Ævintýramynd

Alita: Battle Angel

Þessi mynd rokkar!

… næstum því.

Lof mér að umorða.

Alita: Battle Angel væri trúlega frábær sci-fi perla ef hana vantaði ekki endi…

Í kringum ágætan þriðjung er eins og óþolinmóður framleiðandi hafi tappað í úrið sitt og krafist þess að myndin ljúki þessu af sem fyrst. Framhaldið síðar… eða ekki.

Vissulega kemur “episódískur” strúktúr ekkert á óvart þegar upprunalegu myndasögurnar spanna hátt í níu stykki. Hins vegar er vanalega munur á “anti-climax” og skyndislúttun en hvort tveggja á við í þessu tilfelli. Sem er fúlt, því ég var að rúlla með þessum epíska en þó low-fi manga-cyberpönk rússíbana.

Alita: Battle Angel er útlitslega töff, stílhrein, ýkt með stolti og melódramatísk en lifandi teiknimynd á allan veg; skemmtileg, dýnamísk, persónudrifin og vel samsett. Allt frá því hvernig heimurinn er byggður til meirihluta hasarsins. Leikararnir standa einnig upp úr og blása lífi í mátulega áhugaverða eða litríka karaktera, en ofar öllu er það titilpersónan sem sigrar þetta allt saman og hittir í mark. Auk þess er aldrei nokkurn tímann ásættanlegt að standast Christoph Waltz þegar hann er svona viðkunnanlegur.

Handritið er vissulega tætt til fjandans, ofureinfaldað en þó sundurlaust sum staðar og endurtekur sig á furðulegan hátt á lokametrunum. En… myndin hefur mikla sál og fullkomlega fangar anime-væb uppruna síns með auknum bragðauka frá latino-kryddi Roberts Rodriguez og cyber-punk blætinu sem James Cameron hefur ekki sýnt síðan á Strange Days dögunum vanmetnu. Stílar þessara ólíku leikstjóra virðast ná saman hér með mikilli harmóníu.

Myndin kallar vissulega eftir framhaldi en stendur samt nokkurn veginn ein og sér og hefði gert það ENN BETUR ef hún hefði leyft sér að snyrta og lagfæra aftari hluta framvindunnar. Hasarinn og fílingurinn heldur og Alita sjálf er einstök í túlkun Rosu Salazar og hvaða brelluteymis sem stóð að hönnuninni á bak við karakterinn. Almennt séð lítur myndin prýðilega út (og sérstakt props til sviðsmynda), hún flæðir, gengur og er sérstaklega svöl í þrívídd.

Besta senan:
Griparmarnir.
Þetta er nú anime aðlögun!

Categories: Ævintýramynd, Sci-fi, Spennumynd, _ | Leave a comment

Incredibles 2

Að sinna foreldrahlutverkinu og fjölskyldulífinu vel, með öllum tilheyrandi hindrunum, getur stundum verið hetjudáðum líkast – eins og snillingurinn Edna Mode mælir. Þessi punktur er ein undirstaða þess hvað það er við Incredibles 2 sem virkar svo vel.

Ofar öllu eru báðar Incredibles myndirnar alveg hreint frábærar sögur af viðtengjanlegri (upp að vissu marki…) fjölskyldudýnamík þar sem bónusinn liggur í frábærum hasaratriðum, geggjaðri retró-framtíðarhönnun, yndislegum karakterum og meira marglaga og viðtengjanlegri þemu en sanngjarnt er að ætlast til af svona bíói.

Það er annars ekkert grín að fylgja eftir einni sterkustu Pixar-myndinni frá upphafi og hvað þá heilum fjórtán árum eftir útgáfu. Hins vegar tekst glæsilega til með Incredibles 2 að byggja ofan á frásögn fyrstu myndarinnar og víkka strigann.

Myndin er ærslafull og litrík en um leið fullorðinsleg og úthugsuð. Hún nýtur einnig góðs af því að vera uppfull af orku, húmor og mikilli sál. Það kemur fyrir að myndin svipi stundum til forvera síns á endurtekningarstigi, þó einnig megi líta á það sem skemmtilegar speglanir.

Hins vegar er stundum ljóst að leikstjórinn og handritshöfundurinn Brad Bird viti ekki alltaf hvað á að gera við undrabarnið Jack-Jack. Mætti jafnvel segja að söguþráður og aðkoma drengsins að honum skili ekki af sér miklu í almennri stefnu myndarinnar. Það breytir því samt ekki að Incredibles 2 er einn spikfeitur æðibiti og það meira. Ég myndi með glöðu geði horfa á aðra, en helst ekki þurfa þá að bíða í hálfan annan áratug eftir henni.

brill

Besta senan:
Flogaveikisbúrið.

Categories: Ævintýramynd, Teiknimynd | Leave a comment

Jurassic World: Fallen Kingdom

Framhaldsmyndirnar í seríunni um Júragarðinn eiga það allar sameiginlegt að hverfa langt í skugga þeirrar upprunalegu. Þar tókst glæsilega að tvinna saman poppkornsbíói við sögu af brjáluðum vísindamönnum að leika Guð. Í kjölfarið hafa aðstandendur verið svolítið týndir þegar kemur að þemum og skilaboðum framhaldsmyndanna og er Fallen Kingdom engin undantekning þar.

Það sést hins vegar strax frá upphafi myndar að sé aðeins meira kjöt á beinum heldur en í forveranum, Jurassic World, og er bersýnilega himinn og haf á milli leikstjórans J.A. Bayona og Colin Trevorrow. Bayona er a.m.k. kvikmyndagerðarmaður á meðan Trevorrow ætti að halda sig frekar við þjónustuver í síma. Á meðan síðasti Júraheimur var geldur og óspennandi er að minnsta kosti að finna haug af geggjuðum römmum og senum í Fallen Kingdom. Í sjálfu sér myndi ég kunna bara helvíti vel að meta þessa mynd ef hún hefði ekki neyðst til þess að erfa aðalpersónurnar úr síðustu mynd, og sérstaklega leyft sér að gera meira við Jeff Goldblum en að henda honum í uppsprengt gestahlutverk.

Persónusköpuninni er ábótavant en á móti sameinast hér tveir gerólíkir helmingar í fína afþreyingarmynd sem sýnir að manneskjan er yfirleitt skepnum verst. Fyrri hlutinn er brandaralega yfirdrifinn (en hey, eldfjall!) og svo þróast sagan hægt og rólega í minniháttar en eftirminnilega „barnahrollvekju“ sem gerist að mestu í einni höll. Þegar sá hluti byrjaði var áhugi minn kominn á annað level, enda finnur þessi Júramynd ýmislegt til þess að skera sig úr hjörðinni og finna nýja vinkla í stað þess að endugera annaðhvort The Lost World eða hina ógeðfelldu Jurassic World III.

Eitt annað sem dregur úr meðmælum eru líka skilaboðin/boðskapurinn, eins og áður kom að. Það er svolítið erfitt að gera mynd um misþyrmingu dýra og pjúra skrísmlamynd á sama tíma. Leikstjórinn mjólkar áherslurnar í báðar áttir og þegar að (furðulega hugrakka) endinum kemur er afstaða myndarinnar til risaeðlanna alveg úti á túni. En að því sögðu er þessi nýi „Indoraptor“ alveg hreint klikkaður!

Fallen Kingdom er með ólíkindum vitfirrt, en uppfull af flottum senum og prýðisfínum risaeðluhasar. Trúlega er þetta besta (og grimmasta) Júraframhaldið til þessa, þó það segi í raun og veru lítið.

 

Besta senan:
Ted Levine mætir nýjum félaga.

Categories: Ævintýramynd, Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.