Ævintýramynd

Solo: A Star Wars Story

Þegar ein Star Wars mynd er gefin út á ári er fjölbreytni vissulega lykilhráefni að langlífi myndabálksins. Þarna er einmitt tækifæri til að segja fleiri smærri sögur, skoða nýjar hliðar hugmyndafræðinnar og leika sér með persónur, gamlar sem nýjar. Aðeins er þó hvert innslag tilhlökkunarefni þegar gefin saga er skemmtileg og flytur vörumerkið fram, ekki afturábak.

En þrátt fyrir þá einföldu staðreynd að enginn getur bara stigið sísvona í fótspor Harrison Ford í annarri af tveimur rullum sem gerði hann að nördagoðsögn fyrir lífstíð, má ekki gleymast að Han Solo er ekkert meistaralega áhugaverð eða flókin persóna. Töffari að eðlisfari, jú, en best geymdur í svölum skömmtum til þess að hæðast að aðstæðum sínum og bræða bíótjaldið með hversdagslegum sjarma innan stærri fantasíugleðinnar.

Stærsta breyting persónunnar átti sér stað í upprunalegu Star Wars myndinni þar sem hann fór úr sjálfselskum geimloddara í hetju sem gerðist hluti af heild. Þegar lagt er í forsögu kappans er merkilega lítið hægt að vinna með og er í rauninni bara eina leið hægt að fara; að sýna hvernig Solo breyttist úr hálfgerðum ljúflingi í bitru en glöggu hetjuna sem við flest þekkjum.

Solo: A Star Wars Story er fyrsta myndin í myndabálknum fræga þar sem áherslan er hvorki á Veldið né geislasverð. Striginn er smærri og meira stílað á yfirbragð í líkingu við klassískan vestra, sérstaklega sniðnum til þess að haka í eins mörg nördahólf og hægt er með tilvísunum og tilheyrandi nostalgíu.

Einhvern veginn þarf Solo mynd að fylla upp í lengd á við kvikmynd, þannig að séð er til þess að það sé ekki lína sem hann hefur ekki sagt, pláneta eða atburður sem hann hefur upplifað sem þessi nýtir sér ekki tækifærið til þess að útskýra; Hvernig kynntist hann Chewbacca? Hvernig varð hann upphaflega að smyglara? Hver kramdi í honum hjartað? Hvernig fór hann að því að vinna Fálkann? Hver er tegund skipsins? Hvernig fór hinn frægi Kessell-flótti fram og hvernig í ósköpunum fékk Solo nafnið sitt?

Eins og margir vita var tilurð og gerjun þessarar myndar fjarri því að vera hispurslaus. Leikstjórateyminu Phil Lord og Chris Miller var falið það verkefni að stýra myndinni en lentu síðan í hörðum deilum við framleiðendur. Sögur segja að tvíeykið hafi aðeins bugast undan þrýstingi stóru framleiðslunnar; margt tafðist óspart og er talið um að dúóið vildi útfæra eitthvað meira í líkingu við Guardians of the Galaxy frekar en klassíska Stjörnustríðsbraginn. Þá voru mennirnir reknir og ofurframleiðandinn Ron Howard fenginn til að plástra því upp sem hægt var. Á endanum skaut Howard um 70% af myndinni upp á nýtt og var sýn fyrri leikstjóranna fleygt út um gluggann.

Í ljósi alls þess sem fer úrskeiðis á bakvið tjöldin er kraftaverki líkast að myndin skuli ekki vera bersýnilegt klúður, og í raun býsna hnitmiðuð, en á móti skelþunn, hugmyndasnauð og með arfaslakt flæði í sögubyggingu. Myndatakan og almenn palletta er annars vegar dökk og forljót og tónlistin yfirleitt kraftlaus nema þegar John Williams stefin nýtast annað slagið, þessi sem Star Wars-aðdáendur geta raulað í svefni. Þetta hins vegar rænir myndina frá því að bera sinn eigin svip.

Í titilhlutverkinu er hinn upprennandi Alden Ehrenreich skítsæmilegur en enginn stórsigurvegari. Hann þræðir línuna fínt á milli þess að koma með eftirhermu á Ford og sýna takta sem hann tileinkar sér alveg sjálfur. Verst er bara hvað karakterinn er flatur, hvað framvindan er líflaus og óspennandi eða hvernig kemistrían milli hans og Emiliu Clarke er á pari við frændsystkini að stinga saman nefjum.

Woody Harrelson hefur oft séð betri daga og Donald Glover gerir fátt annað en að apa eftir Billy Dee Williams, en óaðfinnanlega að vísu. Breska leikaranum Paul Bettany er sóað í hlutverki smáskúrks og vélmennið L3-37 er hreint óþolandi viðbót; skemmtileg fígúra á blaði því þarna er í fyrsta sinn rætt um þrælahald vélvera og ójafnrétti í þessum hluta geims en fígúran er framsett af sambærilegri sleggjunálgun og Jar Jar Binks hörmungin.

Segja má svo sannarlega ýmislegt um síðustu Star Wars-mynd, hina grimmt umdeildu The Last Jedi, en hún að minnsta kosti tók skref með heiminn, leyfði sér ýmsar áhættur og kynnti okkur fyrir einhverju nýju. Fram en ekki aftur, sjáið til. Að þeirri mynd utanskildri voru The Force Awakens og Rogue One óvenju blindaðar af veiki nostalgíunnar, en ekki jafn sterkt og Solo.

Star Wars snýst um melódrama, mikilfenglega geimbardaga, bjartsýni og fjör og möguleika í stórbrotnum bíóheimi. Hinn sami kvikmyndaheimur er bragðlaus og lítill í Solo. Þetta er meinlaus afþreying í sjálfu sér en bætir nákvæmlega engu við heiminn, þó reyndar sé opnað fyrir bráðþarfa umræðu um samræði milli vélmenna og mannfólks. Lengra nær það ekki.

 

Besta senan:
Fálkinn beilar.

Categories: Ævintýramynd | Leave a comment

Avengers: Infinity War

Ofurhetjur eru alls staðar, en af öllu því ógrynni sem til er af slíkum bíómyndum og myndabálkum hefur aldrei neinu tekist til í líkingu við það sem þursarnir hjá Marvel kvikmyndaverinu hafa náð að dæla út síðustu tíu árin. Margt smátt hefur orðið að mjög stóru frá því að þetta hófst sumarið 2008 með Iron Man og The Incredible Hulk og hefur nú þróast í risastóra seríu sem samanstendur af nítján (bráðum tuttugu plús…) myndum sem saman tengjast í einn þéttpakkaðan kvikmyndaheim.

Í stuttu máli má segja að Avengers: Infinity War marki eins konar endastöð heilla átján bíómynda, þó í rauninni megi fullyrða að hún gangi upp sem sjálfstæð saga í þeim skilningi að það getur hver sem er notið hennar án þess að vinna alla heimavinnuna. Hins vegar er heildin til þess sniðin að verðlauna (og refsa, í sumum tilfellum) hörðustu aðdáendum, sem ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum.

Aðstandendur Marvel-heimsins leyfa sér að taka nokkra sénsa og beita dekkri skuggum en nokkru sinni fyrr. Allan tímann ríkir samt orka og fjör og ríkir sjálfsöryggi aðstandenda fyrir efninu í metnaðinum. Þetta er mynd sem veit hvað hún er, handa hverjum hún er og gengur upp sem lifandi hasarblað í orðsins fyllstu merkingu. Myndin er dökk, dramatísk, epísk, óútreiknanleg og hressilega yfirdrifin frá byrjun til enda.

Frekar en að rekja söguþráðinn er betra að draga andann djúpt til að telja upp nöfn helstu hetja sem hér safnast saman í veisluna; Þór, Stark, Rogers, Banner, Romanoff, Doctor Strange, Spider-Man, Black Panther, Star-Lord ásamt sinni fjölskyldu. Þetta eru einungis þau sem hafa fengið að spreyta sig í eigin bíómynd eða nokkrum. Bætist svo við heill her smærri hetja, ástvina og illmenna.

Að halda svona mörgum boltum á lofti er ekkert grín, sérstaklega þegar geirinn hefur sýnt ýmis fordæmi um það að meira þýði ekki alltaf betra.

Má vera að erfitt sé að halda tölu á persónufjöldanum, en atburðarásin er sem betur fer sáraeinföld. Allar hetjur sem ein snúa bökum saman með sameiginlegt markmið í huga: að stöðva stóra, fjólubláa geimveru að nafni Thanos frá alheimsyfirráðum. Hver stórleikarinn á fætur öðrum keppist um skjátímann en samt virðast flestir fá sín móment til að skína og finna aðstandendur fínar leiðir til þess að þræða þessu öllu saman í hnitmiðaða heild.

Myndin er hundlöng en ekki leiðinleg í eina mínútu ef brellubíó, hressar fígúrur, óvæntir glaðningar og léttdramatískur heimsendafílingur er manni að skapi. Hnyttin orðaskipti persóna og uppákomur halda fjörinu gangandi og það meira. Víða verður deilt um það hver helsti senuþjófur myndarinnar er.

3e783d8f9e3039cb121e54d493bcb389cd57432e.jpg

Oft fær maður á tilfinninguna að ekkert hafi almennilegar afleiðingar í þessari seríu, en Infinity War umturnar því öllu, enda öll myndin ekki um neitt nema fórnir og afleiðingar, líkamlegar og andlegar. Illmennum þessara mynda hefur áður verið ábótavant og þunn (þó Michael B. Jordan hafi verið undantekning í Black Panther) en yfirvegaði, tragíski og manneskjulegi Thanos hittir alveg í mark. Við höfum oft séð týpuna hans áður í bíómyndum, en Thanos er marglaga og gerður að meiru en stöðluðum teiknimyndaskúrk.

Ef eitthvað þá mætti vera meira af Thanos sem undirstrikar bæði hvað það eru margir boltar á lofti í handritinu og líka hvað Brolin er sterkur og eftirminnilegur undir öllu stafræna gervinu sem á tíðum minnir á Bruce Willis í fjólubláu Homer Simpson-gervi.

Vissulega smellur ekki allt hispurlaust saman, enda of mikið um að vera til að einhver aðili hverfi ekki í bakgrunninn eða einhver dramatík lendi ekki alveg. Myndin gæti ruglað suma verulega sem koma kaldir að henni og eru þeir líklegri til þess að geispa yfir fjórtándu hasarsenunni eða fyrr á meðan allir sem hafa myndað sér einhverja tengingu við karakterana fá orkusprautu beint í æð með magnandi látunum. Heimsendir hefur venjulega þau áhrif að tóna niður húmor hinna kaldhæðnustu karaktera, en stundum gengur Infinity War fulllangt í brandaramagninu. En við öðru var aldrei að búast.

Infinity War gerir þó nákvæmlega það sem hún á að gera fyrir sinn hóp: skemmtir, sjokkerar og mögulega grætir einhverja. Hún er drekkhlaðin hasar og skemmtilegu samspili á milli ólíkra leikara. Hvert sem næsti kafli fer er ég mjög feginn að þessi standi eins og hún er, enda umdeilanlega sú sterkasta úr allri kanónunni síðan fyrsta Guardians kom út.

brill

 

Besta senan:
Seinustu 5 mínúturnar (fyrir kredits) + Gamoru-kommentið hjá Drax.

Categories: Ævintýramynd | Leave a comment

Ready Player One

Ready Player One gerist í dystópískri framtíð þar sem nánast takmarkalaus sýndarveruleiki er orðinn að stærstu fíkn mannkynsins. Í þessum dýnamíska flóttaheimi sem nefnist Oasis geta allir tapað sér í eigin sköpunargleði, lifað fantasíur sínar, litið út hvernig sem það vill og kjaftað út í hið óendanlega um „eitís“ bíómyndir.

Athyglisvert er að Steven Spielberg taki að sér poppkúltúrdrifna ævintýramynd þar sem rósarrauðum glampa er varpað á stóran og mótandi áratug fyrir vestræna dægurmenningu, sérstaklega þar sem Spielberg hafði sjálfur spilað gríðarlegan þátt í bandarískum poppkúltúr þá og hvernig hann mótaðist í bíógeiranum.

Af þessum ástæðum ætti Ready Player One að vera algjör negla fyrir leikstjórann, en það er eins og hann nái aldrei að átta sig á því hvað myndin á að vera; Hvort hún sé viðvörunarsaga um tengsl okkar við tæknina og flóttaleiðir í gegnum miðla (t.d. tölvuleiki, bíómyndir, tónlist o.s.frv.) eða stórt ástarbréf til nostalgíu, sköpunar, tækni og samveru.

Segja má að skiptar skoðanir séu á því hvort metsölubókin Ready Player One eftir Ernest Cline sé fyrirmyndar dæmi um póstmóderníska krufningu á „eitís” nostalgíu eða sjálfumglöð tilvísunartjara. Hvort það sé til hins betra eða verra er bíómyndin allavega mjög ólík uppruna sínum (þrátt fyrir að höfundurinn sjálfur eigi þátt í handritinu); hún er einfaldari og einlægari, þó kjarninn sé hinn sami. Aðdáendur bókarinnar skulu samt setja þann fyrirvara á að mikið sé búið að rótera í bókinni, sem geta verið stuðandi fréttir fyrir suma.

Við kynnumst allavega Wade Watts; feimnum, hversdagslegum dreng í raunheiminum (búsettur í skemmtilega hönnuðu fátækrahverfi sem kallast „Staflarnir“) en í Oasis-heiminum – þar sem stafrænu möguleikarnir eiga sér engin mörk – er hann sjálfsöruggur töffari undir nafninu Parzival sem ekur um á túrbóhlöðnum DeLorean, elskar John Hughes og klæddur sparifötunum frá Buckaroo Banzai.

Eins og mörg okkar, vonar Wade að það sé meira í líf hans spunnið, að eitthvað stærra bíði hans. Við þekkjum öll þessa sögu, en framvindan fylgir meira eða minna sögu þrautaleiks. Í Oasis-heiminum snýst allt um að finna þrjá falda hluti sem skapari leiksins skildi eftir fyrir andlát sitt. Hver sem finnur þessa hluti fær fullt yfirráð yfir heiminum og mun því baráttan um framtíð raunheimsins eiga sér stað í sýndarveruleika.

Það fylgir vissulega mynd sem einblínir svona mikið á „páskaeggjaleit” að hún er hlaðin alls konar páskaeggjum; tilvísunum, földum fígúrum og góðgætum. Hópasenurnar í Oasis-heiminum verða allavega lengi grandskoðaðar í framtíðinni af áhorfendum með aðstoð pásutakkans.

Einn hængur við Ready Player One er hvernig heildin spilast út þegar tilvísanirnar og tengingarnar við poppkúltúr raunheimsins eru strípaðar burt, því þá stendur óskaplega lítið eftir annað en klisjukennd og óvenjulega venjuleg þrautasaga, þó vel gerð sé.

Handritið virðist ekkert merkilegt hafa að segja um þau mótunaráhrif sem dægurmenning hefur á okkur, né hvað það raunverulega þýðir að vera háður heilum öðrum pixlaheimi eða hvernig við tengjumst fólki gegnum þá. Heimurinn utan Oasis er sömuleiðis ekki nægilega vel skoðaður og hefði betur mátt fara út í gangverk þessa samfélags sem er límt saman á sýndargleraugum.

Þrátt fyrir óvenju litlausa og grámyglulega litapallettu (sem gerir þrívíddinni enga greiða) er Ready Player One vel gerð fyrir allan peninginn, frá tæknibrellum til hljóðvinnslu. Spielberg hefur átt miklu betri daga, en jafnvel þó hann væri algjörlega á sjálfsstýringu væri hann betri en flestir leikstjórar sem sérhæfa sig í hasarbyggingu eða ævintýrum. Í fáeinum tilfellum í Ready Player One finnur maður fyrir gamla góða, væmna Spielberg og að hluta til þeim sama og færði okkur hina bráðskemmtilegu Tinnamynd fyrir fáeinum árum.

Spielberg gætir þess samt að týna sér aldrei í tilvísunarblætinu, enda sjálfsagt að poppkúltúr níunda áratugarins tali ekki eins sterkt til hans æskuminninga. Áhorfandinn finnur fyrir ákveðinni fjarlægð frá leikstjóranum, en það er að vísu ein undantekning þar sem hann sækir í gamla vin sinn Kubrick með nýstárlegu „bíómixi”, sem er í senn hugmyndaríkasti hluti myndarinnar. Fyrir utan það fáum við reyndar geggjaða kappaksturssenu sem er til þess gerð að kitla ákveðnar nördataugar, sem gerist ósjálfrátt þegar DeLorean-bíllinn, King Kong og grameðlan úr Jurassic Park sameinast í einn kafla.

Ty Sheridan er ágætur sem Wade og virðist fátt geta að því gert hvað aðalpersónan er tvívíð og óspennandi, en svo koma t.d. Ben Mendelsohn, Olivia Cooke og Mark Rylance og setja meira púður í þetta. Mendelsohn er skemmtilega púkalegur sem minnimáttar stereótýpa (fyrirtækjaharðstjóri sem er vondur vegna þess að hann vill bara græða og tengir sig hvorki við tónlist né bíómyndir), Cooke hefur sitt hlass af persónutöfrum og Rylance spilar rullu krúttboltans alla söguna, enda persóna hans með stærsta hjarta myndarinnar.

Ready Player One er varla mynd til þess að rakka niður fyrir holur í söguþræði, en að því sögðu eru sumar lausnirnar í handritinu klunnalegar, þar á meðal hvernig vissar persónur leysa þrautir.

Ástarsagan heldur líka ekki alveg vatni og þjáist heildin grátlega fyrir það hvað Cooke er miklu athyglisverðari persóna heldur en Sheridan. Það er athyglisverð ádeila undir yfirborðinu en Spielberg virðist eingöngu stefna að fjörugu léttmeti, eða ruslfæði með sterkum vonargljáa réttar sagt, að hætti gamla skólans.

Í versta falli höfum við hér Spielberg í meðalgóðum gír, í besta hið prýðilegasta poppkornsbíó sem ætti að brúa eitt eða tvö kynslóðabil á meðan því stendur. Svo er alltaf jákvætt þegar fylgir með aukin vitundarvakning fyrir klassíkinni Buckaroo Banzai hjá yngri hópunum. Það er fyrir öllu.

 

Besta senan:
„I had to watch it through my fingers“.

Categories: Ævintýramynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.