actual blogg

Íslenska í Hollywood:„Farðu til andskotans!“ – „English, hálfviti“

Það er mikið sport að hlæja að því þegar erlendir leikarar spreyta sig á íslensku tungunni. Íslenskan er einmitt sögð vera eitt erfiðasta tungumál í heiminum fyrir utanaðkomandi fólk til að læra.

Í hinum ýmsum þáttum og kvikmyndum hafa leikarar oft valið „styttri“ leiðina og kallað það gott á meðan  fólk reynir einstaka sinnum að leggja meiri metnað í málið svo hið litla hlutfall Íslendinga í áhorfendahópnum reki ekki upp prakkaralegt glott.

En hvenær hefur íslenskan verið töluð í sögu poppkúltúrsins?
Rennum yfir skrautleg dæmi og gefum tilrauninni einkunn fyrir drengilega tilraun.

Allir í óvinaliðinu – D2: The Mighty Ducks (1994) „Farðu til andskotans!“

Íþrótta- og fjölskyldumyndin D2: The Mighty Ducks er löngu orðin sígild á Íslandi fyrir það eitt að bandarísku lítilmagnarnir gerast erkióvinir óhuggulegu Íslendinganna sem þeim mæta. Það ríkir mikil spenna út alla myndina á milli beggja liða og vantar að sjálfsögðu ekki fjandskapinn í fleygðum orðum. „Hverjir eru bestir?“ hrópar til dæmis íslenski þjálfarinn til að peppa lið sitt, en þjálfarinn ber heitið Wolf Stansson og sá er leikinn af danska leikaranum Carsten Norgaard. Hápunktinum er hins vegar náð þegar einn Íslendingurinn reynir að segja einum Kanadrengnum að hann muni komast að því hvað það þýðir að fara til andskotans. Hótunin er pínu ryðguð en fyrir sómasamlega tilraun gefum við henni einkunnina 6 af 10.

Jonah Hill – Maniac (2018) „En ég drap hann“

Leikarinn Jonah Hill talar ansi bjagaða íslensku í einum þáttanna Maniac, en þar kemur sérkennileg Íslandstenging fram. Atriðið sem sjá má hér fyrir ofan komst heldur betur í umræðuna hér á landi og hefur meira að segja leikstjóri þáttarins gefið upp að upphaflega hafi staðið til að talsetja Hill. Þess vegna hafi leikararnir nánast bullað línurnar sínar á íslensku, því ekki átti að notast við þær. Þegar þeir heyrðu síðan útkomuna þótti liggja beinast við að nota upprunalegu tökuna, en landsmönnum þykir hún alls ekki vera upp á marga fiska (4/10).

Eins og annar karakterinn segir best sjálfur: Þetta var slys.

jonah hill hefur greinilega lært að tala íslensku með því að hlusta á lið á skallanum í taxaröðinni eftir lokun í bænum pic.twitter.com/kbMVOVqfI5 — p☆lmi (@pa1mi) September 24, 2018

En talandi um fiska…

Jason Momoa – Justice League (2015) „Nokkuð viss um að hann láti mig hafa þá hvort sem er“

Stórmyndin Justice League var tekin upp hér á landi og í einni senu glittir í Ágústu Evu og ekki síður Ingvar E. Sigurðsson, sem leikur bæjarstjóra sem spjallar örlítið við sjálfan Leðurblökumanninn. Einnig bregður fyrir hinum eina sanna Jason Momoa, sem leikur Aquaman í myndinni, en sagt er að hann hafi lært örlitla íslensku hjá Ingvari og hleður Momoa í setninguna „Nokkuð viss um að hann láti mig hafa þá hvort sem er.“ Þetta segir hann þegar honum bjóðast 25 þúsund dalir fyrir að finna Aquaman. Hreimurinn er auðvitað bjagaður en við höfum heyrt miklu verra. Segjum 5/10.

Karl Urban og fleiri – Pathfinder (2007) „Þá talar þá eins og manneskju!“

Í kvikmyndinni Pathfinder er íslenskan allsráðandi hjá illkvittum víkingum sem gegna hlutverk skúrka myndarinnar. Leikarinn Clancy Brown er þar fremstur og fær að leika sér að nokkrum yndislega hallærislegum frösum sem varla er hægt að kalla ryðgaða, heldur nærri því óskiljanlega. Hinn góðkunni Karl Urban slæst síðan í för með íslenskumælandi villimönnunum og stendur hann sig satt að segja ekkert betur. Aftur á móti er töluvert skemmtanagildi að finna í myndinni og hvernig hún matreiðir þessa íslensku frasa, sérstaklega þegar líður á seinni hlutann. Tilraunin er góð, en var í alvörunni svona erfitt að læra fáeinar setningar? (5/10)

Tuppence Middleton – Sense8

Karakterinn Riley úr Sense8 sem Netflix gerði var íslensk. Tuppence Middleton, lék plötusnúðinn sem þurfti að flýja vandræðafortíð sína frá Íslandi þar sem hún hafði átt eiginmann og barn sem létust í bílslysi. Tuppence fær ákveðinn frípassa þar sem hún talar mestmegnis ensku en þó laumast íslenskan í gegn annað slagið. Hún Riley heimsótti föður sinn Gunnar hér á landi en komst þá að því að hún átti ekkert að koma aftur. Ekki er leiðinlegt heldur þegar tónlistarmaðurinn KK dúkkar upp í hlutverki föður hennar.

David Patrick Kelly – Twin Peaks „Tökum saman höndum“

Íslenskir viðskiptamenn slógu í gegn í þáttaröðinni Twin Peaks. Þeir héldu karakternum Cooper vakandi með því að syngja Öxar við ána og Frost á fróni í sjötta þætti, sauðdrukknir að sjálfsögðu. David Patrick Kelly, sem lék Jerry Horne, meira að segja prófar að tala íslensku og segir„Við erum öll íslendingar“. Skemmst er að segja frá því að söngurinn fær fullt hús stiga, en síðarnefndi frasinn haltrar ansi langt á eftir (4/10).

Homer Simpson/Dan Castellaneta – The Simpsons (2013) „Ég er með frábæra hugmynd“

Ísland er mikill örlagavaldur í lokaþætti 24. þáttaraðarinnar í The Simpsons. Þátturinn ber heitið The Saga of Carl Carlsson og kemur þar í ljós að samstarfsfélagi Homers á sér rætur að rekja til Íslands. Í lokaþættinum umrædda detta Carl, Lenny, Homer og bareigandinn Moe í lukkupottinn þegar þeir hreppa stóra vinninginn í happdrætti Springfield. Carl ákveður hins vegar að stinga af með allan peninginn til Íslands. Hinir þrír, með Homer í broddi fylkingar, ætla ekki að láta Carl komast upp með svikin og leggja af stað í norrænt ferðalag. Homer telur þetta vera frábæra hugmynd og það er erfitt fyrir okkur að vera ósammála þeirri fullyrðingu (7/10).

Samuel L. Jackson sendir Íslendingum kveðju (2016) „Heimili Fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn“

Í kynningarbroti fyrir ævintýramyndina Miss Peregrine’s Home for Peculiar Children var reynt eftir bestu getu að fá ofurtöffarann Samuel L. Jackson til að segja heiti myndarinnar á íslensku. Niðurstaðan, eins og sjá má að ofan, var ekki alveg áreynslulaus en ákaflega hressileg engu að síður. Þá er bara að deila um það hvort hann eða yngri mótleikarar hans hafi staðið sig betur eða hvort allir svífi í kringum meðallagið.

(??/10)

Týndi víkingaformálinn – Atlantis: The Lost Empire „Heigull!“

Disney-teiknimyndin Atlantis fór framhjá óvenju mörgum á sínum tíma, enda fjarri því að vera með vinsælli teiknimyndum samsteypunnar. Það má að vísu hafa gaman af því hvernig litla Ísland tengist stærri dulúð sögunnar um hina týndu Atlantisborg, en það sem ekki allir vita er að upphafssena myndarinnar átti alfarið að vera á íslensku. Þar sjáum við ýmsa víkinga í háska og gefur senan tóninn fyrir ævintýrið sem bíður áhorfenda. Eitthvað þótti senan þó ekki alveg falla í kramið og var hún skilin eftir á klippigólfinu. Þetta er mikil synd í ljósi þess að flutningur íslensku tungunnar er hreint gallalaus. (10/10)

Leifur Sigurðarson – Mortal Engines (2018) „English, hálfviti!“

Hera Hilmarsdóttir er ekki eini Íslendingurinn sem fær að spreyta sig í stórmyndinni Mortal Engines. Vissulega er hún í langstærsta hlutverkinu, en því má ekki gleyma að Leifur Sigurðarson fer með eftirminnilegt aukahlutverk þar sem hann lætur vel um sig fara. Þegar ein persóna myndarinnar útskýrir gangverk söguþráðarins og markmið hetjanna grípur þó Leifur fram í með dásamlegum frasa þar sem hann biður um sömu útskýringu á mannamáli.

Jay Hernandez – Hostel (2006) „Sneepur patrol“


Ófáir muna eflaust eftir graðhestinum honum Óla úr hrollvekjunni Hostel. Hann var hressilega leikinn af Eyþóri Guðjónssyni og fékk persónan aldeilis að leika sér með Íslandsrætur sínar. Þessar rætur náðu vel að smitast yfir á aðra karaktera myndarinnar og ekki síst þegar kom að því að kenna Könunum á hvað orðið „snípur“ þýðir. Leikarar eins og Jay Hernandez og Derek Richardson tóku Óla sér til fyrirmyndar í ýmsum efnum en ein furðulegasta arfleið hans í myndinni er að koma bolum í tísku sem voru merktir „Sneepur patrol.“

Jú, þetta telst með… en erfitt er að gefa heimamanninum annað en hæstu einkunn fyrir að koma tungunni í amerískan viðbjóð sem talaði til margra. Eitt af uppáhalds mómentum Íslendinga er trúlega þegar vel pirraður Óli gargar af fullum hálsi „Djöfulsins!“

Víkingar ganga berserksgang – Baywatch Nights „Grrrrrr“

Íslenskir víkingar vöknuðu eftirminnilega til lífs í þáttunum Baywatch Nights. Þýski höfðinginn David Hasselhoff kemst þar í krappan dans við villimenn úr fortíðinni sem þarf að sjálfsögðu að stöðva. Því miður eru víkingarnir alltof pirraðir til að koma úr sér almennilegum frösum, en segja má að þeir urri að minnsta kosti með miklum stæl.

Þetta kallar maður gott sjónvarp.

Brendan Fraser og Josh Hutcherson – Journey to the Center of the Earth

Ævintýramyndin sem heitir á okkar máli Leyndardómar Snæfellsjökuls býður áhorfendum upp á tvo þekkta leikara, þá Brendan Fraser og Josh Hutcherson, að reyna eftir bestu getu að bera fram íslensk heiti – til að mynda orðið Snæfellsjökull. Það hjálpar að hafa eina efnilega Anítu Briem á svæðinu til að leiðbeina þeim en þegar herrarnir skiptast á heitum verður vissulega til úr því mikil kómík – sem nánast ein og sér gerir myndina þess virði að smella í gang. Gefum mönnunum gjafmilda einkunn fyrir að prófa að minnsta kosti (6/10).

Ótalmargir – Vikings

Manst þú eftir fleiri dæmum um bjagaða (eða flekklausa) íslensku í poppkúltúr? Lát þá heyra að neðan.

Categories: actual blogg | Leave a comment

Blossi í oss – Týndi íslenski „költarinn“

Blossi 810551, pönkaða glæpagamanmyndin í leikstjórn Júlíusar Kemp, sýnir tvo unglinga í íslensku neyslu- og auglýsingasamfélagi, á flótta undan lífinu en í leit að skemmtun. Myndin varð tvítug á þarsíðasta ári og hefur átt farsælt líf sem íslenskur „költari“ á liðnum árum, þrátt fyrir að erfitt sé að nálgast eintak af henni með löglegum hætti. Eina leiðin til að nálgast myndina í þokkalegum gæðum virðist vera að reyna komast yfir VHS-spólu, vonandi óslitna.

Heitustu aðdáendur Blossa hafa lengi krafist þess að myndin fái í það minnsta dreifingu á skjáleigum. Að því gefnu var stofnuð Facebook-síða sem nefnist „Við krefjumst þess að stórverkið Blossi verði gefin út á stafrænu formi“. Íslenskir kvikmyndaáhugamenn vitna margir í myndina enn í dag og hefur stuðningshópur hennar vaxið töluvert á ári hverju.

„Ísland á morgun“ fyrir 20 árum

Mörgum þykir nokkuð einkennilegt að Blossi hafi verið framlag Íslands til Óskarsverðlauna árið 1998. Myndin hlaut sæmilega aðsókn við frumsýningu en blendnar viðtökur áhorfenda. Myndin var þónokkuð vinsæl á myndbandaleigum og var tónlistarplata hennar afar umtöluð á sínum tíma, enda var þar að finna flott safn af smellum sem slógu í gegn. Þá tóku nokkrar af vinsælustu sveitum þjóðarinnar þátt í að skapa tónlist myndarinnar en í þeim hópi var að finna Quarashi, Botnleðju, Maus, Bang Gang og Sykurmolana.

Myndin var gefin út árið 1997 en gerist tæknilega séð í framtíðinni. Að sögn aðstandenda er sögusviðið „Ísland á morgun“. Við leggjum í ferðalag með eirðarlausum borgarbörnum þegar leiðir hinnar undurfögru Stellu og fíkilsins Robba liggja saman. Þau enda í hringferð um landið á stolnum bíl og við taka ýmiss konar uppákomur og samræður um allt milli himins og jarðar, eins og fyrirbærið „déjà vu“, einkamál, hvert heimurinn stefnir eða hvað gerist við myndun naflakusks.

Fólkið á bakvið Blossa:

JÚLÍUS KEMP- leikstjóri

„Hugmyndin var að gera mynd um X-kynslóðina sem við erum sjálfir hluti af,“ segir Júlíus Kemp í samtali við DV. „Okkur fannst sú kynslóð vera stefnulaus og almennt áhugalaus um flest allt nema kannski sjálfa sig.“

Áður en Júlíus lagði í Blossa hafði hann slegið í gegn með kvikmyndinni Veggfóður, sem hátt í 45 þúsund Íslendingar sáu árið 1992. Júlíus er í dag annar eigenda framleiðslufyrirtækisins Kisa, sem farið hefur um víðan völl frá stofnun þess árið 1991 og framleitt kvikmyndir á borð við Veggfóður, 101 Reykjavík, Íslenska drauminn, Astrópíu og Vonarstræti.

Hvað Blossa varðar segir Júlíus í samtali við DV að verkefnið hafi byrjað hjá félaga hans, Lars Emil Árnasyni, og handriti sem hann hafði unnið að. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en leikstjórinn segist þó ekki hafa horft á myndina í áraraðir.

„Ég horfði á hana síðast á frumsýningunni 1997. Það er nú þannig að frumsýningin er oftast síðasta skiptið sem leikstjórar horfa á verkin sín, fyrir utan kannski eina og eina sýningu á kvikmyndahátíðum erlendis, enda hafði ég þá séð hana minnst fimmtíu sinnum fram að því,“ bætir hann við.

Seinasta kvikmynd í leikstjórn Júlíusar var hrollvekjan Reykjavík Whale Watching Massacre frá 2009.

PÁLL BANINE – Robbi

Páll Banine lauk námi úr myndlistadeild Listaháskólans og var lengi þekktur sem söngvari hafnfirsku hljómsveitarinnar Bubbleflies. Páll var þáttakandi á Art Basel árið 2012 á vegum gallerís í Brussel. Páll mætti sem sérstakur heiðursgestur þegar Bíó Paradís tók upp á því að halda nokkrar sýningar á myndinni vorið 2016, en þá var myndin sýnd af filmueintaki. Páll hefur verið starfandi myndlistarmaður síðustu árin en mest erlendis.

ÞÓRA DUNGAL – Stella

Í myndinni leikur Þóra hina ævintýragjörnu Stellu. Þóra hefur starfað sem söngkona, leikkona og fyrirsæta og vakti mikla athygli þegar hún sat fyrir í tímaritinu Playboy árið 1998. Þóra hefur haldið sig frá sviðsljósinu síðustu árin.

FINNUR JÓHANNSSON – Úlfur

Líkt og hjá skjáparinu markaði Blossi fyrsta kvikmyndahlutverk Finns Jóhannssonar, sem leikur bráðláta eiturlyfjasalann Úlf. Finnur hefur unnið sem framleiðslustjóri og rekið erlendu deildina hjá SagaFilm og starfar í dag hjá True North. Hann hefur komið að fjölmörgum stórmyndum sem voru kvikmyndaðar hér á landi, til dæmis Prometheus, Fast & Furious 8, Justice League og undanförnum þremur Star Wars-myndum.

LARS EMIL ÁRNASON – handrit

Sagan segir að tilurð Blossa megi rekja til þess tíma þegar Lars Emil var grunnskólakennari í unglingadeild. Neistinn kviknaði þegar hann fór að skoða amerískar staðalmyndir þar sem allt snýst um útlit, frasa og tilgerð. Höfundurinn sá ekki aðeins um handritið að Blossa, heldur líka leikmynd, búninga og grafík. Lars skrifaði seinast sjónvarpsmyndina Ó blessuð vertu sumarsól sem sýnd var um páskana á RÚV árið 2014. Hann er þessa dagana búsettur í Reykjavík, starfar við skrif og handritsráðgjöf og er nú að undirbúa nýja sjónvarpsseríu sem til stendur að hann leikstýri.

Frasar úr Blossa:

„Það sem við þurfum að gera er að finna aðra plánetu og halda partíinu gangandi…“

„Lífið er pitsa … með engu nema sósu.“

„Heimurinn er í þenslu og tíminn og allt stefnir fram á við. Þú veist líka að eftir nokkur þúsund ár, mun heimurinn dragast saman aftur. Þá stöndum við alveg í sömu sporum.“

„Robbi, ég þekki þig og þínar hundakúnstir.“

„Áfengi, dóp, þetta er allt sama stöffið, mar!“

„Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt … kjark til að breyta því, sem ég get breytt … og vit til að greina þar á milli.“

„Það er örugglega búið að stela bensínstanknum, því tankurinn lekur.“

„Eru glasabörn með nafla?“

„Got the boogie!!“

„Það er sama hvað pappír er stór, það er bara hægt að brjóta hann sjö sinnum saman.“

Blossamolar

Með aukahlutverk í myndinni fara Sigurjón Kjartansson sem ferskur göngumaður, Hafís Huld í hlutverki pönkara og Gísli Rúnar Jónsson sem hinn dularfulli Rúnki. Vilhjálmi Árnasyni bregður líka fyrir sem svonefndri Stálmús og Erlingur Gíslason leikur vafasaman sölumann sem verður á vegi parsins.

Útvarpsraddir: Jón Gnarr, Svali Kaldalóns, Gunnlaugur Helgason og fleiri.

Blossi var gefin út eftir að sjö stafa símanúmer voru tekin upp á Íslandi. Fyrst myndin gerist í framtíðinni ætti raunheiti myndarinnar þá að vera „Sblossi – 5810551“ þar sem númerið vísar í heimasíma.

Í myndinni sést ekki í fyrsta staf Shell stöðvarinnar sem Robbi fer á. Tilviljun?

Bragi Þór Hinriksson, leikstjóri Sveppamyndanna og Vítis í Vestmannaeyjum, vann sem ljósamaður á Blossa.

DV sagði um myndina á sínum tíma:

„Á margan hátt minnir Blossi dálítið á Börn náttúrunnar, sem lýsir sams konar ráðvilltu ferðalagi um auðnir Íslands, nema nú eru það ekki gamalmenni í leit að bernskunni, heldur ungmenni í leit að einhverju til að hafast að … góð viðbót í íslenska kvikmyndasögu og menningarumræðu almennt.“ – Úlfhildur Dagsdóttir

Mogginn var ekki alveg jafn hrifinn:

„Blossi er köld mynd. Hún líður hjá sem falleg ímynd en skilur ekki mikið eftir, ekki ósvipað og auglýsing. – Anna Sveinbjarnardóttir

Categories: actual blogg | Leave a comment

Pappírs Pési sniðgenginn af Óskarnum

Framlag Íslands í fyrra var dramatíska kómedían Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson en komst hún ekki áfram og var sniðgengin af akademíunni vestanhafs. Nú í ár verður reynt á ný með Hvítum, hvítum degi, sem undirritaður spáir að komist heldur ekki áfram (en meðlimir akademíunnar munu væntanlega komast afar nálægt því að velja hana þó)

Á hverju ári eru send framlög til þessarar nefndar en hefur íslensk kvikmyndagerð ekki fengið sess síðan árið 1991 með hinni margumtöluðu Börn náttúrunnar. Samkvæmt sögum vorum við nálægt því að komast í úrslit með Djúpinu hans Baltasars. Einn daginn mun Ísland komast aftur á radarinn en þangað til sá dagur rennur upp er þess virði að skoða fimm furðulegustu framlög sem okkar ágæta kvikmyndagerðarfólk hefur lagt út í gegnum árin.

Pési tættur (The Adventures of Paper Peter – 1990)

Það er fátt sem öskrar „Óskarsmynd“ meira en barnamynd um teiknaðan leikfélaga sem vaknar til lífs og veldur usla – eða hvað? Á milli hennar og kvikmyndarinnar Ryð, sem kom einnig út árið 1990, var um lítið annað að velja. Pappírs Pési ákvað engu að síður að vaða í Óskarshlaupið af fullu afli og vona það besta. Fígúran kætti ófá börn á sínum tíma og í gegnum árin á Íslandi en þótti víst ekki nógu efnilegur fyrir alþjóðamarkað. En Pappírs Pési má að sjálfsögðu ekki gefast upp og ef hann verður einhvern tímann endurgerður er gráupplagt að spýta í lófana og gefa honum annan séns. Hann Pési okkar á það skilið, því fátt rífur meira í hjartarætur Íslendingsins en þegar hann setur upp fýlusvipinn.

Blossinn sem dvínaði (Blossi/810551 – 1997)

Þessi „pönkaða“ unglingamynd úr smiðju Júlíusar Kemp féll svo sannarlega ekki í kramið hjá öllum þegar hún kom út árið 1997. Mörgum þótti hún heldur tilgerðarleg, ef ekki pínleg, þótt góð tónlist og hressir frasar hafi staðið upp úr. Blossi hefur þó öðlast ákveðinn status sem „költ“-mynd í gegnum árin og hafa ýmsir krafist þess að myndin komist í þá stafrænu útgáfu sem hún á skilið. En í ljósi þess að mynd eins og Trainspotting hafa varla fengið mikla ást frá akademíunni í denn, átti þá Blossi nokkurn séns frá upphafi?

Stikkfrí frá Óskarnum (Count Me Out – 1997)

Stikkfrí verður að segjast vera með betur heppnaðri fjölskyldumyndum Íslands. Myndin sló alveg í gegn í kvikmyndahúsum og á leigum og hefur reynst mikil nostalgía fyrir þá hópa sem voru á sambærilegum aldri og stúlkurnar í aðalhlutverkunum. Hins vegar hefur Óskarinn sýnt það fordæmi að fjölskyldumyndir þurfi að vera í bitastæðari kantinum og örlítið meira brautryðjandi til að eiga möguleika (sjá Pappírs Pésa). Myndin kom út sama ár og Blossi hérlendis en var send inn sem framlag næsta ár á eftir. Stikkfrí lifir svo sannarlega í þjóðarsál íslenskrar kvikmyndagerðar, en það ætti að hafa verið nokkuð ljóst frá upphafi að þar væri hún best geymd frekar en að koma henni víðar.

Stuðmenn í súginn? (Ahead of Time – 2004)

Seinni Stuðmannamyndin er enn þann dag í dag heldur umdeild, ekki síður þegar hún er borin saman við frummyndina sem sigraði hjörtu Íslendinga snemma á níunda áratugnum. Það þykir þó heldur undarlegt að senda kvikmynd út sem framlag til stærstu verðlaunahátíðar kvikmyndabransans þegar hún er morandi í einkahúmor og óteljandi tengingum við Með allt á hreinu. Akademían hefur væntanlega ekki þekkt mikið til upprunalegu myndarinnar né náð að dilla búknum yfir nýrri lögum Stuðmanna. Í takt við tímann hlaut varla umtal né viðlit í kringum Óskarstímabilið 2005. Sennilega skrifast valið á tiltölulega slappa samkeppni það ár og má deila um það hvort Í takt við tímann beri af við hliðina á titlum á borð við Dís, Blindsker, Opinberun Hannesar og Kaldaljós. Þetta er engu að síður upplagt tækifæri til að spyrja landann hvort sú manneskja sem til sem kann betur að meta seinni Stuðmannamyndina en þá fyrri. Hún má endilega stíga fram.

Skari skrípó sækir í Skara frænda (Reykjavík-Rotterdam – 2008)

Spennutryllirinn Reykjavík-Rotterdam var með vinsælustu myndum á Íslandi árið 2008. Myndin er samstarfsverkefni þeirra Baltasars Kormáks, Arnaldar Indriðasonar og Óskars Jónassonar (Skara skrípó). Það eru fáir sem ekki taka undir að tæknivinnsla hafi verið vönduð og keyrsla myndarinnar brött, en í samhengi hins stóra markaðar er þessi tryllir aðeins dropi í hafið. Þetta kom meira að segja í ljós þegar myndin var endurgerð fyrir bandarískan markað undir nafninu Contraband og gagnrýnendur sögðu söguna vera langsótta, gjarnan ófrumlega og dæmigerða. Óskarinn er kannski ekki alltaf samkvæmur sér sjálfum en það þarf að miða aðeins hærra en að „ásættanlegri spennumynd“ til að Skari frændi finni þig á radarnum.

Categories: actual blogg | Leave a comment

Powered by WordPress.com.