actual blogg

20 frábærar kynlífssenur í kvikmyndum

„Kynlíf er leiðinlegt ef þú ert ekki ekki þátttakandi í því“

Þetta sagði leikstjórinn Ridley Scott eitt skipti, aðspurður um hvers vegna ástarleikir hafi svona oft verið fjarverandi í hans kvikmyndum.

Sjálfur hefur Scott forðast það eftir bestu getu að skjóta slíkar senur því hann telur þær sjaldnast hafa einhverju við að bæta. Líklega er margt til í þessu. Það getur verið mjög erfitt að skapa kynlífssenu sem er meira en tilraun til að æsa áhorfendur og fylla í lengdina; kynlífssenu sem er spennandi, fáránleg, raunsæ, ýkt og fyrst og fremst þjónar tilgangi sögunnar með eftirminnilegum hætti.

Hins vegar gæti Scott varla neitað því að sumar senur kvikmyndasögunnar hafi skilið eitthvað fjörugt eftir sig, til að mynda einhverjar af þessum tuttugu sem hér verða taldar upp.

En eftir hverju bíðum við? Ríðum á vaðið:

 

Brokeback Mountain (2005)

Hvað gerir maður eftir erfiðan dag af kindasmölun þegar straumar svífa milli þín og samstarfsmannsins? Sérstaklega þegar kuldinn skellur á og einhverja leið þarf að finna til þess að halda á ykkur hita… og þegar kakóið er búið.

Góð sena allavega, í mynd sem óréttlátt er að kalla eitthvað annað en hreinræktaðan gimstein. Aðdáendur þessarar myndar kippa sér ekkert upp við það að hún er oft misskilin sem „bara einhver hommakúrekamynd“. Það er hún alls ekki. Heath Ledger heitinn og Jake Gyllenhaal eru í essinu sínu þarna.

 

A History of Violence (2006)

David Cronenberg er ekki alltaf maðurinn sem fer fínt í hlutina þegar kemur að ástarleikjum og í A History of Violence eru tvær senur þar sem Viggo Mortensen og Maria Bello fá aðeins að hamast á hvoru öðru. Fyrri senan er reyndar lágstemmd og krúttleg en sú eftirminnilegri er agressíft kynlíf þeirra í stigaganginum, sem best skal lýsa sem  „reiði-reið“. Það er margt ósagt í þessari senu sem kemur miklu til skila, en þó staðsetningin ku ekki vera sérlega hagnýt (og hversu vond fyrir bakið?) þá spyr lostinn ekki alltaf um stað né stund.

Þess má einnig geta að A History of Violence er fyrsta bandaríska kvikmyndin sem inniheldur stellinguna 69, samkvæmt yfirlestri leikstjórans á myndinni.

 

Showgirls (1995)

Það er ekkert hægt að segja um þessa senu sem skýrir sig ekki betur sjálf þegar þú sérð hana. Kannski var það allt hluti af gríni leikstjórans Paul Verhoeven að sýna Elizabeth Berkley og Kyle MacLachlan að busla eins og óðir bavíanar í einhverri súrustu kynlífssenu fyrr eða síðar. Tónlistin gefur að minnsta kosti til kynna að við eigum að taka þessa senu nokkuð alvarlega, en hvað sem á sér stað þarna í sundlauginni er ljóst að Kyle virðist á köflum vera eins áttavilltur á svipinn með ópin í Berkley og við sem erum að horfa.

Deadpool (2016)

Jólin, Valentínusardagur, Hrekkjavaka… Alþjóðlegi kvennadagurinn. Aðalparið í Deadpool lætur sér ekki leiðast á dögunum sem skipta máli.

 

Original Sin (2000)

Myndin er hrútleiðinleg en það gleður augun í smástund að sjá jafnheita tvennu og Angelinu Jolie og Antonio Banderas að rífa hvort annað úr tímabilsfatnaði sínum. Ástarsenurnar í myndinni eru jafnvel svo heitar að markaðssetningin á sínum tíma spurði hinnar merku spurningu: Eruð þið tilbúin fyrir Angelinu Jolie nakta?

 

Underworld: Rise of the Lycans

Þessa þekkja örugglega fáir, en útkoman er bjánaleg og stórfyndin á sama tíma, sem var trúlega ekki ætlunin. Ég veit svo sem ekki hver ætlunin var en að sjá Michael Sheen og Rhonu Mitru stunda slow-mo samfarir við klettabrún (á meðan hann lítur í smástund út fyrir að tapa sér úr hræðslu) er svo sannarlega efni í bækurnar. Þú finnur að minnsta kosti fátt minnisstæðara úr þessari mynd, það á hreinu.

 

Avatar (Special Edition útgáfan – 2010)

Kynlíf hjá geimverum er alltaf eitthvað sem er þess virði að skoða, en hér mætast halar aðalpersónanna í orðsins fyllstu merkingu. Útkoman er bæði stórkostlega skrýtin, jafnvel meinfyndin, en í senn falleg og uppfull af nánd.

 

Shoot Em Up

Shoot ‘Em Up er af sumum talin vera nokkrum númerum of yfirdrifin, öðrum þykir þetta ákaflega vanmetin hasarsteypa sem snýtir sér með lógík… ítrekað.

Þó hugtakið sé kannski að einhverju leyti frekar úrelt þá er Shoot ‘Em Up mikil „strákamynd“, í orðsins fyllstu merkingu, sem gengur út á það að toppa hverja vitleysu á eftir annarri. Einum hápunktinum er náð (í fleiri en einni merkingu) í senu þar sem hetjan okkar, Clive Owen, á lostafulla stund með Monicu Bellucci á meðan óþokkar ryðjast inn og reyna að skjóta allt í spað.
Owen neitar að sjálfsögðu að láta þetta stoppa sig, svo hann múltítaskar eins og fagmaður á meðan Monica stynur á fullu. Þau veltast um allt herbergið – og fólk getur meira eða minna ímyndað sér hvernig senan klárar sig af.

Munich (2005)

Hér kemur skilgreiningin á því að vera annars hugar í miðjum klíðum, ef ekki þá ein leið til þess að, eins og sagt er,„serða sársaukann burt“. En hér er rennandi sveittur Eric Bana að sýna sína allra bestu svipi – í slómó, í miðjum „klímax“ myndarinnar. Þetta skrifar sig sjálft.

 

Ghost (1990)

Þessi ljúfa sena fær með naumindum að teljast með, en hún er bara of klassísk til þess að ekki eiga erindi hingað. Jafnvel fólk sem aldrei hefur séð Ghost hlýtur að kannnast við þessa nautnalegu uppstillingu.
Leirkeragerð, sætar stjörnur og Righteous Brothers á fóninum.
Stundum þarf ekki meira.
Er ykkur ekki heitt?

 

Bound (1996)

Hin bráðskemmtilega og ástríðufulla glæpamynd Wachowski-systra (sem árið 1996 voru kallaðir „Wachowski-bræður“) vakti mikla lukku á sínum tíma og kom þeim á kortið. Gina Gershon og Jennifer Tilly kveikja í hvíta tjaldinu, skömmu eftir að persónurnar kynnast.

 

Boogie Nights (1997)

Fyrsti vinnudagurinn í nýju starfi getur oft verið erfiður eða valdið streitu. Í Boogie Nights mætir persónan Dirk Diggler (leikinn af ungum og efnilegum Mark Wahlberg) til starfa á tökustað klámmyndar. Á móti honum er hin bráðfallega Julianne Moore og eiga þau saman huggulega stund fyrir framan heilt tökulið. Þarna sjá líka samstarfsmenn Digglers hvaða hæfileika hann hefur fram að færa.

 

Crash (1996)

Cronenberg er einn prakkaralegur maður. Í þessari mynd er aldeilis enginn skortur á afbrigðilegum hegðunum, enda bíómynd sem gengur út á hóp fólks sem fær sérstakt kikk út úr bílslysum. Ef það er eitthvað sem á erindi inn á „Nú-hef-ég-séð-allt!“-listann þá er það atriði þar sem James Spader byrjar að stinga saman nefjum við Rosönnu Arquette. Skemmst er frá því að segja að hann rýtir guttanum sínum litla í opið sár á frúnni, sem hún öðlaðist eftir… hvað annað… bílslys.

Hún virðist samt ekki vera að hata það.

 

Crank/Crank 2 (2006/2009)

Hressing á almannafæri getur verið mikil áhætta, en það virðist ekki stoppa Jason Statham og Amy Smart í báðum Crank-myndunum. Fagnaðarlætin í viðstöddu fólki spila stóra rullu í þessari epík, bæði skiptin.

Black Swan (2010)

Umtöluð sena í umdeildri dramahrollvekju leikstjórans Darren Aronofsky. Natalie Portman fer með leiksigur ferils síns sem snaraði henni Óskarsstyttu í hlutverki metnaðarfullu en feimnu ballerínunar Ninu sem er á barmi geðþrots. Á miðri leið í leit sinni að hinni fullkomnu dansframmistöðu kynnist hún Lily, leikin af Milu Kunis. Þegar Nina byrjar aðeins að losa beisli sitt fer heilinn hennar á ýmsa staði, þar á meðal staði þar sem hitnar sérdeilis í kolunum hjá þessum fínu dömum.

 

MacGruber (2010)

Það er mikil hefð í ’80s spennumyndum að bjóða upp á eina sjóðheita og helst temmilega sveitta kynlífssenu áður en seinasti þriðjungurinn er kominn á fullt (sjá Highlander, The Lost Boys, Terminator o.fl.). Þetta er eitthvað sem paródíumyndin MacGruber gerir sér fullkomlega grein fyrir, og hér er mynd sem hefur unnið sína heimavinnu vel þegar kemur að ’80s-klisjum – og að ganga skrefinu lengra með þær.
Ástarsenan milli Will Forte og Kristen Wiig byrjar svosem sakleysislega en verður ruglaðri eftir því sem á líður, vægast sagt.

Sambærileg athöfn endurtekur sig síðan stuttu seinna með Mayu Rudolph… í kirkjugarði reyndar. Tæknilega séð eiga báðar senurnar heima á þessum lista.

 

Don’t Look Now

Ógleymanleg þessi. Sena sem er svo… ágeng og raunveruleg að sagt er að Warren Beatty, þáverandi maki Julie Christie, hafi trompast yfir henni og heimtað að hún yrði klippt út. Christie og Donald Sutherland eiga flottan samleik í allri myndinni en þessi sena hefur skapað mikið umtal í gegnum tíðina og hafa ýmsar sögur flogið um að parið hafi í rauninni ekki verið að leika þetta.
Blikk, blikk.

 

Team America: World Police (2004)

Margir hverjir hafa örugglega einhvern tímann tekið Barbie og Ken dúkkur og klesst þeim saman. Þetta er ekki ósvipað því, bara hundrað sinnum fyndnara.

 

Basic Instinct (1992)

Hér kemur krúnudjásnið á þessum lista. Það tók heila fimm daga að taka upp þessa einu senu, sem er ekki óskiljanlegt – þetta er ein af mikilvægustu senum myndarinnar, og þegar myndin á boðstólnum er erótískur þriller má svo sem sjá af hverju.

Basic Instinct frá Paul Verhoeven er enn í dag vel skrifuð og ánægjuleg mynd þar sem ágætar fléttur og spennandi framvinda vefjast saman. Hvorugt myndi þó skipta máli ef kemistrían hjá Michael Douglas og Sharon Stone væri ekki logandi – og hún er algjörlega til staðar í valdaleik þeirra í rúminu þegar lendur þeirra loga, nánast upp að því marki að það kviknar í skjánum. Senan segir líka ýmislegt um þeirra dýnamík og karakter og nær að vera bæði furðuleg og intensíf á sama tíma. Ekki er senan of löng heldur, þó bandaríska kvikmyndaeftirlitið hafi sagt annað á sínum tíma.

 

 

Dettur þér í hug einhver klassísk, brennheit eða hallærisleg sena?

Lát heyra!

Categories: actual blogg, Aukaefni, aww... | Leave a comment

Bestu (og verstu) myndir 2017

Gott ár í heildina. Fínasta ár fyrir stórmyndir, óvenjulega gott ár fyrir íslenskt efni í bæði sjónvarpi og bíói og áttu framhaldsmyndir afspyrnugott „rönn“ þetta árið. Sarpur afberandi smærri mynda hefur ekki ollið miklum vonbrigðum og streymiveitur gera enn hvað sem þær geta til að sannfæra okkur um að fara sjaldnar í kvikmyndahús, með prýðum.

Svona í alvöru samt… þetta var VIRKILEGA gott ár fyrir framhaldsmyndir, og margar hverjar leyfðu sér að taka sénsa og grandskoða dekkri skugga nostalgíunnar. En hins vegar var Beauty and the Beast endurgerðin ein aðsóknarmesta mynd ársins, svo pöpullinn er ekki alveg til í að horfa í nýjar áttir alveg strax. Eins og viðbrögðin við The Last Jedi sýndu einnig mörg fram á.

Rennum yfir örsnöggt yfir það góða og vonda.

 

20 BESTU MYNDIR ÁRSINS

20. Undir trénu
19. Disappearance
18. Jim and Andy: The Great Beyond
17. Dunkirk
16. Faces Places
15. Coco
14. Guardians of the Galaxy vol. 2
13. T2 Trainspotting
12. John Wick: Chapter 2
11. Hjartasteinn

10. The Killing of a Sacred Deer

Svört, skondin og grípandi út í gegn. Samsetningin jaðrar við smámunasemi á leveli meistara Kubricks, frá handriti til andrúmslofts. Geggjað stöff.

 

9. Raw

Frumleg, ljót en æðislega fyndin og prakkaraleg þroskasaga um erfiðleikana sem fylgja því að “fitta inn”. Þessi sat í mér.

 

8. The Shape of Water

Hugsa má um þetta sem brútal, leikna Disney mynd fyrir fullorðna. Sally Hawkins er dásamleg, kjarnaþráðurinn undarlega hugljúfur og allir aukaleikarar og hliðarpersónur skilja eitthvað eftir sig. Besta mynd Del Toro síðan Pan’s Labyrinth (þótt það segi raunverulega ekki mikið)

 

7. Baby Driver

Ólöglega skemmtileg og hnyttin afþreying sem lyftist á efra plan með tónlistinni og samsetningunni. Svakaleg orkusprauta þessi mynd og leikararnir eru allir hressir. Allir.

 

6. Logan

Algjör skepna, þessi mynd. Graníthörð að utan, með hlýja og mannlega sál innan á við. Sjálfstætt standandi karakterdrama í vestrastíl með ofurhetjukryddi, en meira gefandi ef þú hefur fylgt Hugh Jackman og X-Men seríunni. Heilagur andskoti hvað augu mín svitnuðu.

 

5. War for the Planet of the Apes

Hollywood mynd sem tekur sénsa og setur persónur og (skítþunglynda) narratífu í forgrunn fram yfir hasar og sjónarspil. Þetta er eymdarlegt prísundar- og stríðsdrama dulbúið sem blockbuster-mynd. Stórkostlegur endir á einn óvæntasta þríleik síðustu ára. Vel renderaðar persónur, gott drama, hörkuleikur frá Serkis og sjónræn frásögn af hæsta kalíberi.

 

4. mother!

Allt og eldhúsvaskurinn með. Þessi mynd er algjört pönk, en ég fíla hvað hún er rugluð og drukkandi í trylltri sýnimennsku. En allt með góðum punkti, og heljarinnar rússíbana gegnum tilfinningar og martraðir..

 

3. Blade Runner 2049

Framhald sem enginn bað um. Kemur svo í ljós eitt bitastæðasta sci-fi stykki okkar tíma. Og absolút flottasta mynd ársins. OG betri en originalin. Hvernig gerðist þetta??

 

2. Phantom Thread

phantom-thread-feature

Nýjasta mynd PTA er ekkert nema hrein dásemd. Róleg en samt stórskemmtileg. Uppfull af litlum lögum og grand, rugluðum tilfinningum. Grípandi og umræðuverð saga um eitraða ást, rútínur, málamiðlanir og skít-tonn af mæðraissjúum. Ekki allra, en fyrir mér næstum því gallalaus kvikmynd – og hreint æðislega fyndin í þokkabót. Án djóks.

 

1. Three Billboards outside Ebbing, Missouri

Snilldar handrit, æðislegur leikhópur og ófyrirsjáanleg framvinda sem skoðar nýja vinkla á hinu kunnuglega. Myndin snýr út úr formúlum og væntingum við hvert tækifæri án þess að fórna taumhaldinu á firnasterkri sögu. Drepfyndin, laumulega marglaga og grípandi mynd, sú besta frá leikstjóra sem hingað til hefur staðið vel fyrir sínu.

 

 

10 VERSTU

 

10. Split
Illa skrifað, aulalegt, tómt og þreytandi sálfræðiþrillersdrama eða hvað hún reynir að kalla sig. Tilgerðin hefur enn ekki yfirgefið Shyamalan. En lukkulega er þessi ekki jafn slæm og The Visit eða The Happening. Það er… plús.

9. The Snowman
Eitt magnaðasta klúður ársins; mynd sem er svo hryllilega samsett að það er næstum því stórskemmtilegt – og þar af leiðandi er tæpt að hún eigi einu sinni skilið að vera á þessum lista. En ullabjakksveisla er hún svo sannarlega.

8. Snjór og Salóme
Á þessu ári einu fengum við fínt íslenskt efni eins og Hjartastein, Fanga, Undir trénu, Reyni sterka og jafnvel Fjallkónga. 
En verra verður það ekki heldur en Snjór og Salóme, frá liðinu sem gelti út Webcam. S&S er ekki hörmuleg, því tilraunin ein sýnir krúttuð merki um einlægni, en úrvinnslan týnd, sjarmalaus á alla vegu og viðvaningsleg.

7. Geostorm
Heilalaus skemmtun, án skemmtunar – næstum því á pari við The Core.

6. The Bye Bye Man
Prump.

5. The Mummy
Og ég sem hélt að Krús gæti ómögulega orðið hallærislegri eftir tvær Jack Reacher tilraunir. Þessi fratmynd feilar í flest öllu. Dæmigerð, hugmyndalaus og pínleg. Hvíl í friði, Dark Universe.

4. Fifty Shades Darker
Þetta ætti að vera gott-vont, en er bara vont. Hvert ertu kominn, Danny Elfman??

3. Rings
Það næsta sem ég hef komið því að labba út allt árið. Mökkleiðinleg og svæfandi.
Af óskiljanlegum ástæðum tekst henni að láta hörmungina Ring Two líta vel út í samanburði.

2. Resident Evil: The Final Chapter
Draslendir á draslseríu.

Ókei, nr. 2 er reyndar ágæt.

1. The Emoji Movie

Þessi mynd er Satan.
Tær færibandsviðbjóður með blörruðum, ógeðfelldum boðskap og concept’i sem er eins og eitthvað sem Sausage Party myndi skíta út í kaldhæðni.
Meira að segja fimm ára dóttir mín fílaði hana ekki.

 

Til gamans:

Vonbrigði ársins

Ég man þig, It, Call Me By Your Name, Spider-Man: Homecoming, The Big Sick, Thor: Ragnarök, Valerian and the City of a Thousand Planets, Wonder Woman, Kingsman: The Golden Circle

 

5 vanmetnar

Atomic Blonde, Colossal, King Arthur: Legend of the Sword, Logan Lucky (svona miðað við… öh… aðsókn), T2

 

Bestu sándtrökk/score ársins:

Atomic Blonde, BABY DRIVER, Blade Runner 2049, Dunkirk, Good Time, Guardians of the Galaxy vol. 2, Phantom Thread, King Arthur: Legend of the Sword, T2 Trainspotting, War for the Planet of the Apes

 

 

Categories: actual blogg, Aukaefni, _ | 1 Comment

Senur ársins 2016

Oft getur það verið leiðingjarnt að lesa topplista eða flokka um hvaða millimetra-hársbreidd munar um í gæðum um hvers vegna bíómynd A er betri en bíómynd B. 
Það sagt, ef þú ert að leita að „uppáhalds“lista, þá er hann aðgengilegur hér. Hér ætlum við aðeins að leika okkur.

Hvað er það sem gerir senu góða og lætur hana standa upp úr? er það hvernig hugsað er um hana staka eða hvernig heildin verður svo mun betri við tilhugsunina? Yfir árið dettur mér þónokkuð margar í hug sem eru allt frá því að vera dramatískt fullnægjandi, eitrað svalar, súrar, fyndnar eða með öðrum hætti stefnubreytandi í myndunum sem þær tilheyra.

Ekki er nein sérstök uppröðun, listinn er gersamlega random. Þetta er meira svona blanda af „uppáhalds“ og því eftirminnilegasta heldur en eitthvað raðað eftir vissum gæðum, hvernig sem það gengi upp.

Ath. Það eru engir stórir spoilerar í neinu þessu.
Ég tek það sérstaklega fram í einstökum tilfellum en annars er þetta nokkuð öruggt ef þú hefur ekki séð margt hérna.

 

Býflugurnar – Popstar: Never Stop Never Stopping

Sem mikill Hot Rod (og eiginlega MacGruber-)aðdáandi fannst mér leitt hvernig nýjasta mynd Lonely Island gæjanna gat farið svona framhjá mörgum. Þetta er ein af fyndnari myndum 2016, allavega inniheldur hún nokkur fáránlega minnisstæð atriði. En allir sem sáu þessa mynd geta varla neitað styrkleika og absúrdleika býflugnasenunnar. Edgar Wright sagði m,a.s. á Twitter að þessi sena ætti skilið að fá allar Óskarstilnefningar.
Einfalt, en svooo… svo fyndið.

 

Kalkúnafyllingin – Don’t Breathe

Jebb, oj.

Sjitt!

 

Á veitingastaðnum – Hell or High Water

02diner-web2-superjumbo

Þessi er ruddalega góð frá byrjun til enda, en það helsta sem ég vil útnefna án þess að spoila geðveika lokasprettinn t.d. er atriði þar sem Jeff Bridges og félagi hans, bregða sér á veitingarstað í smábæ þar sem matseðillinn er eins grunnur, sérkennilegur og frústerandi og eigandi staðarins. Frábært atriði í mynd sem passar alltaf að fókusa á litlu hlutina.

 

Deadpool spoilar 127 Hours – Deadpool

main-qimg-fd523f776d82d967d76a5e758a3e276c-c

Stuttu eftir að ráðast á stálþursann Colossus – og skít tapa – kemur Deadpool með albestu bíótilvísun myndarinnar, og hermir eftir henni.

 

Seinasti kaflinn – Moonlight

 

Lokanúmerið – La La Land

Það er margt við La La Land sem er absolút kraftaverk; myndatakan sérstaklega, stálharða öryggið sem Damien Chazelle sýnir í leikstjórasætinu og koríógraff nokkurra dans(-og söngva)númera. Myndin byrjar með alveg hreint meiriháttar flottum brag; einna-töku söngatriði um miðja hraðbraut sem lyftir þér alveg upp. Hins vegar eru það lokamínúturnar sem eru hróssins virði og skapa mestu töfrana. Smá Singin‘ in the Rain í bland við Umbrellas of Cherbourg (sem hafði einnig sterkan endi). Umdeilanlega gæti La La Land verið ein ofmetnasta mynd síðari ára en allt sem hún gerir vel, gerir hún VIRKILEGA vel. Finale’inn er þrælflottur. Eftir aðeins tvær lotur er klárt að Chazelle kunni að enda sögurnar sínar með miklum stæl.

 

Sýran sullast – 10 Cloverfield Lane

Gott móment. Hjartað tók smá kipp. Gerðist alveg nokkrum sinnum á meðan myndinni stóð.

 

Fullt! – The Neon Demon

000c83db-800

Það eru ábyggilega 14 senur í viðbót úr þessari mynd sem ég gæti sett á þennan lista, en hálft fjörið er í uppgötvuninni þegar maður horfir á hana. Nóg er af truflandi gúmmelaði til að velja úr, gullfallega skotið eða innrammað af mergjaðri tónlist. Jena Malone á í sjálfu sér heilan sess á þessum lista fyrir að taka að sér krefjandi og bítandi hlutverk. Hún er brilljant, þó það sé ekki neinn sem kemur illa út. Þyrfti ég að pikka út eina senu væri það sú sem finnur helstu persónur myndarinnar eru staddar á listagjörnings(?)sýningu og gefa lykilstúlkunni Jesse (Elle Fanning) illt augnaráð á meðan litirnir flökkta og músíkin skrúfar fastar og fastar. Algjört listaverk, þetta stöff, þó sérstök varúð þurfi að fara til flogaveikra. En atriðið trekkir mann alveg upp fyrir martraðarkennda ruglið sem bíður.

 

Túr um undratösku – Fantastic Beasts and Where to Find Them

assassins-creed-film-header-1280jpg-685176_1280w

Þessi Harry Potter spinoff-saga var í heildina ekkert geysilega eftirminnileg eða snjöll þegar kom að plotti en Eddie Redmayne kom ótrúlega vel út sem hinn næstum-því-einhverfi en heillandi Newt Scamander. Newt á bágt með að tengjast fólki en finnur sig mikið í kringum sjaldgæfar og fjölbreyttar undraverur. Honum er bersýnilega annt um þær og geymir heilan dýragarð í litlu „TARDIS-legu“ töskunni sinni, og fyrsti túrinn í gegnum hana er með því magnaðasta sem sást í Hollywood-mynd frá árinu.

 

Gosling dettur – og dettur – The Nice Guys

Í hvert sinn sem Ryan Gosling hrapar einhverjar stórar hæðir í þessari mynd er það stórfyndið (eða kastar einhverju!), en þegar hans hlutverk í klæmaxinum er að mestmegnis hrasa og detta gegnum hluti hélt ég að ég yrði ekki eldri. Einfalt og gott, og þá í bíómynd sem inniheldur ábyggilega í kringum 30 gullmola.

 

 

Endirinn – The Witch

Hann gaf mér gæsahúð. Það er eina sem ég ætla að segja. Batt líka söguna fullkomlega saman. Anya Taylor-Joy er með’etta!

 

Pardusinn og dátarnir í göngunum – Captain America: Civil War

black-panther-chase-civil-war-cc_zpsajoypbbk

Lokabardaginn er lala, flugvallardjókveislan er skemmtileg en allra besta hasarsenan í hinni stórfínu Civil War þótti mér tvímælalaust vera sú sem sýnir Black Panther, Captain America og Bucky í brjáluðum eltingarleik. Engin sena í þessari mynd fannst mér hafa púlsinn og spennuna sem þessi hafði. Ekkert bersýnilegt green-screen eða brandaraorgía, bara gott adrenalín-kikk, flott klipping og mjög Bourne-legur hraði. Bara þessi sena var betri en öll Jason Bourne.

 

Flassbakk-bálið – Silence

 

Öll myndin (?) – Kubo and the Two Strings

kubotwo

Jesús hvað þessi mynd er flott, og falleg. En ef ég myndi þurfa að velja eitthvað eitt, fyrir utan origami-sögustundirnar, þá myndi það vera hasarsena þar sem aðstandendur notuðust við tveggja metra líkan af beinagrind sem hetjurnar berjast við. Über kúl.

 

Seinustu 10 mínúturnar – Sausage Party

capture7
Af því bara! Þetta er hilaríus og ruglað stöff. Mynd sem manni líður hálf skítugum eftir en djöfull er hún skemmtileg. Ég veit ekki hvort ég eigi að tilbiðja eða vorkenna teiknurunum sem eyddu miklum tíma í þessan snarklikkaða absúrdleika sem á sér stað hér á skjánum, og hvað fer hvert.

Gum í forsetann!

 

Sögustund/kennsla í „strætó“ – Swiss Army Man

swiss-army-man

Það er lítið um þessa senu án þess að kjafta frá öllu því sem gerir þessa mynd svo ófyrirsjáanlega og einstaka, en það er ein tiltekin sena þar sem Paul Dano brúðustýrir Daniel Radcliffe (leikandi prumpandi, múltítaska-lík) á meðan hann veitir ýmsar ráðleggingar um „hössl“-hæfileika… í „ímynduðum“ strætisvagni. Þetta hljómar eflaust eitthvað… dautt, á blaði allavega, en úrvinnslan á þessu atriði og töfrarnir sem þaðan koma fullkomlega súmma upp á stuttum tíma af hverju Swiss Army Man er ein af dýrmætustu perlum ársins. Vel súr en ó-svo falleg og næs.

 

Taugaáfall í beinni – Kollektivet

The Commune er tæknilega séð 2015 mynd, en hún inniheldur eina af mínum uppáhalds frammistöðum sem ég sá á þessu ári, og fyrir mér var hún einn af hápunktum RIFF (þó hún snerti ekki fyrri snilldarverk Vinterbergs). Tryne Dynholm er meiriháttar sem eiginkonu sem hægt og rólega tapar andliti þegar maður hennar er kominn í samband við aðra konu, en saman búa þau öll í þéttpakkaðri kommúnu. Dynholm leikur fréttaþulu sem nær ekki alveg að halda pókerfeisinu uppi á einum tímapunkti í beinni. Sterk sena, og leikkonan er bæði trúverðug og sympatísk í hlutverkinu. Atriðið með vandræðalega kvöldverðinum seinna meir er einnig gull.

 

Á vígvelli í fyrsta sinn – Hacksaw Ridge

Velkominn aftur Mel. Þú þarna, sjúki þú. Fáir eru eins góðir að matreiða gott obeldi, oftar en ekki með ágætis sögu á bakvið (nota bene, ég myndi næstum því kalla Apocalypto pjúra meistaraverk). Hacksaw Ridge er ekkert alltof frábær, sökum fyrri helmings sem nær ekki alveg að smella, en seinni helmingurinn – frá og með fyrstu orrustusenunni – er þar sem Gibson fær að sleppa sér og sýna hvers vegna hann passaði svona vel við þetta efni. Eiginlega of vel þegar kristnu yfirtónarnir taka yfir.

 

Upplýsingatrippið – Doctor Strange

doctor-strange-movie-multiverse

„What was in that tea?“

Tilda Swinton þykir mér frábær í þessari mynd og rödd hennar gæðir miklu lífi í allra trippuðustu senu í mynd sem er trúlega sú súrasta frá Marvel hingað til – þar sem ýmislegt er fengið lánað frá nokkrum M.C. Escher. Hérna útskýrir Swinton þessa mystísku veröld og dökku leyndarmál múltí-heimana í kolrugluðu sjónarspili. Benedict Cumberbatch kippist til og frá, með botnlausa litadýrð og epíska íkonógrafíu. Gott exposition, og „handa-martröðin“ var gott touch.

 

Erfiða takan – Hail, Caesar

hail-caesar

„Would that it’were so simple“

Þessi var erfiður. Það er fullt af æðislegum litlum senum í þessari mynd þó hún hangi ekki hnökralaust saman. Sú sterkasta hlýtur samt að vera þegar Ralph Fiennes, í hlutverki virts dramaleikstjóra, reynir að gefa algerum kanakúreka (yndislega leikinn af Alden Ehrenreich) séns í períódumynd sem er langt út fyrir hans þægindaramma. Flutningur kanans á einni tiltekinni línu gerir allt vitlaust.

 

Ídeal-vídeóið – Sing Street

Sing Street er dásamleg mynd, og ratar beint í hjartað með t.d. senu þar sem aðalkarakterinn, staddur á sviði, ímyndar sér hvernig „draumastemningin“ sín væri á meðan hann spilar með hljómsveit sinni leiftrandi lagið Drive it Like you Stole it.

 

Mark Darcy og gleðifréttirnar – Bridget Jones’s Baby

Colin Firth er eitthvað svo fjandi elskulegur sem stífa og lúðalega sjarmatröllið Darcy. Ef þú diggaðir þessa nýju Bridget Jones mynd – og fílar þann aula yfirhöfuð auðvitað – þá er margt skondið hér á boðstólnum. Farsinn heldur sér og grín á kostnað ítalskra stereótýpa er í undarlega miklu magni. Best var þó þegar Firth bregður sér út úr herberginu eftir að Bridget segir honum stóru fréttirnar með þungunina. Já, ég er greinilega einn af þeim sem faðmaði á móti þegar þessi mynd kom, enda mikill aðdáandi fyrstu.

 

Sætir draumar, töffarastælar og slow-mo – X-Men: Apocalypse

download

Quicksilver stal 100% senunni í Days of Future Past og hann gerir það eiginlega líka í þessari. Tæklunin á atriðinu fer auðvitað „stærra og meira!“ leiðina en ég á erfitt með að setja út á það þegar notkunin á Eyrythmics laginu Sweet Dreams kemur svona fantavel út í kringum björgun og eyðileggingu í súper-slómó. Evan Peters er hress og æðislega smögg, og ég gef Bryan Singer props fyrir að leyfa öllu laginu að spilast út frá byrjun til enda.

 

Persónulegt boð – Arrival

final-trailer-for-the-alien-invasion-film-arrival-with-amy-adams-and-jeremy-renner-social

Amy Adams átti magnað ár (fyrir utan BvS…) og hún er algjörlega það sem heldur Arrival gangandi, mynd sem er klædd glæsilegri umgjörð og borin uppi af áhugaverðum hugmyndum en hálfgölluðu handriti. Adams sýnir ýmsar marglaga tilfinningar og hittir á allar réttu nótur en besta mómentið í myndinni er þegar geimverurnar ákveða að sleppa öllu kjaftæði og bjóða Adams um borð í skipið í smá „tjatt“. Geimveruhönnunin er töff og öðruvísi, andrúmsloftið nær bullandi hæðum þarna og þarna kemur einhver kraftur sem myndin fannst mér aldrei fyllilega ná að toppa eftirá, þegar stóru hugmyndirnar og svörin kikka inn. En Adams á klárlega skilið fullt af styttum fyrir hennar performans.

 

Á leiðarenda/endir – Lion
Ég lofaði sjálfum mér að ég ætlaði ekki að tárast. Ég feilaði 70% á því.

 

Dömpum Asíu ofan á Bretland! – Independence Day: Resurgence

jeffgoldblumasdavidlevinsoninindependencedayresurgence-4960522730934889

Þessi mynd bjánaleg. Ofboðslega. En af hverju ekki fara alla leið með það? Niðurstaðan er óreiðukennt bull sem drepur heilasellur á óborganlegum hraða en hjálpi mér hvað ég hafði pínu gaman af henni. Það er eitthvað sem hittir í mark hjá mér þegar hálfri Asíu er sturtað yfir Bretland á meðan Jeff Goldblum bókstaflega pissar í sig úr hræðslu.

 

Svarthöfði gengur berserksgang – Rogue One

here-s-why-we-saw-a-vulnerable-vader-in-the-bacta-tank-in-rogue-one-a-star-wars-story-1283008

*Geislasverð kviknar*

Öll tilvist myndarinnar Rogue One gengur svolítið út á það að rúnka aðdáendum, með hliðarsögu í þessu tilfelli sem við vitum hvernig endar og bætir sárlega litlu við söguna eða heiminn. Stundum ofgerir hún nostalgíukitlið og ég skal játa að þeir gerðu annaðhvort of mikið við Svarthöfða eða of lítið. Handritið klúðrar því svolítið að innsigla nærveru hans og þáttöku í sögunni og kemur alls ekki á óvart að eitthvað hafi lent á klippigólfinu, eins og sýnishorn hafa sýnt. Fyrsta senan með Svarthöfða er reyndar döpur og hallærisleg. James Earl Jones er farinn að hljóma alltof gamall og það er mér grimm ráðgáta hvers vegna höfðinn fer í bað á hraunaplánetu.
En… !
Seinni senan, í lokin á myndinni, er fokkin geggjuð! Hún bætir ekki miklu við söguna per se – og allar seinustu fimm mínúturnar skemma svolítið continuity-ið í næsta kafla. Eitthvað er það samt svo fullnægjandi við það að minnast þess aftur að Svarthöfði var eitt sinn granítharður gæi áður en Hayden fékk grímuna hans. Þessi sena sýnir manninn skera og valta gegnum uppreisnarhermenn eins og náttúruafl. Grey uppreisnarmennirnir sem mættu honum í fremstu línu áttu aldrei séns, og það er dökkt og æðislegt að sjá Anakin farga þeim. Ég held hins vegar að ég hafi átt að halda með þeim mönnum.
Úpps.

 

Óttar Proppé – The Together Project/Sundáhrifin

Æ, bara.

 

Höndin út – Green Room

Ef þú sást myndina, þá veistu af hverju. Ef ekki, sjáðu þá myndina!

 

Mörturnar tvær – Batman v Superman: Dawn of Justice

146946

Spoiler…

Hiklaust ein allra, allra furðulegasta, hlægilegasta og asnalegasta handritsredding fyrir lausn á bardaga milli tveggja stærstu ofurhetja heims, breytir þeim í afskaplega truflaða, aumingjalega mömmustráka. Handritsgerðin var löngu búin að vera í tómu tjóni fram að atriðinu þar sem Batman og Superman slást, en þegar það hefst fara heimskulegheitin að þrepast upp á allt annað level (bardagastrategía þeirra beggja er rugluð; Batman gefst hálfpartinn upp á þeim tímapunkti sem Kryptonítið rennur af Superman eftir fyrstu tilraun og Supes heldur bara áfram að hjóla í hann þegar hann hefur margsinnis yfirhöndina til þess að stoppa og ræða við mótherjann…)
„Martha“-senan, þar sem ótrúleg tilviljun reddar öllu, breytir stórri, pósandi ofurhetjuepík úr þolanlegri steypu yfir í kómíska katastrófu. Skotið af gargandi, grenjandi Ben Affleck, með brotna grímu, og tapandi sér í flassbökkum, er fyrir mér bara undirstaðan á alltof fyndinni senu til þess að ekki setja á þennan lista. Hún er ógleymanleg.

 

Sabotage – Star Trek Beyond

Sumir þola ekki þetta atriði, aðallega elstu kynslóðar-Trekkarar (sem fæstir þola ekki ‘Nu-Trek’ið“ hvort sem er), en þarna diggaði ég í tætlur hvernig myndin nýtti sér sama Beastie Boys smell og kom fram í „fyrstu“ myndinni, enda tónlist þeirra í þessum heimi greinilega talin til klassískrar tónlistar. Stórskemmtileg mynd samt, betri Star Wars mynd heldur en seinustu tvær Star Wars myndir og um leið er meira óldskúl Trekk (og ekkert linsuglampa-æði) hér að finna en í Abrams-ræmunum – blessunarlega.

 

Donald Trump fær alnæmi – The Brothers Grimsby

Svona að mestu til er þetta alveg hreint svakalega misheppnað stykki hjá fagmanninum Cohen, en þessi tiltekna sena var ótrúlega vel metin. Man ekki eftir tilfelli þar sem einn salur klappaði svona mikið á einni sýningu í fyrra.

 

Átt þú einhverjar uppáhaldssenur?
Þætti sjúklega gaman að sjá dæmi frá öðrum.

Categories: actual blogg, Aukaefni | Leave a comment

Powered by WordPress.com.