Drama

Adrift

Oft veit maður ekki hversu dýrmætt fyrirbæri lífið er fyrr en móðir náttúra ákveður að láta til sín taka í stórri sveiflu. Í hamfarasögunni Adrift er rekin sönn lífsreynslusaga Tami Oldham Ashcraft og unnusta hennar. Árið er 1983 og halda þau saman í skútusiglinu frá Tahíti til San Diego en á miðri leið lenda þau í fjórða stigs fellibyl og fer allt í rúst. Þegar Tami vaknar er báturinn ónýtur, maðurinn horfinn og litlar líkur á björgun. Þá verður Tami að nota eðlishvötina, vonina, mátt minninganna og grjótharðan baráttuvilja til að sigrast á dvínandi lífslíkum á sjó.

Það er aldrei sjálfsagt mál að stórbrotin raunasaga verði áreynslulaust að stórbrotinni kvikmynd og þar siglir Adrift einhvers staðar á milli bitlausrar, rómantískrar vasaklútamyndar og meiriháttar sterkrar ófarasögu. Stundum er jafnvel eins og aðstandendur séu ekki alveg vissir um hvorn fótinn á að stíga í, því myndin gengur ekki upp sem hvort tveggja. Hún er í flesta staði vönduð á yfirborðinu (og sérstakt hrós til förðunardeildar og kvikmyndatökuliðs) þó grunn sé og skilur álíka mikið eftir sig og síðdegissápa á blautum sunnudegi.

Adrift er fyrst og fremst frábært sýnidæmi um leikgetu ungu leikkonunnar Shailene Woodley. Það er nánast ómögulegt fyrir áhorfandann að finnast hana ekki trúverðug í krefjandi aðalhlutverkinu og hennar baráttu. Þau Sam Claflin ná vel saman en verða í sameiningu fyrir bölvun stirðra samtala, yfirleitt í atriðum með kraft að markmiði sem enda í melódramatík. Meira geisp heldur en gasp, því miður. Handritið minnir reglulega á það hvað Woodley og Claflin elska hvort annað og eru ástfangin, en myndin skautar svolítið yfir dýptina í sambandinu þeirra. Oft skrifast þetta á ólínulegan strúktúr myndarinnar.

Myndin fær svo sannarlega prik fyrir að segja stóran hluta sögunnar í tættum endurlitum, en heildin græðir lítið á dýnamískum strúktúr þegar hann hefur áhrif á dramabyggingu og er mestmegnis notaður í þágu stórrar sögufléttu. Stundum eru skiptingar milli sena truflandi og eru kostir og gallar við að nota fellibylinn aftarlega í sögunni. Oft er líka meira sagt upphátt en þörf er á og gengur stóra fléttan ekki alveg upp eða hvernig spilað er með hana.

Adrift er tólfta kvikmynd Baltasars í fullri lengd og fylgir henni ögn meiri áhersla á blíðu og von en hefur yfirleitt örlað fyrir í kvikmyndum Baltasars. Leikstjórinn nær hins vegar að græja eins mikinn náttúrulegan blæ og hann getur. Þegar leikstjórar kippa með sér færasta kvikmyndatökumanni heims (sem sagt Robert Richardson – sem unnið hefur reglulega með Scorsese, Stone og Tarantino) er lítill séns á týpískum Hollywood-glansi yfir áferðinni.

Að mati undirritaðrar hefur Claflin í raun og veru meiri skjátíma en þurfti, enda bestu senurnar oftast þær sem sýna Woodley algjörlega berskjaldaða gegn náttúrunni og þróun hennar, drífanda og áskoranir.

Adrift segir í rauninni og gerir fátt betur en var ekki miklu betur tæklað í til dæmis háskamyndunum All is Lost eða Life of Pi jafnvel á vissan hátt. Annars er alveg skiljanlegt að margir sjái þessa mynd sem „Cast Away fyrir Fault in Our Stars eða Titanic-kynslóðina.“ Þá væri vissulega Sam Claflin blakboltinn í þessu tilfelli, en hann nær ómögulega sama sjarma og Wilson heitinn gerði á sínum tíma.

 


Besta senan:
Raymond skellur á.

Categories: "She went there" mynd, Drama | Leave a comment

Vargur

Íslenski spennutryllirinn er heldur snúinn geiri sem hefur ekki náð hnökralaust að blómstra í okkar kvikmyndasögu. Ef feilnóta er slegin hvað varðar tón og tilþrif leikara er þá glæpsamlega stutt í tilgerð og ávísun á kjánahroll, en þegar allt raðast rétt upp er mikið tilefni til að fagna góðum undantekningum. Vargur er einmitt merki um eitt slíkt dýr sem á erindi í góða hópinn.

Myndin segir einfalda en þráðbeina og bítandi sögu af tveimur bræðrum í bráðum fjárhagsvanda. Atli (leikinn af Baltasari Breka Samper) stendur í fíkniefnaskuld undir taum handrukkara á meðan Erik (Gísli Örn Garðarsson) lifir rándýrum lífsstíl og reynir að koma sér undan heimilismissi. Í neyð ákveða þeir að skipuleggja eiturlyfjasmygl með aðstoð pólskrar stúlku sem hefur öllu að tapa. Áætlunin er mikil áhætta fyrir en verður hvert skref viðkvæmara þegar rannsóknalögreglukona er farin að leggja saman púslin.

Með sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd sýnir Börkur Sigþórsson merki um þekkingu og örugg tök á frásögn og rennsli. Hann sækist hvorki í djúpstæðar pælingar um afleiðingar eða fjölskyldubönd og skoðar undirheimana heldur ekki undir nýju ljósi en veður hér af krafti og sjálfsöryggi í dramatrylli sem líkja má við hægan en lúmskt grípandi bruna.

Vargur er innblásin af sönnum atburðum úr íslenskum undirheimum og fær nokkra plúsa í kladdann fyrir það að sleppa við tilgerð og rembing með útkomunni. Leikstjórinn veit hvað hann syngur með tón og áferð myndarinnar. Það hangir allt á því hversu sterkir leikararnir eru og hvað togstreita persóna er trúverðug, jafnvel hressilega frústrerandi á köflum.

Baltasar Breki á ekki langt að sækja útgeislun sína (og nú er hann næstum því jafngamall föður sínum þegar hann eignaði sér Djöflaeyjuna í denn) og kemur hörkuvel út sem Atli, karakter sem er einkenndur af skelhörðu yfirborði en með bersýnilega sál sem gefur prófíl hans smávegis auka. Á móti honum hefur Gísli Örn sjaldan betur náð að beita þeim kuldalegu töktum sem hann býr yfir og kann orðið lagið á.

Sem persóna ristir pólska burðardýrið Sofia heldur grunnt en Anna Próchniak sinnir engu að síður krefjandi hlutverki og öðlast stuðning áhorfandans með upphafssenunni einni. Danska leikkonan Marijana Jankovic leikur lögreglukonuna Lenu með prýðum og gerist svo reglulega að þjóðþekktir leikarar skjóti upp kollinum til gera gott úr einkennilega þunnum rullum.

Eins og sönnum skandinavískum trylli sæmir eru stórar ákvarðanatökur persóna stundum handan skilnings en skuggalega samvera þessara einstaklinga verður engu að síður spennandi. Kvikmyndataka, hljóðvinnsla, klipping og almennt stílskraut smellir allt saman á minimalískan máta og er förðunin þess virði að rétta upp þumalinn fyrir.

Sem sögumaður er Börkur ekkert að flækja hlutina með óþörfum útskýringum og leikur hann sér ágætlega að flæði upplýsinga með samtölum sem eru oftar en ekki sannfærandi, en á milli leyfir hann sér líka að leyfa augnaráðum og líkamsbeitingu að tala. Þögnin nýtur sín til botns en tónar raftónlistarmannsins Ben Frost ryðjast svo á milli og koma púlsinum í andrúmsloftinu þegar við á.

 

Categories: Drama, Spennuþriller | Leave a comment

Andið eðlilega

Andið eðlilega er fallega sögð saga um fólk sem er á sinn hátt einangrað, með vonina tæpa og þráir betra líf en aðstæður bjóða upp á, þó ekki nema bara skárri morgundag. Myndin varpar ljósi á fáttækt, fíkn, sársauka, málefni flóttamanna, samkynhneigðra og martraðirnar sem fylgja skriffinsku og kerfisreglum, og hvort samkenndina sé að finna á örlagastundu hjá hinni ólíklegustu manneskju.

Við upphaf kynnumst við Láru, einstæðri móður sem er á mörkum þess að geta séð um son sinn eða átt fyrir mat og öðrum nauðsynjavörum. Heppni hefur verið býsna takmörkuð hjá mæðginunum undanfarið en dag einn býðst Láru starf við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Að henni kemur hælisleitandi frá Gíneu-Bissá á leið til Kanada, Adja að nafni, sem Lára sér sig tilneydda til þess að meina aðgang út af gölluðum pappírum. Tilkynningin fer beint eftir starfsreglum en leggur á sama tíma líf ókunnugu konunnar í rúst. En hvorug þeirra sér fyrir því á þessum tímapunkti að leiðir þeirra munu liggja saman aftur. Og kannski aftur eftir það.

Nálgun Ísoldar Uggadóttur á býsna erfiðu umfjöllunarefni er markviss og ljómar af miklu öryggi, og af því að dæma hefði maður seint haldið að þetta væri hennar fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Með bæði leikstjórn og handriti heldur Ísold afbragðsvel utan um taumana og togar áhorfandann í pollrólega en áhrifaríka „óvissuferð” þar sem hann gerist fluga á vegg, eða bílrúðu.

Galdur úrvinnslunnar er að finna í trúverðugum samtölum, náttúrulegu leikarasamspili og Ísold gerir sér alveg grein fyrir því hvenær ákveðnir hlutir í handritinu virka betur og þýðingarmeiri þegar ósagðir eru. Kvikmyndataka Itu Zbroniec-Zajt sér svo um réttan tón og að sama skapi er nýting á umhverfi og sviðsmyndum hreint stórfín, sérstaklega hvernig Keflavík, flugvöllurinn og nágrenni rammar betur einangrun og tómarúm persónanna. Það er sitt og hvað af súrum tilviljunum í handritinu en þeim er sjaldan þrætt inn í handritið með of tilgerðarlegum hætti.

Andið eðlilega er, að vísu, nokkuð einföld mynd, kannski aðeins of einföld og hefði mátt fara dýpra í sum málefnin sem hún tekur fyrir, en aðall sögunnar er fyrst og fremst þessar tvær ólíku konur, sem eiga þó meira sameiginlegt en þær halda.

Kristín Þóra Haraldsdóttir er hreint frábær hér (og miðað við hvað bíður okkar í Lof mér að falla er nokkuð ljóst að þetta ár sé hennar). Hún gæðir þrívíðum persónuleika í hina ófullkomnu en eðlilegu Láru sem reynir að halda höfðinu uppi í sinni eigin baráttu, sem er nógu erfitt þegar hún á varla efni á húsnæði.

Babetida Sadjo er ekkert síður eftirminnileg sem hin fámála en skelharða Adja, sem situr hún föst í limbói kerfisins, óviss hvort hún verði send aftur heim þar sem árásir eru yfirvofandi, eða komist á leiðarenda til sinna nánustu. Samleikur Sadjo við hinn unga Patrik Nökkva Pétursson er sérstaklega huggulegur. Reyndar ber því almennt að fagna að myndin skuli vera laus við bölvun barnleikara, enda smellur Pat­rik nokkuð áreynslulaust í (nokkuð krefjandi) hlutverk Eldars litla, sonar Láru.

Í gegnum strákinn ná konurnar að mynda ákveðin bönd og skilja hvora aðra. Ef segja má að Adja hafi lent á botninum út af starfsskyldum Láru, er sakleysi Eldars þetta lím sem tengir þær saman á ólíklegan máta. Eðlilega kann allt þetta að hljóma sárlega ýkt og væmið, en þessi mynd fellur ekki í þannig gildrur. Hér hangir allt saman á ljúfsárri einlægni og snertir við, því sálina vantar svo sannarlega ekki í verkið.

 

Besta senan:
Allar með Ödju og Eldari.

Categories: Drama | Leave a comment

Powered by WordPress.com.