Ævintýramynd

Men in Black: International

Nú er ég alveg tilbúinn til að taka til baka allt það vonda sem ég hef sagt um Men in Black II og 3, þó svo að þær hafi verið báðar slappir og sterílir skuggar forvera síns (og ég skal meira segja leyfa því að slæda að önnur myndin ber rómverska tölu en hin ekki).

Jú jú, hin framhöldin höfðu í það minnsta EITTHVAÐ af steypusjarmanum, sköpunargleðinni og ruglinu sem gerði fyrstu myndina svo skarpa, pakkaða og skemmtilega. Will Smith var allavega gegnumgangandi í stuði, Tommy Lee Jones kann manna best að vera í fýlu og tókst Barry Sonnenfeld í það minnsta að djúsa vaxandi farsagangi þríleiksins einhverja orku.

Hvernig Men in Black International varð að veruleika mun ég seint skilja…

Og ef það er eitthvað sem Independence Day: Resurgence kenndi okkur, það er að þú skiptir ekki bara út góðum Will Smith sísvona…

En ókei, gefum okkur það að nýtt blóð, hressir og áreiðanlegir leikarar og kannski smá stefnubreyting hafi akkúrat verið það sem þetta brand þurfti á að halda, þá er þeim mun meira óskiljanlegt hvernig allir eru hálfsofandi í gegnum svona bitlaust og fúlt handrit sem dettur í sömu gryfju og hinar framhaldsmyndirnar; með því að í rauninni herma bara eftir fyrstu myndinni eina ferðina enn. Það er þó langt frá því að vera stærsti bömmer faktorinn við MIBI, hún er einfaldlega bara mökkleiðinleg.

Á eðlilegum degi er ekkert nema hressandi hluti að segja um Tessu Thompson og Chris Hemsworth, og þau reyna svo sannarlega allt sem hægt er að lífa upp á svona úldið, ófyndið og hugmyndalaust handrit. Hvorki þau né leikstjórinn eða handritið jafnvel nær að gefa kost á einhverri kemistríu á milli þeirra. Þetta er allt steindautt. Allt saman.

Framvindan kemst aldrei á nægilegt flug, hasarinn er illa klipptur og með engan púls og hverjum fínum leikara á eftir öðrum sóað í annaðhvort svæfandi exposition-skitu eða niðrandi brandara; hvort sem leikararnir heita Rafe Spall, Emma Thompson, Rebecca Ferguson eða Liam Neeson.

Nota bene, myndinni er leikstýrt af manni sem hefur notið þess áður að taka við keflinu af Barry Sonnenfeld. Hinn annars ágæti leikstjóri F. Gary Gray náði þó aldrei sömu hæðum þegar hann óð í framhaldið af Get Shorty, Be Cool. Svipað gerist hér og það eru óvenju lítil merki um einhvern sérstakan stimpil frá honum sem kvikmyndagerðarmanni. Að mestu til er hann bara að kópera stíl og tón Sonnenfelds beint (og meira að segja sömu upphafsfonta og stef) en virðist ekki alveg vera í þægindaramma sínum þegar kemur að kjánahasar og neinu of súrrealísku.

Eftir Fast & Furious 8 er Gray annars vegar nú orðinn vanur glansandi bílaauglýsingum og það er eina forljóta plögg-senu að finna í þessari, sem einhvern veginn best súmmerar upp hvað öll myndin er mikil söluvöruprumpfroða – Hin íðilfögru Chris Hemsworth og Tessa Thompson að pósa og selja svört jakkaföt og sólgleraugu á meðan þau stíga inn í glansandi Lexus-bíl (eftir að hafa bókstaflega svipt hulunni af honum) og keyra svo af stað til að sparka í rassa.

Svarið liggur þó svo skýrt í augum uppi: Ef viðkomandi vill sjá Hemsworth og Thompson vera bæði töff og eldhress, þá er Ragnarök allan dag að sigra þennan slag. Það er engin skömm í forvitnisglápi og en hafið varann á; Men in Black International sýgur ansi djúpt og kjánalega; söguþráðurinn er leiðinlegur, hasarinn er leiðinlegur, skúrkurinn er leiðinlegur og ég verð leiðinlegri því lengur sem við tölum um þessa mynd. Það er auðvelt að koma með brandara um að áhorfendur þurfi minnisþurrk að glápi loknu, en versti glæpur allra MIB mynda er að sjá til þess að framvindan hverfi úr minninu áður en hún klárast.

Getum við plís horft aftur á Thor: Ragnarök?

This image has an empty alt attribute; its file name is aviator-20sunglasses-20vector-2048.png

Categories: Ævintýramynd, nei takk, Spennumynd | Leave a comment

John Wick: Chapter 3 – Parabellum

Stundum má velta því fyrir sér hvort John Wick myndirnar séu eða verði afskrifaðar af mörgum í framtíðinni sem taumlaust ofbeldisklám (sem sérstaklega daðrar við innbyggt byssublæti). Að þær séu fátt meira en sundurteygðar afsakanir til að snillingar monti sig af koríógraffi, látum og typpakeppnum – og sé raunverulega engin saga eða þýðing á bakvið þetta allt.

Þarna kem ég inn, sem bæði skammarlaus Keanu-aðdáandi og klappstýra fyrir þessa seríu, og berst dyggðarlega fyrir því að segja að þessar myndir hafa næstum því skapað eigin sérflokk hvað meint ofbeldisklám varðar – þess vegna hef ég alltaf verið hrifinn af lýsingunni “ofbeldisballett”.

John Wick-myndirnar hafa fótað sig upp í það að vera ekkert annað en masterklassa-hasarveislur, þar sem saga og örk eitursvalrar hetju mótast í gegnum magnandi hasarinn þar sem hann bókstaflega lemur djöfla sína frá sér í leit að endurlausn, og sjálfum sér í raun. Það er eitt að segja sögu sem reglulega kallar fram eftir slagsmálum og eltingarleikjum, en að segja söguna með slagsmálunum, hnífakeppnunum, hestareiðunum og byssuhvellunum er snúinn galdur. Mad Max: Fury Road er til dæmis hið fullkomna dæmi um það hvernig hasarmynd leggur út framvindu og sýnir persónusköpunina mest megnis þögult og með gjörðum án þess að missa nokkur tök á adrenalíninu.

Ekki ósvipað má segja um John Wick: Chapter 3 – Parabellum; lengstu, hörðustu, ýktustu og trúlega fyndnustu mynd seríunnar hingað til. Fyrir utan snargeðveika bardagahönnun og stönt, sem veldur því að áhorfandinn finnur fyrir hverju höggi nánast og missi tennur, þá er Keanu einfaldlega bara fæddur í rullu stóíska, fámála bardagamannsins. Örk persónunnar er líka gegnumgangandi í þróun þar sem hverju sinni er skoðað hvernig maður hann vill vera – og hvað sé næst. En svo má bara ekki gleyma því hversu viðbjóðslega auðvelt er að halda með manninum, sérstaklega í heimi þar sem þriðji hver maður er leigumorðingi.

Parabellum fer af stað eins og raketta – og réttilega! Einn af mörgum hápunktum seinustu myndar var þessi ljúffengi “Ó, fokk!” endir og gegnir hann hlutverki fullkomins stökkpalls fyrir dramatíska klípu hjá titilhetjunni góðu. Þegar við sáum hann síðast hafði hann brotið reglur síns samfélags og fengið á sig 14 milljón dollara prís á sig, eða boð í opið hlaðborð hjá öllum til að reyna sitt besta á manninum, oft í bílflotum. John Wick var þó heppinn maður og frá upphafi þessarar myndar á hann enn tæpan klukkutíma til stefnu (mikið óskaplega breyttist birtan hratt frá endi síðustu myndar) áður en allt kaosið byrjar.

Hvert lofofð sem forverinn eða þessi mynd leggur út er efnt. Parabellum er á kafi í flottum bardögum, einvígum, skothríðum og almennri “ég-trúi-ekki-að-hann-drap-manneskju-með-þessum-hlut” maníu – á besta máta. Myndin heldur flæði og kætir stanslaust augað með stílíseringu úthugsaðra lita og klippingar sem aldrei flækist fyrir. Það ríkir líka svo mikið texture í þessum heimi, sem lífgar auðvitað enn meira upp þegar gúrme sarpur af aukaleikurum fylgir með, þar sem allir hafa einhverju bitastæðu við að bæta.

Bardagalistamaðurinn og B-hasarkóngurinn Mark Dacascos er til dæmis á algerum heimavelli hér og stelur þónokkrum senum með drepfyndnum karakter. Ég kemst heldur ekki yfir það hvað Anjelica Huston, Ian McShane, Halle Berry, Asia Kate Dillon og Lance (fokking) Reddick eru öll grjóthörð á sinn hátt.

En missmekkleg dráp, adrenalín og saltaður slagsmálafarsi er auðvitað ekki handa öllum og ömmum þeirra, en það er gefið að fólk á ekkert erindi til þessara mynda ef sú fyrsta hitti ekki í mark. Ég myndi sjálfur færa rök fyrir því að hverju framhaldi hefur hingað til rétt tekist að toppa þó sterkan undanfara og það fylgja því mörg bónusstig hvað þessi yfirdrifni launmorðingja(bíó)heimur er úthugsaður, vel víkkaður og barasta stórskemmtilegur. Það er líka endalaust hressandi hvað aðstandendur eru sífellt meðvitaðir um absúrdleika þessara mynda og nýta sér viðeigandi tækifæri til að gera grín að því.

Það helsta sem mætti saka myndina um væri að vera fimm til tíu mínútum of löng og kemur út eins og eitthvað af þeim tíma fari í persónur sem er mögulega að geyma til næsta kafla, eða hasarinn fer að jaðra við endurtekningar á lokametrunum. Trúlega er það viljandi gert, því undir lokin eru áhorfendur orðnir næstum því jafn úrvinda og þungt andandi og aðalpersónan. En Reeves er í banastuði eins og hann kann og er þol mannsins á sextugsaldrinum okkur öllum til skammar.

Væri kúl að enda þetta hér?

En vil ég sjá annan Wick?

ENGIN SPURNING.

Besta senan:
Bók. Hnífar. Hestur. Umsátrið. Allt.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Ævintýramynd, Dansmynd, Eitthvað annað, Gamanmynd, _ | Leave a comment

Pokémon: Detective Pikachu

Af hverju?

Ókei. $jálfsagt veit maður af hverju, en samt…

Hvað er það við Pokémon-æðið? Er það mýþólógían? Heimurinn? Hönnunin? Dýragrimmdin?

Og af hverju gat ekki Pikachu bara sagt “Pika Pika” alla myndina?

Af hverju Ryan Reynolds? Þetta er súper-truflandi. Jörðin er sammála.

Af hverju þurfti myndin að snúast mest í kringum ungt fólk sem kann ekki að leika? Eða gat að minnsta kosti ekki bjargað sér í gegnum súru tækifærið sem hér var bæði sóað og ekki tekið alla leið.

Þessi neo-noir nálgun er krúttleg, en aldrei gerir sagan neitt spennandi eða nýstárlegt við harðsoðnu spæjaraformúluna. Það nægir ekki bara að vinkillinn skuli vera sá að stór hluti fígúra eru Pokémon-skepnur. The Happytime Murders reyndi þetta í fyrra með glötuðum árangri. Hún tók fyrir úldna noir-formúlu, en gerði ekkert við hana annað en að salta klúrum brúðum út beinagrindina og reiða sig í raun á einn stóran brandara.

Ég efast heldur ekki um að flest allar af þessum árlegu teiknibíómyndum – sem enn þann dag í dag eru framleiddar af færibandi – séu allar hugmyndaríkari og villtari en nokkurn tímann þessi.

Engin Poké-mynd sem inniheldur Mew-Two að ganga berserksgang á að vera svona væmin!
Eða hvað?

Ég gef myndinni þó prik fyrir tvo fína brandara og það að koma Bill Nighy svona vel fyrir í þvælunni. Hann er milljón, sérstaklega þegar Pokémoni fer að tala í gegnum hann.

Annars vont. Poké-mongó.

Besta senan:
Yfirheyrslan var ansi góð. Skal játa það.

Categories: Ævintýramynd, nei takk | Leave a comment

Powered by WordPress.com.