreynsluleysi er vanmetinn galdur í klúrum grínmyndum og það nær The Happytime Murders aldrei að mastera. Myndin svitnar af rembingi í tæpar 70 mínútur en nær samt lítið á þeim tíma að koma með sögu, litríkar persónur eða nógu spennandi framvindu til þess að réttlæta þessa lengd sína þegar hálftími hefði alveg dugað. Það má lengi tönglast á því sem þessi mynd klúðrar, en það hversu ískyggilega ófyndin og fyrirsjáanleg hún er við hvert horn er alvarlegasta brotið.

Gotti

Hvernig væri útkoman á Goodfellas ef meistari Scorsese hefði verið stanslaust fullur eða sofandi við tökur? En ef hann hefði óvart snýtt sér með handritinu, haft takmarkaða einbeitingu og enn minni meðvitund um línuna á milli alvarleika og óbeinnar skopstælingar. Þá væri afraksturinn þó eflaust skömminni skárri en Gotti; þessi sundurlausa, týnda og grútleiðinlega saga af athyglisverðum glæpon. John Travolta er fullvanur því að vera týndur í burðarrullum, en Gotti markar nýja lægð fyrir leikarann.

Fleiri vondar: Death Wish, The Cloverfield Paradox, The Spy Who Dumped Me, The Nun, Rampage, Solo: A Star Wars Story, Skyscraper, Slender Man, Undir halastjörnu

Categories: _ | Leave a comment

Bestu (og verstu) myndir 2017

Gott ár í heildina. Fínasta ár fyrir stórmyndir, óvenjulega gott ár fyrir íslenskt efni í bæði sjónvarpi og bíói og áttu framhaldsmyndir afspyrnugott „rönn“ þetta árið. Sarpur afberandi smærri mynda hefur ekki ollið miklum vonbrigðum og streymiveitur gera enn hvað sem þær geta til að sannfæra okkur um að fara sjaldnar í kvikmyndahús, með prýðum.

Svona í alvöru samt… þetta var VIRKILEGA gott ár fyrir framhaldsmyndir, og margar hverjar leyfðu sér að taka sénsa og grandskoða dekkri skugga nostalgíunnar. En hins vegar var Beauty and the Beast endurgerðin ein aðsóknarmesta mynd ársins, svo pöpullinn er ekki alveg til í að horfa í nýjar áttir alveg strax. Eins og viðbrögðin við The Last Jedi sýndu einnig mörg fram á.

Rennum yfir örsnöggt yfir það góða og vonda.

 

20 BESTU MYNDIR ÁRSINS

20. Undir trénu
19. Disappearance
18. Jim and Andy: The Great Beyond
17. Dunkirk
16. Faces Places
15. Coco
14. Guardians of the Galaxy vol. 2
13. T2 Trainspotting
12. John Wick: Chapter 2
11. Hjartasteinn

10. The Killing of a Sacred Deer

Svört, skondin og grípandi út í gegn. Samsetningin jaðrar við smámunasemi á leveli meistara Kubricks, frá handriti til andrúmslofts. Geggjað stöff.

 

9. Raw

Frumleg, ljót en æðislega fyndin og prakkaraleg þroskasaga um erfiðleikana sem fylgja því að “fitta inn”. Þessi sat í mér.

 

8. The Shape of Water

Hugsa má um þetta sem brútal, leikna Disney mynd fyrir fullorðna. Sally Hawkins er dásamleg, kjarnaþráðurinn undarlega hugljúfur og allir aukaleikarar og hliðarpersónur skilja eitthvað eftir sig. Besta mynd Del Toro síðan Pan’s Labyrinth (þótt það segi raunverulega ekki mikið)

 

7. Baby Driver

Ólöglega skemmtileg og hnyttin afþreying sem lyftist á efra plan með tónlistinni og samsetningunni. Svakaleg orkusprauta þessi mynd og leikararnir eru allir hressir. Allir.

 

6. Logan

Algjör skepna, þessi mynd. Graníthörð að utan, með hlýja og mannlega sál innan á við. Sjálfstætt standandi karakterdrama í vestrastíl með ofurhetjukryddi, en meira gefandi ef þú hefur fylgt Hugh Jackman og X-Men seríunni. Heilagur andskoti hvað augu mín svitnuðu.

 

5. War for the Planet of the Apes

Hollywood mynd sem tekur sénsa og setur persónur og (skítþunglynda) narratífu í forgrunn fram yfir hasar og sjónarspil. Þetta er eymdarlegt prísundar- og stríðsdrama dulbúið sem blockbuster-mynd. Stórkostlegur endir á einn óvæntasta þríleik síðustu ára. Vel renderaðar persónur, gott drama, hörkuleikur frá Serkis og sjónræn frásögn af hæsta kalíberi.

 

4. mother!

Allt og eldhúsvaskurinn með. Þessi mynd er algjört pönk, en ég fíla hvað hún er rugluð og drukkandi í trylltri sýnimennsku. En allt með góðum punkti, og heljarinnar rússíbana gegnum tilfinningar og martraðir..

 

3. Blade Runner 2049

Framhald sem enginn bað um. Kemur svo í ljós eitt bitastæðasta sci-fi stykki okkar tíma. Og absolút flottasta mynd ársins. OG betri en originalin. Hvernig gerðist þetta??

 

2. Phantom Thread

phantom-thread-feature

Nýjasta mynd PTA er ekkert nema hrein dásemd. Róleg en samt stórskemmtileg. Uppfull af litlum lögum og grand, rugluðum tilfinningum. Grípandi og umræðuverð saga um eitraða ást, rútínur, málamiðlanir og skít-tonn af mæðraissjúum. Ekki allra, en fyrir mér næstum því gallalaus kvikmynd – og hreint æðislega fyndin í þokkabót. Án djóks.

 

1. Three Billboards outside Ebbing, Missouri

Snilldar handrit, æðislegur leikhópur og ófyrirsjáanleg framvinda sem skoðar nýja vinkla á hinu kunnuglega. Myndin snýr út úr formúlum og væntingum við hvert tækifæri án þess að fórna taumhaldinu á firnasterkri sögu. Drepfyndin, laumulega marglaga og grípandi mynd, sú besta frá leikstjóra sem hingað til hefur staðið vel fyrir sínu.

 

 

10 VERSTU

 

10. Split
Illa skrifað, aulalegt, tómt og þreytandi sálfræðiþrillersdrama eða hvað hún reynir að kalla sig. Tilgerðin hefur enn ekki yfirgefið Shyamalan. En lukkulega er þessi ekki jafn slæm og The Visit eða The Happening. Það er… plús.

9. The Snowman
Eitt magnaðasta klúður ársins; mynd sem er svo hryllilega samsett að það er næstum því stórskemmtilegt – og þar af leiðandi er tæpt að hún eigi einu sinni skilið að vera á þessum lista. En ullabjakksveisla er hún svo sannarlega.

8. Snjór og Salóme
Á þessu ári einu fengum við fínt íslenskt efni eins og Hjartastein, Fanga, Undir trénu, Reyni sterka og jafnvel Fjallkónga. 
En verra verður það ekki heldur en Snjór og Salóme, frá liðinu sem gelti út Webcam. S&S er ekki hörmuleg, því tilraunin ein sýnir krúttuð merki um einlægni, en úrvinnslan týnd, sjarmalaus á alla vegu og viðvaningsleg.

7. Geostorm
Heilalaus skemmtun, án skemmtunar – næstum því á pari við The Core.

6. The Bye Bye Man
Prump.

5. The Mummy
Og ég sem hélt að Krús gæti ómögulega orðið hallærislegri eftir tvær Jack Reacher tilraunir. Þessi fratmynd feilar í flest öllu. Dæmigerð, hugmyndalaus og pínleg. Hvíl í friði, Dark Universe.

4. Fifty Shades Darker
Þetta ætti að vera gott-vont, en er bara vont. Hvert ertu kominn, Danny Elfman??

3. Rings
Það næsta sem ég hef komið því að labba út allt árið. Mökkleiðinleg og svæfandi.
Af óskiljanlegum ástæðum tekst henni að láta hörmungina Ring Two líta vel út í samanburði.

2. Resident Evil: The Final Chapter
Draslendir á draslseríu.

Ókei, nr. 2 er reyndar ágæt.

1. The Emoji Movie

Þessi mynd er Satan.
Tær færibandsviðbjóður með blörruðum, ógeðfelldum boðskap og concept’i sem er eins og eitthvað sem Sausage Party myndi skíta út í kaldhæðni.
Meira að segja fimm ára dóttir mín fílaði hana ekki.

 

Til gamans:

Vonbrigði ársins

Ég man þig, It, Call Me By Your Name, Spider-Man: Homecoming, The Big Sick, Thor: Ragnarök, Valerian and the City of a Thousand Planets, Wonder Woman, Kingsman: The Golden Circle

 

5 vanmetnar

Atomic Blonde, Colossal, King Arthur: Legend of the Sword, Logan Lucky (svona miðað við… öh… aðsókn), T2

 

Bestu sándtrökk/score ársins:

Atomic Blonde, BABY DRIVER, Blade Runner 2049, Dunkirk, Good Time, Guardians of the Galaxy vol. 2, Phantom Thread, King Arthur: Legend of the Sword, T2 Trainspotting, War for the Planet of the Apes

 

 

Categories: actual blogg, Aukaefni, _ | 1 Comment

Powered by WordPress.com.