„Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!“ mynd

The Raid 2: Berandal

Svona á að gera hasarmyndir! Með fullt, fullt af reyndum og nógu hörðum áhættuleikurum sem leggja líkama og líf sitt í hættu í þágu bíólistarinnar, m.ö.o. svo við áhorfendurnir getum kippst til með samúðarverki í miðri adrenalínvímu. Sömuleiðis eru bestu bardagamyndirnar þessar sem leyfa þér að finna fyrir hverju höggi, trekk í trekk. Í þessu tilfelli þarf ekki nema að bæta svo við breiðu glæpaplotti á kalíberi við mafíósaepík, og útkoman er ‘Godfather II’ eða ‘Departed’ hasar- og bardagamyndana. Ekki vissi ég til að nokkurn tímann væri hægt að biðja um svoleiðis blöndu, en hér er hún… og hún er STURLUÐ!

„Gangi þeim vel að toppa þetta,“ hugsuðu margir eftir að hafa horft á fyrstu Raid-myndina, ég þar meðtalinn, en undarlega hefur tekist núna að smækka hana grimmt og álíta hana sem miskunarlausa upphitun. Hasarklámið kom í stórum sprettum, með litlum hvíldartíma á milli. Einhæfur varð hann sjaldan en ekki margar staðsetningar voru í boði þar sem hún gerðist öll í sömu byggingunni. Það eina sem þá perlu skorti var einhvers konar aktívur söguþráður, án þess að það hafi verið nauðsynleg krafa. Myndin svínvirkaði og tók „Die Hard í íbúðarblokk“ hugmyndina á svo grjóthart plan að John McClane hefði hágrenjað í sömu aðstæðum. En eins og ég segi, sú ódauðlega mynd var bara ástæða leikstjórans Gareth Evans til þess að undirbúa okkur fyrir það sem virkilega í honum býr.

the-raid-2-berandal-official-domestic-trailer-hd-iko-uwais-action

„Meira af því sama“, „Less is more“ eða „Overkill“ eru hugtök sem eru þessari mynd algjör útlenska, og frekar en að stimpla sig sem einungis beina framhaldsmynd er The Raid 2 aðalpartíið í staðinn; miklu ljótari, stílískari bíómynd, öðruvísi í tón, miklu flóknari í innihaldi, dramatískari og slettir öllu blóði sínu á 300% stærri striga, með miklu meiri fjölbreytni og klukkutíma lengri. Hún tekur við nánast beint þar sem frá var horfið seinast og opnar svo fyrir umtalsvert breiðari söguþræði, dramatískt margslungnari og meira spennandi. Hann tekur upp visst pláss en gefur myndinni rísandi „intense“ level, og þó innihaldið sé óneitanlega afsökun til að strengja saman hverri ofbeldisveislunni á eftir annarri, smellir þetta allt saman með góðu flæði, grípandi samræðum og vaxandi samúð og stuðning fyrir hönd aðalhetjunnar.

Eðlilega kemur lengra bil á milli hasarsena en í látlausa forveranum, en þegar þær koma í sínum bylgjum og gæti önnur hver þeirra verið heill klæmax í öðrum myndum. Það eru risastór, snilldarlega kóríógröfuð atriði í fyrri helmingnum sem taka næstum á þolið, en er það síðan barnaleikur í samanburði við veisluna sem bíður í seinni hlutanum.

the-raid-2-image-4

The Raid 2 upplifði ég nefnilega þannig að í hvert sinn sem ég hélt að hún gæti ekki orðið klikkaðri, ýktari, agressívari, flottari eða ótrúlegri… hvað gerist þá? hún hélt stanslaust áfram að toppa sig! Leikstjórinn setur sér engin takmörk; einvígi, hópslagsmál, einn á móti milljón, stórfenglegur bílaeltingaleikur, slagsmál í bíl, utan á bíl, hamar, álkylfa, lengi má telja. Ef viðkomandi leggur í óklipptu útgáfu myndarinnar (þessa sem Evans VILL að þú sjáir) í stað þeirrar ritskoðuðu er áhorfið ekki fjær því að vera persónuleg áskorun, eða himnesk grimmdarsending. Meira að segja strangtrúðustu aðdáendur fyrstu myndirnar blöskra og hljóta að finna til í mörgum útlimum á meðan þessari stendur yfir.

Það var eitthvað svo sárt en svo naglhart að sjá bardagasnillinginn Iko Uwais, sem aldrei hafði nokkurn tímann leikið áður, bera sig eins og höfðingi og þola fleiri spörk, högg, bit og heilahristinga heldur en normal hasarhetjur, og ónýta ofurlöggan Rama þess vegna höfuð og herðar yfir flesta þeirra. En allt sem hann lagði á sig áður á augljóslega ekkert í líkamspyntinguna sem hann hefur hlotið í þessum tökum. Sama í hvernig bardögum, Uwais er óstöðvandi en mætir sífellt nýjum jafningja eða ef ekki nokkrum í einu. Innihaldið krefst þess að fá mikið dramatískt púll úr honum og slær hann fáar sem engar feilnótur. Taktur hans virkar líka í stílíseringu sem þessari og meiðslablætinu sem fylgir. Allir eru meira eða minna fókusaðir og í sínum gír.

TR2-4

Hægt er að brjóta niður í raun hvaða stóra hasarsenu sem er og stúdera í hel hversu flókin og heimskulega vel skipulögð hún er. Allt gert á staðnum, í kameru, æft í hel og engar tölvubrellur til þess að skipta sér af römmunum eða svindla með. Mátulega svöl og kaótísk kvikmyndataka gerir svona sársaukagraut að eins konar dansi.

Ef réttlæta skal það að Raid 2 sé ekkert annað en langdregið hasarklám þá geta fáir sagt annað en að það gerist varla ruglaðara eða meira djúsí en þetta. Ljót, mögnuð þolraun fyrir suma en hálfgert meistaraverk í sínum geira, tilfinningaþrungið, röff, pumpandi og aðdáunarvert á fjölda vegu. Má vera að epíkin sé eitthvað bústin, fullyfirdrifin og með kekki í flæðinu en hún getur líka skilið mann eftir upptrekktan, eitthvað skemmdan, úrvinda en umfram allt ofvirkt glaðan. Það er ekki fræðilegur séns að sjáist magnaðra samansafn af hasarsenum á öllu árinu.

brill

Besta senan:
Eldhúsið, þ.e.a.s. ‘lokalevelið’, hvað annað?

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Spennumynd | 1 Comment

Carrie (2013)

Við þekkjum flest öll þessa sögu. Carrie lifir vægast sagt glötuðu lífi. Hún er einmana og feimin en verður fyrir stöðugu félagsáreiti í skólanum að því ógleymdu að snargeðveika og ofsatrúaða móðir hennar beitir hana reglulegu ofbeldi. Eftir að niðurlægingin og vanlíðan hjá Carrie nær blóðugu hámarki uppgötvar hún það að hún býr yfir mögnuðum mætti til að hreyfa hluti með hugarorkunni einni. Í stuttu máli: Þú fokkar ekki í Carrie. Kaldhæðnislega er þetta örugglega hugsun sem dyggir horror-unnendur með fortíðarþrá deila þegar þeir hugsa um klassíkina gömlu.

Það getur stundum verið munur á endurgerð og nútímauppfæringu. Auðvelt er að stökkva beint á þessa nýju Carrie-mynd með illu auga og afskrifa hana sem metnaðarlaust færibandsafrit. Hún er það ekki, en kemur bara þannig út því upprunalega eintakið þekkja margir betur en handabakið á sér.

Brian De Palma gerði þessa Stephen King bók að mikilli bíógoðsögn sem hefur lifað – en kannski ekki elst sem best – í bráðum 40 ár. Leikstýran Kimberly Peirce (Boys Don’t Cry, Stop-Loss) gekk greinilega í þessa endursköpun af miklum eldmóði og tekur persónulegt tvist á þráðbeinu frásögnina, þá með því að taka element úr bókinni, frumútgáfunni og fylla sjálf í nokkrar eyðurnar. Munurinn er kannski ekkert yfirdrifið mikill en samt nógu mikill til að myndin virki ekki of gagnslaus. Atburðarásin er sú sama en áherslurnar aðeins öðruvísi, og sama hvað margir fordómafullir segja þá kemur myndin alls ekkert illa út. Sú gamla var nú ekkert fullkomin heldur. Þarf ég að minna t.d. á Psycho-strengina?

Gallinn núna er reyndar bara sá að sjokkgildið sem ’76 myndin hafði á sínum tíma nær ekki alveg sömu hæðum árið 2013 ef lítið er gripið til nýjunga (spes samt hvernig við erum hundrað sinnum hræddari við að sýna gagnslausa nekt í dag miðað við þann tíma. Upprunalegi, pornógrafíski kreditlistinn er alveg horfinn). Nútímaáhorfendur eru margir líklegir til að horfa á nýju Carrie í leit að einhverjum allt öðruvísi, kannski ódýari hryllingi. Þá er ég að tala um þá ör, örfáu sem hafa ekki hugmynd um hvert sagan fer og hvernig hún endar (trailerarnir virðast ekki einu sinni leyna því!). Peirce fórnar annars ekki listræna metnaði sínum, ef svo má kalla hann, fyrir almennar vinsældir og reynir aldrei að breyta þessu í einhverja trend-hryllingsmynd. Hún hefur sjálf sagt að áður en hún kom að þessu verkefni stóð upphaflega til hjá stúdíóinu að gera þetta að „found footage“ mynd, af öllu – sögð frá sjónarhorni bekkjafélagana. Oj.

Sjálfur hef ég alltaf litið á þetta ljóta litla ævintýri sem pínulítið yfirdrifna en áhrifaríka skilaboða- eða dæmisögu sem snertir mjög auðþekkjanleg vandamál. Þrátt fyrir að gengið hefur vel að staðfæra hana yfir í nútímann (menn geta aðeins ímyndað sér hvað YouTube-byltingin hefur haft vaxandi áhrif á einelti) má hún eiga það að vera frekar tímalaus því þemun í henni eru eitthvað sem fólk mun lengi geta tengt sig við á einn hátt eða annan; einelti (augljóslega), lélegt uppeldi, félagsleg útilokun, bæling, samviskubit, réttlæti og heljarinnar hefnd. Fríkuðu ofurkraftarnir eru eins konar bónus og eitthvað sem allir hafa á einhverjum tímapunkti óskað að þeir hefðu til að geta refsað grimmum gerendum.

carrie03 (2)

Peirce er allan tímann meðvituð um það að flestir sem allir vita hvað gerist í sögunni, hvert hún stefnir og reynir hún að mjólka það sem hún getur úr uppbyggingunni en án þess að flækja hlutina of mikið eða tefja. Hún leyfir sálfræðilegu óþægindunum að naga mann aðeins áður en reiðissprengjan springur í lokahlutanum. Annað en í De Palma myndinni er reynt að koma áhorfandanum inn í hausinn á Carrie greyinu. Peirce notfærir sér þetta sem leið til að spila meira í kringum stóra uppgjörið í endann og vonandi gera það þeim mun meira fullnægjandi fyrir áhorfandann. Það gengur að vissu leyti en persónulega fannst mér bitastæðustu breytingarnar lenda á skrímslinu sem móðir hennar er, eins og best sést í upphafsatriðinu nýja. Það er ekki eitthvað sem eðlilegar manneskjur gleyma á fyrra bragði.

Það sem kippir Peirce frá því að búa til ógleymanlega endursögn er nákvæmlega sú ástæða að hún kafar ekkert mikið út fyrir klassíska rammann sem við öll þekkjum, eða reynir að minnsta kosti ekki að stíga óvenjulega mikið út fyrir helstu punktana sem sagan þarf að fylgja og hefur fylgt. Litlu breytingarnar eru ekki alltaf til hins betra, sumar óþarfar og kjánalegar og útfríkunin hjá mér var í lágmarki út áhorfið, en það sést langar leiðir að reynt var að gera góða mynd.

Það er óhugsandi að finna ekki til með titilpersónunni og vorkenna henni. Chloë Moretz túlkar hana prýðilega, með réttum tilþrifum en situr aldrei nógu mikið eftir í manni, mögulega vegna þess að hún er einum of falleg, jafnvel þó hún eigi að vera töluvert „ljótari“. Hún reynir þó aldrei að apa eftir Sissy Spacek (Moretz skortir algjörlega „klikk-augun” sem hún hafði, burtséð frá „hversdagsútlitinu“) og fer alveg sínar leiðir með rulluna. Þar að auki er hún á hárréttum aldri á meðan Spacek var farin að nálgast þrítugt þegar hún lék menntskælinginn, eins með alla hina.

Julianne Moore ber að vísu af í hlutverki mömmunar og að þeim tveimur frátöldum eru fáir sem skilja eitthvað mikið eftir sig (aðallega bara Judy Greer, enginn annar), sem enn og aftur innsiglar fyrir mér hversu mikil rútína megnið af þessu hefur verið hjá leikstýrunni án þess að hún hefur kannski gert sér eins mikið grein fyrir því. Annars er kvikmyndatakan stílísk, drungaleg og mikið lagt upp úr andrúmsloftinu, sem enn og aftur bendir til þess að myndin hefur ekki verið alfarið unnin af peningagræðgi.

Best er að horfa á nýju Carrie með opnu hugarfari og má alltaf leita til gömlu myndarinnar ef þessi gengur ekki upp að mati áhorfandans. Hún er ekki að fara neitt. Góði hluturinn er að þessi nýja svertir hvergi ímynd fyrirmyndinnar þó hún varpi óneitanlega sterkum skugga á þessa tilraun. Fínasta trilraun samt.

fin


PS
. Ég sá aldrei sjónvarpsmyndina frá 2002, en heyrði ekkert voðalega góða hluti.
En þú?

Besta senan:
Í allri hreinskilni, byrjunarsenan! Hún er sú eina sem gaf mér ósvikið sjokk.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, "She went there" mynd, Hryllingsmynd | Leave a comment

Quantum of Solace

Sennilega fyrsta Bond-myndin sem virkar mun síður sem sjálfstæð eining. Myndin erfir ýmsar upplýsingar sem forveri hennar skildi eftir, og m.a.s. eru myndirnar svo tengdar að þessi hefði rétt eins getað borið titilinn Casino Royale: Part II, sem er akkúrat það sem ég hef alltaf kallað hana. En til að ná að fylgja söguþræðinum á réttum hraða er eiginlega skylda að hafa séð forverann, og í þessari seríu hefur slíkt aldrei komið upp á áður (ein mynd komst nálægt því en fór svo allt aðra leið).

Margir þola einfaldlega ekki þessa Bond-mynd. Ég skil það svosem, en samt ekki. Hún fer ekki eftir standard Bond-mynda reglunum, sem sama má auðvitað segja um Casino, nema þessi nær bara ekki að afsaka sig jafn vel því hún er ekki eins tignarleg, manneskjuleg eða vel skrifuð. Þolinmóða flæðið er algjörlega farið, sem útilokar beint möguleikann á djúpri persónusköpun vegna þess að hér er e.t.v. búið að þrefalda hasarmagnið úr Casino, sem verður að segjast vera býsna magnað í ljósi þess að Quantum of Solace er heilum hálftíma styttri!

Ef Casino var herramannslegur óður til Fleming-andans og gömlu spæjaramyndanna í raunsærri kantinum þá er Quantum að reyna að vera í líkingu við The Bourne Supremacy og The Bourne Ultimatum, þ.e.a.s. ef þær yrðu klesstar saman í eina mynd! Hún vill bæði vera svona snjöll og plottdrifin eins og Supremacy en líka að hún flæði frá A-Ö eins og Ultimatum, eða kannski hlaupi og hoppi réttara sagt (hún er að auki skotin af sama second-unit gæjanum sem vann með Paul Greengrass). Því miður vill hún líka vera talsvert óraunsærri heldur en forveri sinn, sem er frekar fúlt. En svo stráir maður aðeins yfir þetta yfirdrifna „afrit“ alls konar bíótilvísanir, bæði töff (The Man Who Too Much) og tilgangslausar (Goldfinger), sem gefur til kynna að myndin er unnin af leikstjóra sem elskar kvikmyndir. Ég meina, Bond-mynd frá sama manni og gerði Monster’s Ball, Stranger Than Fiction og The Kite Runner? Mér finnst það alls ekki hljóma illa, enda fíla ég Quantum bara nokkuð vel.

Bond-aðdáendur eru sérstakt fólk, því maður finnur sjaldan tvo svipaða. Sumir dýrka eingöngu Fleming-Bondinn og fyrirlíta fantasíuhetjuna, svo eru aðrir sem hata að horfa á of gamlar myndir og telja Pierce Brosnan vera besta og eina njósnarann (já, þetta fólk er til!). Bond-unnendur voru samt almennt fyrir vonbrigðum með Quantum, hvort sem hún hafi verið of alltof Bourne-leg/Ó-Bond-leg, alltof hröð eða bara hreinlega leiðinleg og óspennandi. Að mínu mati eru þetta allt gildir punktar og ég skil rökin vel. Það er ekki skrítið að Bond-myndin sem fylgir strax á Casino sé aðeins eða töluvert síðri, miðað við hversu góð hún er.

Ég segi skítt með þessar Bond-reglur. Margar þeirra eru að sjálfsögðu velkomnar en eftir fleiri en 20 myndir er alveg leyfilegt að breyta forminu af og til. Quantum er að mínu mati mjög sérstakt eintak í þessari seríu. Það er eins og ótrúlega djúpt og gott handrit hafi lent í lent í því að týna fullt af blaðsíðum en því er bætt upp með leikstjórnarstíl sem minnir skuggalega mikið á eitthvað sem maður hefði séð frá Luc Besson/Pierre Morel eða að sjálfsögðu Greengrass (bara miklu ýktara). Hraðinn, fyrir utan mislangar pásur, er ótrúlega grimmur, hér um bil stanslaus! Daniel Craig er breyttur, skyndilega orðinn að sjúklega reiðri en snjallri hefndarmaskínu og býður keyrslan þá ekkert upp á annað en rakettuhraða með plott-pásum (pissupásum, öllu heldur). Mér finnst einmitt ansi töff hvernig Bond-mynd þorir að losa sig við standard uppskriftina og fara í allt, allt aðra átt, og þegar sú átt er lengra í burtu frá Ian Fleming-formúlunni þá er framleiðslan ennþá djarfari.

Á internetinu voru margir sem hræktu á nafn Marcs Forster eins og hann hafði skemmt eitthvað dýrmætt. Fólk sem hatar þessa mynd þarf aðeins að róa sig. Leikstjórinn má reyndar eiga það að vera ekkert ofboðslega góður í hasarnum. Hann gerir þau skömmustulegu mistök að klippa stundum of hratt og hrista rammanna aðeins of mikið. Ekki alltaf, og bara aðeins. Ég hef séð marga standa sig miklu verr með svona Greengrass-wannabe senur og þykir mér reiðin, hraðinn og úthaldið á myndinni skáka ókostina á endanum, því að minnsta kosti sá ég oftar en ekki hvað var að gerast (nema alveg í upphafsatriðinu, sem hefði getað orðið magnað (!) með aðeins stabílli töku). Það má samt ekki láta fínt en undarlega óspennandi handrit og (mis)böggandi klippingu skyggja fullmikið á það sem Forster gerir rétt. Í Quantum eru margar frábærar senur (t.d. óperan, mest allt á milli M og Bond, líkið og ruslagámurinn o.fl.) og spretthlaupið á fyrsta hálftímanum keyrir mann alveg út, en á góðan hátt, eins og Daniel Craig hafi í alvörunni stundað sæmilega djúsí mök við áhorfendur sína. Úthaldið er aldeilis aðdáunarvert hjá kappanum.

Þegar hraðinn byrjar að valhoppa mikið yfir heldur þurran söguþráð vekur það upp spurninguna hvort aukin lengd hefði gert myndina betri eða ekki. Allavega hefði örlítil yfirferð á handritið, með tillit til persónusköpunar, getað gert þetta tvöfalt betra. Þetta er nú framlenging af Bond-mynd þar sem manni var hvergi sama. Skyndilega eru tilfinningarnar farnar að kólna niður, en það er eflaust ætlunin. Myndina skortir samt ákveðinn fókus. Persónurnar eru allar dálítið þunnar, og þá sérstaklega hetjan okkar, sem nær aldrei beinu sambandi við áhorfandann. Bond er mestmegnis laus við sjarma og húmor í þessari lotu og það er hugsanlega stærsta kvörtun mín. Hasarinn er líka stundum – en sem betur fer ekki oft – dregin upp úr þurru, án þess að vefjast eitthvað sérstaklega utan um plottið, eins og hann á að gera. Þetta hljómar kannski eins og ósanngjörn gagnrýni gagnvart Bond mynd, en samanburður við fyrri myndina er óhjákvæmalegur, og það verður að segjast að sú mynd tókst alveg frábærlega að jafna góðan hasar við persónusamskipti án þess að missa dampinn. En nýtingin á látunum var hvort eð er sparlegri.

Þessi mynd reynir ekkert að toppa hina myndina, og þarf þess heldur ekkert. En þar sem um er að ræða beint framhald hefði verið örlítið skemmtilegra að sjá aðeins meira á bakvið sjálfan Bond heldur en bara reiðan töffara. Ég tek það fram að það er alveg dásemd að horfa á Craig í rullunni. Mér finnst hann frábær Bond, klárlega sá besti, og þessi mynd er engin undantekning, en ofannefndir gallar takmarka hversu margt hann getur gert með hlutverkið í þetta sinn. Franski gæðaleikarinn Mathieu Almaric (sjáið The Diving Bell and the Butterfly, skylduáhorf!) kemur sjálfur sæmilega út (augun í honum hræða mig!) en í frekar illa skrifuðu hlutverki. Olga Kurylenko, sem hefur batnað töluvert í leikhæfileikum síðan Hitman, er brennheit og passleg á meðan Gemma Arterton er einhver vannýttasta (auka) Bond-gella sögunnar og gerir akkúrat ekkert spennandi með sitt hlutverk, nema jú, fella eitt illmenni í tröppum.

Myndin er farin að þreytast í kringum climax-senurnar, kannski því mér var orðið skítsama um plottið og hefndarsaga Olgu skilaði sér aldrei á neitt sérstaklega fullnægjandi máta. En engu að síður er þetta skotheld afþreying og e.t.v. á meðal skemmtilegri Bond-mynda sem ég get munað eftir (en maður getur nefnt mjög margar sem voru aldrei neitt sérstakar). Hún virkar samt betur ef viðkomandi skellir henni saman við Casino Royale og lítur á myndirnar tvær sem eina heild. Fantagott double-feature. Hvet alla til þess að prufa það.

thessi
Músíkvídeóið var annars meiriháttar. Lagið skítsæmilegt en vídeóið geggjað!
Gunbarrel-ramminn í lokin kom heldur kjánalega út í lokin þó. Hann er eitthvað svo… flýttur! Er bráðnauðsynlegt fyrir Bond að strunsa í gegnum bókstaflega ALLA myndina??

Besta senan:
Myndin breytist úr bíómynd í „kvikmynd“ í óperusenunni. Ekki hasarsena, heldur þýðingarmikil ofbeldissena.

PS.
Eitt sem ég fíla SÉRSTAKLEGA við Craig-myndirnar tvær er…
.
.

(spoiler!!)

.

.

.

.

.

.

.

… að hann endar ekki með neinni gellu í lokin, í hvorugum tilfellum. Stórkostleg tilbreyting. Lokasenurnar í gömlu myndunum voru ekkert alltaf rosalega fjölbreyttar, augljóslega.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.