actual blogg

Með sól í hjarta og hjartað í brókinni

Ef það er eitthvað sem hefur vantað í mig alla ævi, þá er það túristaheilkennið. Mér leiðist ákaflega mikið að vera „túristi“ í útlöndum eða fylgja tilsettum dagskrám af færibandi. Fylgihlutur slíks hugarfar er vissulega sá að ég missi af vænum hellingi, en þegar það gerist að ég kíki út fyrir landsteinana þykir mér fátt skemmtilegra en að skoða allt sem er að finna „bakdyramegin“ í gefnu útlandi.

Þangað til núna nýlega hafði ég ekki brugðið mér til sólarlanda í tæpan áratug. Ástæðan tengist bæði því að ég er ákaflega lélegur í listinni að sleikja sólina (yfirleitt er það hún sem sleikir mig, hvert sem farið er) og laðast ég meira að borgum, skrítnum bæjum og framandi menningu, helst hvoru tveggja á einu bretti, sem er ekki útbúin sem pakkadíll handa ferðafólki. Hins vegar kom það til að ég slysaðist í ferð til Krítar.

Markmið ferðarinnar var hið einfaldasta: að njóta og drekka í mig alla þá grísku fegurð sem til staðar er; sækja í ókunnan kúltúr en gera þó mitt besta til að vera „ekki túristi“, á meðan flestir flykktust að borginni Chaniu eða túristabænum Platanias. Ég leitaði hins vegar lengra vestur og kíkti í litla, dúllulega sjávarþorpið Kolymbari og naut þar eyðilandanna sem hægt var að sjá þar í kring á löngum göngutúrum.

Alltaf þarf að eyðileggja fjörið hjá sumum.

Við hvert gefið tækifæri sleppti ég ferðamannaferðum (fyrir utan Santorini – því hvaða heilvita manneskja sleppir slíkri fegurð?) og finnst það svolítið drepa tilgang fræðandi ævintýraleiðangurs ef ég heyri talaða of mikla íslensku í kringum mig. En eins og við flest vitum, ef maður vill hitta Íslendinga í útlöndum skal rakleiðis haldið í H&M. Til allrar lukku átti ég ekki leið þar fram hjá.

Nei, mitt andlega hlutverk þarna var að ferðast eins langt út fyrir bæinn og mögulegt var; leyfa mér að týnast aðeins og njóta samvista við hina innfæddu. Og þar sem ég er bæði ostafíkill og flakkari hét ég því að smakka eins margar mögulegar gerðir af ostum og hægt var, enda er það nánast vísindaleg staðreynd að Grikkir bjóða upp á besta FETA-ost veraldar.

Að setja tónlist í eyrun, finna einhvern stað sem ég kannast ekkert við og líta út eins og tómur magi í leit að hinni fullkomnu svindlfæðu. Ró var það sem ég sóttist í, en þá að sjálfsögðu koma veraldaröflin og velta því um koll.

Til að setja það í smá samhengi þá er ég hvorki bíl- né flughræddur maður, en þegar ég ákvað að bregða mér frá Chaniu yfir til Kolymbari breyttist það á svipstundu. Þá var ég staddur í Chaniu, að seðja ostablæti mitt og kíkja á veitingastaði sem eru draumum líkir, en þegar leið að kvöldi var komið að lúr á hótelinu. Þessi ferð hefði tekið rúman klukkutíma með strætisvagni, en rúman hálftíma með leigubíl. Mér var bent á að bílstjórum þætti ekkert athugavert á Krít að taka löngu rúntana, en einnig var mér bent á að það væri stundum með höppum og glöppum hversu áreiðanlegum, kurteisum eða sanngjörnum bílstjórum væri hægt að lenda á. Þessu fékk ég að kynnast betur í umræddum bíltúr. Ég gekk inn á veitingastað og bað um samband við góðan leigubíl, ómeðvitaður um að strákpjakkurinn á bak við borðið vildi hrella mig, eða þannig kýs ég að sjá það í dag.

Bíllinn mætti á planið. Ég sagði hvert mig langaði að fara og fékk vægt dæs á móti að fyrra bragði. Þetta þótti mér undarlegt en ég kippti mér ekki upp við það. Bíllinn fer rólega af stað í gegnum bæinn, þótt beygjurnar væru sumar óþarflega krappar, en þegar hann var komin út fyrir bæjarmörk á hraðbrautina fór adrenalínið að flæða um blóðið og ég umbreyttist í skrækjandi dívu, eitthvað sem ég hafði ekki hugmynd um að blundaði í mér.

Þetta var eins og sambland af fyrsta skutlinu í upprunalegu Taxi-myndinni og afrakstri þess þegar Will Smith þrýsti á rauða hnappinn í fyrstu Men in Black. Bílstjórinn keyrði kaggann áfram á leifturhraða svo að ósjálfrátt var ég farinn að grípa símann og senda ólíka broskalla eða örskeyti á mína nánustu– skyldu þau verða mín síðustu. Ég gerðist jafnvel svo djarfur að senda einum besta vini mínum SMS-skilaboð um að ég væri staddur með umræddum leigubílstjóra dauðans og að ég væri dauðhræddur um eigið líf. Svarið sem ég fékk við því var Like-þumall.

Segja má að sjokk mýki sálina. „Jæja þá, ef ég verð allur, þá er varla til fallegri staður,“ hugsaði ég snöggt, þótt fallegar sjávarstrendur Platanias fjarlægðust með hverri sekúndu sem leið á meðan við rúlluðum eftir hraðbrautinni. Ekki nóg með hraðann, heldur var maðurinn allan tímann að keyra skakkt á veginum – sikksakkandi af sér bíla sem voru á sömu leið og einnig þeim sem komu úr gagnstæðri átt. Ég óskaði þess að þulurinn úr Fóstbræðrasketsinum Leigubílstjóri dauðans bergmálaði ekki í kollinum hjá mér.

Þegar bílstjórinn skransaði svo fyrir framan hótelið, og ég stórundarlega heill á húfi og geði, gat ég ekki annað en dáðst að vinnubrögðunum og kænskunni, þannig að mér þótti fátt sjálfsagðara en að gefa 25% í þjórfé fyrir lífsreynsluna sem skaut hjartanu á milljón. Hver þarf á skemmtigarði eða rússíbana að halda þegar maður getur stundað andlegt fjárhættuspil með eigið líf á hinn hversdagslegasta máta?

Heppilega, við hótelkomu, var enn korter eftir af fríum drykkjum á barnum og ég get með hreinni samvisku sagt að ég hafi nýtt hverja mínútu vel. Ef ég myndi þreifa á þessari frásögn eins og botnlausri buddu í leit að einhvers konar boðskap, væri hann sá að best sé að halla sér aftur og njóta ekki aðeins lífsins, heldur hættustundanna. Lífið gefur þér engin hjálpardekk hvort sem er.
Eftir þeysireiðina fór samt bílstjórinn eitthvað að bulla á tungumáli sínu og benti á kortið eins og hann væri að nöldra yfir vegalengdinni. En hálftími til og frá og örlátt þjórfé ætti þó að segja eitt eða annað um mína uppbót. Samt kvartaði kappinn og ég skildi ekki neitt.

Þetta er allt algjör gríska fyrir mér.

Categories: actual blogg | Leave a comment

Þekktir réttir úr kvikmyndum

Kvikmyndakóngurinn Quentin Tarantino hefur oft upplýst áhorfendur um mátt máltíða og matargerðar á hvíta tjaldinu. Hugmyndafræði leikstjórans gagnvart girnilegum mat (plús drykkjum, ef til vill) er sú að skyldir þú sjá til dæmis pítsusneið í bíómynd, er það ábyrgð kvikmyndagerðarmannsins að sjá til þess að þig langi í umrædda pítsusneið.

Í stuttu máli, ef Christoph Waltz sést þamba jökulkalda mjólk – eða jafnvel Uma Thurman með mjólkurhristing – er markmiðið að tryggja að fólkið í salnum þyrsti með eindæmum í það sama. Að vísu hefur hinn sami kvikmyndagerðarmaður reynt eftir bestu getu að gera berfættar tásur álíka girnilegar, en áhrifamáttur þeirrar útkomur veltur reyndar á blæti hvers og eins – en prinsippið er hið sama!

Kíkjum nú á nokkra eftirminnilega rétti eða frægar senur þar sem það sem á boðstólum er skipar sér í áhrifaríkt aukahlutverk – og hvers vegna. Lesendur eru að sjálfsögðu hvattir til þess að prófa sambærilega upplifun heima í eldhúsinu, þótt gæði afrakstrarins séu á ábyrgð hvers og eins.

Hægeldað svín … sem drepur – Once Upon a Time In Mexico (2003)

Hefur þú einhvern tímann smakkað rétt sem er svo góður að þig langar samstundis til þess að myrða kokkinn? Það er einmitt það sem Johnny Depp tók upp á að gera í spennumyndinni Once Upon a Time in Mexico. Persónan sem Depp leikur þar bragðar mexíkóskan rétt sem kallast einfaldlega „Puerco pibil,“ en þar er á ferðinni hægeldaður svínahryggur sem býður upp á ýmsa upplifun fyrir bragðlauka í meðlæti og útfærslu. Rétturinn er í senn nógu einfaldur til þess að ná tökum á gerð hans nógu flókinn til þess að gera matarboðið fyrir kvöldverðargestina aðeins fínna en venjulega.

Aðferðin er svolítið snúin, en þennan rétt gerir hvern og einn á eigin ábyrgð. Fyrirmælin sjást að neðan frá leikstjóra myndarinnar.


Pítsutvenna að hætti Travolta – Saturday Night Fever (1977)

Það er ekki sama hvernig þú borðar pítsu. Spurðu hvaða Ítala sem er og hann mun að öllum líkindum hafa sterka skoðun á málinu. Í tilfelli dansperlunnar Saturday Night Fever snýst umræðan minna um hvaða pítsu skal fá en meira um hvernigskuli gæða sér á henni. Ungur og reffilegur John Travolta sýnir aldeilis hvað í honum býr í þessari mynd, en hinn seigi Tony Manero er takt- og vanafastur maður, harðákveðinn í því að besta leiðin að flatbökuáti sé að klessa saman tveimur sneiðum í góða pítsusamloku. Aðferðafræði Tonys víkur í engu að því hvernig bökurnar snúa, það er tvöfalda ánægjan sem gildir. Vert er að taka það fram að brellan virkar betur með þunnbotna sneiðum.

Spagettí með kjötbollum – Lady and the Tramp (1955)

Stundum er óþarfi að flækja hlutina. Þegar þú ferð út að borða með stóru ástinni getur einfaldur pastaréttur séð um alla töfrana. Passaðu bara að einoka ekki síðustu kjötbolluna. Afgangur kvöldsins – og framtíð ástarinnar – getur oltið á því.

Munnvatnsaukandi ostasamloka – Chef (2014)

Kvikmyndin Chef frá Jon Favreau (sem oft er kenndur við nafnið Pete úr Friends-þáttunum) er krúttleg lítil saga af manni sem ákveður að stofna matarvagn, sérhæfðan í að bjóða upp á dýrindis grillaða ostasamloku. Eins og má ímynda sér slær matarvagninn gjörsamlega í gegn og hafa ófáir áhorfendur sóst í þá sáraeinföldu en gómsætu uppskrift sem kitlar bragðlauka samlokuunnenda og ekki síður ostafíkla. Joey Tribbiani væri helsáttur. En til að spara gúglið má sjá uppskriftina hér að neðan.

Það sem þarf:

Súrdeigsbrauð
Ein teskeið af ólífuolíu
Þrjár teskeiðar af smjöri
Tvær þunnar sneiðar af cheddar-osti
Tvær þunnar sneiðar af gruyère-osti (gangi ykkur vel að finna hann)
Tvær þunnar sneiðar af parmesan-osti

Brauðsneiðarnar eru steiktar á pönnu með ólífuolíunni. Smyrjið svo brauðsneiðarnar og steikið þær í um þrjár til fimm mínútur.

Þá veist þú hvernig Chef smakkast.

Kartöflumús með táknrænum gljáa – Close Encounters of the Third Kind (1977)

Er dulrænn fyrirboði í uppsiglingu? Eru geimverur kannski á leið í kvöldverð? Þá er best að hlaða í eina gómsæta kartöflumús með aðalréttinum. Hér er um að ræða kvikmynd sem sýnir hvað það getur verið mikið sport að leika sér að matnum – jafnvel bráðnauðsynlegt!

Pastrami í rúgbrauði með gervifullnægingu – When Harry Met Sally (1989)

Margir hverjir kannast við setninguna „Ég ætla að fá það sama og hún.“ Í þessari sígildu rómantísku gamanmynd þarf meira til þess að vekja stunur hjá Meg Ryan en bara eggjandi samræður við einstakling af gagnstæðu kyni. Við skulum ekki hafna því að kvöldverðurinn (sem sé sterkkryddaður nautabógur í rúgbrauði) gæti átt einhvern þátt í orkunni sem heltók leikkonuna á bestu stund. Pastrami-samlokan hjá Sally gefur orðinu „matarklám“ uppfærða merkingu.
Prófið endilega, en gætið þess að veggirnir heima séu ekki of þunnir.

Kældur apaheili – Indiana Jones and the Temple of Doom (1984)

Framandi staðir eru nauðsynlegir fyrir Indiana Jones-myndirnar. Það skapar vissulega svigrúm fyrir framandi matargerð. Í kvikmyndinni Temple of Doom fær titilhetjan og fylgdarlið hans heldur betur að kynnast nýjungum sem eru ekki allra. Í hinni svonefndu Pankot-höll á Indlandi eru stökkar bjöllur og álar á meðal þess sem er á boðstólum. Skemmtikonunni Willie Scott (sem leikin er af Kate Capshaw) er alls ekki skemmt, enda ekki furða; súpu dagsins fylgja fljótandi augu og ekki skánar það þegar eftirrétturinn er borinn fram, en það er kældur apaheili. Ekki spyrja, en hinir innfæddu í myndinni gúffuðu þessu í sig með bestu lyst.

Til allrar lukku féll frúin ekki í yfirlið á tökustað í raun, því innihald „apaheilans“ samanstóð af búðingi og rifsberjasultu.
Þessir bíótöfrar …

Ratatouille með æskuljóma – Ratatouille (2007)

Í myndinni Ratatouille er titilrétturinn meira en bara soðið grænmeti með sósu. Máltíðin er lykill að ljúfum æskuminningum matargagnrýnanda sem hefur alveg gleymt listinni að brosa. Við fyrstu smökkun verður umræddur gagnrýnandi meira en heltekinn og maður veltir fyrir sér hvort þarna leynist einhver leyniuppskrift sem lesendur geta gert sér leik úr að finna út. Kannski þurfi bara bráðsnjallt nagdýr á tveimur fótum til þess að setja aukinn sjarma í máltíðina, hver veit?

„Rándýr“ mjólkurhristingur/Hinn konunglegi ostborgari – Pulp Fiction (1994)

Enn og aftur bregður John Travolta fyrir, en hann er ekki maður sem lætur hvað sem er ofan í sig á filmu. Árið 1994 þótti hugmyndin um „fimm dollara mjólkurhristing“ vera bæði okur og absúrd. En eins og við Íslendingar þekkjum er stundum fátt sjálfsagðara en að henda tæpum þúsundkalli í góðan ísdrykk í almennilegri stærð. Í kvikmyndinni Pulp Fiction bölvar Travolta engu að síður ungri og íðilfagurri Umu Thurman fyrir að panta sér fimm dollara sjeikinn, þar til í ljós kemur að hann hittir beina leið í mark. Þarna reynir Tarantino sjálfur að koma þeirri tilfinningu yfir á áhorfandann að mjólkurhristingur sé kannski ekki svo galin hugmynd. En því má heldur ekki gleyma að fyrr í kvikmyndinni eru stórmikilvægar samræður sem snúast um heiti McDonald’s-borgara í Amsterdam.

Soðinn humar, matreiddur með rómantík – Annie Hall (1977)

Þegar hugsað er um minningar ástarinnar – bæði þær sætu og súru – skipta litlu hlutirnir oft miklu máli. Eins og Óskarsverðlaunamyndin Annie Hall sýnir fram á geta ómótstæðilegar minningar komið smáatriðum við og í samböndum eru oft kvöldverðarminningar sem standa upp úr. Woody Allen og Diane Keaton gera heiðarlega tilraun til þess að sjóða lifandi humra, en karlpungurinn er skræfa og ekki gengur allt átakalaust. Umrædd sena er víða talin ein sú eftirminnilegasta í myndinni og verða margir áhorfendur sólgnir í góðan humar og hressan hlátur með betri helmingnum. Þarna er humar ekki bara humar, heldur undirstaða ákveðinna töfra í sambandi lykilparsins. Woody reynir meira að segja að leika þetta eftir þegar hann slær sér upp með annarri konu, en með mislukkuðum árangri.

Eins og sagt er í Friends: finndu þinn humar.

Talandi um …

(Heiðursmáltíðin)

Trufluð smalabaka í breskum trifflisstíl

Hefur þú einhvern tímann bragðað á fótum? Samkvæmt Ross Geller er frægasti misheppnaði triffliréttur (sjónvarps)sögunnar ekki frá því að bragðast eins og „tær“ viðbjóður. Í þættinum The One with the Trifle reynir Jennifer Aniston að fylgja uppskrift að breskum triffli en notast óvart við tvær gerólíkar uppskriftir. Við það sem átti að verða sambland af búðingi, sultu og ávöxtum bætast við hráefni úr smalaböku sem samanstendur af nautakjöti, baunum og lauk.

Skemmst er frá því að segja að eftirrétturinn reyndist ekki vera að skapi allra, en oft má segja að eitthvað sé rétt gert ef tekst að þóknast einum einstaklingi. Sá einstaklingur reynist vera hinn ofureinfaldi Joey Tribbiani, en hann er að vísu matgæðingur á fordæmalausu stigi. En ef út í það er farið, er nokkuð svo slæmt að bræða saman ólíkum bragðtegundum ef þær eru allar góðar hver í sínu lagi?

Aðrar tillögur:

„Strudel“ með rjóma (Inglourious Basterds) – Passið bara að rjóminn fylgi með. Hans Landa segir það.

Allt saman (Chocolat) – horfið á þessa kvikmynd á tóman maga. Ég mana ykkur!

Hið mikla Timpano (Big Night) – Erfitt, en þess virði.

Allt sem Meryl Streep snertir (Julie & Julia) – sjá Chocolat

Þakkargjörðarskórinn (The Gold Rush) – Charlie Chaplin kann þetta:

Vantar einhvern mat að þínu mati?
Segðu frá í kommentunum hvaða rétt þér finnst vanta á listann.

Categories: actual blogg | Leave a comment

20 frábærar kynlífssenur í kvikmyndum

„Kynlíf er leiðinlegt ef þú ert ekki ekki þátttakandi í því“

Þetta sagði leikstjórinn Ridley Scott eitt skipti, aðspurður um hvers vegna ástarleikir hafi svona oft verið fjarverandi í hans kvikmyndum.

Sjálfur hefur Scott forðast það eftir bestu getu að skjóta slíkar senur því hann telur þær sjaldnast hafa einhverju við að bæta. Líklega er margt til í þessu. Það getur verið mjög erfitt að skapa kynlífssenu sem er meira en tilraun til að æsa áhorfendur og fylla í lengdina; kynlífssenu sem er spennandi, fáránleg, raunsæ, ýkt og fyrst og fremst þjónar tilgangi sögunnar með eftirminnilegum hætti.

Hins vegar gæti Scott varla neitað því að sumar senur kvikmyndasögunnar hafi skilið eitthvað fjörugt eftir sig, til að mynda einhverjar af þessum tuttugu sem hér verða taldar upp.

En eftir hverju bíðum við? Ríðum á vaðið:

 

Brokeback Mountain (2005)

Hvað gerir maður eftir erfiðan dag af kindasmölun þegar straumar svífa milli þín og samstarfsmannsins? Sérstaklega þegar kuldinn skellur á og einhverja leið þarf að finna til þess að halda á ykkur hita… og þegar kakóið er búið.

Góð sena allavega, í mynd sem óréttlátt er að kalla eitthvað annað en hreinræktaðan gimstein. Aðdáendur þessarar myndar kippa sér ekkert upp við það að hún er oft misskilin sem „bara einhver hommakúrekamynd“. Það er hún alls ekki. Heath Ledger heitinn og Jake Gyllenhaal eru í essinu sínu þarna.

 

A History of Violence (2006)

David Cronenberg er ekki alltaf maðurinn sem fer fínt í hlutina þegar kemur að ástarleikjum og í A History of Violence eru tvær senur þar sem Viggo Mortensen og Maria Bello fá aðeins að hamast á hvoru öðru. Fyrri senan er reyndar lágstemmd og krúttleg en sú eftirminnilegri er agressíft kynlíf þeirra í stigaganginum, sem best skal lýsa sem  „reiði-reið“. Það er margt ósagt í þessari senu sem kemur miklu til skila, en þó staðsetningin ku ekki vera sérlega hagnýt (og hversu vond fyrir bakið?) þá spyr lostinn ekki alltaf um stað né stund.

Þess má einnig geta að A History of Violence er fyrsta bandaríska kvikmyndin sem inniheldur stellinguna 69, samkvæmt yfirlestri leikstjórans á myndinni.

 

Showgirls (1995)

Það er ekkert hægt að segja um þessa senu sem skýrir sig ekki betur sjálf þegar þú sérð hana. Kannski var það allt hluti af gríni leikstjórans Paul Verhoeven að sýna Elizabeth Berkley og Kyle MacLachlan að busla eins og óðir bavíanar í einhverri súrustu kynlífssenu fyrr eða síðar. Tónlistin gefur að minnsta kosti til kynna að við eigum að taka þessa senu nokkuð alvarlega, en hvað sem á sér stað þarna í sundlauginni er ljóst að Kyle virðist á köflum vera eins áttavilltur á svipinn með ópin í Berkley og við sem erum að horfa.

Deadpool (2016)

Jólin, Valentínusardagur, Hrekkjavaka… Alþjóðlegi kvennadagurinn. Aðalparið í Deadpool lætur sér ekki leiðast á dögunum sem skipta máli.

 

Original Sin (2000)

Myndin er hrútleiðinleg en það gleður augun í smástund að sjá jafnheita tvennu og Angelinu Jolie og Antonio Banderas að rífa hvort annað úr tímabilsfatnaði sínum. Ástarsenurnar í myndinni eru jafnvel svo heitar að markaðssetningin á sínum tíma spurði hinnar merku spurningu: Eruð þið tilbúin fyrir Angelinu Jolie nakta?

 

Underworld: Rise of the Lycans

Þessa þekkja örugglega fáir, en útkoman er bjánaleg og stórfyndin á sama tíma, sem var trúlega ekki ætlunin. Ég veit svo sem ekki hver ætlunin var en að sjá Michael Sheen og Rhonu Mitru stunda slow-mo samfarir við klettabrún (á meðan hann lítur í smástund út fyrir að tapa sér úr hræðslu) er svo sannarlega efni í bækurnar. Þú finnur að minnsta kosti fátt minnisstæðara úr þessari mynd, það á hreinu.

 

Avatar (Special Edition útgáfan – 2010)

Kynlíf hjá geimverum er alltaf eitthvað sem er þess virði að skoða, en hér mætast halar aðalpersónanna í orðsins fyllstu merkingu. Útkoman er bæði stórkostlega skrýtin, jafnvel meinfyndin, en í senn falleg og uppfull af nánd.

 

Shoot Em Up

Shoot ‘Em Up er af sumum talin vera nokkrum númerum of yfirdrifin, öðrum þykir þetta ákaflega vanmetin hasarsteypa sem snýtir sér með lógík… ítrekað.

Þó hugtakið sé kannski að einhverju leyti frekar úrelt þá er Shoot ‘Em Up mikil „strákamynd“, í orðsins fyllstu merkingu, sem gengur út á það að toppa hverja vitleysu á eftir annarri. Einum hápunktinum er náð (í fleiri en einni merkingu) í senu þar sem hetjan okkar, Clive Owen, á lostafulla stund með Monicu Bellucci á meðan óþokkar ryðjast inn og reyna að skjóta allt í spað.
Owen neitar að sjálfsögðu að láta þetta stoppa sig, svo hann múltítaskar eins og fagmaður á meðan Monica stynur á fullu. Þau veltast um allt herbergið – og fólk getur meira eða minna ímyndað sér hvernig senan klárar sig af.

Munich (2005)

Hér kemur skilgreiningin á því að vera annars hugar í miðjum klíðum, ef ekki þá ein leið til þess að, eins og sagt er,„serða sársaukann burt“. En hér er rennandi sveittur Eric Bana að sýna sína allra bestu svipi – í slómó, í miðjum „klímax“ myndarinnar. Þetta skrifar sig sjálft.

 

Ghost (1990)

Þessi ljúfa sena fær með naumindum að teljast með, en hún er bara of klassísk til þess að ekki eiga erindi hingað. Jafnvel fólk sem aldrei hefur séð Ghost hlýtur að kannnast við þessa nautnalegu uppstillingu.
Leirkeragerð, sætar stjörnur og Righteous Brothers á fóninum.
Stundum þarf ekki meira.
Er ykkur ekki heitt?

 

Bound (1996)

Hin bráðskemmtilega og ástríðufulla glæpamynd Wachowski-systra (sem árið 1996 voru kallaðir „Wachowski-bræður“) vakti mikla lukku á sínum tíma og kom þeim á kortið. Gina Gershon og Jennifer Tilly kveikja í hvíta tjaldinu, skömmu eftir að persónurnar kynnast.

 

Boogie Nights (1997)

Fyrsti vinnudagurinn í nýju starfi getur oft verið erfiður eða valdið streitu. Í Boogie Nights mætir persónan Dirk Diggler (leikinn af ungum og efnilegum Mark Wahlberg) til starfa á tökustað klámmyndar. Á móti honum er hin bráðfallega Julianne Moore og eiga þau saman huggulega stund fyrir framan heilt tökulið. Þarna sjá líka samstarfsmenn Digglers hvaða hæfileika hann hefur fram að færa.

 

Crash (1996)

Cronenberg er einn prakkaralegur maður. Í þessari mynd er aldeilis enginn skortur á afbrigðilegum hegðunum, enda bíómynd sem gengur út á hóp fólks sem fær sérstakt kikk út úr bílslysum. Ef það er eitthvað sem á erindi inn á „Nú-hef-ég-séð-allt!“-listann þá er það atriði þar sem James Spader byrjar að stinga saman nefjum við Rosönnu Arquette. Skemmst er frá því að segja að hann rýtir guttanum sínum litla í opið sár á frúnni, sem hún öðlaðist eftir… hvað annað… bílslys.

Hún virðist samt ekki vera að hata það.

 

Crank/Crank 2 (2006/2009)

Hressing á almannafæri getur verið mikil áhætta, en það virðist ekki stoppa Jason Statham og Amy Smart í báðum Crank-myndunum. Fagnaðarlætin í viðstöddu fólki spila stóra rullu í þessari epík, bæði skiptin.

Black Swan (2010)

Umtöluð sena í umdeildri dramahrollvekju leikstjórans Darren Aronofsky. Natalie Portman fer með leiksigur ferils síns sem snaraði henni Óskarsstyttu í hlutverki metnaðarfullu en feimnu ballerínunar Ninu sem er á barmi geðþrots. Á miðri leið í leit sinni að hinni fullkomnu dansframmistöðu kynnist hún Lily, leikin af Milu Kunis. Þegar Nina byrjar aðeins að losa beisli sitt fer heilinn hennar á ýmsa staði, þar á meðal staði þar sem hitnar sérdeilis í kolunum hjá þessum fínu dömum.

 

MacGruber (2010)

Það er mikil hefð í ’80s spennumyndum að bjóða upp á eina sjóðheita og helst temmilega sveitta kynlífssenu áður en seinasti þriðjungurinn er kominn á fullt (sjá Highlander, The Lost Boys, Terminator o.fl.). Þetta er eitthvað sem paródíumyndin MacGruber gerir sér fullkomlega grein fyrir, og hér er mynd sem hefur unnið sína heimavinnu vel þegar kemur að ’80s-klisjum – og að ganga skrefinu lengra með þær.
Ástarsenan milli Will Forte og Kristen Wiig byrjar svosem sakleysislega en verður ruglaðri eftir því sem á líður, vægast sagt.

Sambærileg athöfn endurtekur sig síðan stuttu seinna með Mayu Rudolph… í kirkjugarði reyndar. Tæknilega séð eiga báðar senurnar heima á þessum lista.

 

Don’t Look Now

Ógleymanleg þessi. Sena sem er svo… ágeng og raunveruleg að sagt er að Warren Beatty, þáverandi maki Julie Christie, hafi trompast yfir henni og heimtað að hún yrði klippt út. Christie og Donald Sutherland eiga flottan samleik í allri myndinni en þessi sena hefur skapað mikið umtal í gegnum tíðina og hafa ýmsar sögur flogið um að parið hafi í rauninni ekki verið að leika þetta.
Blikk, blikk.

 

Team America: World Police (2004)

Margir hverjir hafa örugglega einhvern tímann tekið Barbie og Ken dúkkur og klesst þeim saman. Þetta er ekki ósvipað því, bara hundrað sinnum fyndnara.

 

Basic Instinct (1992)

Hér kemur krúnudjásnið á þessum lista. Það tók heila fimm daga að taka upp þessa einu senu, sem er ekki óskiljanlegt – þetta er ein af mikilvægustu senum myndarinnar, og þegar myndin á boðstólnum er erótískur þriller má svo sem sjá af hverju.

Basic Instinct frá Paul Verhoeven er enn í dag vel skrifuð og ánægjuleg mynd þar sem ágætar fléttur og spennandi framvinda vefjast saman. Hvorugt myndi þó skipta máli ef kemistrían hjá Michael Douglas og Sharon Stone væri ekki logandi – og hún er algjörlega til staðar í valdaleik þeirra í rúminu þegar lendur þeirra loga, nánast upp að því marki að það kviknar í skjánum. Senan segir líka ýmislegt um þeirra dýnamík og karakter og nær að vera bæði furðuleg og intensíf á sama tíma. Ekki er senan of löng heldur, þó bandaríska kvikmyndaeftirlitið hafi sagt annað á sínum tíma.

 

 

Dettur þér í hug einhver klassísk, brennheit eða hallærisleg sena?

Lát heyra!

Categories: actual blogg, Aukaefni, aww... | Leave a comment

Powered by WordPress.com.