Drama(tripp)

IT: Chapter Two

Þá er komið að seinni hluta trúða- og óttaepík Stephens King, þar sem síendurtekin óttamótíf, uppgjör, minningar og fortíðardraugar eða andsettir skrípalingar ráða ríkjum. Því er ekki hæpið að segja að þessi skítþykka bók sé samansafn af öllum helstu King-formúlunum (Maine, útskúfun, vinátta, óþekkt illskuöfl, sálarhreinsun í gegnum fortíðaruppgjör, hinir hrottalegustu hrottar, rithöfundur í krísu o.fl.). Persónurnar hafa allar sinn djöful að mæta, sem tengist yfirleitt einhverju fráskildu skepnunni – t.d. samviskubit yfir fráfall persónu, martraðir úr æsku, andlegt ofbeldi o.fl.

Síðast fylgdumst við með krökkunum, nú er komið að fullorðna hópnum (þó búið sé að strá allnokkrar senur með krökkunum þar sem búið er að yngja þá aðeins með truflandi effektum). Sagan í grunninn pikkar ekki bara upp þráðinn 27 árum seinna, heldur hafa flestar persónur gleymt því sem gerðist – sem er í rauninni hin fullkomna afsökun til að gera nákvæmlega sömu mynd aftur.

Þessi sena er hilaríus! – var það… ætlunin?

Tæknilega og táknrænt séð setur Chapter risastórt stækkunargler á helstu vankanta fyrri kaflans – nánast eins og hún hafi verið stundum unnin af allt öðru aðstandendateymi. Hún er stærri, dýrari, ruglaðri, lengri, langdregnari, kjánalegri, meira þreytandi og ó-drungalegri á allan veg. Það er ágætis karaktervinna hér og þar en að sama skapi nær þessi samanlagða 5+ tíma heild ekki að gera öllum hópnum góð skil. Hún nær aðeins fínni lendingu á síðustu 40 mínútunum (sem er skondið í ljósi þess hversu oft King skýtur á það í þessum hluta hvað “rithöfundurinn” í sögunni er ömurlegur í því að skrifa enda), en tveggja tíma biðin fram að því er voðalega rykkjótt og óspennandi.

Fyrri myndin hafði sína spretti í hryllingi og múdi, á meðan þessi kemur oftar en ekki út eins og hálfbökuð Sam Raimi eftirherma í subbulega óhugnaði sínum, með slöppum brellum, klúðurslegum senubyggingum sem eru allan daginn hallærislegri frekar en skerí, illa tímasettum bröndurum og haug af litlum uppfyllingum og karakter-mómentum sem fyrri kaflinn var löngu búinn að dekka.

Bill Skarsgård er enn þrumugóður og hressandi sem Pennywise, þó gjarnan hefði mátt vera meira af honum í stað… allra þeirra skepna sem poppa upp í hans stað. Almennt er einhvern sjarma að finna í fullorðinshópnum, enda annað erfitt með svona fínt sett. Jessica Chastain og James McAvoy eru frábær þó þau séu á sjálfstýringu, talent sem fylgir víst leikurum sem eru *með’edda*. Bestur er sjálfsagt hinn ávallt hressandi Bill Hader, að gera það sem hann gerir best – að djóka yfir sig í aðstæðum og koma með sannfærandi taugaveiklun. Isaiah Mustafa (úr eldri Old Spice-auglýsingunum) er líka með góða nærveru en alveg eins og gerðist með fyrri hlutann fær persóna hans minni athygli heldur en ætti að vera sjálfsögð. Aukaplottið með svívirðilega hrottann kemur á annan veg út eins og pirrandi uppfylling, ef út í heildarhópinn er farið. Það liggur allavega strax fyrir að eldri hópurinn hefur ekki alveg tilgerðarlausu kemistríuna sem þessi yngri hafði.

Á stílísku leveli gerir Andy Muschietti ýmislegt fínt úr atmói sem minnir á hreint martaðar-karnival – í bland við grafalvarlega Beetlejuice á milli. Litapallettur- og lýsingarföndur nýtur sín á öllum þeim sviðum sem klipping, brellur eða hljóðvinnsla klikkar á. En IT: Chapter Two er góðum hálftíma allt of löng og hefði trúlega betur mátt nýta tímann sem hér er í boði. Af klippingunni að dæma er oft eins og hlunka vanti úr klippi sem hefði greinilega átt að vera lengra. Með því að brjóta upp bókastrúktúr Kings eins og þessar bíóaðlaganir (sjónvarpsmyndin þar meðtalin) hafa gert er úrvinnslan alltof mikið í endurtekningum og táknmyndum sem margbúið er að tyggja.

Að erfa galla bókarinnar er eitt, en fyrir aðstandendur að takast því furðulega verki að gera býsna leiðinlega og áhrifalausa hryllingsmynd um SNARKLIKKAÐAN TRÚÐADJÖFUL er eitthvað allt, allt annað skammarstig.Besta senan:

McAvoy í karnivali.

Categories: Drama(tripp), Hryllingsmynd | Leave a comment

The Florida Project

Oft koma sterkir pakkar í ódýrum umbúðum. Frá leikstjóranum sem tók upp hina frábæru Tangerine á iPhone-símann sinn kemur vönduð og hreinskilin túlkun á fátækt í Bandaríkjunum. The Florida Project segir frá mæðgum í erfiðum aðstæðum og er sagan sögð frá sjónarhorni sex ára stelpu að nafni Moonee.

Áhorfandinn er gerður að flugu á vegg á meðan trúverðugleikinn og tilgerðarleysið tröllríður öllu. Enginn fiðluleikur er til staðar og hvergi melódrama í augsýn. Þvert á móti kemur á óvart hversu hress og fyndin útkoman er, að vísu þangað til blákaldur veruleiki aðstæðna ýtir sögunni í myrkari og átakanlegri áttir.

Úrvinnslan er hins vegar fagleg út í gegn og leikur krakkanna í myndinni er til hreinnar fyrirmyndar. Moonee er æðisleg persóna og einnig vinnur Willem Dafoe virkilega vel úr aukahlutverkinu sem tryggði honum Óskarstilnefningu fyrr á þessu ári. Þegar á botninn er hvolft er hér á ferð frábær mynd sem sýnir að sumir foreldrar læra seint af fyrri aðstæðum og á stórfínan máta er varpað upp spurningum úr hinu daglega lífi: Hvers eiga til dæmis börnin að að gjalda fyrir akvarðanir foreldranna og hvar er línan dregin?

 

Besta senan:
Vingjarnlegur Willem rekur burt fugl… með orðagríni.

Categories: Drama(tripp) | Leave a comment

You Were Never Really Here

You Were Never Here tekur öðruvísi vinkil á tvo kunnuglega geira, fyrst og fremst hefndartryllinn og harðsoðnu rökkurmyndina („film noir“). Í slíkum myndum er yfirleitt hart ofbeldi fléttað við eins konar spæjarasögu, nema hér er komin mynd sem nálgast hið hrottalega með bítandi og óvenjulegum hætti – og að sama skapi skiptir söguþráðurinn óskaplega litlu máli.

Myndin snýst um andrúmsloft, geðshræringu og ekki síst andlegt ástand burðarpersónunnar sem túlkuð er með eldfimum hætti af Joaquin Phoenix. Mætti jafnvel segja að hann hafi sjaldan eignað sér eina kvikmynd svona áreynslulaust og án aðstoðar. Sagan hvílir öll á herðum hans.

Best skal lýsa You Were Never Really Here sem sturlaðri karakterstúdíu, sem skoðar sektarkennd, einangrun og innlausn í sögusviði sem hentar klassískum reifara en snýr væntingum á hvolf. Myndin er lauslega byggð á samnefndri bók eftir Jonathan Armes og fjallar um uppgjafarhermanninn og leigumorðingjann Joe (Phoenix) sem fær það verkefni að elta uppi unga þrettán ára stúlku og bjarga henni frá kynlífsþrælkun, sama hvaða brögðum þarf að beita.

Allt við uppsetningu myndarinnar gefur upp kunnuglegan keim, en leikstýran Lynne Ramsay nýtir hvert tækifæri til þess að flytja söguna í aðrar áttir en uppskriftin kallar eftir – bæði djarfar og á tíðum meinfyndnar. Þegar við kynnumst Joe er áfallastreituröskun hans komin á fullt vald. Hann situr með plastpoka yfir hausnum og er haldinn sjálfsmorðshugleiðingum, en fljótlega komumst við að því hversu stór hluti það er af daglegu ferli mannsins sem á ýmislegt óuppgert við fortíð sína og núverandi atvinnu.

Með prófíl aðalpersónunnar sækir Ramsay í takta sem á tíðum minna á nýstárlegri útgáfu af Taxi Driver en eyðir engu púðri í eftirhermur frekar en óþarfar eyðufyllingar. Hún beitir myndmáli frásagnarinnar eins og fagmaður og útbýr hálfdraumkennda en óhuggulega stemningu, en þar er úthugsuð kvikmyndataka frá Tom Townend og þrælgóð tónlist Jonny Greenwood mikilvægt hráefni samanlagt.

Verður að segjast að Ramsay hefur sterka, flotta rödd sem gerir hana að einni þeirra athyglisverðustu í faginu í dag, með aðeins fjórar kvikmyndir að baki en allar vandaðar (þá sérstaklega Ratcatcher og We Need to Talk About Kevin) og hver á sinn hátt bitastæð. Samvinna Ramsay með leikurum sínum ber merki um óheflað traust og berskjaldaða einlægni, sem skín einmitt frá fámálum en öflugum leik Phoenix. Óróleiki hans smitast yfir á áhorfandann.

Óróleiki þessi er ef til vill betur sniðinn fyrir áhorfendur sem horfa ekki bara á kvikmyndir sér til afþreyingar en ringulreið aðalmannsins flýgur í hverri senu, dáleiðir og grípur ef viðkomandi er klár í svona abstrakt ferðalag. Það er vel þess virði.

Categories: Drama(tripp) | Leave a comment

Powered by WordPress.com.