Drama

Star Wars: Episode VIII – The Last Jedi

Star Wars vörumerkið hefur svo sannarlega átt sínar gæðasveiflur og er fátt sem reitir hin almenna aðdáanda jafn fljótt til reiðis og útkoma sem brýtur hefðir. En þá kemur upp spurningin hvort að viðkomandi unnandi vilji helst halda hlutunum óbreyttum og endalaust í takt við hið klassíska eða sjá þetta sjá þetta víkkað út á allt annað og e.t.v. nútímalegra level.

Þegar allt kemur til alls er Star Wars á góðum degi eitt mest pjúra dæmi skemmtiform bíósins og möguleika þess; þessi gullna sameining veraldarbyggingar, óperatíska tóna, viðtengjanlegra persóna og klassískra ströggla milli góðs og ills, pakkað inn með jákvæðum gildum. Stundum er farið öruggu leiðina með efnið en stöku sinnum er prófað eitthvað öðruvísi. George Lucas var alltaf með hjartað á réttum stað en masteraði aldrei handritsskrifin nægilega til að úfæra forsöguþríleiknum með stæl, þrátt fyrir haug af nýjungum.

Eftir að Disney lagði undir sig merkið reyndu aðstandendur fullhart með The Force Awakens að endurvinna gamlar formúlur og halda öllu innan þægindarammans, þó ýmislegt hafi virkað. Ekki ósvipað kom fyrir hina sjálfstæðu og hlandvolgu Rogue One, sem var nýjungagjörn í grunninn en hallaði sér fullmikið að hinu kunnuglega. Þá kemur áttundi kaflinn, The Last Jedi, og með honum fylgir meira svigrúm til þess að bjóða upp á fleiri nýjar hugmyndir, plánetur, hannanir og jafnvel taka sénsa með mýþólógíuna og ögra hugmyndafræðinni. Episode VIII brýtur nánast allar reglur Star Wars mynda á marga vegu, býr til sínar eigin, en sýnir heiminum mikla virðingu og umhyggju auk þess að fikta óspart við hann.

Leikstjórinn Rian Johnson tekur hér við keflinu af J.J. Abrams. Báðir tveir eru miklir bíónördar, en gerólíkir. Abrams er meiri skemmtikraftur; flinkur í listinni að fanga stílbrögð annarra, skapa hraða, sameina góða hópa og eltast við grand móment á meðan Johnson (maðurinn á bakvið Brick, The Brothers Bloom og Looper) er óhræddur við smáatriði og mátt þeirra, sömuleiðis það að gera meira við persónurnar – og Star Wars snýst fyrst og fremst um flóru og dýnamík líflegra karaktera, en stærri mómentin auðvitað líka.

Með þessu eintaki hefur persónusköpun hefur allan forgang yfir bratt rennsli, geimhasar eða skylmingar, og mikil áhersla lögð á fortíðaruppgjör, stóra feila, næstu kynslóðina og gráu svæði manneðlis. Það er hressandi tilbreyting hvernig handritið nær að snúa út úr erkitýpum, klisjum og sýnir flóknari tilfinningum áhuga en lengi hefur tíðkast í seríu þar sem hugmyndafræðin er yfirleitt frekar svarthvít. Alltof lengi.

The Last Jedi er alls ekki fullkomin, en bestu SW myndirnar eru það heldur ekki. En… sökum þess að myndin neitar að vera jafn uppskriftarbundin og forveri sinn er annað ómögulegt en að hún geri marga aðdáendur brjálaða. Sem er gott! Persónulega kann ég mikið að meta hvað hún leyfir sér að vera löng, prakkaraleg, fyndin, fullorðinsleg og… öðruvísi. Og öðruvísi er ekki alltaf allra.

Sagan eyðir hæfilega miklum tíma í að gera upp lausa þræði úr síðustu mynd en að sama skapi er heildin rammpökkuð og hvergi er óþörfu púðri eytt í uppstillingum fyrir næsta kafla – hvernig sem hann nú verður. Þetta heildarskipulag á þríleiknum virðist vera í hálfgerðu tjóni, en það dregur ekkert frá því að þessi kafli, á eigin spýtum, býður upp á allt sem mögulega má biðja um af framúrskarandi Star Wars mynd; gott karakterdrama, skemmtilegan hasar og virkt ímyndunarafl.

Nýi þríleikurinn hefur verið óeðlilega heppinn með leikaranna sem hann situr fastur með, og ef það er eitthvað sem Abrams á alltaf skilið props fyrir, þá er það leikaraval. Daisy Ridley gæðir meiri persónuleika í Rey, sem er ekki jafn einföld og ósigrandi fígúra líkt og síðast, heldur nú í glímu við bæði sinn stað í lífinu, stríðinu í kringum hana og eigin getu. Oscar Isaac og John Boyega eru enn hörkugóðir sem Poe Dameron og Finn, og mér finnst varla hægt að undirstrika nóg hvað Adam Driver er æðislegur sem Ren; marglaga, reiði „strákurinn“ sem þráir að vera vondi kallinn en getur ekki hamið sig frá ljósinu í sér. Hann finnur fyrir því að kominn sé tími á það að slútta eftirhermunni á afa sínum og taka sínar eigin ákvarðanir, hvert sem það leiðir hann. Á móti honum er Domhnail Gleeson meiriháttar skondinn í því hvernig hann lifir sig inn í lúða-týrantinn Hux, og gaman að sjá hann fá meira til að bíta á en síðast.

Þær Laura Dern og Kelly Marie Tran eru líka velkomnar í hópinn, þó sú síðarnefnda geri miður lítið í sögunni. Benicio Del Toro er hvorki góður né slæmur og Carrie Fisher prýðir sínar senur með einbeittri og ljúfri nærveru en er hins vegar oft frekar stíf í línuflutningum, og því miður fær hún að tileinka sér eitt allra umdeildasta múv sem þessi mynd púllar með hennar persónu, eða réttar sagt með úrvinnslunni á því.

Enginn skarar að vísu meira fram úr en Mark Hamill og er ánægjulegt að sjá hann rúlla upp lúnum og brotnum Luke Skywalker, eitursvölum líka og óútreiknanlegum. Hamill hefur opinberlega sagt að hann var ekki sammála Johnson með þessa þróun sem Luke gengur gegnum, og margir aðdáendur eiga eftir að kippa í sama streng um ókominn tíma, en leikarinn er sjálfsagt tilþrifaríkari og meira sannfærandi í þessari einu mynd heldur en gamla þríleiknum í heild sinni. Örkin hans er, frá mínu hjarta, fullnægjandi, komplex og samkvæm persónunni. Gleyma má því ekki að Luke var alltaf soddann vælinn og hvatvís sveitadrengur áður en hann lærði af sínum feilsporum og varð að hetju. Ég fílaði líka áttirnar sem sagan fór í varðandi Snoke, sem er reyndar ekkert nema hundflatur diet-Palpatine.

Atburðarásin er brotin upp í þrjá þræði. A-sagan snýst öll um Rey, Luke og Kylo, B-plottið leikur nokkrum sinnum á væntingar áhorfenda með Leiu, Poe og fáeinum öðrum. Svo höfum við Finn og Rose (Tran), sem eru pínu týnd hálfa myndina og lenda í teygðum og áhrifalausum kafla sem tengist hliðarverkefni þeirra og píndum skilaboðum um misnotkun dýra. Þræðirnir hnýtast saman þokkalega eftir því sem á líður, og það er sérstaklega í seinni helmingnum þar sem hlutirnir rjúka í gang og valta yfir okkur með klikkuðum orrustum og spennandi ágreiningum, sem í sameiningu sigla klímaxinn beint í höfn.

Finna má fyrir því að þetta sé lengsta eintakið í röðinni. Flæðið heldur sér prýðilega þó þrátt fyrir uppfyllingarnar, og færa mætti jafnvel rök fyrir því að hún mætti (eða ætti!) að vera lengri miðað við alla boltana sem eru á lofti. Það hefði mátt betur laga lokasenurnar tvær. Dregur líka aðeins úr kraftinum þegar sama stefið er spilað tvisvar sinnum með stuttu millibili.

Sjónrænt séð er engin mynd í seríunni sem toppar þessa, frá kvikmyndatöku og tilheyrandi litabeitingu (þar sem hvítt, svart og rautt fær að garga með gordjöss hætti) til þessara Kurosawa-áhrifa sem Lucas sóttist upphaflega í að hluta til. Brellurnar virðast í örfáum tilfellum vera pínu órenderaðar, en heildartónninn smellur og skarar fram úr. Tónlistin frá Williams skilar vissulega sínu með látum, þræðandi dásamlega saman hið gamla í bland við nýtt. Reyndar eru nýju stefin hans ekkert geysilega eftirminnileg á eigin spýtum, en tónar þessa snillings eiga stóran þátt í því hvernig ræman spilar á tilfinningar manns. Ég hef heldur ekkert út á þessa krúttlegu, kjúllalegu Porga að setja. Það fer of lítið fyrir þeim til þess að megi kalla þetta yfirdrifið leikfangaplögg. Flott líka að sjá Chewbacca finna sér eitthvað til að fylla upp í Han-lausu holuna í hjartanu.

Johnson virðist skilja 100% hvað gerir góða Star Wars mynd en á sama tíma gæti honum ekki verið meira skítsama um aðdáendakenningar eða spurningarnar sem Abrams stillti upp (sem ég tek fagnandi, þetta mystery box dæmi var meira hans mynd að falli en þessari). Ekki bara er þetta helskemmtileg bíóveisla, heldur traust kvikmynd fyrst og fremst, falleg og töff ofan á það.

Ef The Force Awakens gekk út á það að fagna nostalgíunni og tilbiðja hana þá snýst The Last Jedi um að læra af mistökum og segja skilið við fortíðina. Þessi kafli markar nýtt upphaf og býður upp á alls konar möguleika, en að því sögðu, þá mun eitthvað eitthvað mikið þurfa til þess að Abrams hysji sig upp og lendi þessu sjálfur með næsta kafla.

 

sterk átta

Besta senan:
Laura Dern á þann heiður.

Categories: Ævintýramynd, Drama | Leave a comment

The Killing of a Sacred Deer

Í upphafsskoti myndarinnar The Killing of a Sacred Deer sjáum við opinn skrokk í miðri skurðaðgerð. Hjarta sem slær fyllir út í rammann og með þessu skoti er ekkert verið að spara sekúndurnar. Segja má að þetta marki viðeigandi upphaf og gefi réttan tón; sýnin er undarlega dáleiðandi en í senn óþægileg til lengdar, á sinn hátt kemur þetta miklu til skila varðandi stefnu og þemu sögunnar og sýnir valdið sem skurðlæknirinn hefur yfir því lífi sem hann er bókstaflega með í höndunum.

Colin Farrell leikur Steven, fjölskylduföður og skurðlækni sem í upphafi sögunnar virðist vera sáttur við lífið og með hlutina á hreinu.
Smám saman kemst til skila að eitthvað er ekki alveg með felldu og spretta upp spurningar um forvitnileg tengsl sem Steven hefur myndað við sextán ára pilt, hinn lokaða og uppáþrengjandi Martin (leikinn af Barry Keoghan). Eftir því sem áhorfandinn fær meira að vita um ásetning og vonir þessa drengs, fer persóna Stevens að skýrast ásamt því sem hann þarf að gera upp við sig, hvað sem það mun kosta hann eða aðra sem standa honum nærri.

Gríski leikstjórinn og handritshöfundurinn Yorgos Lanthimos (Dogtooth, The Lobster) fer ekki í felur með sérvisku sína frekar en fyrri daginn. Lanthimos er einkennilegur en mikill fagmaður; ögrandi, súr en frumlegur, eins og fyrri myndir hans hafa sýnt. The Killing of a Sacred Deer er ýkt saga þar sem glímt er við truflandi og manneskjuleg málefni, en á bak við þetta allt saman liggur sótsvört kómík, sem gerir heildina í rauninni ruglaðri og fyrir vikið bitastæðari. Rétt eins og í öðrum myndum leikstjórans er tilfinningalaus stemning allsráðandi. Andrúmsloftið er lágstemmt, á mörkum þess að vera svellkalt, og viðbrögð persóna eru merkilega dauf, en þetta mótar oft skemmtilega hliðstæðu við yfirdrifnari þætti sögunnar og styrkir þá.

Það tekur framvinduna sinn tíma að fletta af lögunum og kannski fulllangan tíma að koma sér að efninu, en á heildina litið er handritið vel skrifað og veit Lanthimos oftar en ekki hvenær best er að veita réttu svörin. Notkunin á útvöldum klassískum stefjum gefur líka tóninn fyrir rísandi óþægindin og að sama skapi er kvikmyndatakan sérlega eftirtektarverð að því leyti hvernig áhorfandinn lokast inni í veröld Stevens sem smátt og smátt skreppur saman. Myndavélin svífur í kringum hann eins og guðleg vera á stundum, sem er bara viðeigandi í samhengi sögunnar.

Myndin skartar meistaralegum leik frá öllum hliðum. Oft er sagt að því ódýrari sem bíómyndin er, því áreiðanlegri verði Colin Farrell. Í Hollywood-myndum tekst honum örsjaldan að skilja eitthvað eftir sig en í myndum eins og The Lobster og In Bruges er hann aftur á móti framúrskarandi. Í þessari er hann frábær sem hinn ræfilslegi en kyrrláti Steven og fetar glæsilega einstigið á milli þess að vera annars vegar viðkunnanlegur og týpískur en hins vegar ávallt með einhverja dekkri skugga sýnilega. Nicole Kidman vinnur einnig kyrrlátan leiksigur og Barry Keoghan er ógleymanlegur sem hinn ungi Martin.

Lanthimos leikur sér taumlaust að myndlíkingum og þemum, og fjallar myndin um eftirsjá, flótta undan ábyrgð og gjörðum og ekki síður hvað það er sem skapar fullkomið fjölskyldumynstur. Til gamans má geta þess að nóg er af tilvísunum í harmsögur Biblíunnar og grískrar goðafræði til að vekja umræður. Titillinn vísar einmitt í söguna af Agamemnon konungi, þegar hann drap fyrir slysni hjartar­dýr á heilögum velli og þurfti að gjalda fyrir það með blóðtolli. Satt að segja er ýmislegt sem þessi kvikmynd á sameiginlegt með nýjustu mynd Darrens Aron­ofsky, Mother! Lathimos fer aftur á móti aðeins fínlegar í hlutina heldur en Aronofsky gerði. Sérviska leikstjórans og þessi „tónabræðingur“ hans getur stundum leitt til hallærislegra kafla, en myndin gengur bæði upp í flestu sem hún sýnir og segir frá en sömuleiðis með því sem haldið er óljósu og óræðu.

Það finnst sjálfsagt ekki öllum skemmtilegt að horfa á myndir sem eru gerðar til þess að skapa ákveðin óþægindi, en The Killing of a Sacred Deer er markviss, beitt, úthugsuð saga sem kemur sífellt á óvart. Þetta er mynd sem mun fara öfugt í suma á meðan aðrir munu dást að lágstemmdri geðveiki hennar og mögulega glotta yfir henni í fáein skipti.

 

 

Besta senan:
„Hringekjan.“

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, aww..., Drama, Svört gamanmynd | Leave a comment

Murder on the Orient Express (2017)

Enn er nostalgían allsráðandi og sömuleiðis eftirspurnin eftir endurgerðum. Hins vegar, á tímum þar sem sjálfsagt þykir að leita til níunda áratugarins að innblæstri við gerð bíómynda og sjónvarpsþátta, kemur leikstjórinn og leikarinn Kenneth Branagh með sitt framlag með virðulegri túlkun á tímalausri sakamálasögu þar sem sótt er í töluvert eldri tíðaranda en sést orðið í Hollywood.

Nú er þetta í fjórða skiptið sem kvikmynd er gerð eftir bókinni Morðið í Austurlandahraðlestinni eftir Agöthu Christie. Í sögunni reynir á gáfur og færni frægustu persónu hennar, belgíska morðgátusénísins Hercule Poirot. Hingað til hefur þekktasta aðlögunin verið sú upprunalega sem Sidney Lumet leikstýrði (hreint prýðilega) frá árinu 1974. Líkt og þá fer einvalalið leikara með helstu hlutverk farþeganna, sem allir liggja undir grun og hver hefur sína sögu að segja, eða leyna.

Upprunaleg saga Christie er ágætlega fléttuð og henni fylgja áhugaverðir útúrsnúningar á formúlum sakamálasagna. En þegar margbúið er að afgreiða þessa aðlögun er erfitt að bæta einhverjum frumleika við. Annars sést það strax að þessi útgáfa Branaghs er unnin af miklu öryggi og hann sýnir enn og aftur hvað hann getur verið flinkur og heillandi kvikmyndagerðarmaður, þrælvanur sjónarspili, tímabilsmyndum, sígildum sögum (þar á meðal Shakespeare-verkum og Öskubusku) og góður í að leyfa leikurum sínum að skína.

Hjá mörgum er það David Suchet sem kemur fyrstur upp í hugann þegar andlit er tengt við Poirot, þessi úr gömlu sjónvarpsþáttaröðinni frá níunda áratugnum, hjá öðrum er það Peter Ustinov eða Albert Finney sem vakti mikla lukku í Lumet-myndinni. En ef einungis stærstu útgáfurnar eru bornar saman má segja að Bran­agh skáki Finney í burðarhlutverkinu án erfiðis.

Þegar kemur að svona þekktum hlutverkum er alltaf hætta á að leikarar hverfi í eftirhermu á forvera, en Branagh gengur ekki í þá gildru enda meiriháttar góður og sömuleiðis hressilega margbrotinn sem Poirot.

Karakterinn er kómískur að eðlisfari, með eindæmum sérvitur og óstöðvandi þegar púsl ráðgátunnar raðast ekki saman. Það er sönnun á því hversu frábær Branagh er í hlutverkinu þegar honum tekst að selja dramatísku hliðarnar svona vel þegar ómetanlega mottan hans hangir þarna eins og heil aukapersóna.

Afgangur leikarahópsins fær vissulega mismikinn skjátíma en enginn skortur er á útgeislun í þeim hópi. Flestir karakterar eru teiknaðir sterkt upp og lífgaðir við í túlkun fagfólks, svo sem Michelle Pfeiffer, Judi Dench, Willems Dafoe, Dereks Jacobi, Daisy Ridley, Josh Gad og fleiri. Reyndar hefur þol almennings á Johnny Depp rýrnað töluvert á síðustu árum en það er leikaranum í hag hérna hvað persóna hans er rotin og fráhrindandi.

Branagh gætir þess bæði fyrir framan og aftan tökuvélina að taka efniviðinn alvarlega þegar þörf er á, en að leika sér að honum líka, enda annað ómögulegt þegar eins léttgeggjuð fígúra og Poirot er í forgrunni. Branagh finnur samt passlegan milliveg og heldur myndinni hæfilega ýktri án þess að fara yfir strikið. Rennsli framvindunnar er einnig passlega þétt, þó rétt mætti skafa nokkrar mínútur af eftirmálanum.

Úrvinnslan ber öll merki um að gríðarleg virðing ríki fyrir upprunalegri sögu Christie. Bran­agh hefur ekki nútímavætt hana of mikið, sem betur fer, þótt heildarsvipurinn missi nokkra punkta fyrir ósannfærandi tölvubrellur annað slagið. Þetta er eina feilnótan sem slegin er hvað poppandi umgjörðina varðar. Búningar, sviðshönnun og ekki síður kvikmyndatakan gefur andrúmsloftinu aukna dýnamík og myndar á tíðum lestina eins og stórt borðspil.

Litlu máli skiptir hvort áhorfandinn þekkir söguna fyrir eða ekki því hér er ýmislegt til að dást að og hafa gaman af, bæði hvað varðar smáatriði jafnt sem heildarmynd. Það sem myndina skortir í frumleika er bætt upp með dönnuðum sjarma. Og fyrst pláss finnst í afþreyingarheiminum fyrir til dæmis sex Spider-Man myndir á tíu árum má alveg koma fyrir einum nýjum Poirot til viðbótar og gefa honum sinn eigin myndabálk. Mottan á það alveg skilið.

Besta senan:
Ráðgátan leyst.

Categories: Drama, Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.