„Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!“ mynd

John Wick: Chapter 2

Þegar bíómynd mætir upp úr þurru, malar gull í miðasölum og kemur fyrst og fremst þrælskemmtilega á óvart er til mikils að biðja um að fá annað eintak sem er á sama pari, hvað þá betra. John Wick var ein af þessum myndum sem algjörlega sló á réttar nótur, með bálreiðum, einbeittum og skotglöðum Keanu Reeves í burðarhlutverkinu og einfalda keyrslu, glæsilega skipulagðan hasar og snyrtilegan stíl – og mikið af honum. Gegn öllum lögmálum er John Wick: Chapter 2 alveg jafn góð og sú fyrri, reyndar betri á ýmsum sviðum. Myndin ‘öppar’ hasarinn og fílinginn frá þeirri fyrstu jafn mikið og The Raid 2 gerði m.v. sinn forvera… með dásamlegum árangri.

Fyrri myndin hafði auðvitað þessa hefndarkeyrslu sem dreif hana svo sterkt og framhaldið átti auðvitað aldrei séns í að toppa það. Hún skilur þetta hins vegar vel og kýs frekar að fara „meira-er-meira“ leiðina með því að byggja náttúrulega ofan á forverann og breikka svakalega út þennan spennandi heim launmorðingja sem hún gerist snýst kringum. Flestar cash-grab hasarframhaldsmyndir eru yfirleitt bara latar endurtekningar og hálfbakaðar úrvinnslur (heyriði þetta, Taken 2 og 3!). John Wick: Chapter 2 ætlar sér í staðinn að drekkja sér í metnaði og stilla sér upp sem pakkaðri og eitrað töff „miðjumynd“ í tilvonandi þríleik.

john-wick-chapter-2-keanu-reeves-hd-wallpaper-11048

Það er margt og mikið sem Keanu passar bara ekkert inn í, stundum kemur það fyrir með stórmögnuðum og hlægilegum árangri (Dracula, Knock Knock t.d. eða þegar maðurinn reyndi að hnerra í Lake House), en þegar hann finnur kúlið sitt og smellir í rétta hlutverkið er ótakmarkað hversu mikið má halda upp á kauða. John Wick er naglharður, með útgeislun en viðkunnanlegur líka innan um hafsjó af óþokkum, launmorðingjum og villidýrum.

Keanu er orðinn miklu öruggari með sig í rullunni sem hann þegar gjörsamlega rúllaði upp í fyrri lotunni, nema núna er minna pláss fyrir hann til að fara út í of dramatískan ofleik (muniði ekki eftir senunni í nr. 1 þegar hann „sprakk út“?), verður því lágstemmdari og allan tímann svalari fyrir vikið. Ruby Rose og Common eru hörkufínar og fimar viðbætur, með eftirminnilega karaktera ásamt meiriháttar gestainnkomu frá Peter Stomare og (aftur) Ian McShane til að dressa meira kúl í þetta. Laurence Fishburne dúkkar þarna einnig upp í smástund og er þetta trúlega fyrsta skiptið í veröldinni þar sem hann sér um að vera yfirdrifnari en Reeves á skjánum. Gaman að sjá þá báða aftur, en af öllu fína liðinu á skjánum hefur Fishburne eflaust minnst við það bæta.

Ég leit á það sem vondar fréttir þegar ég komst að því fyrirfram að Elísabet Ronaldsdóttir myndi ekki sjá um að klippa þessa, en með aðstoð reyndra leikstjóra, frábærrar kameruvinnu og koríógraffa var það að miklu leyti Betu að þakka að fyrri myndin hafði þennan púls sem hún gerði. Ryþminn var góður, fáeinar senur (eins og á klúbbnum) stórkostlegar og alltaf sá maður hvað var í gangi. Það er einhvern veginn stórmagnað hvernig margar hasarmyndir rugla saman kaótík fyrir samansem-merki á adrenalín og spennu. Hins vegar hleypur klipparinn Evan Schiff þrælvel í skarðið fyrir Betu.

download

Alveg eins og með þá fyrri er hasarinn skemmtilegur, intensífur og ánægjan að sjá Keanu – með sitt ofurmannlega úthald – vaða í hvern óvininn á eftir öðrum stoppar ekki. Fjölbreytnin er líka meiri hér, sem skrifast auðvitað líka á hærra budget, en orkan viðheldur sér vel og magnast sérstaklega í kringum miðbikið. Þarf síðan varla að minnast á það hvað kvikmyndatakan er flott og litabeiting áberandi geggjuð. Ég kann virkilega að meta fantasíuyfirbragðið yfir þessum tón en samt eru slagsmálin oft jarðbundin og brútal. Húmorinn er þó aldrei langt undan. Búturinn með tröppurnar fór með mig…!

Það sem aðskildi John Wick að mörgu leyti frá týpískum B-hefndarmyndum – fyrir utan að sjálfsögðu vönduð vinnubrögð og helfókuseraðan Keanu, blæðandi kúli, eins og áður var nefnt – var einmitt þessi heimur sem myndin skapaði. En í fyrri kaflanum var Wick eins og jarðýta í hefndarhug sínum, en mjög fáir þar áttu hvort sem er roð við hans reynslu og þjálfun. Í öðrum kaflanum er Wick-maskínan umkringd fullt af gæjum sem hafa hlotið sambærilega þjálfun, sem þýðir: meira kaos, erfiðari fantar, harkalegri högg og enn óútreiknanlegra fjör. Klæmaxinn í þessari mynd tekur lokasprettinn úr þeirri fyrstu í nefið og hvernig hætturnar og hindranirnar magnast upp heldur blóðinu flæðandi léttilega út þessa tvo tíma, sama hversu þunnur efniviðurinn verður. Endirinn er líka nett djarfur, og öðruvísi.

Þessi dýrindis, sítrekkjandi ofbeldisballett sem einkennir John Wick: Chapter 2 er meira en fullnægjandi og verður í rauninni erfitt að finna betri pjúra hasarafþreyingu á þessu ári, þar sem öll bestu brögðin tilheyra gamla skólanum. Ef sú þriðja hittir naglann á höfuðið eins vel og báðar tvær Wick-myndirnar hafa gert, þá siglir þetta í óskaplega ljúfan og ómissandi þríleik með langt líf framundan. Meira, takk!

 

gedveik

Besta senan:
Speglasalurinn, eða lestarstöðin.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Epík, Spennumynd, Svört gamanmynd | Leave a comment

Deadpool

Þrátt fyrir að aðdáendur hafi lengi betlað eftir almennilegum Deadpool, í kjölfar þeirrar epískt misheppnaðu túlkunar sem karakterinn hlaut í X-Origins: Wolverine, gæti þessi bíómynd varla komið á betri tíma. Þegar ofurhetjugeirinn gerir fátt nema að vaxa, víkka út og slást um leikfangasölur kemur ein lítil mynd og inniheldur margt af því sem stúdíómyndirnar hafa vanalega ekki: stóran kjaft, sarp af typpabröndurum og gígantíska meðvitund fyrir sér sjálfri. Það tók ekki nema fjórar misheppnaðar hasarblaðarullur til þess að Ryan Reynolds gæti loksins smellpassað einhvers staðar og verið til mikils gagns í einni þeirra.

Deadpool-aðdáendur – í þeim yfirleitt unga aldurshópi sem þeir spanna – búast náttúrulega ekki við öðru en hér er mynd sem bara hlær að klisjum, pissar á formúlur, rýfur fjórða vegginn reglulega, segir hvað sem henni sýnist (leggur m.a.s. Fox í hressilegt einelti) og er sísnertandi sig yfir eigin ofbeldishneigð… og öðru.

deadpool-gallery-06-gallery-image

Hún kemur út eins og einhver hæper-reiður og kaldhæðinn unglingur hafi krotað ofan í týpískt origin-/hefndarsöguhandrit og tekist að fá stúdíó til að fjármagna niðurstöðuna, svartsýn, hégómafull og barnaleg eins og hún getur verið. En besta hrósið sem ég get gefið mynd sem var örugglega ekki hönnuð fyrir mig er að ég naut mín í fokkin’ tætlur.

Í myndasögunum (og fáeinum teiknimyndum) hefur Deadpool oftar en ekki verið betri í skömmtum. Það er þunn lína milli þess að gera karakterinn annaðhvort að frussandi snilld eða einstaklega pirrandi, þó svo að það sé meira eða minna tilgangurinn. En rakettan sem lyftir ræmunni upp skrifast öll á það hve mikið Ryan smellpassar þar sem hann er og gefur gæjanum allt sitt líf. Hann og fleiri eru í svo baneitruðu stuði; tónninn er þar að auki sæmilega balansaður. Myndin er fersk á réttum stöðum og verður aldrei fullyfirdrifin, níhilísk eða ódýr bara vegna þess að hún telur sig komast upp með það. Sándtrakkið smitar líka af sér helberri dásemd og nýtingin á ’80s slögurum frá Juice Newton og Wham! er meiriháttar kryddauki.

deadpool-upside-down.png

Myndin er öll útötuð í meta-narratífu en eitt það besta sem Reynolds gerir er að ná sínum sjarma gegnum yndislega ruglaðan og siðblindan karakter þegar þörf er á því. Samband hans og Morenu Baccarin er líka viðkunnanlega krúttlegt – innan marka – án þess að handritið geri þau mistök að breyta myndinni í annað en hún gerir grín að. Það stendur alltaf eftir aragrúa af línum eða skotum og hvort sem þau varða tímalínur, Ikea-húsgögn, Wolverine, manninn sem leikur hann eða hvers sem er, ég pissaði nánast úr hlátri yfir mörgum þeirra og sat sáttur með það að trailerarnir sýndu ekki helminginn af bestu brotunum.

Söguþráðurinn er skítþunnur, hlægilega beisikk reyndar og væri ekki fyrir stöðuga brandaraflóðið og attitjúdið væri lítið sem myndi aðgreina hana frá öðrum origin-sögum. Myndin líður líka hvað mest fyrir það hvað illmennið er mikið ‚bla‘. Við fáum skúrk sem virðist virka meira spennandi á blaði en ekkert slíkt skín gegnum hann Ed Skrein (ekkert á móti Skrein þó, nema þegar hann þykist vera Jason Statham). Eitthvað verður það samt að segjast merkilegt að T.J. Miller leiki trúlega mest ‘normal’ aðilann í myndinni.

deadpool-gallery-05-gallery-image

Við hvert tækifæri reyna samt handritshöfundarnir (sem eru þeir sömu og gáfu okkur Zombieland-reglurnar) að spila með stefnur og væntingar. Það núllast eiginlega strax út um leið og myndin byrjar (með hreinskilnasta upphafskreditlista allra tíma?) að þú eigir eða getir tekið hana eða titilkarakterinn of alvarlega. Nokkrir kaflar í myndinni og ýmsir straumar sem snúa að ástarsögunni vilja hins vegar að þú gerir það, en í svona mikilli djók-maskínu getur það orðið erfitt. En á móti tekst manni að halda með kjaftóðu fígúrunni, eða í það minnsta upp á hann, í stað þess að vilja sjá munninn aftur saumaðan.

Myndin heldur líka stórgóðu flæði og pakkar eins miklu og þor stúdíósins, formúlan og peningurinn leyfir í hálfan annan tíma. Hún dvelur líka aldrei of lengi á einum brandara, ef einn feilar er mjög stutt í þann næsta. Myndin reynir líka miskunnarlaust að afsaka innbyggðu galla sína (eins og af hverju X-mennirnir eru bara tveir) með því gera grín að þeim. Gallarnir standa samt eftir, en myndin er að minnsta kosti samkvæm sér sjálfri og skotin – og djókarnir – yfirleitt lenda.

Heldur má ekki skima yfir það hvað búningurinn er óvenjulega vel heppnaður. Fyrir utan töff hönnun, þessari sléttu kóperingu á myndasögulúkkinu, styrkir það karakterinn að notast við tölvubrellur til þess að gefa grímunni tjáningar í augnsvipunum. Lítið en mikilvægt smáatriði. Miðað við fjármagnið virka brellurnar almennt ágætlega, eitthvað óslípaðar við og við – eins og metnaðurinn að halda Colossus 100% tölvugerðum, þ.a.l. gerandi hann að algjörri teiknimyndapersónu.

Casdlb1WcAE5sU6

Samt, með því að ná að ná að troða sér aftur og propper inn í uppstilltan X-Men heiminn kemur Deadpool eins og nauðsynlegt rafstuð í sívaxandi ofurhetjugeirann – og ber höfuð og herðar með hreðjarnar yfir nokkru sem DisneyMarvel myndi þora að henda út. Með þessu eina litla hliðareintaki er X-Men serían allt í einu orðin örlítið svalari, út af einmitt þessum ástæðum.

Myndin er skemmtun og ekkert meira, en toppskemmtun, berþunn en hröð og skemmtileg ef þú veist hverju þú átt von á. Deadpool-karakterinn, eins og áður sagði, nærist á því að reyna á þolinmæði margra og hans síkjaftandi sjálfumgleði og rúnkþörf fyrir hörðu ofbeldi útilokar ýmsa hópa. Feginn er ég samt að vera ekki á þeirra meðal því ég vil endilega meira.

(létt átta)

gedveik

Besta senan:
„Heard of the one legged man in the ass-kicking contest?“

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Grín, Spennumynd, _ | Leave a comment

The Revenant

Svakalegur þessi Leó. Hann aldeilis ætlar sér að fá þennan Óskar, sama hversu mikið hann þarf að öskra, skríða, misþyrma sér líkamlega, gretta sig eða horfa vítt framan í myndavélina, og það á ekki lengur bara við um bara Wolf of Wall Street og Django (mynd sem hann fékk – óskiljanlega – aldrei tilnefningu fyrir). En hvað sem þessi maður er ekki til í að sprengja sig út fyrir hverja áskorunina á eftir annarri, og ef hann gerir þetta bara til að sýna sig þá stendur hann sig óaðfinnanlega í því og oftast í höndum kröfuharðra leikstjóra. Í The Revenant lætur hann velta sér ítrekað upp úr kaldri drullu, étur hráa lifur, gargar, skríður og er sama og teygjandi öðrum arminum eftir gylltri styttu úr ramma.

Myndin er lauslega byggð á alvöru hremmingum og lífsbaráttu landkönnuðsins Hugh Glass í óbyggðum árið 1823 eftir að hafa orðið fyrir bjarnaárás. Eins og það sé ekki nægilega sympatísk staða er hann í kjölfarið skilinn eftir af liðsmönnum sínum, illa særður, vopnalaus og svikinn að auki. Hér er maður sem mun sérdeilis finna fyrir því hversu köld hefndin getur verið og hvað mun þurfa til að komast lífs af.

Eins og Glass er hér túlkaður er ekki mjög fjöllaga rulla í boði, né markar þetta það besta sem ég hef séð frá DiCaprio. Líka er erfitt að neita því að lamandi alvarleikinn gæti reynst pínu kómískur undir röngum glápskringumstæðum. Þessi tónn gerir það líka að verkum að það reynir á trúðverðugleikann hvað sumar aðstæður verða ansi yfirdrifnar, og fyrir allt það helvíti sem DiCaprio/Glass gengur í gegnum er oft með ólíkindum hve heppinn hann verður einnig. Ég útiloka það ekki heldur að einhver annar hágæðaleikari, kannski aðeins meira ‘röff’ að eðlisfari, hefði getað púllað þetta betur. Ekkert út á performansinn beinlínis að setja en ég er viss um að þú getir sett þriðja hvern einstakling í sumar þessar tökur úti í helkaldri náttúrunni og fengið út sannfærandi ströggl-svipi og þjáningsstunur. En þetta er Leó, sem þýðir að sjá hann standast sína mest krefjandi líkamsþolraun verður aldrei annað en nokkuð mögnuð sjón sama hvað.

revenant-snow-xlarge

Mexíkóski fagmaðurinn Alejandro Gonzáles Iñárritu (eldheitur enn eftir Birdman sigurinn) hefur ekki gert það auðvelt fyrir leikara sínum í náttúrunni frekar en öðrum þarna með honum, en áþreifanleikinn í strögglinu er meira eða minna tilgangurinn. Þessi einfalda litla saga flyst upp í eitthvað stórfenglegra með stílauga áferð leikstjóra síns (og auðvitað kamerumannsins) og beru, hægu frásögn um baráttu eins manns gegn náttúruöflunum og hversu þrautseig og viljasterk mannskepnan getur verið. Þeim þemum er svolítið þrýst ofan í okkur (að auki eru drauma- og flassbakksenur hér og þar sem ekki alveg virka í rennslinu) og Iñárritu er ekki óvanur því að mjaka sér upp úr örvæntingu linnulaust, en martraðartökurnar og framleiðsluvesenið virðist hafa skilað sér með einu brútalt grípandi atmódrama og spennuþriller í sama skríðandi pakkanum. Minnir á Malick-mynd, bara þrefalt meira spennandi, með skýrari fókus en miklu minna að segja. Það er líka þarna sterk DNA-tenging við Malick í tökustílnum.

Á tæknilegu leveli er The Revenant mikið meistaraverk (lúkk, sett, búningar, nefnið það…) en heilt yfir flott hefndarsaga. Ofan á það eru fáránlega mörg stórgrípandi atriði hér að finna, hvort sem það er meistaralega gerða bjarnaárásin, eitt grjóthart einvígi eða árásin í upphafinu sem sparkar myndinni í gang með ótrúlegu afli. Iñárritu er reyndar mikið fyrir það að blása út þessar metafórur en innihaldið býður ekki upp á mikla dýpt og lengdin aðeins örlátari en hún þurfti að vera.

279258

Við kynnumst ekki hinum fámála Glass neitt sérstaklega mikið, né nána sambandi hans við son hans, áður en framvindan fer í gang. Empatíkin og tengipunktur áhorfandans kemur allur frá þjáningu leiðangursins, því hún er átakanleg á tíðum, en umhyggjan sem slík er takmörkuð. Það er heldur ekki erfitt að sogast inn í mótiveringu hans þegar Tom Hardy er svona yndislega ógeðfelldur á móti. Af leikaravalinu er skiljanlegt að allir ræði mest um Leó, enda bókstaflega mest í fókus og krassandi nærmyndum út alla lengdina. Hardy fannst mér persónulega sterkari. Villimannslegur og óskýrmæltur eins og honum er lagið en hann fær athyglisverðari karakter (eins lítið og það segir) og dregur stóran „gritt“ fiðring með sér. Domhnall Gleeson og Will Poulter hafa líka miklu við að bæta.’

Það er leikstjóranum aldið sem hann hefur til að sjá til þess að áhorfandinn æfi rassavöðvana af spenningi honum öllum í hag. En stórt kredit myndarinnar skrifast líka á „Chivo“ Lubezki á tökuvélinni. Andrúmsloftið hjá þessum síáreiðanlega kamerusnillingi bindur þetta allt saman og fangar fullkomlega fegurðina og ljótleikann í innihaldinu. Vélin svífur í kringum leikaranna og aksjónið eins og maður finni aldrei fyrir henni (þangað til að eitthvað skvettist á linsuna… varð stundum stílískt truflandi). Öll skotin í náttúrulegu ljósi og andar út hráum realisma og draumkenndum væb. Myndatakan er löðrandi í löngum, flóknum skotum og römmum sem erfitt er að gleyma. Ég vildi að ég gæti sagt eitthvað sambærilega hæperbólískt um tónlistina, sem er oftar niðurdrepandi frekar en eftirminnileg.

Hvort sem fólk helst límt við hana frá fyrstu senunum eða geispar yfir endurtekningunum er öruggt mál að myndin sker sig úr og brennir sig í minnið með ýmsum hætti.  Hún kallar eftir sérstöku múdi áður en þú sest niður og horfir á hana. Samt er hún aðgengileg, sikk spennandi og þrátt fyrir nokkra óslípaða enda er upplifunin svo klikkaðslega kröftug á bestu stöðum. Kannski ekki alveg snilldarverkið sem Iñárritu vonaðist eftir (og meira að segja Tom Hardy sjálfur átti meira grípandi og töff ferðalag í annarri mynd frá 2015) en vægast sagt aðdáunarvert kvikindi.

 

gedveik

 

Besta senan:
Bangsaknús.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Drama, Spennuþriller | Leave a comment

Powered by WordPress.com.