aww…

The Killing of a Sacred Deer

Í upphafsskoti myndarinnar The Killing of a Sacred Deer sjáum við opinn skrokk í miðri skurðaðgerð. Hjarta sem slær fyllir út í rammann og með þessu skoti er ekkert verið að spara sekúndurnar. Segja má að þetta marki viðeigandi upphaf og gefi réttan tón; sýnin er undarlega dáleiðandi en í senn óþægileg til lengdar, á sinn hátt kemur þetta miklu til skila varðandi stefnu og þemu sögunnar og sýnir valdið sem skurðlæknirinn hefur yfir því lífi sem hann er bókstaflega með í höndunum.

Colin Farrell leikur Steven, fjölskylduföður og skurðlækni sem í upphafi sögunnar virðist vera sáttur við lífið og með hlutina á hreinu.
Smám saman kemst til skila að eitthvað er ekki alveg með felldu og spretta upp spurningar um forvitnileg tengsl sem Steven hefur myndað við sextán ára pilt, hinn lokaða og uppáþrengjandi Martin (leikinn af Barry Keoghan). Eftir því sem áhorfandinn fær meira að vita um ásetning og vonir þessa drengs, fer persóna Stevens að skýrast ásamt því sem hann þarf að gera upp við sig, hvað sem það mun kosta hann eða aðra sem standa honum nærri.

Gríski leikstjórinn og handritshöfundurinn Yorgos Lanthimos (Dogtooth, The Lobster) fer ekki í felur með sérvisku sína frekar en fyrri daginn. Lanthimos er einkennilegur en mikill fagmaður; ögrandi, súr en frumlegur, eins og fyrri myndir hans hafa sýnt. The Killing of a Sacred Deer er ýkt saga þar sem glímt er við truflandi og manneskjuleg málefni, en á bak við þetta allt saman liggur sótsvört kómík, sem gerir heildina í rauninni ruglaðri og fyrir vikið bitastæðari. Rétt eins og í öðrum myndum leikstjórans er tilfinningalaus stemning allsráðandi. Andrúmsloftið er lágstemmt, á mörkum þess að vera svellkalt, og viðbrögð persóna eru merkilega dauf, en þetta mótar oft skemmtilega hliðstæðu við yfirdrifnari þætti sögunnar og styrkir þá.

Það tekur framvinduna sinn tíma að fletta af lögunum og kannski fulllangan tíma að koma sér að efninu, en á heildina litið er handritið vel skrifað og veit Lanthimos oftar en ekki hvenær best er að veita réttu svörin. Notkunin á útvöldum klassískum stefjum gefur líka tóninn fyrir rísandi óþægindin og að sama skapi er kvikmyndatakan sérlega eftirtektarverð að því leyti hvernig áhorfandinn lokast inni í veröld Stevens sem smátt og smátt skreppur saman. Myndavélin svífur í kringum hann eins og guðleg vera á stundum, sem er bara viðeigandi í samhengi sögunnar.

Myndin skartar meistaralegum leik frá öllum hliðum. Oft er sagt að því ódýrari sem bíómyndin er, því áreiðanlegri verði Colin Farrell. Í Hollywood-myndum tekst honum örsjaldan að skilja eitthvað eftir sig en í myndum eins og The Lobster og In Bruges er hann aftur á móti framúrskarandi. Í þessari er hann frábær sem hinn ræfilslegi en kyrrláti Steven og fetar glæsilega einstigið á milli þess að vera annars vegar viðkunnanlegur og týpískur en hins vegar ávallt með einhverja dekkri skugga sýnilega. Nicole Kidman vinnur einnig kyrrlátan leiksigur og Barry Keoghan er ógleymanlegur sem hinn ungi Martin.

Lanthimos leikur sér taumlaust að myndlíkingum og þemum, og fjallar myndin um eftirsjá, flótta undan ábyrgð og gjörðum og ekki síður hvað það er sem skapar fullkomið fjölskyldumynstur. Til gamans má geta þess að nóg er af tilvísunum í harmsögur Biblíunnar og grískrar goðafræði til að vekja umræður. Titillinn vísar einmitt í söguna af Agamemnon konungi, þegar hann drap fyrir slysni hjartar­dýr á heilögum velli og þurfti að gjalda fyrir það með blóðtolli. Satt að segja er ýmislegt sem þessi kvikmynd á sameiginlegt með nýjustu mynd Darrens Aron­ofsky, Mother! Lathimos fer aftur á móti aðeins fínlegar í hlutina heldur en Aronofsky gerði. Sérviska leikstjórans og þessi „tónabræðingur“ hans getur stundum leitt til hallærislegra kafla, en myndin gengur bæði upp í flestu sem hún sýnir og segir frá en sömuleiðis með því sem haldið er óljósu og óræðu.

Það finnst sjálfsagt ekki öllum skemmtilegt að horfa á myndir sem eru gerðar til þess að skapa ákveðin óþægindi, en The Killing of a Sacred Deer er markviss, beitt, úthugsuð saga sem kemur sífellt á óvart. Þetta er mynd sem mun fara öfugt í suma á meðan aðrir munu dást að lágstemmdri geðveiki hennar og mögulega glotta yfir henni í fáein skipti.

 

 

Besta senan:
„Hringekjan.“

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, aww..., Drama, Svört gamanmynd | Leave a comment

Dýrin í Hálsaskógi

Fyrir marga Íslendinga er erfitt að verða ekki fyrir vægu nostalgíukasti yfir Dýrunum í Hálsaskógi, hvort sem það snýr að minningum einhverra þeirra fjölmörgu sviðssýninga hérlendis í gegnum áratugina eða einfaldlega tilhugsuninni um piparkökulagið. Þessi káta skilaboðasaga norska leikskáldsins Thorbjörns Egner hefur notið svakalegra vinsælda hérlendis og hefur nánast hver lifandi kynslóð séð, lesið eða heyrt hana í einhverju formi.

Egner var auðvitað mikill siðapredikari en honum var ávallt annt um að flytja jákvæðan boðskap og lögin úr sögunum eru allflest enn í dag algjörir eyrnaormar. Þetta sést ekki bara best á Dýrunum í Hálsaskógi, heldur líka Kardemommubænum og Karíusi og Baktusi. Ef það er eitthvað sem hlýtur að hafa ómað oftar á heimilum barna þjóðarinnar heldur en raddir Ladda, þá eru það orðin „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“. Þetta eru krúttleg og þörf skilaboð í krúttlegri og saklausri sögu. Það er í rauninni ótrúlegt að aldrei hefur gengið að flytja hana upp á hvíta tjaldið fyrr en nú.

Það hefur verið heppilegra (og sjálfsagt kostnaðarminna) að í þessari bíóútfærslu, sem unnin er frá heimalandinu, skuli meira haldið sig við gamla skólann en t.d. tölvuteikningar. Dýrin og heimili þeirra lifna gjörsamlega við með litríkum og heillandi brúðumyndastíl, kenndum við svokallað „Stop-motion“. Útlit og samsetning eru almennt nokkuð glæsileg. Persónurnar gætu ekki poppað betur út þó þörf væri fyrir þrívíddargleraugu, þörf sem þessi mynd er blessunarlega laus við. Til gamans má geta að hönnun persónanna er byggð á handbrúðum sem Egner bjó til fyrir brúðusýningu fyrir u.þ.b. sextíu árum.

Útfærsla tónlistarinnar svíkur engan og á norski kvartettinn Katzen­jammer mikið hrós skilið fyrir að nálgast gömlu lögin með huggulegri virðingu og gefa þeim aðeins meiri aukakraft. Það er heldur ekki slegin feilnóta í íslenskri raddsetningu myndarinnar, þó að undirritaður sé mjög forvitinn að vita hvernig myndin spilast út á upprunalega málinu.

Persónurnar eru allar samkvæmar sjálfum sér og handritshöfundurinn Karsten Fullu hefur ákveðið að breyta ekki of miklu í framvindunni eða samtölunum. Við þekkjum öll orðið þessar helstu fígúrur. Lilli klifurmús er bjartsýnn og prakkaralegur en eitthvað svo óvenju elskulegur þrátt fyrir að vera latur og sjálfumglaður. Hann verður ekkert síður auðelskaður í túlkun Ævars Þórs Benediktssonar, en hann lék sjálfur hlutverkið á sviði frá 2012 til 2013. Orri Huginn Ágústsson smellpassar sem Mikki refur, Viktor Már nær mikilli sál í réttlætismúsina Martein og restin kemur fínt út.

Það sem myndin græðir þó mest á er hversu brött, björt og lífleg hún er. Heildarlengdin er ekki nema 70 mínútur og pakkar hverri mínútu í þann ramma og tryggir að börnin fari ekki að iða of mikið í sætum sínum – nema hugsanlega til að dansa, stappa eða dilla sér með tónlistinni.

Sagan er auðvitað beinskeytt og einföld. Byggingin er hress og skiptist heildarsagan sem áður í tvo hluta; sá fyrri leiðir allt að lagafrumvarpsgerðinni frægu þar sem lögð er fram tillaga um grænmetisát og vinsemd. Í þeim seinni sjáum við svo afrakstur samvinnu dýranna, reiða bændur og kæti í afmælisfagnaði. Það hefði trúlega mátt gera meira úr aðlöguninni, jafnvel bæta við fleiri persónum (eitthvað óskaplega er fátt um skepnur í þessum skógi alltaf) eða lauma inn meiri húmor fyrir eldra liðið.

Dýrin í Hálsaskógi sem saga hefur aldrei unnið sér inn neina punkta fyrir marglaga frásögn eða dýpt í persónusköpun, en sjarma sögunnar er ekki erfitt að finna og enn í dag er skiljanlegt að þessi saga eigi sér sess hjá svo mörgum. Ræturnar eru allavega virtar í bíóútgáfunni og haldið upp á þær. Brúðustíllinn innsiglar það líka að með kátínu í útfærslunni er alltaf gott fjör í Hálsaskóginum.

 


Besta senan:

Piparkökuklemman.
Auðvitað.

Categories: aww..., Söngva/dansmynd, Teiknimynd | Leave a comment

Sing Street

Segja má að Sing Street sé afbragðsdæmi um hvernig skal gera klisjukennda sögu ferska, enda mynd sem geislar af mikilli hlýju, bjartsýni og ást á tónlistarsköpun þannig að það verður erfitt að standast unglinga- og nostalgíutöfra hennar.

Sögusviðið er Dublin árið 1985. Conor Lawlor er fjórtán ára miðjubarn í fjölskyldu sem hefur séð sælli daga. Samband foreldranna hangir á bláþræði og fjárhagserfiðleikar eru allsráðandi. Sparnaðaráætlun þeirra neyðir Conor til þess að skipta um skóla. Aðlögunin verður ekki áreynslulaus, en sem betur fer eignast hann fljótt nýja og hæfileikaríka vini og ákveður að stofna hljómsveit til að ganga í augun á Raphinu, stúlku sem á sér drauma um að verða fyrirsæta.

Með metnaði, vænni kennslu frá stóra bróður og viljastyrknum fer bandið hans Conors af stað og lífið öðlast nýja orku. Conor finnur sköpunargleðina og vegna hennar gengur hann í gegnum ýmsar breytingar út söguna, ekki síst í klæðaburði, á meðan innblástur er dreginn frá Duran Duran, The Cure og fleirum. En að ná tökum á sjálfsörygginu til að elta ástina og sigra hjarta Raph­inu reynist ekki auðvelt verk. Sérstaklega þegar hann þarf að takast á við hindranir úr öllum áttum eins og hörð skólayfirvöld, hrotta og líka kærasta draumastúlkunnar.

Írski leikstjórinn John Carney (Once, Begin Again) snýr aftur á heimaslóðir sínar og trúlega til einhverra æskuminninga. Með Sing Street er Carney því staddur í þægindaramma sínum, enda hefur hann núna gert þrjár myndir sem allar eiga það sameiginlegt að vera ljúfar ástarsögur þar sem tjáning persóna fer fram í gegnum tónlist á einn hátt eða annan.

Carney fær ýmislegt lánað frá fyrri myndum sínum, þar á meðal beinar senur sem settar eru í nýjar umbúðir, með smá skvettu af unglingasögum Johns Hughes og slettu af The Commitments. Þessi blanda er vel sjarmerandi. Niðurstaðan er bráðskemmtileg og heillandi þroskasaga sem nær furðuvel að fanga hvernig tilfinningin er að vera ungur, vitlaus og brjálæðislega ástfanginn.

Þrátt fyrir að það sé talsverður „fantasíukeimur“ á sögunni og framvindu hennar er áferð myndarinnar og samspil leikara hversdagslegt og trúverðugt. Allir leikararnir með tölu standa sig frábærlega. Ungi tónlistarmaðurinn Ferdia Walsh-Peelo spreytir sig með leikarafrumraun sinni og er yndislegur í aðalhlutverkinu, bæði með það á hreinu að sýna óvænta töffarann og viðkunnanlega lúðann í drengnum. Raphina verður einnig marglaga og í senn dularfull í túlkun Lucy Boynton, með góðum samleik við Walsh-Peelo.

Jack Reynor er líka ákaflega eftirminnilegur sem Brendan, stóri bróðir Conors, sem segja má að gegni hlutverki raddar skynseminnar – eða áhættunnar. Brendan reynir sitt besta til að styðja og hvetja yngri bróður sinn á meðan hann glímir við eigin eftirsjá. Reynor stelur algjörlega þessari mynd.

Það eru litlir hnökrar hér og þar sem hindra frekari meðmæli. Án þess að segja frá of miklu heldur t.d. endirinn ekki alveg vatni. Hann er ljúfur á sinn hátt en það virkar eins og Carney hafi ekki hugsað endalokin út. Það sama á reyndar við um persónurnar. Það hefði líka verið skemmtilegra að kynnast hinum meðlimum hljómsveitarinnar örlítið betur.

En mikil umhyggja fyrir yfir efninu ríkir hjá leikstjóranum. Einlægnin skín öll í gegnum þessa mynd og hún er vel þess virði að faðma fast að sér.

Það sakar auðvitað ekki að tónlistin sem Conor og félagar skapa eða hlusta á er hress, skemmtileg og gefur myndinni góðan púls með „eitís“-tímabilinu sem Carney endurskapar hreint ágætlega. Auk þess er freistandi að henda laginu Drive it Like you Stole it í spilun að henni lokinni. Hvílíkur eyrnaormur sem þetta lag er.

 

Besta senan:
Ofannefnda lagið. Glæsilegt númer í myndinni þegar Conor dettur djúpt inn í eigin fantasíuheim.

(þessi dómur birtist upphaflega á Vísi, 22. júní)

Categories: aww..., Gamanmynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.