Ævintýramynd

Aladdin (2019)

Foreldrar úr öllum áttum flykkjast með börnunum til að styrkja nýjasta framlag Disney þar sem gróft er spilað á nostalgíu áhorfenda í enn einni tilrauninni til þess að endurgera klassík og setja hana í nýjan búning. Pólitísks rétttrúnaðar er að sjálfsögðu gætt í aðlögunarferlinu en stærsta spurningin snýr eflaust að því hvort ferski prinsinn Will Smith nái að fanga rétta andann sem Robin Williams gerði svo ódauðlegan.

Bolurinn spyr:

Af hverju leikin Aladdín mynd?

Freistandi væri að svara „Af hverju ekki?“ En sennilega væri betra að velta fyrir sér hvers vegna þessi tiltekna Aladdín-mynd skuli vera svona stíft módeluð eftir hina víðfrægu teiknimynd frá 1992. Ástæðuna má að hluta til rekja til ársins 2017 þegar Beauty and the Beast sló í gegn með sambærilegri nálgun. Útkoman hitti misvel í mark hjá fólki en nostalgían flutti vöruna beinustu leið yfir rúman milljarð í Bandaríkjadölum á heimsvísu. Strax í kjölfarið fóru risarnir hjá Disney að henda af stað leiknum útgáfum af titlum sígilda sarpsins. Á þessu ári einu og sér eru þrjár ólíkar myndir gefnar út í þessum endurminningastíl; Dumbo, The Lion King og Aladdín.

Ekki er enn vitað hvort standi til að gera „leikna“ útgáfu af Pöddulíf, börnum til mikillar ánægju.

Á þessi nýja mynd eitthvað breik í þá gömlu?

Já og nei.

Ef þú lætur minningarnar um eldri myndina vera þá stendur samt eftir hin prýðilegasta ævintýramynd af gamla skólanum. Og með svona skemmtilegan efnivið á boðstólnum (þar sem lauslega eru samantíndar þrjár sögur úr 1001 nótt) er bókað að sjónarspilið njóti sín og tilheyrandi stemning.

Auk þess er ekki beinlínis slæmur hlutur að flestir leikararnir séu af réttu þjóðerni. En burtséð frá því þyrfti viðkomandi að glíma við einhvers konar hreyfihömlun eða króníska fýlu til þess að dilla sér við söngatriðin eða saklausa sjarma myndarinnar sem oft má líkja við afsláttar-Bollywood.

Hvernig eru leikararnir?
Misgóðir, en fínir almennt. Mena Massoud er ofboðslega traustur í titilhlutverkinu og þræðir þá línu að vera viðkunnanlegur, hetjulegur, heillandi og svalur í ræsisrottutöktunum til skiptis. Skærasta stjarna myndarinnar er trúlega Naomi Scott sem Jasmín, sem hefur fengið aðeins meiri dýpt í sögunni heldur en að vera týpíska Disney-prinsessan sem breytist annað hvort í mótiveringu fyrir hetjuna eða ambáttina hans Jafars. Scott er heillandi, góð söngkona og lítur betur út heldur en allt sem fæst úr pixladeildinni fyrir þennan mikla framleiðslupening.

En talandi um Jafar… Marwan Kenzari er ekki alveg að gera sig sem skúrkurinn frægi (hvar er rödd Arnars Jónssonar þegar maður þarf á henni að halda?). Hann er hvorki ógnandi né sérlega eftirminnilegur en fær þó aðeins meira kjöt á persónuprófílinn, sem var fjarverandi í fyrri útgáfu. Það er þó varla jákvætt þegar tölvugerður páfagaukur stelur frá þér öllum senum.

Hversu óþolandi er Will Smith?
Heyrðu, Will hefur ekki átt sjö dagana sæla í háa herrans tíð – en hver sem ákvað að hann gæti neglt hlutverk andans úr Aladdín á einhvers konar kauphækkun skilið. Hér er Smith kominn í gamla góða eiturhressa sjarmörinn sinn. Hann syngur ekki alltaf fullkomlega og þarf að glíma við „autotune“-veikina af og til, en húmorinn og nærveran hittir í mark… þó það sé óneitanlega ljótt að horfa á hann þegar hann er blár.

Ég elska „Friend Like Me“ – eru öll lögin úr teiknimyndinni í þessari?
Öll nema eitt. Auk þess fær Jasmín frumsamin lög til að ýta henni meira í sviðsljósið, en það er barasta besta mál.

Vissulega hefur teiknimyndin ALLTAF ákveðna forhönd á sköpunarstigi þegar hún frumsamdi lögin á sínum tíma, á meðan nýja kvikmyndin lekur kannski ekki af sama metnaði. En fjörug tónlist er fjörug tónlist.

Er myndin góð fyrir sex ára?
Hundrað prósent. Og 96 ára, svo lengi sem viðkomandi einkennist ekki af léttum kynþáttafordómum.

Ef ég fæ kjánahroll yfir stiklunni, ætti ég að halda mér frá myndinni?
Kynningarefnið gerir heildarsvip myndarinnar ekki alveg réttlæti. Jú, tölvubrellurnar eru forljótar sums staðar og það verður að segjast að „A Whole New World“ senan fræga er argasta stórslys í þessari útgáfu (vindvél og bluescreen hefur ekki aaaalveg sama effekt og teikningarnar). En fyrir utan það finnur myndin alveg sinn takt og tekur teiknimyndarótum sínum fagnandi. Sagan er einlæg á stöðum sem skipta máli og sviðsmyndirnar eru litríkar og áferðarmiklar.

Svertir þessi mynd upprunalegu myndina á einhvern hátt?
Endurgerð getur aldrei eyðilagt upprunalegu myndina, hvort sem hún er vond eða góð. Ef endurgerðin er slæm þá lítur gamla myndin alltaf betur út í samanburði, en ef hún virkar, þá hefurðu tvær útgáfur af sömu sögu í ágætisstandi. Hvað Aladdín varðar er þetta meira spurning um hvort þú sért í stuði fyrir yfirdrifna teiknimynd eða yfirdrifið búningapartí. Satt best að segja er þessi Aladdín mynd betri heldur en hún ætti einhvern rétt á því að vera.

Og í kaupbæti kemur hún frá Guy Ritchie, leikstjóra Snatch og Sherlock Holmes-myndanna. Það tryggir ekki endilega sterka vöru en fyrrverandi hennar Madonnu er sjaldnast þekktur fyrir að sofa í vinnunni sinni og kemur yfirleitt með einhverja dýnamík eða ryþma sem styrkir heildarflæðið.

Eitthvað fleira sem ég þarf að vita?
Já. Myndin gerir óspart grín að Svíum.

Niðurstaða: Sex ferskir prinsar af tíu.

Besta senan:
„Bollywood“ dansinn í veislunni.

Categories: Ævintýramynd, _ | Leave a comment

Godzilla: King of the Monsters

Stundum langar manni bara til þess að sjá gígantískar skepnur lemja allt vit úr hverri annarri – og þar af leiðandi áhorfendum líka. Á nákvæmlega þeim velli má með glöðu geði segja að þetta tiltekna Godzilla eintak sé massaskala veisla af háværustu gerðinni. Og það er dásamlegt sjónarspil sem býður upp á margt helling…

…þangað til að endalaust streymi af vanillufólki kemur og truflar sjóið, eða verra – flækist þarna endalaust fyrir.

Sambærilegt vandamál kom upp í fyrri Godzilla-myndinni frá Gareth Edwards. Skrímslahasarinn var stór og mikill en um leið og Bryan Cranston hvarf fór allur áhugi fólks á mennsku persónunum að dvína hratt. Heppilega er þessi mynd breiðari og trylltari á allan veg – með miklu fleiri skepnur, þannig að meira rými er fyrir Michael Dougherty (sem leikstýrði m.a. hrekkjavökuperlunni Trick r Treat) til að leika sér í sandkassanum.

Í 2014-myndinni var Edwards greinilega að sækjast eftir aðeins jarðbundnari túlkun, hvað stærðarlógík og ákveðinn dökkan realisma varðar. King of the Monsters (og þ.a.l. Dougherty) er aftur á móti meira en til í að vera skrípalega (nánast tölvuleikjalega) yfirdrifin og heilaheft þegar kemur að aðstæðum þar sem ekki fræðilegur séns væri á öðru en lífláti mannfólksins – þau flækjast bókstaflega inn í allar aðstæður, með drama sem er hvorki sérlega vel skrifað né áhugavert, og endalaust lendir höfuðið á þeim leik þar sem sig má spyrja: “Af. Hverju. Eru. Þau. Ekki. Löngu. Dauð!?”

Eða… Af hverju má ég ekki bara fá meira af mikilfenglegum skrímslaskotum og samskiptum?

Það er sitt og hvað af fínum leikurum hérna (og nærvera Ken Watanabe er alltaf stór plús) en ágreiningur lykilpersónanna er alltof bitlaus og fyrirsjáanlegur til að rífa í réttu strengina. Myndin hefur vissulega einhver skilaboð og lausar þematengingar í kringum þessa óvenjulegu fjölskyldu sem hún snýst um, en öll þeirra aðkoma kemur samt á tíðum út eins og uppfylling. Það hefði heldur ekki sakað að einblína þá líka meira á skelfinguna sem skrímslauslinn væri að skapa. Fyrst að myndin hefur svona mikinn áhuga á mannlega þættinum er víðan völl að dekka, en lendingin hjá Dougherty með sál myndarinnar er eitthvað döpur. Tilfinningakjarninn er eins og beint tekinn úr Roland Emmerich-mynd… frá þessari öld.

Afþreyingargildið heldur svosem sínu út í gegn og myndin verður MJÖG skemmtilega bombastísk þegar brellugrauturinn nær hámarki, músíkin og myndmálið í fíling líka. Án þess að þurfi með nokkru móti að minnast á það – þó það verði gert – að Godzilla er einfaldlega grjóthart kvikindi, punktur.

Ég er opinn fyrir því að sjá Kong reyna að eiga séns í þursinn.

Besta senan:
Sá stóri vaknar úr dvala – steraður í hel.

Categories: aww..., Ævintýramynd, _ | Leave a comment

X-Men: Dark Phoenix

Endalaust ætlar þessi blessaða X-sería að vera til vandræða, svona rétt þegar hlutirnir voru farnir að ganga svo fínt aftur – hvort sem maður telur þá Logan eða Deadpool með eða ekki.

Segja má auðvitað heilan helling um Bryan Singer, en það verður ekki tekið af honum að hann hafði oft visjúalt auga fyrir bíói og áhugaverðum senubyggingum af og til – sem hvort tveggja er fjandsamlega fjarverandi í X-Men: Dark Phoenix.

Myndin er leikstjórafrumraun Simon Kinberg, handritshöfundarins og framleiðandans sem hefur verið með lausa yfirsýn yfir X-heiminum í rúman áratug núna. Þetta er önnur tilraun hans til að koma aðlögun á Dark Phoenix sögunni frægu en skilar af sér einhverju sem bæði fetar oft í sambærileg spor og X-Men: The Last Stand – og low-fi og púðurslausu á sama tíma. Myndin er bombastísk í tón undir músík Hans Zimmer en Kinberg er alveg úti á þekju með að flytja tilfinningakraftinum af blaðinu. Hann er líka alveg týndur í samsetningu á öðru en einföldum díalogssenum.

Samtölin eru ekkert sérstök yfir heildina – og halla að verri tendans myndabálksins til að predika. Frásögnin er slitrótt, persónusköpun þunn (og sérstaklega bjánalegt hvernig unnið er úr Magneto í þessari lotu) og vantar alla sjónræna dýnamík í stílinn. Myndin hefur þá væntanlega ætlað sér að vera nær því að vera mínimalískari svanasöngur í anda Logan – en aldrei hefur það betur sést í seríunni hvað Logan var mikið kraftaverk; vel skrifuð, kröftug, skemmtileg, brútal – X-Men: Dark Phoenix er að vísu hressilega grimm á köflum en linnulaust lin, illa klippt og feilar alveg á tækifærinu til að leyfa frábæra cast’inu að skína til fulls.

Sophie Turner kemur því vel til skila hvernig Jean Grey tekst á við nýfundna krafta sína og hvað hún vill að úr sér verði. Síðan höfum við Jessicu Chastain og Jennifer Lawrence (sem er endanlega sofnuð í hlutverkinu núna) sem eru þarna að mestu til skrauts og útskýringa. Verst er þó auðvitað Alexandra Shipp sem Storm. Hún er þarna eingöngu til þess að pósa í nærmyndum á klukkutíma fresti og vera ekki of mikið fyrir.

Þau sem koma best út, að frátaldri Turner, eru Nicholas Hoult, Kodi Smit-McPhee og James McAvoy. Kinberg klúðrar því hins vegar hart á handritsleveli að gera breytingu og þróun Xavier að þungamiðju sögunnar. Sagan leggur meira upp úr því að snúast um hvernig hann getur fundið endurlausn á því að hafa eyðilagt og bælt niður Jean, í stað þess þá að gefa okkur meira af Jean. Aftur, eins sannfærandi og Turner getur verið í lykilsenum sínum, þá er persónan gerð að alltof þunnum pappír til að þemunin og krafturinn skili sér.

Það er grautfúlt að sjá X-seríuna (eða réttar sagt, þessa „kynslóð“ sem tilheyrir henni) ljúka sig af með svona aumu freti. Aðdáendur voru svosem í heildina ekki sáttir við Apocalypse (annað en ég á sínum tíma) en því er samt erfitt að neita að hún lokaði sínum hóp bara prýðilega. Ég skil ekki einu sinni hvers vegna leggja í annan “svanasöng” eftir jafn glæsilegan ópus og Logan. Núna eru þessir fínu leikarar – þar sérstaklega Fassbender, Lawrence og McAvoy – orðnir að bröndurum í sífellt endurteknu samspili (hlutskipti Magneto í sögunni eru með eindæmum frústrerandi og hvað hann tekur skjóta breytingu).

Jákvæðu elementin við þessa mynd tengjast að vísu bombastíkinni hjá Zimmer, vannýttu Turner-greyinu, Hoult, stökum ágætissenum og þessum hellaða klímax þar sem Kinberg breytir myndinni í Under Siege 2 án þess að nokkur hafi beðið um það. Og ef horft er á enn jákvæðari hliðar þá er þessi mynd alveg þremur bjórum skárri en X-Men Origins: Wolverine. En vissulega á rangri hillu fyrst að Brett Ratner myndin er skyndilega farin að líta betur út í samanburði við nýja svanasönginn.

Besta senan:
Dýrið grætur.

Categories: Ævintýramynd, Drama, Spennuþriller | Leave a comment

Powered by WordPress.com.