aww…

Inside Out

Pixar hefur ekki beinlínis verið upp á sitt hugmyndaríkasta síðustu árin, aðallega út af leikfangabílum, aukinni athygli á varningarsölu, nokkrum staffaskiptum og einni hlandvolgri prinsessumynd – en Inside Out snýr því strax við og sýnir að enn eru til töfrar í brandinu.

Svo yndislega heillandi, litrík og skemmtileg saga með miklum húmor og meiri hlýju ef eitthvað, svona allt þetta helsta sem maður býst við af betri Pixar-myndunum. Ekki veit ég hvort hún marki eitthvað nýtt gullaldartímabil fyrir merkið (Finding Dory og Cars 3 skjóta svolítið þær vonir niður…) en mér finnst það ekki lítið segja að hún sé með þeim hjartnæmari og ferskari frá upphafi þess. Græjar líka ákveðna plúsa fyrir að vera eina mynd stúdíósins sem hefur ekkert skýrt illmenni.

kimh

Það gerist sjaldan að maður flokki aðalmanneskju tiltekinnar sögu sem sjálft sögusviðið en ekki burðarhlutverkið og sýna þ.a.l. innri gangverk hugans. Grunnhugmyndin minnir lauslega á t.d. steik eins og Herman’s HeadOsmosis Jones jafnvel og eina vægast sagt ófjölskylduvæna Woody Allen-mynd (flettið henni upp!) þar sem Burt Reynolds sat við stjórn heilans og sá um… öh… „barnagerð“. Sumsé ekki frumlegasti efniviðurinn í Inside Out né klisjusnautt innihald en úrvinnslan meiriháttar. Þýðingarmikil, gullfalleg, skörp og vel skrifuð. Hún er líka meira fullorðinslega komplex í þemun, skilaboðum og órgandi sem duldum metafórum heldur en Pixar myndir hafa lengi verið.

Hún gerist mestöll í heilabúinu á 11 ára stelpu að nafni Riley, og hvernig persónugerðu tilfinningar hennar vinna saman eða stangast á og slást um „völdin“ á meðan stúlkan stendur á miklum tímamótum í lífinu. Gleði, Reiði, Sorg, Ótti og Ógleði eru lykilkarakterarnir – innan gæsalappa, en upp að þessum punkti hefur gleðin séð um yfirstjórnina hjá Riley.

inside-out-riley

Eins og gengur og gerist fyrir hvern sem er getur Riley ekki alltaf ráðið við sínar tilfinningar. Eitt liðir að öðru í plottinu og skyndilega „tapar“ hún gleðinni sinni – og reyndar sorginni líka – og fara höfuðstöðvar heilans í kerfi þegar aðeins ógleðin, óttinn og reiðin situr eftir. Þetta hljómar eins og virkilega dökkt, sækólógískt efni en í rauninni er þetta grunnur fyrir býsna venjulega en samt svo ljúft flippaða og krúttlega ferða-/félagasögu þar sem andstæðurnar tvær, gleði og sorg, þurfa að finna leið sína aftur heim að vinnusetrinu og ferðast gegnum ýmis abstrakt-svæði í undirmeðvitundinni.

Þetta er stundum svo súrt, svo fyndið og rífur á tíðum svo fast í hjartaræturnar að það er hreinlega ólöglegt, en við hverju býst maður svosem frá leikstjóranum sem gaf okkur m.a. Sulley/Boo sambandið í Monsters, Inc. og fyrstu 10 mínúturnar í Up? Sem betur fer er Pete Docter einn af fáu upprunalegu og bestu leikstjórunum hjá Pixar sem er ekki hlupinn í leikið efni, og er magnað hvernig hann – ásamt meðleikstjóra sínum –  sigrast áreynslulaust á áskorum svona krefjandi, undarlegrar frásagnar. Sést líka langar leiðir að þetta er hans persónulegasta mynd.

inside-out-image-joy-sadness

Gleði og sorg – sem eru gallalaust talsettar á ensku af hinni eiturhressu Amy Poehler og stórfyndna fýlupúkanum Phyllis Smith úr The Office – mynda náttúrulega einstakt og skondið dúó. Eðlilega skilur gleðin ekki sorgina og sér engan tilgang með henni en hluti af kjarnasögunni gengur út á það að finna það út hve mikilvæg hún getur verið stundum í lífinu.

Væmni virðist vera voða lítið vandamál hérna, og fann ég í staðinn bara fyrir vandaðri einlægni í sögu sem snýst yfirhöfuð um þroska, breytingar, hvatir og aðlaganir. Það myndast einnig gott samspil milli hinna tilfinninganna sem eftir sitja út myndina. Af öllum fannst mér reyndar minnst fókuserað á Ógleði (Mindy Kaling) en allir eru frábærir á sinn hátt og, eins og með hinar, er ekkert út á raddleikaranna að setja (Bill Hader og Lewis Black eru báðir brill).

Partur af sjarmahlassinu við Inside Out kemur frá tónsnillingnum Michael Giacchino (sem var tilnefndur til Óskars fyrir músíkina í Up) en líka hvernig hún talar ólíkt til mismunandi kynslóða. Foreldrarnir sjá þarna einfalda undirtóna og dýpri tengingar á meðan krakkarnir sjá allt annað aðgengi í orkunni og geta hiklaust notið ævintýralegu sköpunargleðinnar, þó eitthvað í líkingu við Minions sé trúlega betur geymd fyrir þá allra smæstu. Það er mikil tragedía í þessari mynd (takið t.d. eftir hvaða tilfinningar sitja í fremstu stjórn hjá foreldrunum og hvað kynhlutverkin eru hressilega stereótýpísk) en stöðugt flipp þarna líka. Þar fyrir utan lítur myndin auðvitað óaðfinnanlega út í pixlagerð, smáatriðum, hönnun og renderingu.

Ef þú leggur alla ógleði og Disney-fordóma til hliðar er með ólíkindum hvað Inside Out getur brætt þig mikið og glatt með sínum persónuleika. Sykruð? Klárlega. Fyrirsjáanleg, visst formúlubundin, einfölduð og allt það? Jebb. En ómótstæðileg í nánast alla staði? Engin spurning! Ég myndi alveg treysta á þetta teymi til að tækla framhaldssögu sem myndi díla við Riley á unglingsárum sínum. Möguleikarnir eru endalausir. En fyrst skulum við sjá hvað skeður með Incredibles 2, takk!

niu

Besta senan:
„Abstrakt“ klefinn, og meira.


lava-03PS.
Stuttmyndin Lava, sem sýnd var á undan, var DÁSAMLEG. Ekki hafði ég hugmynd um að hægt væri að gera gígantískt dúllulega ástarsögu milli tveggja eldfjalla – en Pixar gat einmitt það, enda stuttmyndirnar þeirra oftar en ekki í toppgæðum.

 

Categories: aww..., Ævintýramynd, Teiknimynd | 2 Comments

Austur

Hér er hún, fyrsta íslenska „bíómyndin“ sem kalla má pyntingarklám (fyrst ekkert annað kemur til greina), nema með óvæntu tvisti þar sem hún snýr sér að áhorfandanum og sér til þess að hann verði miskunnarlaust fyrir almestu pyntingunni. Þetta gerir hún ekki með ofbeldi, heldur hreinu, ógeðfelldu stefnuleysi og glataðri, bókstaflega fókuslausri úrvinnslu.

Það að Austur hafi tekist að skila sér í kvikmyndahús er dapurt merki um standard (lærði enginn neitt af Blóðhefnd?!) eða stórsigur fyrir stórt „ekkert“. Hún er mynd sem má mín vegna hverfa sem allra fyrst af yfirborði Klakans ef ekki væri hægt að nota hana sem sýnikennslu um hvernig þú átt ekki að fara að því að teygja svona stíft á ímynduðum lopa.

9457466_1280x720

Austur er lauslega innblásin af hinu svokallaða Stokkseyrarmáli þegar manni var rænt og honum pyntað í sumarbústað. Atburðarásin er nákvæmlega ekkert flóknari en einmitt sú setning, og þ.a.l. gerist ekki rass í allri myndinni. Gæja er rænt af einhliða „þöggum“, þeir keyra með hann út á land, og þegar áfangastaðnum er náð pína þeir hann ítrekað… úr ramma. Punktur!

Á góðum degi mætti rúlla upp þessu innihaldi í korters-langa stuttmynd, og illa gerða að auki. Myndin er drekkhlaðin löngum, díalóg-lausum uppfyllingum, sem samanstanda af öllu frá endalausum bílasenum eða skotum af Ólafi Darra að keðjureykja eða éta snakk. Það hefði verið hægt að spila aðeins með sækólógíuna og sambönd einstaklinganna á skjánum, en slíkt er bara aldrei til umræðu.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Engin spenna, engin skilaboð, ekkert sjokk, minni tilgangur. Fórnarlambinu fáum við aldrei að kynnast af viti, baksagan er öll týnd og gleymist alveg sjónarhorn þess eftir einhverjar tuttugu mínútur. Allar aðrar tilraunir til „persónusköpunnar“ eru vanhugsaðar og ódýrar. Sá eini sem er eitthvað líklegur til að sleppa úr þessu óskaddaður er auðvitað Ólafur Darri (nota bene, nýbúinn að deila skjánum með McConaughey, Harrelson, Stiller og Neeson!), bara því hann er sá eini þarna með einhverja reynslu og getu til að skila góðu úr engu.

870ae77d2c2310133b4fc937959c42d92b5bb4e6

Það hefði jafnvel verið sniðugt að gera karakter Ólafs einhvern veginn að þungamiðju sögunnar ef áhugi hefði verið fyrir öðru en bara að rétt skima yfir hans merkilega prófíl sem góðhjartaður (?) pedófíll.

Mikilvægt er að taka það fram að handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson skrifaði m.a. svellkalda saurinn Frost fyrir fáeinum árum, og eiga þær Austur (sem er leikstjórafrumraun hans) einmitt það sameiginlegt að geta ómögulega borið frásögn í fullri – eða svo mikið sem hálfri – lengd. Kannski vildi Jón Atli keyra myndina alla á sniglahægu tensjóni, myndrænni frásögn, hráum realisma og andrúmslofti, en öll svoleiðis mótíf skolast burt þegar annað hver rammi dettur úr fókus og hver sena á eftir annarri meira ósannfærandi.

Monday_night_football_-_sensory_deprivator_1

Hljóðvinnslan er í algeru rugli. Samræður bergmála oft, en þær missa hvort eð er missa flestar marks – eins sparsamlegar og þær eru. Menn rífa aðallega bara kjaft þegar þeir eru ekki að setja upp harðan svip, fikta í kveikjara og tala um allt sem þeir ætla að gera í stað þess að gefa okkur einhverja innsýn í hvað þeir eru að gera og hvernig áhrif það hefur eða hefur ekki á þá. Ef einhvern tímann verður litið yfir flóru íslenskra drasl-indímynda þá má aldrei sú sena gleymast þar sem manni er skipað fullum hálsi að skafa af happaþrennu, eða atriðið þar sem einn fanturinn lofar dóttur sinni að fara með hana í Smáralindina.

Þegar fréttist út að hópur fólks hafið gengið út úr miðri aðstandenda- og fjölmiðlasýningu greip leikstjórinn víst til þeirra orða að sumir áhorfendur höfðu einfaldlega bara ekki magann í þetta undirheimainnlit sem hann kvikmyndaði (kjaftæði…), enda virðist myndin bera „Stranglega bönnuð innan 16 ára“ merki sitt eins og heiðursstimpil og spáir ekkert í vörusvikunum.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Merkilega lítið er um ofbeldi í Austur (mest bara fáeinar blóðslettur), alveg eins og það er lítið sem líkist súbstans almennt. Förðunin sleppur svosem en þetta er allt bara þurr, þreytandi æfing í stíl og afbragðs áskorun fyrir þolinmæði hvers og eins.

Persónulega hef ég ekki hugmynd um hverjum þessi mynd er ætluð, en mér leiddist svo mikið yfir henni að hugur minn hvarf á staði sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í heilabúinu; dökka, furðulega staði sem komu hvergi umfjöllunarefni myndarinnar við né áhrifum þess. Aðeins tvisvar sinnum á ævi minni hef ég gengið út af bíói og Austur freistaði mín svo, svo mikið. Ég hefði átt að beila og vita betur, en á endanum gat ég bara ekki leyft þessum viðbjóði að sigra mig.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

 

Einn Bósi Ljósár af tíu…

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, (mynd sem varla er hægt að flokka), aww..., ekkert, Grín, Sori | Leave a comment

Fifty Shades of Grey

Fifty Shades of Grey-myndin var frá upphafsstigi í þeirri sjaldgæfu aðstöðu að geta orðið betri en bókin sem hún er byggð á, sökum þess hvað ritstíllinn einn og sér var nógu vandræðalega vondur og gelgjulegur, svo eitthvað sé nefnt.

Það þurfti varla meira til að krydda þetta aðeins upp fyrir tjaldið en að fá ásættanlega leikara í rullurnar og hæfileikaríka leikstýru eins og Sam Taylor-Johnson (sjá hina þrusugóðu Nowhere Boy). En þá kemur spurningin: sættir markhópurinn sig við hálfgelda aðlögun svo úr henni verður þá ,,betri“, snyrtilegri bíóútfærsla eða sækir hann bara í svipuhögg og sveitt smáatriði í sem mestu magni?

hr_Fifty_Shades_of_Grey_11

Kosturinn annars fyrir leikstjórnina hjá Taylor-Johnson er að hún tekur bæði efnið mátulega alvarlega og reynir að fá allt sem hún getur út úr skjáparinu sínu. Að auki fær maður tilfinninguna fyrir því að hún leyfi sér að grínast með hallærisleikann líka. Vandinn er bara sá að maður þekkir ekki alltaf muninn.

Þegar sagan svokallaða er strípuð niður af því sem er stærsti sölupunktur (og ,,merkilegheit“) bókarinnar verður það bara enn meira áberandi hvað innihaldið er loftkennt og sneisafullt af frústrerandi endurtekningum, og það er mikið sagt þegar ekkert af því hefur með lostaleikinn að gera. Síðan koma asnalegir yfirtónar og enn vafasamari undirtónar.

Sannfærandi og lúmskt heillandi er upprennandi leikkonan Dakota Johnson (Dóttir Dons, og Melanie Griffith, barnabarn Tippi Hedren) í hlutverkinu sem er bæði meira krefjandi og býður upp á meiri útgeislun og fjölbreytni. Hvorugri persónunni er annars vegar viðbjargandi á pappír.

Jamie Dornan hefur sennilega útlitið en er voða einnóta og í ströggli við sinn eigin hreim í sjálfumgleðinni sem Hr. Grey, hinni abstrakt samsuðu af Patrick Bateman og Edward Cullen. Svo tapar hann hálfum trúverðugleikanum um leið og greddufrasar hans verða ósjálfrátt að bröndurum, og lítið skárri er það þegar hann „opnar“ sig. Dornan og Johnson kveikja svo sem ekkert í bíótjaldinu, hvernig sem það hefði getað gerst, en þau smella alveg.

635593523588983314-AP-Fifty-Shades-Opposition

Engin furða er að klámið sé kjarninn þegar söguþráðurinn gengur ekki út á annað en þjáða, kalda, moldríka, og pervertíska heimtufrekju sem reynir allt sem hægt er til að sannfæra sakleysislegu hreina meyjuna um að fá að binda hana niður, flengja og fíla það í tætlur. Þar að auki vill hann eigna sér hana eftir bestu getu og stjórna henni á fleiri stöðum en þar sem öryggisorð eru ekki í boði. Er það annars normalt að 21 árs gamlar, háskólamenntaðar stelpur viti sama og ekkert hvað BDSM er?

Samanlagðar eru einhverjar 15 mínútur af kynlífssenum í tveggja tíma mynd. Smekklega skotið og gert allt, augljóslega líflegra en flest öll samskipti parsins utan rúmsins, og einn hápunkturinn fylgir undarlega flottri notkun á nýja Crazy in Love mixinu hjá Beyoncé – en ,,sexí“ er alls ekki fyrsta (annað eða þriðja…) orðið sem kemur upp í hugann. Leikstýran tók samt rétta ákvörðun með að fjölga ekki meira í þessu en hún gerði, höfundinum víst til mikillar óánægju. Ég get þó sagt að það sem sjokkeraði mig persónulega mest við Fifty Shades of Grey var þegar ég sá Danny Elfman kreditaðan fyrir tónlistarstefið…

sex-scene-fifty-shades-of-grey

Nóg er um nekt og léttbláar nærmyndir (sorrý stelpur, litli Grey sést að mestu falinn), en ekki neitt sem skarar mikið lengra fram úr því sem flestir HBO-framleiddir þættir hafa komist upp með. Trúlega mun pásu- og Fast Forward-takkinn gagnast vissum hópum þegar myndin verður gefin út á vídeó.

Fifty Shades of Grey er hvorki tælandi né skemmtilega ,,kinkí“, hvað þá athyglisverð sem eins konar brengluð rómantík eða skilaboðasaga um dómineringu eða reip-fantasíur. Endirinn er líka svo linur (segjum „anti-klæmax“) að maður getur ekki annað yppt öxlum þegar lokatextinn byrjar. Tilhugsunin um að til séu tvær aðrar bækur er trúlega mesta pyntingin, en Johnson á alveg sitt hrós skilið.

fjarki
Besta senan:
„Viðskiptafundurinn.“

Categories: "She went there" mynd, aww..., Drama, Eitthvað annað | 1 Comment

Powered by WordPress.com.