„Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!“ mynd

The Revenant

Svakalegur þessi Leó. Hann aldeilis ætlar sér að fá þennan Óskar, sama hversu mikið hann þarf að öskra, skríða, misþyrma sér líkamlega, gretta sig eða horfa vítt framan í myndavélina, og það á ekki lengur bara við um bara Wolf of Wall Street og Django (mynd sem hann fékk – óskiljanlega – aldrei tilnefningu fyrir). En hvað sem þessi maður er ekki til í að sprengja sig út fyrir hverja áskorunina á eftir annarri, og ef hann gerir þetta bara til að sýna sig þá stendur hann sig óaðfinnanlega í því og oftast í höndum kröfuharðra leikstjóra. Í The Revenant lætur hann velta sér ítrekað upp úr kaldri drullu, étur hráa lifur, gargar, skríður og er sama og teygjandi öðrum arminum eftir gylltri styttu úr ramma.

Myndin er lauslega byggð á alvöru hremmingum og lífsbaráttu landkönnuðsins Hugh Glass í óbyggðum árið 1823 eftir að hafa orðið fyrir bjarnaárás. Eins og það sé ekki nægilega sympatísk staða er hann í kjölfarið skilinn eftir af liðsmönnum sínum, illa særður, vopnalaus og svikinn að auki. Hér er maður sem mun sérdeilis finna fyrir því hversu köld hefndin getur verið og hvað mun þurfa til að komast lífs af.

Eins og Glass er hér túlkaður er ekki mjög fjöllaga rulla í boði, né markar þetta það besta sem ég hef séð frá DiCaprio. Líka er erfitt að neita því að lamandi alvarleikinn gæti reynst pínu kómískur undir röngum glápskringumstæðum. Þessi tónn gerir það líka að verkum að það reynir á trúðverðugleikann hvað sumar aðstæður verða ansi yfirdrifnar, og fyrir allt það helvíti sem DiCaprio/Glass gengur í gegnum er oft með ólíkindum hve heppinn hann verður einnig. Ég útiloka það ekki heldur að einhver annar hágæðaleikari, kannski aðeins meira ‘röff’ að eðlisfari, hefði getað púllað þetta betur. Ekkert út á performansinn beinlínis að setja en ég er viss um að þú getir sett þriðja hvern einstakling í sumar þessar tökur úti í helkaldri náttúrunni og fengið út sannfærandi ströggl-svipi og þjáningsstunur. En þetta er Leó, sem þýðir að sjá hann standast sína mest krefjandi líkamsþolraun verður aldrei annað en nokkuð mögnuð sjón sama hvað.

revenant-snow-xlarge

Mexíkóski fagmaðurinn Alejandro Gonzáles Iñárritu (eldheitur enn eftir Birdman sigurinn) hefur ekki gert það auðvelt fyrir leikara sínum í náttúrunni frekar en öðrum þarna með honum, en áþreifanleikinn í strögglinu er meira eða minna tilgangurinn. Þessi einfalda litla saga flyst upp í eitthvað stórfenglegra með stílauga áferð leikstjóra síns (og auðvitað kamerumannsins) og beru, hægu frásögn um baráttu eins manns gegn náttúruöflunum og hversu þrautseig og viljasterk mannskepnan getur verið. Þeim þemum er svolítið þrýst ofan í okkur (að auki eru drauma- og flassbakksenur hér og þar sem ekki alveg virka í rennslinu) og Iñárritu er ekki óvanur því að mjaka sér upp úr örvæntingu linnulaust, en martraðartökurnar og framleiðsluvesenið virðist hafa skilað sér með einu brútalt grípandi atmódrama og spennuþriller í sama skríðandi pakkanum. Minnir á Malick-mynd, bara þrefalt meira spennandi, með skýrari fókus en miklu minna að segja. Það er líka þarna sterk DNA-tenging við Malick í tökustílnum.

Á tæknilegu leveli er The Revenant mikið meistaraverk (lúkk, sett, búningar, nefnið það…) en heilt yfir flott hefndarsaga. Ofan á það eru fáránlega mörg stórgrípandi atriði hér að finna, hvort sem það er meistaralega gerða bjarnaárásin, eitt grjóthart einvígi eða árásin í upphafinu sem sparkar myndinni í gang með ótrúlegu afli. Iñárritu er reyndar mikið fyrir það að blása út þessar metafórur en innihaldið býður ekki upp á mikla dýpt og lengdin aðeins örlátari en hún þurfti að vera.

279258

Við kynnumst ekki hinum fámála Glass neitt sérstaklega mikið, né nána sambandi hans við son hans, áður en framvindan fer í gang. Empatíkin og tengipunktur áhorfandans kemur allur frá þjáningu leiðangursins, því hún er átakanleg á tíðum, en umhyggjan sem slík er takmörkuð. Það er heldur ekki erfitt að sogast inn í mótiveringu hans þegar Tom Hardy er svona yndislega ógeðfelldur á móti. Af leikaravalinu er skiljanlegt að allir ræði mest um Leó, enda bókstaflega mest í fókus og krassandi nærmyndum út alla lengdina. Hardy fannst mér persónulega sterkari. Villimannslegur og óskýrmæltur eins og honum er lagið en hann fær athyglisverðari karakter (eins lítið og það segir) og dregur stóran „gritt“ fiðring með sér. Domhnall Gleeson og Will Poulter hafa líka miklu við að bæta.’

Það er leikstjóranum aldið sem hann hefur til að sjá til þess að áhorfandinn æfi rassavöðvana af spenningi honum öllum í hag. En stórt kredit myndarinnar skrifast líka á „Chivo“ Lubezki á tökuvélinni. Andrúmsloftið hjá þessum síáreiðanlega kamerusnillingi bindur þetta allt saman og fangar fullkomlega fegurðina og ljótleikann í innihaldinu. Vélin svífur í kringum leikaranna og aksjónið eins og maður finni aldrei fyrir henni (þangað til að eitthvað skvettist á linsuna… varð stundum stílískt truflandi). Öll skotin í náttúrulegu ljósi og andar út hráum realisma og draumkenndum væb. Myndatakan er löðrandi í löngum, flóknum skotum og römmum sem erfitt er að gleyma. Ég vildi að ég gæti sagt eitthvað sambærilega hæperbólískt um tónlistina, sem er oftar niðurdrepandi frekar en eftirminnileg.

Hvort sem fólk helst límt við hana frá fyrstu senunum eða geispar yfir endurtekningunum er öruggt mál að myndin sker sig úr og brennir sig í minnið með ýmsum hætti.  Hún kallar eftir sérstöku múdi áður en þú sest niður og horfir á hana. Samt er hún aðgengileg, sikk spennandi og þrátt fyrir nokkra óslípaða enda er upplifunin svo klikkaðslega kröftug á bestu stöðum. Kannski ekki alveg snilldarverkið sem Iñárritu vonaðist eftir (og meira að segja Tom Hardy sjálfur átti meira grípandi og töff ferðalag í annarri mynd frá 2015) en vægast sagt aðdáunarvert kvikindi.

 

gedveik

 

Besta senan:
Bangsaknús.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Drama, Spennuþriller | Leave a comment

Black Mass

Johnny Depp hefur lengi dúsað í bíófangelsi hjá þeim sem muna eftir hversu góður og skemmtilega djarfur hann gat verið, áður en Disney-vilgengnin gaf honum alltof mikið frelsi. Inn á milli leyfði hann sér að gera eitthvað fullorðinslegra en aldrei með eftirminnilegum hætti. Þurfti svo ekki nema merkilega raunasögu um alræmdan glæpóna til þess að fá hann til þess að allavega reyna að skora á sjálfan sig og finna dekkri, rólegri og ákafari leik-lög til þess að móta með og finna sósíópatann í sér. Margir hafa talað um Black Mass sem stóra ‘kombakkið’ fyrir Depp, en áður en fólk tapar sér í svo stórum orðum skal hafa það í huga að næstu titlarnir hans eru Alice in Wonderland 2, Pirates 5 og síðan heil aukamynd með fransk-kanadíska fíflinu sem hann lék í Tusk.

Hér má finna leifar af óhuggulegri sögu glæpaforingjans James ‘Whitey“ Bulger, og lauslega er s.s. rekin upprisan til fallsins  – í anda góðrar Scorsese-myndar. Black Mass er klárlega skref í réttu áttina fyrir Depp, þökk sé þess að hann tekur sjálfan sig aftur alvarlega – án þess að setja upp skrípalega rödd, þvælast með Tim Burton eða ganga með fyndinn hatt, kómískt skegg, jafnvel syngja eða leika í svefni (The Tourist, Transcendence…). Þess vegna er það súrt að segja að loksins er hann gleyptur af frammistöðu sem er helmingi betri en útkoman virðist eiga skilið. Að öðru leyti hef ég enn ekki séð Joel Edgerton eða Benedict Cumberbatch standa sig beint illa og þó þeir lifi sig báðir vel í þessa mynd er lúmskt gaman að sjá þá keppast um hvor getur betur haldið upp Boston-hreim án þess að trufla.

bulger

Eins og algengt er með fókuslausar biopic-sögur kemur þessi út eins og flott mínísería þjöppuð niður í tvo klukkutíma. Leikstjórinn Scott Cooper hefur núna gert þrjár myndir sem allar sanna að hann getur kreist út eitthvað af því besta úr leikurum sínum (skoðum m.a. Jeff Bridges í Crazy Heart eða Woody Harrelson í Out of the Furnace). Kemur líklegast ekki á óvart fyrst hann var sjálfur áður leikari en hann nær litlu gripi með neinu öðru, og kemur út eins og hann viti ekki alveg hvenær á að skipta yfir í hærri gír með strúktur sínum.

Cooper getur verið sterkur með litlar stakar senur, og á tæknilegu stigi hefur hann nokkuð vandaða mynd á milli handanna, en handritið velur allar mögulegu leiðir til þess að slíta sig við mikilvægan dramaþunga. Samtölin eru misklígjuleg, Persónudýptin takmörkuð út í gegn og með því að segja söguna í ‘flassbökkum’ frá sjónarhorni þeirra sem sviku Bulger úr innsta hring hans er búið að þurrka út mestalla óvissu og þá lágmarks spennu sem ríkir á milli hans og allra í kringum hann. Mér fannst ég heldur ekkert mikið fróðari um þennan mann eftirá heldur en fyrir sýningu.

mass1

Bulger átti son, stirt samband við eiginkonu sína og bróður sem var einn voldugasti pólitíkus fylkisins á þessum tíma, svo eitthvað sé nefnt. Það er margt til að tína úr og varpa ljósi á. Í þessari niðurstöðu er hlupið yfir meirihlutann af öllu svona, alla atburði og ‘hápunkta’ svo úr verður aldrei nein kröftug heildarmynd eða snyrtileg samantekt. Þræðir hanga í lausu lofti og handritið hefur ekkert sérstakt að segja. Stendur þá bara eftir dautt loft, mikið af því, og niðurtalning í óhjákvæmilegu endalokin.

Black Mass hefði getað einbeitt sér að sálinni í skepnunni og stúdera aðeins hvað lætur hann tikka. Í staðinn sættir hún sig við fullt af atriðum þar sem hann hótar einhverjum eða drepur, hótar eða drepur, auk margra sena þar sem frábærir leikarar koma bara og yfirgefa síðan (þ.á.m. Peter Sargaard, Corey Stoll, Juno Temple og óvenju traust Dakota Johnson – sem öll ná að gera eitthvað gott úr þunnildum sínum).

Einbeitta og lúmskt grípandi túlkun Depps á Bulger gæti hugsanlega haft jákvæð áhrif á ferilinn hans héðan í frá, en hún nær ekki að bjarga myndinni.
Krimmaepík um þennan mann, með þessu fólki, á ekki vísindalega séð að geta orðið svona flöt og hálf leiðinleg. Myndi segja að þetta væri svolítil sóun á hæfileikum ef þeir væru ekki svona glimrandi fínt til sýnis.

 

mehh

Besta senan:
Bulger hittir á eiginkonu Edgertons.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Drama | Leave a comment

John Wick

Allir sem elska flottar B-hasarmyndir eiga að eðlisfari ekki erfitt með að segja nei við góðum hefndarþriller. Hann þarf ekki einu sinni að vera svo góður, bara naglharður, helst vel gerður (best þá þannig að fyrirgefa klisjurnar) og helskemmtilegur. John Wick kemur þar eins og kallaður, tryllir og skemmtir með fókuseruðu reiðinni og sérsetti af hæfileikum sem á besta degi gæti ábyggilega útrýmt öllu Expendables-liðinu fyrir hádegi.

Fljótt kemst það hér til skila – og dásamlega svo – hversu ógeðslega vond hugmynd það er að abbast upp á sorgmæddan Keanu. Líka er bara eitthvað svo gaman að sjá einhvern viðkunnanlegasta og áhugsamasta manninn í bransanum rísa aftur upp og vera megasvalur á skjánum, eitthvað sem hefur ekki gerst síðan Contantine eða The Matrix. Löngu var sumé kominn tími á svoleiðis eftir katastrófuna sem hét 47 Ronin en með John Wick hefur Keanu Reeves aldrei fyrr verið einbeittari í töffarahlutverki.

Þessi mynd er hans útgáfa af Taken, Payback og – á vissu leveli – Shoot ‘Em Up (bara alls ekki eins einhæf). En utan þess að fá fullt af gömlum hráefnum lánað héðan og þaðan eða út um allt, þá virkar hún samt sem áður fersk, stútfull af orku, með geggjaðan takt (þessi músík…!) og er óneitanlega faglega samsett yfirhöfuð og kóríógröffuð.

51377230

Reeves er rétt aðeins einn þriðjungur þeirra sem fær kreditið á allri þessari geðveiki – ekki það að sé ekki nóg af öðru fylgdarliði hérna sem bara betrumbætir. Hinir meistarnir á bakvið John Wick eru (hinir sorglega lítt þekktu… þar til nú) Chad Stahelski og David Leitch. Stahelski er margreyndur áhættuleikari, slagsmálaþjálfari og second-unit leikstjóri – auk þess að vera gaurinn sem framkvæmdi öll hættulegustu áhættuatriðin sem Neo í Matrix 2 og 3 (giskið við hvern hann bondaði við þá…). Hann einn er titlaður sem leikstjórinn en í rauninni er myndin samvinnuverkefni hans og Leitch, sem sjálfur er þrælvanur áhættuleikstjóri og margt, margt fleira. Ofbeldisveislan sem þessi flotta þrenning fagmanna heldur nýtur sín í tætlur með allt púðrið sem hefur verið lagt í slagsmálin, byssubardagana, eins-manns árásirnar á hvern vesalings lífvörðinn á eftir öðrum… og byssuslagsmálin!

Myndin er ferlega stílísk, sprettir látlaust, kemur sér beint að efninu og treður nægilega mikið af óvæntum uppákomum – bæði í hásarkláminu og þess á milli  – til að myndi beri einkenni sem hún getur alveg kallað sín eigin. Hún er líka bara andskoti flott skotin, hljóðsett og okkar eigin Elísabet Ronaldsdóttir (Contraband) gerir stöku sinnum algjör kraftaverk með þessa klippingu, sem og maníuna sem hún þarf að sjá um í skotheldu og þægilegu flæði en innan margra ofbeldissena sem aldrei skippa of hratt milli ramma. Annað en margar slagsmálaóðar spennumyndir sér maður alltaf hvað er í gangi hér, og hefði sársaukasprengjan Raid 2 ekki plantað sínu flaggi fyrr væri John Wick harðasta hasarmyndin á árinu. Kaflinn í skemmtiklúbbnum er heill og sér bara míkró hasarmeistarastykki.

51377230 (1)

Söguþráðurinn hefur líka svo magnað og einfalt „húkk“, og þó myndin hefði ekki fjallað um annað en brotinn, „vondan“ gæja sem hefnir sín á verri mönnum sem drepa hvolpinn hans, þá er mjög auðveldur vegur fyrir sympatík og stuðning áhorfandans. Sem betur fer hefur John Wick sér aðeins fleiri hluti í huga og í öllu líkfallinu hefur vel tekist að byggja úthugsaðan glæpaheim í kringum aðalkarakterinn. Allir aukaleikarar skipta miklu máli þar og eru margir furðu eftirminnilegir, eins og Adrianne Palecki, John Leguizamo og Ian McShane. Willem Dafoe og Mikael ‘Millenium’ Nyqvist eru fantagóðir, Nyqvist er þar með loksins orðinn ekki bara sannfærandi heldur skemmtilegur á enskri tungu. Hann gat allt eins verið sofandi í Abduction og var lítið eftirminnilegri Ghost Protocol. Allt annar bragur á honum nú.

Myndin hefur líka mikinn húmor fyrir sér en á til í vissum tilfellum að hrasa og jaða við hallærisleika, allra helst þegar tekin er upp gömul manó-a-manó klisjuhefð (hugsið um Lethal Weapon 1) sem Jack Reacher brenndi sig seinast á. En í svona 80% tilfellana á móti er þessi mynd of örugg með sig og fjúríus til að vera of lengi hallærisleg.

4072

Hasarunnendur hljóta að vera í einhverju verra skapi ef þeir kunna ekki að meta John Wick. Handritið m.a.s. hæpar hann svo yndislega upp í kynningarhlutanum og leggur talsverða væntingarþyngd á þessa óstöðvandi drápsvél sem Wick er („He’s not exactly the Boogeyman… He’s the one you send to kill the Boogeyman.“). Reeves er kannski ekkert alltaf fullkominn í dramahlutanum frekar en vanalega en hann leggur allt á sig og stendur hann undir öllum loforðum sínum á sýningartímanum.

John Wick er klárlega myndin sem hún vill vera, og ruglað góð er hún.

atta

Besta senan:
Klúbba-raid’ið. Tær hápunktur.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Spennumynd, Svört gamanmynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.