Dansmynd

The Road

The Road er ótvíræður sigurvegari ef þetta er spurning um að finna þunglyndustu kvikmynd ársins 2009. Ekki nóg með það að myndin sé á skjaldbökuhraða og grafalvarleg allan tímann heldur er lítill sem enginn söguþráður til staðar og er því ekki mikið til staðar til að dreifa athygli áhorfandans frá þessu ofurþunga andrúmslofti. En það er líka tilgangurinn hvort eð er. Þessi eftirheimsendamynd fjallar um mannkynið í sínu svartasta og leitina að þeirri litlu von sem gæti leynst einhvers staðar. Þetta er augljóslega mjög erfið mynd til áhorfs, og eftirá leið mér eins og ég hafi verið dreginn í drullu í marga kílómetra eftir að hafa misst útlim og ekki borðað í fimm daga.

Myndin virkar samt, algjörlega. Hún kemur skilaboðunum á framfæri án þess að predika nokkurn tímann yfir manni og hún nær einnig að komast hjá því að útskýra fullmikið þannig að upplýsingum er ekki skóflað ofan í mann. Við fáum t.d. aldrei að vita hvernig heimurinn varð eins og hann er. Það er heldur ekki fókus sögunnar. Áhorfandinn fylgist bara með átökum föðurs nokkurs og sonar og fyllir síðan í eyðurnar sjálfur. Sambandið á milli Viggo Mortensen og Kodi Smit-MchPhee er aðall sögunnar (þó svo að við fáum ekki einu sinni að vita nöfnin þeirra – þeir eru bara „faðir“ og „sonur“), en það tekur stundum á að fylgjast með þessum tveimur. Það er t.d. sena í myndinni þar sem Mortensen kennir syni sínum hvernig skal best fara að því að skjóta sig í hausinn, sem honum er einungis bent á að gera ef allt fer til fjandans og það er engin önnur leið út. Og, ótrúlegt en satt, þá er þetta ábyggilega ein af glaðlyndari senum myndarinnar. Það ásamt kók-atriðinu. Smá product placement þar.

Maður finnur samt til með þeim báðum út alla myndina. Myndin væri alveg steindauð ef þeir hefðu engu sambandi náð við áhorfandann. Þeir eru líka báðir hreint út sagt frábærir á skjánum. Maður býst svosem ekki við öðru en dugnaði frá Mortensen en Smit-McPhee skilur mann eftir í hálfgerðu sjokki, enda mjög sjaldan þar sem hægt er að nota orðin „barnastjarna“ og „leiksigur“ saman í einni setningu. Ekki bara er krakkinn sannfærandi, heldur gat hann ekki fengið kröfuharðara og átakanlegra hlutverk. Síðan er vel dreift úr þeim Charlize Theron, Guy Pearce (meira cameo heldur en hlutverk þó) og Robert Duvall. Þau sjást kannski lítið en þau spila stóran þátt í heildarsögunni, og eru hörkugóð. Duvall ber samt af.

Útlitslega séð John Hillcoat fullkominn leikstjóri fyrir þessa mynd. Myndin sem hann gerði á undan þessari (sem enginn sá), The Proposition, var rosalega óþægileg og hrá. Greinilega nær hann að brillera í því að gera ógeðfellt útlit í stíl við erfiðar sögur því þetta er annað skiptið í röð. Litaleysið er reyndar býsna standard útlit fyrir „post-apocalyptic“ mynd, en það er meira hvernig fílingurinn spilast út sem gerir myndina áhrifaríka. Hillcoat tók klárlega skref í réttu áttina, en samt, eins kröftug og myndin er þá nær hún aldrei að halda manni í heljargreipum frá byrjun til enda. Hún er þung, vönduð og metnaðarfull, en það vantar samt pínulítið upp á til að gera hana að skylduáhorfi (kannski aaaaðeins viðburðaríkari atburðarás? hún er fulltómleg myndin, og stefnulaus til lengdar). Mér finnst líka fúlt að leikstjórinn hafi ekki ákveðið að halda alógeðfelldasta atriði bókarinnar. Ekki það að ég njóti þess að horfa á slíkan viðbjóð (sem ég ætla ekki einu sinni að lýsa) en myndin hefði samt getað grætt á því. Það hefði breytt afar sérstakri upplifun í eitthvað mun minnisstæðara. Ég myndi ekki ná að sofna í marga daga.

thessi

Besta senan:
Allt með Robert Duvall.

Categories: Dansmynd, Drama | Leave a comment

Burlesque

Burlesque er svo mikil uppsöfnuð hrúga af klisjuleifum að þú gætir næstum því púslað henni saman úr öðrum myndum. Það er smá af Chicago í henni, örlítið af Showgirls (mínus allt sem skipti máli við þá mynd, sjónrænt séð) og mikið af „snilldinni“ Coyote Ugly. Allt sem kemur inn á milli eru frásagnarformúlur og persónutengdar klisjur sem við höfum séð oftar en hollt getur talist. Það er sjaldan gaman þegar maður horfir á bíómynd og getur sagt eftir fyrstu þrjár senurnar hvernig hún mun öll spilast út, nánast frá upphafi til enda, en það er einmitt tilfellið hér. Ofan á þessa vankanta bætist síðan við langdregni og einhver flýttasti og mest ósannfærandi endir sem hægt er að ímynda sér, og ég grínast ekki með það að bókstaflega öll sagan og hvert einasta vandamál er leyst á innan við 5 mínútum. Skyndilega koma lausnir upp úr þurru og allir hnútar eru snyrtilega hnýttir. Það er í rauninni skuggalega fyndið!

Þetta þýðir samt ekki að myndin sé laus við kosti því burtséð frá máttlausa og kunnuglega innihaldinu eru umbúðirnar alveg glansandi, og ekki síður grípandi á augað og fáklæddu gellurnar í myndinni (stelpur, trúið mér þegar ég segi að þessi mynd höfðar alveg jafn mikið til stráka og ykkar – augljóslega ekki af sömu ástæðum þó). Það er fullt af flott uppsettum söng- og dansatriðum með fínum lögum. Myndatakan er góð og litapallettan gerir rammana e.t.v. meira sexý. Christina Aguilera er heldur ekki slæm í sínu fyrsta alvöru hlutverki. Hlutverkið hennar ætlast ekki til mikils af henni sem hún er ekki þegar reynd í. Hún er allavega langt frá því að vera óþolandi eða pínleg og það er stór plús í sjálfu Cher.

Hvað sextugu söngdívuna varðar er ekki mikið hægt að segja. Hún er auðvitað góð leikkona almennt en ef hlutverkið er eins hefðbundið og það er hér þá er lítið gott um það að segja. Söngatriði hennar voru líka án efa þau leiðinlegustu, sérstaklega þegar hún söng ein í klúbbnum eftir lokun. Markmið atriðisins var greinilega að slá á tilfinningalega strengi en mér fannst það bara þurrt og óspennandi til áhorfs. Það er líka eitthvað svo Cherstakt við það að horfa á konuna með galopinn munn þegar hún syngur, eins og andlit hennar neiti gjörsamlega að bjóða upp á það. Annars sýndu karlmennirnir í aukahlutverkunum mikinn lit, helst þá þeir Stanley Tucci (sem stelur alltaf senunni þegar hann leikur í stelpumyndum) og Cam Gigandet. Fyrrum Twilight-illmennið kom mér mikið á óvart og hefur dálítið batnað í áliti hjá mér. Áður en það gerðist fannst mér alltaf eins og hann hafði bara takmörkuð svipbrigði upp á að bjóða – svipað og Cher.

Burlesque er bitlaus klisjuréttur sem ungar stelpur ættu að hafa meira gaman að heldur en þær eldri. Hvað mitt alit varðar flokkast hún í „hvorki-góð-né-slæm“ dálkinn. Ég gat alls ekki sagt að mér hafi leiðst yfir henni á köflum, og glansandi kroppasýningar sáu vel til þess. Ef karlmenn ætla Cher að kíkja á þessa mynd þá mæli ég með stórum skjá í háskerpugæðum svo hægt sé að góna á þá staði þar sem nektin sést nææææstum því.

Ég segi 5 standpínur af 10.

Besta senan:
Semi-nakin Christina. Jebb, enn og aftur fullyrði ég hve mikil svín við karlmenn erum.

Categories: Dansmynd, Drama | Leave a comment

Happy Feet 2

Ég – eins og flestir aðrir 24 ára, forvitnir og hálfútlenskir karlmenn – tel mig hafa séð ýmislegt súrt um ævina, hvort sem mér líkar það betur eða verr. Það er ekki hægt annað en að segja að báðar Happy Feet-myndirnar séu á meðal þess undarlegasta í heiminum sem ég hef séð og umhugsunarlaust í flokki barna- og fjölskyldumynda.

Á yfirborðinu lítur þetta út eins og hvert annað barnaefni þar sem (tölvu)teiknuð dýr dansa og syngja popplög og býst maður ekki  við neinu öðru en léttlyndu og jákvæðu frá slíku. Þrátt fyrir að fjalla um krúttlegar mörgæsir (og einhver steiktustu tónlistaratriði  sem tölvur hafa búið til) eru báðar myndirnar stórskrítnar og með alvarlega klofinn persónuleika. Eina stundina eru þær mjúkar og meinlausar en niðurdrepandi og óvenjulega raunsæjar þá næstu. Þær enda kannski dúllulega en eru ekkert að spara þungu atriðin þangað til.

Stundum er eins og vonbrigði séu móðurmál persónanna og oft kemur fyrir að þeim er skellt í svo grimmar aðstæður að þetta virkar minna eins og fjölskylduafþreying og meira eins og yfirdrifin lífsleikni fyrir börn. Földu trúarskilaboðin (sem gáfaða, fullorðna fólkið mun fatta) og samfélagsgagnrýnin er heldur ekki eitthvað sem ég myndi kalla eðlilegt í myndum af þessari tegund. (Þetta ætti annars vegar ekki að koma neitt á óvart ef þið kannist við George Miller, manninn á bakvið Mad Max og Babe: Pig in the City)

Ég veit ekki alveg hvers vegna en syngjandi og dansandi mörgæsirnar í þessum myndum eru meira fráhrindandi en þær ættu að vera. Kannski eru lögin vitlaust valin eða kannski er kjánahrollurinn bara svona mikill að ímynda sér keisaramörgæsir syngja Boogie Wonderland, svo eitthvað sé nefnt. Fyrri Happy Feet-myndin er steikt, þunn, oft þunglyndisleg og býsna leiðinleg teiknimynd sem er í senn óaðfinnanleg í útliti. Happy Feet 2 er aðeins (en bara aðeins) jákvæðari og betri mynd og að auki eru tvær tónlistarsenur sem komu þokkalega út. Orð fá því samt ekki lýst hversu súr sjón það er að sjá mörgæsir, rækjur og fílseli dansa og syngja Queen/Bowie-lagið Under Pressure.

Sagan er samt alveg jafn þunn í þessari mynd. Við erum að tala um algjöra beinagrind og það kæmi ekki á óvart ef jafnvel krakkarnir sæju í gegnum allar uppfyllingarnar. Sú stærsta tengist tveimur rækjum, sem talsettar eru af Brad Pitt og Matt Damon (af öllum mönnum!). Þessar litlu persónur koma bara og fara eins og pirrandi íkorninn í Ice Age-myndunum og þjóna sögu myndarinnar sama og ekkert, þótt það sé gerð tilraun til þess að gefa þeim mikilvægan tilgang á seinustu stundu. Annars er heill herfjöldi af þekktum nöfnum til staðar í þessari mynd, en samt þekkir maður varla sumar persónurnar í sundur og skilur enginn nokkurn skapaðan hlut eftir sig. Nema kannski Robin Williams, en oftar er miklu meira líf í honum.

Útlitslega er Happy Feet 2 hátt í fullkomin og er alltaf hægt að dást að grafíkinni þegar áhugi manns á innihaldinu (eða innihaldsleysinu) fer sígandi. Annars er myndin einstaklega skrítin á flesta vegu, alveg eins og við mátti búast, og ef ég væri krakki myndi ég ekki vita hvort ég ætti að taka á móti henni með opnum örmum eða vera hálffríkaður út.Besta senan:

Eins weird og það var, þá segi ég Under Pressure-atriðið. Þetta er nú snilldarlag.

Vandræðalegasta senan:
Þegar Eric litli (sonur aðalpersónu fyrri myndarinnar) syngur í fyrsta sinn.
Jæks!

Categories: Dansmynd, Teiknimynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.