Dansmynd

John Wick: Chapter 3 – Parabellum

Stundum má velta því fyrir sér hvort John Wick myndirnar séu eða verði afskrifaðar af mörgum í framtíðinni sem taumlaust ofbeldisklám (sem sérstaklega daðrar við innbyggt byssublæti). Að þær séu fátt meira en sundurteygðar afsakanir til að snillingar monti sig af koríógraffi, látum og typpakeppnum – og sé raunverulega engin saga eða þýðing á bakvið þetta allt.

Þarna kem ég inn, sem bæði skammarlaus Keanu-aðdáandi og klappstýra fyrir þessa seríu, og berst dyggðarlega fyrir því að segja að þessar myndir hafa næstum því skapað eigin sérflokk hvað meint ofbeldisklám varðar – þess vegna hef ég alltaf verið hrifinn af lýsingunni “ofbeldisballett”.

John Wick-myndirnar hafa fótað sig upp í það að vera ekkert annað en masterklassa-hasarveislur, þar sem saga og örk eitursvalrar hetju mótast í gegnum magnandi hasarinn þar sem hann bókstaflega lemur djöfla sína frá sér í leit að endurlausn, og sjálfum sér í raun. Það er eitt að segja sögu sem reglulega kallar fram eftir slagsmálum og eltingarleikjum, en að segja söguna með slagsmálunum, hnífakeppnunum, hestareiðunum og byssuhvellunum er snúinn galdur. Mad Max: Fury Road er til dæmis hið fullkomna dæmi um það hvernig hasarmynd leggur út framvindu og sýnir persónusköpunina mest megnis þögult og með gjörðum án þess að missa nokkur tök á adrenalíninu.

Ekki ósvipað má segja um John Wick: Chapter 3 – Parabellum; lengstu, hörðustu, ýktustu og trúlega fyndnustu mynd seríunnar hingað til. Fyrir utan snargeðveika bardagahönnun og stönt, sem veldur því að áhorfandinn finnur fyrir hverju höggi nánast og missi tennur, þá er Keanu einfaldlega bara fæddur í rullu stóíska, fámála bardagamannsins. Örk persónunnar er líka gegnumgangandi í þróun þar sem hverju sinni er skoðað hvernig maður hann vill vera – og hvað sé næst. En svo má bara ekki gleyma því hversu viðbjóðslega auðvelt er að halda með manninum, sérstaklega í heimi þar sem þriðji hver maður er leigumorðingi.

Parabellum fer af stað eins og raketta – og réttilega! Einn af mörgum hápunktum seinustu myndar var þessi ljúffengi “Ó, fokk!” endir og gegnir hann hlutverki fullkomins stökkpalls fyrir dramatíska klípu hjá titilhetjunni góðu. Þegar við sáum hann síðast hafði hann brotið reglur síns samfélags og fengið á sig 14 milljón dollara prís á sig, eða boð í opið hlaðborð hjá öllum til að reyna sitt besta á manninum, oft í bílflotum. John Wick var þó heppinn maður og frá upphafi þessarar myndar á hann enn tæpan klukkutíma til stefnu (mikið óskaplega breyttist birtan hratt frá endi síðustu myndar) áður en allt kaosið byrjar.

Hvert lofofð sem forverinn eða þessi mynd leggur út er efnt. Parabellum er á kafi í flottum bardögum, einvígum, skothríðum og almennri “ég-trúi-ekki-að-hann-drap-manneskju-með-þessum-hlut” maníu – á besta máta. Myndin heldur flæði og kætir stanslaust augað með stílíseringu úthugsaðra lita og klippingar sem aldrei flækist fyrir. Það ríkir líka svo mikið texture í þessum heimi, sem lífgar auðvitað enn meira upp þegar gúrme sarpur af aukaleikurum fylgir með, þar sem allir hafa einhverju bitastæðu við að bæta.

Bardagalistamaðurinn og B-hasarkóngurinn Mark Dacascos er til dæmis á algerum heimavelli hér og stelur þónokkrum senum með drepfyndnum karakter. Ég kemst heldur ekki yfir það hvað Anjelica Huston, Ian McShane, Halle Berry, Asia Kate Dillon og Lance (fokking) Reddick eru öll grjóthörð á sinn hátt.

En missmekkleg dráp, adrenalín og saltaður slagsmálafarsi er auðvitað ekki handa öllum og ömmum þeirra, en það er gefið að fólk á ekkert erindi til þessara mynda ef sú fyrsta hitti ekki í mark. Ég myndi sjálfur færa rök fyrir því að hverju framhaldi hefur hingað til rétt tekist að toppa þó sterkan undanfara og það fylgja því mörg bónusstig hvað þessi yfirdrifni launmorðingja(bíó)heimur er úthugsaður, vel víkkaður og barasta stórskemmtilegur. Það er líka endalaust hressandi hvað aðstandendur eru sífellt meðvitaðir um absúrdleika þessara mynda og nýta sér viðeigandi tækifæri til að gera grín að því.

Það helsta sem mætti saka myndina um væri að vera fimm til tíu mínútum of löng og kemur út eins og eitthvað af þeim tíma fari í persónur sem er mögulega að geyma til næsta kafla, eða hasarinn fer að jaðra við endurtekningar á lokametrunum. Trúlega er það viljandi gert, því undir lokin eru áhorfendur orðnir næstum því jafn úrvinda og þungt andandi og aðalpersónan. En Reeves er í banastuði eins og hann kann og er þol mannsins á sextugsaldrinum okkur öllum til skammar.

Væri kúl að enda þetta hér?

En vil ég sjá annan Wick?

ENGIN SPURNING.

Besta senan:
Bók. Hnífar. Hestur. Umsátrið. Allt.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Ævintýramynd, Dansmynd, Eitthvað annað, Gamanmynd, _ | Leave a comment

The Road

The Road er ótvíræður sigurvegari ef þetta er spurning um að finna þunglyndustu kvikmynd ársins 2009. Ekki nóg með það að myndin sé á skjaldbökuhraða og grafalvarleg allan tímann heldur er lítill sem enginn söguþráður til staðar og er því ekki mikið til staðar til að dreifa athygli áhorfandans frá þessu ofurþunga andrúmslofti. En það er líka tilgangurinn hvort eð er. Þessi eftirheimsendamynd fjallar um mannkynið í sínu svartasta og leitina að þeirri litlu von sem gæti leynst einhvers staðar. Þetta er augljóslega mjög erfið mynd til áhorfs, og eftirá leið mér eins og ég hafi verið dreginn í drullu í marga kílómetra eftir að hafa misst útlim og ekki borðað í fimm daga.

Myndin virkar samt, algjörlega. Hún kemur skilaboðunum á framfæri án þess að predika nokkurn tímann yfir manni og hún nær einnig að komast hjá því að útskýra fullmikið þannig að upplýsingum er ekki skóflað ofan í mann. Við fáum t.d. aldrei að vita hvernig heimurinn varð eins og hann er. Það er heldur ekki fókus sögunnar. Áhorfandinn fylgist bara með átökum föðurs nokkurs og sonar og fyllir síðan í eyðurnar sjálfur. Sambandið á milli Viggo Mortensen og Kodi Smit-MchPhee er aðall sögunnar (þó svo að við fáum ekki einu sinni að vita nöfnin þeirra – þeir eru bara „faðir“ og „sonur“), en það tekur stundum á að fylgjast með þessum tveimur. Það er t.d. sena í myndinni þar sem Mortensen kennir syni sínum hvernig skal best fara að því að skjóta sig í hausinn, sem honum er einungis bent á að gera ef allt fer til fjandans og það er engin önnur leið út. Og, ótrúlegt en satt, þá er þetta ábyggilega ein af glaðlyndari senum myndarinnar. Það ásamt kók-atriðinu. Smá product placement þar.

Maður finnur samt til með þeim báðum út alla myndina. Myndin væri alveg steindauð ef þeir hefðu engu sambandi náð við áhorfandann. Þeir eru líka báðir hreint út sagt frábærir á skjánum. Maður býst svosem ekki við öðru en dugnaði frá Mortensen en Smit-McPhee skilur mann eftir í hálfgerðu sjokki, enda mjög sjaldan þar sem hægt er að nota orðin „barnastjarna“ og „leiksigur“ saman í einni setningu. Ekki bara er krakkinn sannfærandi, heldur gat hann ekki fengið kröfuharðara og átakanlegra hlutverk. Síðan er vel dreift úr þeim Charlize Theron, Guy Pearce (meira cameo heldur en hlutverk þó) og Robert Duvall. Þau sjást kannski lítið en þau spila stóran þátt í heildarsögunni, og eru hörkugóð. Duvall ber samt af.

Útlitslega séð John Hillcoat fullkominn leikstjóri fyrir þessa mynd. Myndin sem hann gerði á undan þessari (sem enginn sá), The Proposition, var rosalega óþægileg og hrá. Greinilega nær hann að brillera í því að gera ógeðfellt útlit í stíl við erfiðar sögur því þetta er annað skiptið í röð. Litaleysið er reyndar býsna standard útlit fyrir „post-apocalyptic“ mynd, en það er meira hvernig fílingurinn spilast út sem gerir myndina áhrifaríka. Hillcoat tók klárlega skref í réttu áttina, en samt, eins kröftug og myndin er þá nær hún aldrei að halda manni í heljargreipum frá byrjun til enda. Hún er þung, vönduð og metnaðarfull, en það vantar samt pínulítið upp á til að gera hana að skylduáhorfi (kannski aaaaðeins viðburðaríkari atburðarás? hún er fulltómleg myndin, og stefnulaus til lengdar). Mér finnst líka fúlt að leikstjórinn hafi ekki ákveðið að halda alógeðfelldasta atriði bókarinnar. Ekki það að ég njóti þess að horfa á slíkan viðbjóð (sem ég ætla ekki einu sinni að lýsa) en myndin hefði samt getað grætt á því. Það hefði breytt afar sérstakri upplifun í eitthvað mun minnisstæðara. Ég myndi ekki ná að sofna í marga daga.

thessi

Besta senan:
Allt með Robert Duvall.

Categories: Dansmynd, Drama | Leave a comment

Burlesque

Burlesque er svo mikil uppsöfnuð hrúga af klisjuleifum að þú gætir næstum því púslað henni saman úr öðrum myndum. Það er smá af Chicago í henni, örlítið af Showgirls (mínus allt sem skipti máli við þá mynd, sjónrænt séð) og mikið af „snilldinni“ Coyote Ugly. Allt sem kemur inn á milli eru frásagnarformúlur og persónutengdar klisjur sem við höfum séð oftar en hollt getur talist. Það er sjaldan gaman þegar maður horfir á bíómynd og getur sagt eftir fyrstu þrjár senurnar hvernig hún mun öll spilast út, nánast frá upphafi til enda, en það er einmitt tilfellið hér. Ofan á þessa vankanta bætist síðan við langdregni og einhver flýttasti og mest ósannfærandi endir sem hægt er að ímynda sér, og ég grínast ekki með það að bókstaflega öll sagan og hvert einasta vandamál er leyst á innan við 5 mínútum. Skyndilega koma lausnir upp úr þurru og allir hnútar eru snyrtilega hnýttir. Það er í rauninni skuggalega fyndið!

Þetta þýðir samt ekki að myndin sé laus við kosti því burtséð frá máttlausa og kunnuglega innihaldinu eru umbúðirnar alveg glansandi, og ekki síður grípandi á augað og fáklæddu gellurnar í myndinni (stelpur, trúið mér þegar ég segi að þessi mynd höfðar alveg jafn mikið til stráka og ykkar – augljóslega ekki af sömu ástæðum þó). Það er fullt af flott uppsettum söng- og dansatriðum með fínum lögum. Myndatakan er góð og litapallettan gerir rammana e.t.v. meira sexý. Christina Aguilera er heldur ekki slæm í sínu fyrsta alvöru hlutverki. Hlutverkið hennar ætlast ekki til mikils af henni sem hún er ekki þegar reynd í. Hún er allavega langt frá því að vera óþolandi eða pínleg og það er stór plús í sjálfu Cher.

Hvað sextugu söngdívuna varðar er ekki mikið hægt að segja. Hún er auðvitað góð leikkona almennt en ef hlutverkið er eins hefðbundið og það er hér þá er lítið gott um það að segja. Söngatriði hennar voru líka án efa þau leiðinlegustu, sérstaklega þegar hún söng ein í klúbbnum eftir lokun. Markmið atriðisins var greinilega að slá á tilfinningalega strengi en mér fannst það bara þurrt og óspennandi til áhorfs. Það er líka eitthvað svo Cherstakt við það að horfa á konuna með galopinn munn þegar hún syngur, eins og andlit hennar neiti gjörsamlega að bjóða upp á það. Annars sýndu karlmennirnir í aukahlutverkunum mikinn lit, helst þá þeir Stanley Tucci (sem stelur alltaf senunni þegar hann leikur í stelpumyndum) og Cam Gigandet. Fyrrum Twilight-illmennið kom mér mikið á óvart og hefur dálítið batnað í áliti hjá mér. Áður en það gerðist fannst mér alltaf eins og hann hafði bara takmörkuð svipbrigði upp á að bjóða – svipað og Cher.

Burlesque er bitlaus klisjuréttur sem ungar stelpur ættu að hafa meira gaman að heldur en þær eldri. Hvað mitt alit varðar flokkast hún í „hvorki-góð-né-slæm“ dálkinn. Ég gat alls ekki sagt að mér hafi leiðst yfir henni á köflum, og glansandi kroppasýningar sáu vel til þess. Ef karlmenn ætla Cher að kíkja á þessa mynd þá mæli ég með stórum skjá í háskerpugæðum svo hægt sé að góna á þá staði þar sem nektin sést nææææstum því.

Ég segi 5 standpínur af 10.

Besta senan:
Semi-nakin Christina. Jebb, enn og aftur fullyrði ég hve mikil svín við karlmenn erum.

Categories: Dansmynd, Drama | Leave a comment

Powered by WordPress.com.