_

Joker

Hver um sig getur leyft sér að sjá ýmislegt við sitt hæfi úr Joker; upphafssögu og nýjan vinkil á Batman-fígúru, stúderingu á misskildu fórnarlambi sem finnur sinn sess í skemmdum heimi sem óvænt byltingarhetja, eða stóru incel-íkveikjumyndina miklu og allt þar á milli.

Sjálfur sé ég mynd sem stelur ýmsum lykilhráefnum úr góðkunnum Scorsese-myndum og spilast út eins og Fight Club fyrir orkudrykkjakynslóðina, ef hún væri gerð af einstaklingi sem fattaði ekki að sú mynd væri um eitraða karlmennsku og neysluhyggju en ekki einhver ’90s-töffaramynd. Af sjálfstæðri, brútal Jókermynd að vera er myndin óvenju áhættulaus, stíf og ekki alveg nógu prakkaraleg, nema það teljist með að gera lag frá dæmdum barnaperra að upprisumúsík titilmannsins.

Í besta falli má segja að þetta sé fínasta forvitnisgláp sem sýnir hvað hægt er að gera utan ofurhetjugeirans. Í versta falli góð áminning til fólks um hvað Joaquin Phoenix er sturlað sterkur leikari.

Phoenix leikur sér að yfirborðskenndu klisjuhandriti og mjólkar úr því allt sem hann getur með smáatriðaríkri maníu, trúverðugu geðtapi og sannfærandi innri sársauka. Karakterinn sem hann leikur, aftur á móti, hann Arthur Fleck, er skrifaður eins og Óskarsbeitufígúra, þar sem eymdin er hlaðin á pari við vesældarstúlkuna Precious; hann er ítrekað beittur ofbeldi, átti ömurlega æsku, óheppnari en allt, treggáfaður, býr hjá móður sinni, hefur ekkert fyrir stafni, fær hverjar hörmungafréttirnar á eftir öðrum og ofan á það með fráhrindandi sjúkdóm sem veldur stjórnlausum hlátri þegar hann stressast upp. Það eina sem vantar upp á er myrt gæludýr til að sigla myndinni alla leið í harðkjarna tilfinningarúnk.

Arthur kemur út eins og honum finnist heimurinn skulda sér athygli; draumur hans er að verða uppistandari, þó hann hafi varla getu til að muna einn brandara. Arthur tekst með undraverðum hætti á einum tímapunkti að sá fræjum fyrir upprisu í glæpum huldufólks sem kennir ríka fólkinu um núverandi infrastrúktúr. Handritið virðist heldur ekki hafa neitt almennilegt að segja með innliti sínu. Sagan skoðar til dæmis ekki samfélagslega sögusviðið með dýpri skoðun en „ríkir eru vondir, við hin erum góð“. Hvað það varðar keypti undirritaður það aldrei að Arthur gæti óvart komið byltingu af stað með þeim litla hætti sem hann gerir þegar borgin er í niðurrifum fyrir.

Jókerinn hefur í gegnum áratugaraðir verið teiknaður upp í margs konar stærðum, gerðum og gervum og það verður að segjast að Arthur Fleck ber ýmis merki um athyglisverða nálgun. Það sem rænir honum samt þeim prófíl að vera athyglisverð persóna er hversu lítið jákvætt er dregið upp úr honum; hann hefur enga sýnilega hæfileika, ekkert karisma, enga snilligáfu eða neitt sem sver hann í sambærilega ætt við þekktasta glæpatrúð í sögu dægurmenningar.

Þegar þú rammar Arthur inn í þennan Batman-heim, þá veistu nákvæmlega hvert framvindan stefnir með aðalkarakterinn og skilur þetta lítið pláss eftir fyrir tilraunastarfsemi. Þar af leiðandi skiptir í rauninni engu hvort maður trúi því að hann komist frá B til C, svo lengi sem C er endastöðin þar sem hann öðlast status sem einhver glæpafyrirmynd. Myndin vill tilheyra Gotham-heiminum en vill samt ekki vera með neinu móti bendluð við nein hasarblöð. Þess vegna kemur umrædd tenging frekar pínlega út, enn fremur í ljósi listræna frelsisins sem handritið tekur á upprunalegu fígúruna, og hefði myndin verið trúlega betri sem sjálfstæð, óháð saga – þótt tengingin sé 90% ástæða fyrir aðdraganda vinsældanna, sama hvaða sögu þú dressar þarna undir.

Til að efla genin við Taxi Driver og The King of Comedy er Robert De Niro mættur á svæðið í Joker til að gera örlítið meira en að hirða launin sín. Þótt nærvera De Niros bæti vissum, auknum glæsibrag á heildarverkið er maðurinn ekki alveg réttur maður í hlutverk spjallþáttastjórnandans sem Arthur lítur upp til. Hin efnilega Zazie Beetz (úr Deadpool 2) er fínn viðauki í hópinn en henni er algjörlega sóað með rullu sem er í sjálfu sér tilhlaup að ódýrri handritsreddingu – sem verður fyrirsjáanleg frá þriðju mínútu. Frances Conroy er annars vegar frábær sem móðir Arthurs og hefði mátt fá meira til að vinna úr.

Á jákvæðu nótunum má alveg skrifa það á Hildi Guðnadóttur að hún eigi annað aðalhlutverk myndarinnar. Þrúgandi sellóið hennar gerir sumar skelflatar senur að litlu kraftaverki í mómentinu og skapar tónlistin almennt drunga sem gefur gráan skugga á jafnvel þær senur sem koma einhverri skammlífri gleði til skila. Hildur hefur átt magnað ár í ár með meiri háttar stefjum úr Chernobyl og opnar fjöldann allan af dyrum og tækifærum með framlagi sínu hér. Það eru að lágmarki þrjár til fjórar senur sem eru stórkostlegar í gegnum magnaðan samruna aðalleikarans og tónlistar Hildar.

Merkasti brandari Jókersins frá upphafi umtalsins var að sannfæra heiminn um að myndin byði upp á djúpar umræður og grandskoðun til að byrja með. Ýmsir fjölmiðlar og hópar veltu lengi fyrir sér hvort myndin væri í raun stórhættuleg, að hún gæti sérstaklega hvatt kynsvelta karlmenn til vafasamra aðgerða vegna versnandi samfélags um heim allan. Þetta finnst mér umræðuverður punktur og er skiljanlegt að það vakni spurningar.

Persónulega trúi ég ekki að nein kvikmynd ætti að teljast ábyrg fyrir vandamálum sem finnast víða fyrir, en allt er svosem líklegt í raunheimi þar sem margir veikir tóku A Clockwork Orange til abstrakt fyrirmyndar á sínum tíma, fólk stofnaði alvöru slagsmálaklúbba og manneskja hefur bókstaflega kafnað úr hlátri í miðju áhorfi á A Fish Called Wanda. Svo skulum við ekki gleyma hópnum sem horfði á Avatar og var langt kominn í sjálfsvígshættu þegar í ljós kom að Pandora væri ekki raunverulegur staður.

Joker espir trúlega einhvern minnihlutahóp með bjagaðri en eldfimri hugmyndafræði en þegar öllu er á botninn hvolft er myndin ekkert hættulegri neinum frekar en Paddington eigi sök á að valda köfnun á marmelaðisamlokum.

Sennilega, ef myndin væri hlaðin meiri súbtextum og handritshöfundar vissu sjálfir hver skilaboð og þemu sín væru, yrði lokaverkið meira tilbeðið með skaðlegri hætti. En eins og stendur er um að ræða býsna innantóma mynd sem lúkkar vel og gargar hátt. Djókurinn er of alvarlegur til að virka og alvara myndarinnar of mikill djókur.


Besta senan:
Dýr ráð hjá dverg.

Categories: _ | Leave a comment

The Lion King (2019)

Sjaldan eða aldrei hefur eins mikill peningur farið í jafn litla efnislega hugmyndavinnu. Stórrisarnir hjá Disney hafa svo sannarlega borið af síðustu árin þegar kemur að markmiðinu að þrýsta fast á nostalgíuhnappa fólks, en hingað til hefur ekki verið skýrara, ógeðfelldara dæmi um Copy-Paste endurpökkun á þessum skala.

Beauty and the Beast endurgerðin frá 2017 kom býsna nálægt slíkri nálgun en bætti þó smávegis (drasli) við. Meira að segja nýi Aladdin fann nokkra nýja vinkla og Dumbo líka. The Lion King endurgerðin er í orðsins fyllstu merkingu pjúra uppfærsla – og tilfærsla á teikniformi. Hún er meira æfing í vörumerkjagræðgi og fótó-realisma í tölvubrellum. Stórglæsilegur afrakstur sem slíkur og ekki alvond kópering, en hreinræktuð kópering engu að síður. Sköpunarvinna og listrænt frelsi er í algeru núlli og til að bæta gráu ofan á svart hafa lögin ekki sama kraft og í teiknimyndinni.

Myndin kemst engan veginn hjá samanburði við uppruna sinn vegna þess að hún stólar alltof mikið á hann – og tengingu fólks við hann – án þess að betrumbæta, dýpka eða gera nokkuð framandi með aðlögunina.

Það þýðir ekki bara að klessa gömlu senurnar á skjáinn með sömu músík, og nýrri grafík, og ætlast svo til þess að þau gefi frá sér nákvæmlega sömu tilfinningahögg. Það sem glatast þarna í endurfæðingunni er til dæmis ýkta, tjáningarríka og hádramatíska levelið sem þessi sama saga hamraði svo fínt í eldra teikniforminu.

Konungur ljónanna án litadýrðarinnar og ríku svipbrigði karaktera er bara geldur, óaðlaðandi skjávari. Hans Zimmer-tónlistin og lögin almennt í myndinni eru sennilega stærsta ástæða þess að teiknimyndin er talin svona… sígild. Sjálfsafgt hafa ófáir fengið gæsahúð þegar fyrsti ramminn rís með sólinni og Hringrás lífsins hefst með góðu gargi. 

Á nokkrum stöðum bregða fyrir kaflar í nýju myndinni sem framkalla með naumindum þessa sömu tilfinningu og uppruninn gerði, en svo tekur “uncanny-valley” truflunin við eða þessi stórundarlegi metnaður fyrir því að taka “skot-fyrir-skot” afrit af römmunum. Það hættir aldrei að vera undarleg tilfinning að sitja yfir mynd þar sem aulahrollur og gæsahúð sync’ast saman í eitt á sama tíma.

Það er lítið út á nýju raddleikarana að setja í sjálfu sér, þó aldrei verður hægt að eiga séns í línuflutning manns eins og Jeremy Irons. Fyrst að James Earl Jones var fenginn aftur í hlutverk Mufasa hefði allt eins bara mátt fá Irons á ný sem skúrkinn bitra, ef ekki nota gömlu upptökurnar. Fáránlegri hlutir hafa nú gerst hjá höfuðstöðvum Disney. 

Þegar Seth Rogen reynir ekki að syngja kemur hann stórvel út sem Púmba, þó útlitslega útkoman á geltinum sé ekkert skárri hugmynd en það að gera Pöddulíf að live-action endurgerð. Billy Eichner er ekki slæmur Tímón heldur. Hann fær víst nýjan brandara sem markar eitt af betri mómentum myndarinnar. Svo má ekki gleyma hressilegri viðbót þar sem við fylgjum hárklumpi úr Simba og sjáum hann ferðast langar leiðir, gegnum lægðir og hægðir. Og það er nákvæmlega eins og þarna stendur.

Það má næstum því kalla það stór vandamál að handritshöfundurinn Jeff Nathanson fái í alvörunni kredit fyrir þetta handrit sem hann er titlaður fyrir, þegar réttast væri að nota upprunalegu höfundana með. Ef út í það er farið gátu framleiðendur alveg eins viðurkennt að efniviðurinn er allur stolinn frá japanskri seríu að nafni Kimba The White Lion. En það skiptir svo sem litlu máli hér. Sá stuldur skrifast á upprunalegu teiknimyndina – sem þó lagði helling í sköpunarferlið, frá sögu til söngs, en nýja myndin á ekki að eigna sér frásagnartakta og allt klabbið úr originalnum og kalla það sitt eigið. Það skondna er hins vegar að þessi nálgun býður einnig upp á það að myndin erfir alla galla upprunalegu myndarinnar líka…

Rómantíski þráðurinn slær ekki á neina hjartastrengi því hún fær mjög flýttan fókus og tilvistarkreppa aðalpersónunnar hittir ekki nægilega í mark. Reyndar finnst mér Simba og Nala (ennþá) vera afskaplega þunnar persónur, sérstaklega miðað við það að flestallir aðrir eru mjög eftirminnilegir og sterkir í sínum prófíl.

Sem kvikmyndagerðarmaður hefur Jon Favreau aldrei verið beinlínis masterklassa sögumaður eða leikstjóri með brodd. Þó er ljóst að hann hafi greinilega öðlast fullmikið blæti fyrir tölvugerðum dýrum og skógarumhverfumum í (stórfína) Jungle Book rímeikinu til að telja sig trú um annað en að þetta gigg snúist eingöngu um að telja Disney-seðlana. Uppfærsla á The Lion King var greinilega eina leiðin fyrir Favreau til að finna auðfengnara fé en að gera framhald af Elf.

Myndin er nógu fínslípuð í grafík og hlaðin kostum uppruna síns til að vera ekki viðbjóðurinn sem tilvist hennar ætti að sýna fram á. Sem sjónarspil er augljóslega ýmislegt til að dást að og stafrænar kameruhreyfingar hafa aldeilis tekið stökk. Á þeim enda er nýja myndin alveg að smella, sama hvað dýrin urra hátt í tómri tunnu. Þá verður að spyrja sig hvort eina gagn The Lion King endurgerðarinnar sé að höfða til fólks sem hefur aldrei séð teiknimyndina, sem eru samt ómeðvitað að gera sér eilítinn ógreiða með því.

Besta senan:
Ferðalag hárklumpsins.

Categories: _ | Leave a comment

Spider-Man: Far From Home

Er það eðlilegt að almenningur hafi á sautján árum fengið ellefu bíómyndir þar sem Köngulóarmaðurinn skýtur upp kollinum? Tæknilega séð tólf ef við teljum hina Spider-Man-lausu Venom með…

Er þetta of mikið af hinu góða á þegar pökkuðum markaði? Eða…

Má færa rök fyrir því að Spider-Man sé einfaldlega ein skemmtilegasta ofurhetja í heimi?

Stutta svarið ætti í raun og veru að vera já við öllu þrennu, en eins og ég sé það virðist bara hafa komið aukning á því hvernig best er að útfæra Spider-Man myndir með árunum – með því að embrace’a unglinga/gaggó-dramað og setja alvöru þematík í mixið. Bara á síðasta ári fengum við LANGflottustu og bestu Lóamyndina, Into the Spider-Verse, sem sýndi 150% með poppuðum teiknistíl og frábæru handriti hvað hægt er að gera við þessa hetju á hvíta tjaldinu.

Eftir þá mynd hélt ég að væri í raun ekki aftur snúið með þessa hetju, að lítið þýddi einu sinni að reyna aftur með leikna formið.

Heppilega er Tom Holland algjör fengur, eins og hann er löngu búinn að sýna fram á. Hann er allt það sem Tobey Maguire vildi vera (og enn lítur sá maður út eins og hann sé 15 ára) og með “lúðafaktorinn” sem Andrew Garield náði ekki alveg tökum á. Það skrifast massamikið á Holland hvað hann nær að gera mikið fyrir karakterinn og myndirnar. Ofar öllu er hann líka viðtengjanlegur.

Far From Home er einn ragmagnaður gleðipakki ef ofurhetjan gefur þér eitthvað (Peter-)kitl; hún virkar sem góð gamanmynd á eigin veg, frábær Spider-Man mynd og bragðmikill eftirréttur (/eftirmáli?) í kjölfar þungu, drollandi og flötu máltíðarinnar sem Avengers: Endgame var. Stundum var eins og vantaði alla keyrslu og flug í þá mynd – og ekki síður Captain Marvel sem á undan kom – en þessi ræma er með þeim allra betri frá Marvel stúdóinu til þessa. Kannski ekki sú súrasta, hugmyndaríkasta eða mest heillandi, en absolút dúndurfjörug, frá upphafsatriðunum til tveggja ansi góðra endasena. Eitthvað gerist það ógurlega sjaldan að mið-kreditsenur bæti einhverju við, en þær gera það hér.

Í Homecoming var þróunin hjá Peter Parker sú að finna sjálfan sig og hetjuna í sér, en núna er komið að honum að sýna hort hann geti miklu meira en hann trúir; ekki bara þarf hann að finna Hefnandann í sér, heldur eigin leiðtoga í sjálfum sér, átta sig á því hvaða leyndarmálum er þess virði að halda – og hvaða fleiri aulamistök gerir maður á svona ungum aldri. Og annað en síðast er komið að því að efla hösslarann í sér.

Á meðan Homecoming var svolítið sjónvarpsleg í lúkki og ekki alveg nógu tilþrifarík, þá er dramatískt meira í húfi í Far From Home, þó henni takist allan tímann að vera eiturhress og brandarlega skemmtileg ferðakómedía, með ágætum og stundum æðislega trippuðum hasar bökuðum inn. 

Auk þess er Jake Gyllenhaal hreint frábær viðbót í þennan heim, og neglir það kalt að vera sjarmerandi, mystískur og vafasamur. Stuðningsfólkið fær margt til að vinna með; Samuel L. Jackson, Jacob „Ned“ Batalon, Jon Favreau, Marisa Tomei og Martin Starr eiga marga frábæra spretti. Meira að segja Zendaya hefur þroskast og þróast helling úr one-liner hipsterboltanum sem hún lék síðast og hefur núna miklu við að bæta. Hollendingarnir stela líka senunni á góðum tímapunkti. Allir sem einn.

Það eru fáein bremsuför í handritinu og má deila um það hvort myndin erfi fullmikið af lausum þráðum sem Endgame náði ekki að dekka. Þar að auki, þar sem þetta er Marvel Studios-mynd má aldrei líða of langur tími til að díla við tilfinningar án þess að brandari komi og „skemmi“ (það og klippingin er svolítið sérkennileg/off á tíðum). Slíkt eru samt svo miklir prump-hnökrar þegar myndin á móti nær að faðma að sér alla vitleysuna sem henni fylgir. Þó heilalaus sé þá er hún fjarri því að vera laus við stórt, sláandi hjarta.

Spider-Man: Far From Home nær á hinn besta máta að vera akkúrat það sem hún þarf að vera, og vill vera. Pjúra popp-afþreying, ídeal sumarskemmtun og jafnvel næstbesta Lóamyndin. Hún lokar fyrir margt af því sem hefur á undan komið í 20+ mynda fösum hjá stúdíóinu og leggur ýmsa teina fyrir spennandi áframhald, bæði fyrir titilkarakterinn og tilheyrandi heim.

Besta senan:
„Mændfökk-ferðalagið“

Categories: _ | Leave a comment

Powered by WordPress.com.