Drama

A Star is Born (2018)

Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Aftur á móti verður hver og einn að spyrja sig hvort mörkin þar séu loðin þegar um er að ræða endurgerð af endurgerð… af endurgerð.

Continue reading

Categories: Drama, nei takk, Rómantísk | Leave a comment

Hereditary

Hereditary er hrollvekja af gamla skólanum sem auðvelt er að dást að, en erfiðara að elska. Það er mikið gotterí í boði ef viðkomandi kann að meta þrúgandi andrúmsloft, óútreiknanlega framvindu, hægan bruna og hreint rafmagnaðan leik áströlsku leikkonunnar Toni Collette.

Þetta er mynd sem leggur ýmislegt til umræðu um geðklofa, áföll, samskiptaleysi og missi, en með sterku, yfirnáttúrulegu kryddi. Uppsetning sögunnar er meðhöndluð af brakandi ferskleika þótt myndin hitti ekki alltaf í mark í óhugnaðinum. Sá hængur skrifast í rauninni á þvældar „tónasveiflur“ í uppsetningunni.

Leikstjórinn fetar fína línu á milli mátulega truflandi sena og yfirdrifins hamagangs sem vakti upp talsverðan hlátur í sal og þá á röngum stöðum. Endirinn hittir t.a.m. ekki alveg í mark þó pælingarnar séu sterkar. Aftur á móti má gefa myndinni prik fyrir að í henni eru skoðaðar nýjar nálganir á kunnuglegum efnivið og fyrir meistaralega úthugsaðan stíl. Þetta eru þættirnir sem lyfta heildinni upp úr heldur langdregninni (mætti alveg vel skera myndina niður um korter) en forvitnilegri setu í flotta hrollvekju sem vert er að kanna.

En heilög Helga Möller hvað hún Collette er stórkostleg þarna!

 

Besta senan:
Bílferðin heim.

Categories: Drama | Leave a comment

Adrift

Oft veit maður ekki hversu dýrmætt fyrirbæri lífið er fyrr en móðir náttúra ákveður að láta til sín taka í stórri sveiflu. Í hamfarasögunni Adrift er rekin sönn lífsreynslusaga Tami Oldham Ashcraft og unnusta hennar. Árið er 1983 og halda þau saman í skútusiglinu frá Tahíti til San Diego en á miðri leið lenda þau í fjórða stigs fellibyl og fer allt í rúst. Þegar Tami vaknar er báturinn ónýtur, maðurinn horfinn og litlar líkur á björgun. Þá verður Tami að nota eðlishvötina, vonina, mátt minninganna og grjótharðan baráttuvilja til að sigrast á dvínandi lífslíkum á sjó.

Það er aldrei sjálfsagt mál að stórbrotin raunasaga verði áreynslulaust að stórbrotinni kvikmynd og þar siglir Adrift einhvers staðar á milli bitlausrar, rómantískrar vasaklútamyndar og meiriháttar sterkrar ófarasögu. Stundum er jafnvel eins og aðstandendur séu ekki alveg vissir um hvorn fótinn á að stíga í, því myndin gengur ekki upp sem hvort tveggja. Hún er í flesta staði vönduð á yfirborðinu (og sérstakt hrós til förðunardeildar og kvikmyndatökuliðs) þó grunn sé og skilur álíka mikið eftir sig og síðdegissápa á blautum sunnudegi.

Adrift er fyrst og fremst frábært sýnidæmi um leikgetu ungu leikkonunnar Shailene Woodley. Það er nánast ómögulegt fyrir áhorfandann að finnast hana ekki trúverðug í krefjandi aðalhlutverkinu og hennar baráttu. Þau Sam Claflin ná vel saman en verða í sameiningu fyrir bölvun stirðra samtala, yfirleitt í atriðum með kraft að markmiði sem enda í melódramatík. Meira geisp heldur en gasp, því miður. Handritið minnir reglulega á það hvað Woodley og Claflin elska hvort annað og eru ástfangin, en myndin skautar svolítið yfir dýptina í sambandinu þeirra. Oft skrifast þetta á ólínulegan strúktúr myndarinnar.

Myndin fær svo sannarlega prik fyrir að segja stóran hluta sögunnar í tættum endurlitum, en heildin græðir lítið á dýnamískum strúktúr þegar hann hefur áhrif á dramabyggingu og er mestmegnis notaður í þágu stórrar sögufléttu. Stundum eru skiptingar milli sena truflandi og eru kostir og gallar við að nota fellibylinn aftarlega í sögunni. Oft er líka meira sagt upphátt en þörf er á og gengur stóra fléttan ekki alveg upp eða hvernig spilað er með hana.

Adrift er tólfta kvikmynd Baltasars í fullri lengd og fylgir henni ögn meiri áhersla á blíðu og von en hefur yfirleitt örlað fyrir í kvikmyndum Baltasars. Leikstjórinn nær hins vegar að græja eins mikinn náttúrulegan blæ og hann getur. Þegar leikstjórar kippa með sér færasta kvikmyndatökumanni heims (sem sagt Robert Richardson – sem unnið hefur reglulega með Scorsese, Stone og Tarantino) er lítill séns á týpískum Hollywood-glansi yfir áferðinni.

Að mati undirritaðrar hefur Claflin í raun og veru meiri skjátíma en þurfti, enda bestu senurnar oftast þær sem sýna Woodley algjörlega berskjaldaða gegn náttúrunni og þróun hennar, drífanda og áskoranir.

Adrift segir í rauninni og gerir fátt betur en var ekki miklu betur tæklað í til dæmis háskamyndunum All is Lost eða Life of Pi jafnvel á vissan hátt. Annars er alveg skiljanlegt að margir sjái þessa mynd sem „Cast Away fyrir Fault in Our Stars eða Titanic-kynslóðina.“ Þá væri vissulega Sam Claflin blakboltinn í þessu tilfelli, en hann nær ómögulega sama sjarma og Wilson heitinn gerði á sínum tíma.

 


Besta senan:
Raymond skellur á.

Categories: "She went there" mynd, Drama | Leave a comment

Powered by WordPress.com.