drama beint í æð

Hvítur, hvítur dagur

Sorgin getur gert sálinni allan fjandann, ekki síst þegar nátengdur einstaklingur fellur frá. Tilfinningasúpan getur slest í hinar furðulegustu áttir og hreinlega breytt manni í allt aðra manneskju. Því er engin ein rétt leið til að takast á við óvæntar aðstæður, en eins og áhorfendur fá að kynnast í Hvítum, hvítum degi stendur ekkillinn Ingimundur frammi fyrir tveimur ólíkum vegum. Þegar nýjar upplýsingar berast um líf og mögulega ástæðu fráfalls eiginkonunnar sígur vogarskálin hægt og bítandi í þyngri áttina, okkur til skemmtunar.

Það má segja að þessi mynd tikki í ákveðin box hjá staðalmynd íslenskrar kvikmyndagerðar. En ef svo er, þá tikka aðstandendur í boxin bæði með stolti með ýmislegt óvænt uppi í erminni. Annars höfum við hér brotinn einstakling í sveit, fortíðardrauga, fiskveiðar, einangrun, óútreiknanlegt veður, dýrðarinnar nekt til skrauts, náttúrufókus og landslag er nýtt til hins ítrasta. Myndin er einum alkóhólista frá því að ná fullu húsi, liggur við.

Heppilega tekur sagan nægilega ferskan vinkil á kaldan alvarleikann, með því að sjóða saman kómískt depurðardrama við lágstemmdan spennutrylli. Útkoman er kuldaleg, meingölluð en tilkomumikil og mikið óskaplega er stílblæti leikstjórans snoturt. Síðan þarf varla að hafa augun opin til að finna fyrir rembingslausum og minnisstæðum leik Ingvars E. Sigurðssonar.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Hlynur Pálmason ber öll merki hæfileikamanns sem gæti komist í þungavigtina á ókomnum árum. Eins og sást einnig á fantagóðri leikstjórafrumraun hans, Vinterbrødre frá 2017, er ljóst að gegnumgangandi þráður liggur í dökkum húmor og sterkri beitingu á hvítum tónum og skuggum. Á móti vantar alls ekki hversu hart hann sækist í það að gera annan hvern ramma að listaverki. Það virðist líka vera sameiginlegur þráður í báðum myndum hans hvernig illviðri getur skorið á fjölskyldubönd á augabragði.

Í Hvítum, hvítum degi er nákvæmlega ekkert út á töku, hljóð, strengjatónlist eða almennan stíl að setja. Myndin er skotin á 35 millimetra filmu, sem gefur henni flotta áferð og eru mörg hver skot alveg stórfengleg. Auk þess er stórum senum oft leyft að spilast út í óslitnum tökum sem gefa andartökunum góðan svip.

Það hvernig Hlynur finnur kaldhæðnina í hversdagsleikanum og mjólkar undarlega kómík úr grafalvarlegum ágreiningi er undirstaða húmorsins. Á móti heldur leikstjórinn persónunum í ákveðinni fjarlægð frá áhorfendum en sækir samt sem áður í tilfinningalega geðhreinsun og tilheyrandi dramaþunga. Hvítur, hvítur dagur gengur samt ekki nægilega vel upp sem dökk dramedía og grámygluleg karakterstúdering.

Hvort í sínu lagi virkar á sinn hátt en þegar myndin hallast meira að kaldhæðni en tilfinningatengslum fara tónarnir að stangast á við hver annan, sem mótar úr því afspyrnu misjafna heild – og heldur innantóma – sem samsett er úr frábærum senum á milli. Hlynur er of fastur í abstraktismanum og því líklegri til að missa tök á mannlega þættinum – og trúverðugleiki framvindunnar víkur gjörsamlega fyrir ljóðrænni kyrrð.

Titill myndarinnar vísar í draumkennt mistur, þoku eða snjókomu þar sem himinn og jörð sameinast í eitt. Með náttúruna að vopni nýtir Hlynur jafnframt tækifærið til að daðra við yfirnáttúrulegar hugmyndir, sem þó virðast ekki eiga mikinn sess í sögunni nema í skilningi uppfyllingarefnis. Myndmálsbeiting og ljóðræn skot bjóða upp á ógrynni af symbólisma sem snýr að náttúrunni og þróun Ingimundar, en yfirnáttúrulegi þátturinn heldur ekki alveg flugi og kemur þá í staðinn tilgerðartónn sem myndin hefði annaðhvort átt að sleppa, eða keyra í botn.

Að frátöldu sorgarþemanu hefur Hvítur, hvítur dagur ýmislegt að segja um mannlegt eðli og hvatir, þrátt fyrir að gjörðir og ákvarðanir sumra persóna séu róbótum líkar. Við sjáum Ingimund ganga í gegnum sterka breytingu, trúverðuga í eðli sínu, en það er happa og glappa hvort áhorfandinn finni almennilega fyrir henni. Slík er fjarlægðin og kuldi frásagnarinnar nær lítið að styrkja tilfinningatengsl með þessu móti.

Í hlutverki Ingimundar verður að segjast að Ingvar selji harða skel manns sem er mögulega á barmi tímabærs taugaáfalls. Bestar eru þó senurnar með honum og afabarninu hans, Sölku, sem bera merki um ósvikinn mannúðleika, hlýju og sakleysi. Hin ellefu ára gamla Ída Mekkín, dóttir leikstjórans, rúllar í gegnum myndina með flottum tilþrifum og lætur fara vel um sig á móti gamla reynsluboltanum. Verst er þó að stúlkan hefur ekki úr miklu að moða sem eina kvenpersóna myndarinnar sem fær fleiri en þrjár setningar. Ef út í það er farið er illa farið með góðan lager af aukapersónum úr nánasta hring Ingimundar sem hefðu getað bætt miklu við heildina.

Oft er mikið hægt að segja með þögnum, endurtekningum og augnaráði – en afraksturinn kemur litlu til skila sem hefði ekki dugað álíka vel þótt korter hefði verið saxað af lengdinni. En með fullri virðingu fyrir meirihluta leikhópsins verður að segjast hreint út að skemmtikrafturinn Sveppi stelur algjörlega senunni með barnaefni sínu. Þarna bregður honum fyrir í litlu en bítandi gestahlutverki þar sem hann bókstaflega leikur sjálfan sig, með viðbættum og kærkomnum níhilisma sem gæfi lykilmarkhópi hans þrumandi raunveruleikaspark.

(há sexa)

Besta senan:
Er það ekki augljóst?

Categories: aww..., drama beint í æð, Svört gamanmynd | Leave a comment

Lof mér að falla

Frá upphafi íslenskrar kvikmyndaflóru hefur eymdin verið í ríkjandi burðarhlutverki. Þá fylgir alltaf þessi stimpill að meirihluti okkar framlaga einkennist af litlu öðru en neyslu, erjum, vanlíðan og tilheyrandi ofsadramatík.

Tímarnir hafa aðeins verið að breytast. Ýmist upprennandi kvikmyndagerðarfólk hefur lagt það að markmiði að þverbrjóta þessa reglu og sækja í nýja liti úr öskjunni. Þar á móti kemur Baldvin Z og faðmar vesaldóminn að sér eins og ekkert sé heilagra í okkar afþreyingarmenningu. En stærsti munurinn á úrvinnslu Baldvins frá flestum öðrum starfandi eymdarfíklum hefur þó legið í tilgerðarlausri einlægni svo úr verði meiri áhersla á bítandi raunsæi heldur en órgandi melódrama.

Þessi umrædda einlægni er án efa öflugasta vopnið sem Baldvin hefur, enda er Lof mér að falla einn pakkaður grautur af óþægindum með yfirvofandi volæði stráðu yfir og borinn fram jökulkaldur. Grautur þessi hefur það merka hlutverk að sýna unglingum hlutina ófegraða og ráðast á foreldrahjarta ófárra með stórum veruleikaspegli og þrumusparki, þó hún sé alls ekki laus við sinn sjarma heldur.

Í kvikmyndum Baldvins hefur þó yfirleitt verið pláss fyrir hlýju, upplífgandi mannúð og jafnvel húmor í annars hádramatískum sögum, en með þessari kann hann betur við myrkrið og finnur sig þar umhugsunarlaust í hráefninu sem í boði stendur. Leikstjórinn hefur brínt á sér klærnar og sækir bæði meðvitað og ómeðvitað í dramafíkla af meistaragráðu í líkingu við Darren Aronofsky, Lars von Trier og Lukas Moodyson. Það er ekki slæmur hópur til að vera kenndur við, þó umrædd þrenning sé eflaust ekkert voðalega hress í partíum.

Við upphaf sögunnar er hin sakleysislega Magnea á grunnskólaaldri og komin í vafasaman félagsskap, sem er leiddur af hinni eldri og (í augum Magneu) svalari Stellu. Spenna og tilfinningaflóð skákar að sjálfsögðu alla rökhugsun en áður en langt um líður eru nokkur fikt við hörð efni orðin að vandamáli í formi martraðarkennds mynsturs. Vinátta og tengsl stúlknanna prýðir alltaf forgrunninn en það líður ekki á löngu þangað til áhorfandinn er betur farinn að skynja eitrið í loftinu á milli þeirra.

Framvinda myndarinnar er minna í því að spyrja spurningarinnar „Hvað ætli fari úrskeiðis?“ – enda kemur það snemma í ljós og skoðar sagan meira „Hvernig?“-vinkilinn og „Með hvaða afleiðingum?“ Sagan leikur sér að tímalínunni nokkuð frjálslega og kynnumst við einnig þeim Magneu og Stellu á eldri árum, á sitt hvorum staðnum í lífinu en báðar háðar minningum og sárum sem þær losna ekkert við.

Bæði má líta á myndina sem eins konar karakterstúdíu og skilaboðasögu. Handritið í umsjón Baldvins og Birgis Arnars Steinarssonar stillir atburðarásinni upp sem samansafni minningarbrota og er mikil vinna lögð í að sitthvorar tímalínurnar þjóni hvorri annarri, bæði á tilfinningaskala og gegnum upplýsingar. Það sem heldur lífinu í báðum stúlkunum er hversdagslegi andinn sem yfir þeim svífur. Áreynslulausa kemistría þeirra Elínar Sif Haraldsdóttur og Eyrúnar Bjarkar Jakobsdóttur landar þessu einnig með trompi. Tekst þeim oft að segja mjög mikið með mjög litlu.

Það þýðir í sjálfu sér ekkert að kryfja hvern leikara fyrir sig í þessari mynd. Leikstjórinn hefur löngu sýnt sig færan um að geta náð fram nöktum tilfinningum úr liði sínu með einum fingrasmelli. Allir leikararnir með tölu eru sterkir en mest krefjandi þyngslin fær sitthvor túlkunin á Magneu, leikin af Elínu Sif og Kristínu Þóru Halldórsdóttur. Það telst líka til ákveðins sigurs að breyta Góa í eins tæran viðbjóð og hann leikur hér. Óviðkunnanlegri hefur hann ekki sést síðan Hringekjan hóf göngu sína um stutt skeið.

Lof mér að falla er vissulega feykilöng kvikmynd (mögulega sú lengsta í íslenskri kvikmyndasögu) en fyllir upp í hverja mínútu þegar farið er yfir eins víðan völl og hér. Á hinn bóginn hafa handritshöfundar þurft að vinna sig í kringum ákveðnar handritsgildrur (sem best mætti lýsa sem krassandi tilviljanir) sem smækka heim myndarinnar frekar en að gera hið öfuga. En á litla Íslandi gengur það svo sem upp á sinn hátt.

Af gríðarlegri nærgætni tekst Lof mér að falla á við þemu um áhrifagirni, traust, taumhaldsleysi, hringrás, unga ást, óhjákvæmileg uppgjör og munar öllu að erfiðari kaflarnir skila sínu án fyrirlestra. Það ríkir mikil umhyggja fyrir persónunum í handritinu, með auknu tilliti teknu til þess að leyfa minni karakterum að brennimerkja söguna jafnt og stærri. Til að gera gott enn betra fáum við frábæra tónlist og úthugsaða kvikmyndatöku sem fangar ákveðna fegurð í ljótleikanum.

Augljóslega er ekki mælt með þessari mynd sem skemmtiáhorfi. En á móti er um að ræða þrælmagnaða ræmu sem skoðar (því miður) hversdagslegan veruleika með vandaðri samsetningu og sálina ávallt í forgangi. Besta ráðið er að halla sér aftur og taka á móti eymdinni opnum örmum, því hérna er auðvelt að verða háður henni.

 

Besta senan:
Hraðbankinn + stúlkurnar á „svölunum“ + lokaskotið.

Categories: drama beint í æð | Leave a comment

Les Misérables

(heitið er borið fram “Ley Miserab,” fyrir þá sem ekki vita, en yfirleitt segja flestir bara “Ley Miz.” Ókei?)

Það tók Ley Miz sama og engan tíma að toga mig (hér um bil bókstaflega) til sín. Strax um leið og stúdíólógóin hverfa dúndrast músíkin í gang og frussar hún aldeilis framan í mann mikla epík sem deyfir kjálkann, svo það sé alveg örugglega ljóst að það sem koma skal verði afar stórbrotið. Tímabilið er sett, söngurinn byrjar, gæsahúðin hverfur ekki, og fer ekki á milli mála að opnunin er, því miður, bara ansi hreint geðveik! Að minnsta kosti endist þessi fína tilfinning í fjórar mínútur eða svo, en fjórar góðar mínútur.

sama hve stór fáninn er, þá er alltaf jafn erfitt að kaupa hann sem Frakka

Hlutirnir breytast snöggt þegar Russell Crowe þykist allt í einu geta sannfært heiminn um að hann sé staddur í hlutverki sem hann á heima í. Ég held mikið upp á manninn, en það hentar ekki alveg röddinni hans að syngja. Þarna er kominn fyrsti hjallinn, af nokkrum. Ekki er ég alveg viss hvort hann skáni með tímanum eða maður sé bara orðinn skringilega vanur honum. Crowe eyðileggur samt varla neitt, eða allavega tókst mér að fyrirgefa honum, því hápunktarnir sem finnast í þessari miklu mynd eru vel tímans virði… nema ef viðkomandi kann ekkert að meta (há)dramatíska óperusöngleiki. Þá er þessi mynd algjör DAUÐI og breytist áhorfandinn í staðinn í stærsta vesalinginn.

Þessi gígantíska saga er sko innilega ekkert grín, eins og sést á titlinum, og liggur við að þetta eigi að vera það fyrsta sem kemur upp þegar orðið „drama“ er flett upp í samhengi bóka, leikhúss, músík og mynda, því núna hefur þessi sígilda sköpun Victors Hugo gengið í gegnum alla þessa miðla, með og án tónlistarinnar (en aldrei kvikmynduð áður með henni). Það má eiginlega segja að Ley Miz sé eins og Hringadróttinssaga dramasöngleikja. Allur sjóndeildarhringurinn er dekkaður: fátækt, ást, afbrýðissemi, hetjudáðir, heiður, örvænting, eymd… Það er hægt að kalla þetta tilfinningaklám eða táratogara en væri sagan ekki svona góð og hjartnæm á köflum væri ég kannski meira sammála því. Leikurinn er líka svo tilþrifaríkur (þó söngrödd sé vissulega annað mál hjá sumum) að annað kemur ekki til greina en að fljóta með þessari tignarlegu búninga- og sviðsmyndaveislu. Hljómar bara vel finnst mér.

Ley Miz veitir manni sterka stórmyndaupplifun (þrátt fyrir að kosta minna en $70 millur) og býr einnig yfir líflegum leikhúsanda, sem hittir beint í mark hjá mér. Burtséð frá því er tónlistin auðvitað mergjuð, langlíf af gildri ástæðu og góður helmingur lagana situr heillengi í heilabúinu (Look Down-lagið ber þar af). Það eru fullt af atriðum sem byrja aaaðeins að reyna á þolinmæðina (var í alvörunni nauðsynlegt að hafa ÖLL þessi sóló-atriði??) en þegar leikarnir leggja svona mikið á sig er maður límdur á sama tíma og manni leiðist pínu.

Hugh Jackman hefur ekki verið svona magnaður lengi, mögulega aldrei. Frammistaða hans sem Jean Valjean er með ólíkindum. Áhorfandinn er fljótur að stökkva á bakið á Valjean og styður hann út allt ævintýrið. Jackman sprengir sig allan út og syngur vel. Crowe, eins og áður var nefnt, gerir það ekki, en hann leikur samt frábærlega og gerir athyglisverðasta karakter myndarinnar prýðileg skil. Það er svosem enginn rangur í sínu hlutverki ef söngurinn er lagður til hliðar. Eddie Redmayne, Samantha Barks og Amanda Seyfried eru mjög fín ásamt rest. Þau Helena Bonham Carter og Sacha Baron Cohen vekja upp nokkrar Sweeney Todd minningar og salta aðeins pakkann með skemmtilegum ruddaskap og húmor. Þetta síðarnefnda er sannarlega eitthvað sem þessi mynd þurfti lífsnauðsynlega á að halda. Sérstaklega frá Cohen.

Anne Hathaway er ein og sér efni í heila umfjöllun. Hún er nefnilega hjarta og sál myndarinnar fyrir mér og bæði einn allra stærsti kosturinn við myndina og galli. Það er eitt að vera framúrskarandi en Hathaway ber höfuð og herðar yfir alla aðra á skjánum. Það mun enginn mótmæla því hversu sympatísk persónan er og öflugustu atriðin koma öll frá leikkonunni, sem aldrei hefur staðið sig betur á glæstum ferli. Gallinn er hins vegar sá að senurnar hennar eru svo kröftugar að myndin nær aldrei aftur að toppa sig í dramanu, sem er pínu vont í ljósi þess að persóna hennar hverfur áður en fyrri helmingurinn er liðinn, og þá er tæplega einn og hálfur tími eftir af lengdinni. Leikstjórinn reynir að toppa þetta með seinni köflunum, en Hathaway er bara alltof, alltof góð. Ég var farinn að sjúga fast upp í nefið eftir I Dreamed a Dream sönginn, þegar kameran dvelur þokkalega lengi á grenjandi andliti hennar, og eftir hann fann ég aldrei fyrir öðrum eins áhrifum. Eins mikið og mig langaði.

lesmis2

Ley Miz söngleikurinn gagnast fullt á því að vera færður á hvíta tjaldið af sviði. Umgjörðin gefur stærðinni á efninu meira svigrúm, augljóslega, til dæmis bara með því að bæta við öllum þessum hestum (því varla eru þeir í sviðssýningunni?), svo e-ð sé nefnt. Þetta er saga sem nýtur sín í bíóformi útlitslega en strúktúrinn á henni býður upp á nokkra erfiðleika. Kannski virkar það betur á sviði að kynna mjög seint til leiks mikilvægar persónur sem ætlast er til er að öllum sé annt um, en í myndinni gengur það ekki eins vel upp. Í fyrri helmingnum tengist maður Jackman og Hathaway sterkum böndum en síðan breikkar sagan í kringum miðjuna og fer að snúast meira um Redmayne, Seyfried og Barks. Öll þrjú eru viðkunnanleg en eiga ekki séns í umhyggju mína gagnvart hinum tveimur. Þegar Hathaway er horfin byrjar sagan að dala örlítið. Jackman heldur henni ágætlega á floti þangað til hann verður smátt og smátt meira fjarverandi þegar byltingin byrjar og karakterum fjölgar um svona 300%.

Upptökustíllinn á myndinni er óvenjulegur en samt mjög sérstakur á góðan hátt. Mér líkaði við steadicam ofnotkunina og fannst stundum en alls ekki alltaf sniðugt að halda leikurum lengi í nærmynd í óslitnum tökum. Ákvörðunin, eða sénsinn öllu heldur, að taka upp lögin á staðnum virðist þó hafa borgað sig. Varla er annað en krefjandi að taka upp söng og þurfa síðan að lip-synca miklu seinna, ásamt því að reyna að leika! Ley Miz notaði þá aðferð að leyfa leikurunum að stýra músíkinni, frekar en að músíkin stýri takti leikaranna eins og hefur verið gert áður. Þetta gefur öllum betri tækifæri til að opna sig alveg á sínum hraða, sem skiptir eiginlega meira máli heldur en búningarnir, settin og brellurnar, eins gallalaust og allt þetta þrennt er.

Tom Hooper er vægast sagt hæfileikaríkur leikstjóri með einstakt blæti fyrir períódubúningum. Ég var t.d. virkilega hrifinn af John Adams-seríunni hans og þykir mér The King’s Speech bara nokkuð dásamleg – og alls ekkert ofmetin, eins og stóru Óskarsmyndirnar eru oft. Hooper má vera ótrúlega stoltur af Ley Miz, þótt hún sé alls ekki meistaraverkið sem hún vill vera – og ætti að vera. Sterkustu punktarnir í henni eru klikkaðslega eftirminnilegir og það er of mikill metnaður í þessu öllu til að draga ekki út meðmælin.

thessi
Besta senan:

Ég dreymdi draum.

PS. Ég mæli eindregið með ’95 útgáfunni frá Claude Lelouch. Hún tekur mjög áhugavert „twist“ á upprunalegu söguna. Aftur á móti skal láta Liam Neeson-myndina frá ’98 í friði.

Categories: drama beint í æð | Leave a comment

Powered by WordPress.com.